23.02.1981
Efri deild: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2468 í B-deild Alþingistíðinda. (2628)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Eins og kunnugt er eru framlög til allmargra fjárfestingarsjóða skorin nokkuð niður í fjárlögum ársins 1981, miðað við það sem vera ætti samkv. lögum um viðkomandi sjóði. Ákvæði 13.–24. gr. þessa frv. fjalla öll um lagalega staðfestingu á þeim niðurskurði á framlögum til stofnlánasjóða sem fólgin er í fjárlögum fyrir árið 1981. Einhver benti á það við umr. nú fyrir helgina, að eðlilegast væri að breyta sjálfum lögunum í hverju tilviki fyrir sig, en vera ekki ár eftir ár með þennan bandorm þar sem í 13 lagagreinum er verið að breyta ákvæðum 13 mismunandi laga, það væri hreinlegra að lækka tekjustofna þessara sjóða með breytingum á lögunum sjálfum, en ekki með bandormum af því tagi sem hér er til umr. Ég tek undir það með þeim, sem þetta sagði hér við umr. fyrir helgi að auðvitað væri þetta eðlilegast. Hins vegar hefur það enn ekki verið gert og þess vegna er óhjákvæmilegt að fara að með þessum hætti.

Á s.l. ári var starfandi nefnd sem skipuð var fulltrúum allra þingflokka. Þessi nefnd gerði till. um lækkun á framlögum til stofnlánasjóða almennt, þ. á m. lækkun á framlögum til Byggingarsjóðs ríkisins. Það má segja að tillögurnar, sem byggt er á í fjárlögunum, séu í grófum dráttum miðaðar við samhljóða álit þessarar nefndar, þótt vissulega verði alltaf að minna á að einstakir nm. höfðu fyrirvara um einstök atriði till. og voru ekki að öllu leyti sammála um framlög til einstakra stofnlánasjóða. En heildarupphæðin, sem fólst í till. þeirra um niðurskurð, er sama niðurskurðarupphæðin og síðan var sett inn í fjárlögin, en skipt kannske með örlítið öðruvísi hætti á einstaka stofnlánasjóði. Það munaði þó ekki miklu.

Ég vil láta það koma hér fram vegna fsp. hv. þm., að þó að við framkvæmum þennan niðurskurð nú með gamla laginu, að nefna í bandormi af þessu tagi 13 breytingar á 13 lagabálkum, þá felur það ekki í sér nein áform ríkisstj. um að hætta við þann niðurskurð sem í þessu felst. Það verður auðvitað að koma í ljós síðar, hvað gert verður í þeim efnum. En mér þykir líklegt að sá niðurskurður, sem framkvæmdur hefur verið á framlögum til stofnlánasjóða, verði varanlegur. Hann er fullkomlega eðlilegur miðað við það, að þessir sjóðir eru nú verðtryggðir miklu betur en áður var. Þeir voru raunar alls ekki verðtryggðir áður og stofnfé þeirra rýrnaði verulega í verðbólgunni frá ári til árs. Eftir að útlán öll hafa verið verðtryggð þarf auðvitað minna framlag úr ríkissjóði til þeirra af skattpeningum og þess vegna hefur þessi breyting verið gerð. Og ég held satt að segja að býsna mikil samstaða sé um það hér í þinginu meðal þm. úr öllum flokkum, að það sé eðlilegt og sjálfsagt að skerða framlögin til stofnlánasjóðanna, miðað við þá breytingu, sem orðið hefur á lánamarkaðinum, og miðað við þá breytingu, sem orðið hefur á verðtryggingu útlána þessara stofnlánasjóða.

Í 16. gr. frv. er svo kveðið á, að framlög af launaskatti skuli ekki nema hærri upphæð en 27 millj. 887 þús. nýrra kr., og það er einfaldlega í samræmi við fjárlagatöluna, sem þýðir það, að heildarframlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins skal eigi fara fram úr 43 millj. nýkr. eða 4.3 milljörðum kr., sem er líka í samræmi við fjárlagatöluna. í þessu sambandi er auðvitað rétt að minna á það, að síðan 2% launaskatts runnu til opinberu byggingarsjóðanna eru nokkur ár. Framlögin hafa verið skert á undanförnum árum. En nú verður sú breyting á, að Byggingarsjóður verkamanna fær heilt prósent samkv. þeim lögum, hann fær 7.5 milljarða gkr. og þá fær Byggingarsjóður ríkisins að sama skapi lægri upphæð. Samtals er framlagið til þeirra líklega einhvers staðar nálægt 1.6 – 1.7% af launaskatti.