24.02.1981
Efri deild: 56. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2537 í B-deild Alþingistíðinda. (2703)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Mér finnst við hæfi að skýra frá því við þær umr., sem hér fara fram um efnahagsráðstafanir ríkisstj. sem kynntar voru á gamlárskvöld, að að sjálfsögðu var það alltaf ætlun ríkisstj., að í tengslum við þessar ráðstafanir mundu bætur atmannatrygginga, þ.e. lífeyrisdeildar almannatrygginga, sæta sérstakri meðferð. Þeir, sem til þekkja, vita að lífeyrisbætur almannatrygginga eru ævinlega ákveðnar eða þeim er breytt miðað við verðlagstilfærslur með reglugerðarsetningu hverju sinni. Það hefur því ekki verið talið og ekki þannig að hlutunum staðið að til þess þyrfti sérstaka löggjöf þegar um væri að ræða hækkun á einstökum flokkum lífeyrisdeildar almannatrygginga. Þennan skilning hafa trmrh. haft hér svo lengi sem heilbr.- og trmrn. hefur starfað a.m.k. Í samræmi við þetta álit og vegna þeirra efnahagsaðgerða, sem ríkisstj. hefur nú til meðferðar og hér eru á dagskrá, fjallaði ríkisstj. um þessi mál í morgun og sérstaklega um tekjumál og skattamál þeirra sem eru með lægstu tekjurnar hér í landinu. Hæstv. fjmrh. mun væntanlega hér á eftir gera grein fyrir ramma þeirra ákvarðana sem á döfinni eru af hálfu ríkisstj. vegna skattamálanna, en ég kem hér aðeins upp til að skýra frá meðferð tryggingamálanna í ríkisstj. í morgun.

Á fundi ríkisstj. í morgun var samþykkt tillaga um sérstaka 8% hækkun tekjutryggingar elli- og örorkulífeyrisþega. Jafnframt var samþykkt sérstök hækkun heimilisuppbótar, einnig um 8%. Hér er um að ræða sérstaka hækkun á tekjutryggingu og heimilisuppbót um 8%. Ofan á þessa hækkun kemur síðan sú 6% hækkun sem kemur sem verðbætur í landinu núna um mánaðamótin. Hér er því um að ræða liðlega 14% hækkun tekjutryggingar aldraðra og öryrkja og heimilisuppbótar. Eftir þessa ákvörðun liggur fyrir að aldraðir og öryrkjar, sem njóta tekjutryggingar, munu frá næstu mánaðamótum búa við hærra hlutfall í samanburði við umsamin laun í landinu en verið hefur.

Auk þeirrar sérstöku 8% hækkunar, sem ríkisstj. samþykkti á fundi sinum í morgun, hefur ríkisstj. áður samþykkt sérstaka 5% hækkun tekjutryggingar, þannig að frá því að núv. ríkisstj. tók við hefur tekjutrygging aldraðra og öryrkja hækkað um 13% umfram verðbætur á laun.

Þeir einstaklingar, sem búa við elli- og örorkulífeyri með fullri tekjutryggingu og heimilisuppbót, hafa frá og með 1. mars 305 200 gkr. á mánuði eða 3052 nýkr. á mánuði. Hjón með fulla tekjutryggingu hafa á mánuði 4509 nýkr. Til samanburðar skal þess getið, að dagvinnulaun samkv. 7. taxta Verkamannasambands Íslands eftir eitt ár verða frá 1. mars 3906 kr. á mánuði. Tekjutrygging hjóna, sem bæði njóta fullrar tekjutryggingar, verður því um það bil 15–16% hærri en umsamin laun samkv. þessum taxta Verkamannasambands Íslands, en einstaklingur, sem hefur fulla tekjutryggingu og heimilisuppbót, hefur milli 78 og 79% af umsömdum taxta Verkamannasambands Íslands.

Ég taldi nauðsynlegt vegna þeirra brtt., sem hér hafa komið fram, herra forseti, að gera grein fyrir þeim ákvörðunum sem ríkisstj. hefur tekið í þessum efnum, en þær lúta að þessu grundvallaratriði, eins og ég áður sagði, að sérstök ákvörðun er tekin um hækkun heimilisuppbótar og tekjutryggingar upp á liðlega 14%, en bætur almannatrygginga hækka að öðru leyti í samræmi við verðbætur á laun.

Hérna er um að ræða grundavallaratriði samþykktarinnar, en að öðru leyti mun hæstv. fjmrh. gera grein fyrir þeim þáttum þessara mála sem lúta sérstaklega að skattlagningunni. Auðvitað er það þannig, að sérstök lækkun á tekjuskatti, sem um hefur verið talað, kemur ekki til þess fólks sem hér er um að ræða og er með bætur frá almannatryggingunum einvörðungu til að tifa af. Ljóst var því, að nauðsynlegt var að taka ákvörðun um mun meiri hækkun til þessa fólks en ella hefði verið.