25.02.1981
Efri deild: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2557 í B-deild Alþingistíðinda. (2733)

213. mál, dýralæknar

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 421 hef ég ásamt hv. þm. Sveini Jónssyni lagt fram frv. til laga um breytingu á dýralæknalögum, sem felur það í sér, ef samþykkt verður, að einu dýralæknisumdæmi verður bætt við í Austurlandskjördæmi frá því sem nú er.

Fyrir tveimur áratugum eða þar um bil og allt fram að þeim tíma var aðeins einn dýralæknir á Austurlandi, en síðan hafa þær breytingar orðið, að nú eru þar þrjú dýralæknisumdæmi, þ. e. Austur-Skaftafellssýsla, suðurhluti Suður-Múlasýslu og síðan norðurhluti hennar og Norður-Múlasýsla að Vopnafirði. Það hallast hins vegar enn þá æðimikið á í þessum efnum. Austurlandsumdæmi syðra, sem er, eins og ég sagði áðan, syðstu hreppar Suður-Múlasýslu, er mun minna umdæmi en Egilsstaðaumdæmi sem er langstærst þessara dýralæknisumdæma.

Það hafa um nokkurra ára skeið komið fram óskir um breytingar í þessum efnum þannig að stofnað yrði sérstakt dýralæknisumdæmi niðri á fjörðum, og gengur þetta frv. einmitt í þá átt. Hér er lagt til að fimm sveitarfélög verði innan þessa nýja dýralæknisumdæmis og er það ekki ósvipuð tala og nú er varðandi tvö önnur umdæmi í þessu kjördæmi, þ. e. Austur-Skaftafellssýslu þar sem sveitarfélögin eru að vísu sjö, og syðra Múlasýsluumdæmið, þar sem sveitarfélögin eru sex. Hér kemur það til viðbótar, að á þessu landssvæði eru samgöngur erfiðar og miklum annmörkum háð og kostnaðarsamt að þjóna alla leið frá Egilsstöðum niður á Norðfjörð. Til viðbótar kemur svo það, að á síðari árum hafa verkefni dýralækna mjög aukist og þá sérstaklega í sambandi við heilbrigðiseftirlit, bæði í sláturhúsum og ekki síður í mjólkursamlögum, en eins og kunnugt er þá er starfandi mjólkursamlag á Norðfirði.

Eins og ég sagði áðan hafa legið fyrir óskir frá heimamönnum, fyrst og fremst sveitarstjórn Norðfjarðar, en auk þess frá Búnaðarsambandi Austurlands, og Búnaðarþing hefur líka lagt áherslu á að þessi skipan mála kæmist á.

Ég vænti þess, að þetta mál sé nægilega skýrt hér fyrir hv. þm. í þessari deild, og geri svo að minni till., herra forseti, að að lokinni þessari umr, verði málinu vísað til landbn.