26.02.1981
Efri deild: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2606 í B-deild Alþingistíðinda. (2766)

232. mál, eiturefni og hættuleg efni

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv. sem hér er flutt, til laga um breyt. á lögum nr. 85/1968, um eiturefni og hættuleg efni, hefur verið undirbúið af eiturefnanefnd. Frv. gengur út á það að takmarka notkun efna sem heita heldur skuggalegum nöfnum. Annars vegar er þar um að ræða aflífunarefni og hins vegar um að ræða útrýmingarefni. Jafnframt er gert ráð fyrir því, að skylt verði að skrá fleiri efni en verið hefur sem eiturefni.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um frv. þetta og legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. Ég vænti þess, að hv. n. geti borið sig saman við eiturefnanefnd um þá meðferð aflífunarefna og útrýmingarefna sem lögð er til í þessu frv.