03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2662 í B-deild Alþingistíðinda. (2800)

383. mál, símamál

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Það virðist ekki vera sama hvaðan réttlætið er mælt. Það er mikið talað um réttlæti hér í þessari virðulegu stofnun, Alþingi Íslendinga, og er það vel. En réttlætismatið birtist í hinum ýmsu myndum. T. d. virðist mér að ýmsir þeir, sem hér sitja á hv. Alþingi, telji það réttlæti, að frá Hólmavík sé skrefið 10 sekúndur, frá Blönduósi og austur um land til Hafnar sé það 8 sekúndur, og það sé óréttlæti, ef skrefið hér í Reykjavík ætti að verða kannske 6–8 mínútur.

Mín ræða hér verður að miklu leyti endurtekning á því sem síðasti ræðumaður hafði yfir. Ég bendi á það, að ellilífeyrisþegar eru og hafa verið og munu verða bæði í Reykjavík og sem kallað er „úti á landi“. Ég er þeirrar skoðunar, að réttlætið felist í því að aðstaða þessa fólks til að vera í sambandi við vini og kunningja og ættmenn sé sambærileg. Í því felst réttlæti að mínum dómi. Réttlætið ætti að vera fólgið í því, að síminn væri til svipaðra nota fyrir þetta fólk, en ekki að annar, ef hann talar við vin sinn eða kunningja eða ættmenni, þurfi að borga 7-falt, 8-falt meira fyrir þetta mjög svo nauðsynlega samband heldur en hinn. Ég vil undirstrika þetta.

Það hefur komið hér fram, að símanotkun er að meðaltali um það bil 50% dýrari í dreifbýli og ef það þykir ekki réttlæti að jafna þennan kostnaðarmun eitthvað, þá skil ég ekki þá túlkun á réttlæti.