03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2668 í B-deild Alþingistíðinda. (2809)

383. mál, símamál

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég fagna því, ef svar það, sem ég gaf hér, hefur upplýst þetta mál að einhverju leyti, því að vissulega er mikil þörf á því og má e. t. v. upplýsingaskortur vera skýringin á því, að menn hafa nú gert úlfalda úr mýflugu. Það hygg ég að sé rétt lýsing á því uppþoti sem orðið hefur í kringum þetta — sem ég vil kalla — sjálfsagða réttlætismál.

Ég vil láta það koma hér fram, að ég hef ætíð litið svo á, að þetta hafi verið ákvörðun Alþingis. Hér var, hygg ég 1973, samþykkt till. til þál. um að jafna símakostnað um landið. Töluverð umræða varð um þá till. áður en hún var samþykkt. Ég var reyndar 1. flm. að þeirri till. og var á henni ásamt ýmsum öðrum þm. Í þeim umr. kom fram að póst- og símamálastjóri hafði upplýst að ekki væri unnt að ná þessu markmiði svo vel væri, eins og íslenska símakerfið er upp byggt, nema með skrefamælingu. Ég minnist þess ekki, að nokkur hafi mótmælt því þá. Hins vegar hörmuðu ýmsir, að sjálfsögðu fyrst og fremst fulltrúar dreifbýlisins, að taka mundi alllangan tíma að koma slíkri mælingu á. Skýring á því kom fram í svari sem ég las áðan frá póst- og símamálastjóra. Það tók nokkurn tíma að kanna hvers konar tæki væru hentugust til að ná þessu markmiði.

Strax og ég tók við starfi samgrh. ræddi ég við póst- og símamálastjóra og ég gæti reyndar haft svipaða lýsingu á því og hv. síðasti ræðumaður. Þar ræddum við um framkvæmd á þessu. Ég leit að sjálfsögðu svo á, að þetta væri ákveðið og samþykkt, og að sjálfsögðu svo á, að mæling yrði tekin upp um allt land. Það kemur dálítið undarlega fyrir eyru að heyra að menn hafa talið að þetta ætti eingöngu að vera í Reykjavík. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir þeim misskilningi, sem eflaust stafar af því að málið hefur ekki verið skýrt nægilega mikið.

En ein af ástæðunum fyrir því, að málið hefur ekki verið skýrt til þessa, kann að vera sú, að ýmsir þættir málsins eru nokkuð viðamiklir og flóknir. Ég ákvað t. d. strax að skoða hvernig væri unnt að gera þetta án þess að valda allt of mikilli röskun á — við skulum segja venjum þéttbýlisins í notkun símans. Inn í það kom vitanlega ákvörðun um það, sem reyndar er ekki endanlega tekin, hve unnt væri að hafa skrefið langt. Hér hef ég nefnt 6–8 mín., og ég fagna því ef það reynist unnt. En ákvörðun er ekki endanlega um það tekin. Inn í þetta kemur einnig skipulag símans um svokallaðar hnútastöðvar um landið, svæði sem yrðu verulega stærri en núverandi svæði þar sem hringja má á sama gjaldi.

Ég get nefnt sem dæmi að gert er ráð fyrir tveimur slíkum svæðum, hnútasvæðum, á vesturhluta Vestfjarða, þ. e. öðru á Patreksfjarðarsvæðinu og hinu á Ísafjarðarsvæðinu. Þannig er margt sem skoða verður. Verða teknar ákvarðanir um þessa hluti nú á næstunni.

Ég hef ekki þekkt til þess, að Alþingi hafi verið til kvatt þegar gjaldskrá Pósts og síma hefur verið ákveðin. Alþingi hefur lýst vilja sínum um það, hvert skuli stefnt við ákvarðanir gjaldskrár, og hér hafa iðulega verið gefnar skýrslur um aukinn jöfnuð við ákvörðun á gjaldskrá, t. d. með lengingu skrefa. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson spurði hvort gera mætti ráð fyrir sömu lengd skrefa á langlínum. Ég get því miður ekki svarað því nú. Það er í athugun. Skrefin verða lengd, á því er enginn vafi. Að sjálfsögðu er meginmarkmið með þessu öllu að ná auknum jöfnuði. Hvort honum verður náð með lengingu skrefa eingöngu eða með lækkun gjalds get ég ekki sagt á þessu stigi.

Hv. þm. Friðrik Sophusson minntist á svokölluð frínúmer. Ég hygg að hann eigi við númer sem unnt er að hringja í og komast á milli stöðva eftir að lokað er.

Ákveðið er að taka upp slíkt númer fyrir Suðurnesjasvæðið til reynslu fyrst. Líklega verða það tvö núll, sem gerir mönnum þá kleift í öryggisskyni að ná t. d. í lögreglu eða brunavörslu á öðru svæði, ef ekki er um slíkt að ræða á viðkomandi svæði.

Ég hef rætt um það við Póst og síma að taka upp slíka þjónustu um land allt. Það er í athugun. Í því sambandi þarf reyndar að sameina símavörslu fyrir slíka þjónustu alla. Má vel vera að þar sé um meiri árekstra að ræða eða erfiðleika heldur en út af fyrir sig að taka upp slíkt símanúmer hjá Pósti og síma. Erfiðlega hefur gengið að fá ýmsa þessa aðila, eins og brunalið, lögreglu, heilsugæslu og jafnvel fleiri, til að sameinast um eina símavörslu. Þetta hefur víða verið tekið upp í nágrannalöndum okkar og ég tel það ákaflega mikilvægt.

Minnst hefur verið á ellilífeyrisþega. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég hef talið mér skylt, samkvæmt því sem mér hefur virst koma fram hér á Alþingi, að þeir fái svona þjónustu ókeypis. Ég verð hins vegar að segja það, að ég er mjög sömu skoðunar og kom fram hjá einum hv. þm. áðan, að þetta mætti og væri jafnvel réttara að leysa — ekki með því að fella niður símgjald, heldur með því að hækka greiðslur til slíkra aðila í gegnum tryggingakerfið. Ég tel það vera að mörgu leyti æskilegri lausn á þessu máli.

Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði að Póstur og sími væri illa rekin stofnun. Ég vil andmæla því. Ég held að Póstur og sími sé að mörgu leyti vel rekin stofnun, þó að margt megi þar bæta eins og víðast hvar. Ég hef hins vegar mjög miklar áhyggjur af því, hve miklu seinna gengur að koma sjálfvirkum síma í dreifbýlið en að hefur verið stefnt árum saman. Ástæðan er vitaskuld sú, að óskir Pósts og síma um fjárfestingarfjármagn hafa verið skornar niður gífurlega á hverju ári, t. d. nú úr rúmum 9 milljörðum í um 5.5 milljarða. Þeirri reglu hefur verið fylgt að fjármagna ekki nema að litlu leyti slíkar framkvæmdir Pósts og síma með lánsfé, heldur af tekjum. Ég hef talið það skynsamlega stefnu. Ég hef talið varasamt að ganga langt í þessu efni, eins og gert hefur verið t. d. hjá rafveitunum, þannig að þegar Pósti og síma hefur verið neitað um hækkanir, sem farið hefur verið fram á til að geta framkvæmt það sem talið er nauðsynlegt, þá hefur orðið að draga úr framkvæmdum. Þann kostinn hefur m. a. fjvn. valið. Ég vil taka það fram, að það hefur ekki verið gert í andstöðu við mig þó að ég hafi harmað að slíkt hafi orðið að gera, heldur hef ég talið nauðsynlegt að takmarka hækkanir Pósts og síma á meðan við erum að reyna að ná margumtalaðri verðbólgu niður.

Ég mun mjög fljótlega leggja fram frv. um sjálfvirkan síma í sveitum. Verið er að leggja síðustu hönd á það. Það tel ég vera stærsta framkvæmdamál Pósts og síma í dag. Ég mun gera ráð fyrir sérstakri fjáröflun í því skyni.