03.03.1981
Sameinað þing: 56. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2676 í B-deild Alþingistíðinda. (2821)

145. mál, flugvellir í Austurlandskjördæmi

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Helga Seljan flutt till. til þál. um uppbyggingu flugvalla í Austurlandskjördæmi. Það þarf að sjálfsögðu ekki að koma neinum á óvart þótt alþm. af Austurlandi hafi áhuga á uppbyggingu flugvalla í sínu kjördæmi, því að mjög óvíða á þessu landi hefur flugið þjónað stærra hlutverki og valdið meiri breytingum en einmitt á Austurlandi. Á þetta ekki síst við þann hluta kjördæmisins sem ég þekki best til í, þ. e. Austur-Skaftafellssýslu, þar sem segja má að tilkoma flugsins í samgöngum hér á landi hafi valdið þar algjörum þáttaskilum í samgöngumálum.

Nú hefur þetta hins vegar þróast þannig með breyttum samgönguháttum á landi, að flug hefur ekki eins mikla þýðingu fyrir þann hluta kjördæmisins varðandi samgöngur hingað við þéttbýlið, þótt hann sé eftir sem áður mikilvægur. En vegna fjarlægðar annarra hluta kjördæmisins frá höfuðstaðnum hefur þar aftur á móti vaxið enn frekari þörf fyrir bættar samgöngur, bæði við þéttbýlið og ekki síður hefur þörfin og áhuginn vaxið á bættum flugsamgöngum innan kjördæmisins.

Nú um nokkurra ára skeið hefur starfað sérstakt flugfélag á Austurlandi, Flugfélag Austurlands, sem hefur annast póstflutninga og farþegaflutninga og hefur haft gífurlega miklu hlutverki að gegna og vaxandi í samgöngum innan Austurlandskjördæmis. Er nú svo komið, að einmitt sum hin afskekktari byggðarlög hafa enn meiri áhuga á þessari þjónustu en áður var. Þetta kemur m. a. fram í því, að ýmsar sveitarstjórnir á Austurlandi hafa sett á fót sérstakar flugmálanefndir til þess að fjalla um flugmál sem sérstaklega eru tengd þeirra byggðarlögum. Á fundi sveitarfélaga á Austurlandi á s. l. sumri var kjörin sérstök nefnd á vegum samtakanna til þess að fjalla um áætlun og skipulagningu flugmála í Austurlandskjördæmi. Þeir aðilar, sem þar hafa verið valdir til forustu, hafa beint þeim óskum til þm. Austurl., að komið verði á samstarfi milli heimamanna og yfirstjórnar flugmála um þessa áætlunargerð. Og það eru einmitt þau tilmæli sem eru tilefni þessa tillöguflutnings.

Ég tel ákaflega mikilvægt og við báðir flm., að unnið verði sameiginlega að skipulagningu þessara verkefna, ekki síst vegna þess að í stærri áætlunum vilja stundum hinir smærri staðirnir frekar gleymast, og það er ákaflega þýðingarmikið að þess sé gætt vel, að allir fylgist að í þessum efnum.

Ég orðlengi þetta ekki frekar, en geri till. um að þessu máli verði að lokinni umr. vísað til atvmn.