04.03.1981
Neðri deild: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2696 í B-deild Alþingistíðinda. (2835)

207. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Á þskj. 400, sem er 207. mál yfirstandandi þings, höfum við leyft okkur, ég ásamt hv. þm. Halldóri Blöndal og Matthíasi Á. Mathiesen, að flytja frv. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og fjallar það um tvö atriði sem snerta námsmenn sérstaklega. Annað atriðið, sem fram kemur í 1. gr. frv., er um námsfrádrátt. Hitt atriðið, sem er í 2. gr., er að vaxtagjöld og verðbætur af námslánum njóti frádráttar með sama hætti og húsnæðislán.

Eins og öllum er kunnugt hafa orðið talsverðar breytingar á högum námsmanna á síðustu árum og áratugum. Upp á síðkastið hefur verið minna um atvinnu námsmanna með námi, þar sem þeir hafa getað drýgt tekjur sínar, og eins minna um vinnu í sumarfríi námsmanna. Í staðinn hafa námsmenn orðið meira og meira að treysta á námslán og framfleytt sér á slíkum lánum. Varðandi námsfrádráttinn kemur þess vegna oft fyrir að frádrátturinn nýtist námsmönnum ekki þar sem þeir eru tekjulausir allt árið, en njóta þess í stað námslána.

Þetta frv. er flutt meðfram vegna þess að lög og reglur um námslán eru að breytast í það horf, að endurgreiðslur verða mun hraðari en verið hefur, og ef nýtt frv., sem enn hefur ekki verið lagt fram reyndar, verður samþykkt hér á hinu háa Alþingi má gera ráð fyrir að 90% þeirra, sem taka námslán, muni endurgreiða lánin að fullu og þá allt verðtryggt.

Í sumar starfaði nefnd á vegum hæstv. menntmrh. að því að útbúa nýtt frv. um námslán og námsstyrki. Því starfi var lokið í þingbyrjun, en því miður hefur hæstv. ráðh. enn ekki lagt þetta frv. fram á Alþingi.

Um 2. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir að vaxtagjöld og gjaldfallnar verðbætur af námslánum verði frádráttarbær frá skatti, þarf að geta þess, að hugsanlegt er að nú nýlega hafi Alþingi samþykkt breytingu á sömu grein skattalaga sem geri það að verkum að þessari grein þurfi að breyta í hv. nefnd. Tilgangurinn með þessari 2. gr. er að gera námslán gagnvart lánþegum að sams konar lánum og um húsnæðislán sé að ræða.

Með samþykkt þessa frv. mundi löggjafinn viðurkenna að nám, sem menn stunda eftir 20 ára aldur, sé þjóðhagslega hagkvæmt á sama máta og öflun íbúðarhúsnæðis er nú samkv. skattalögunum. Nám er í sjálfu sér ein tegund fjárfestingar sem löggjafinn hlýtur að vilja ýta undir. Það eru þess vegna sanngirnissjónarmið sem mæla með samþykkt þessa frv., og ég vænti þess, að hv. nefnd skoði þetta mál með fullum skilningi á högum námsmanna, enda er ráð fyrir því gert að hv. fjh.- og viðskn. haldi áfram í vetur að endurskoða skattalögin. Í því sambandi má geta þess, að enn hafa ekki lokið störfum nefndir sem starfað hafa á vegum fjmrn., önnur um 59. gr. skattalaganna um reiknaðar tekjur og hin um einstæða foreldra. Innan tíðar má gera ráð fyrir að þessar nefndir skili áliti og verður þá væntanlega lagt fram af hálfu hæstv. fjmrh. frv. til breytinga á skattalögum. Mér fyndist þess vegna vel koma til greina að þetta frv., sem ég mæli nú fyrir, komi til skoðunar og afgreiðslu í hv. fjh.- og viðskn. um leið og aðrar breytingar verða gerðar á tekjuskatts- og eignarskattslögunum.

Það er óþarfi að taka fram að samtök námsmanna hafa lýst yfir stuðningi við efnisatriði þessa frv., og ég er sannfærður um að það hlýtur að njóta skilnings þegar tillit er tekið til þess, að námsmenn, sem verða að taka fyllilega verðtryggð lán meðan á námstíma stendur, þurfa, þegar þeir endurgreiða lánin, að endurgreiða þau með tekjum, sem eru skattlagðar í hæsta skattþrepi, en það leiðir til þess að greiðslubyrði margra fyrrverandi námsmanna er gífurlega mikil.

Herra forseti. Ég vonast eftir góðum undirtektum undir þetta mál og fer fram á að því verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.