05.03.1981
Sameinað þing: 57. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2710 í B-deild Alþingistíðinda. (2851)

100. mál, stefnumörkun í landbúnaði

Helgi Seljan:

Herra forseti. Eins og kom fram í máli hæstv. landbrh. hef ég um nokkurt skeið átt sæti í nefnd sem fjallað hefur um stefnumótun í landbúnaði. Það hefur komið mjög vel í ljós í þessari n., að hér er um vandmeðfarið mál að ræða. Það þarf að mörgu að hyggja, og margs að gæta þegar heill atvinnuvegur er tekinn til athugunar og stefnumörkunar. Það þarf því engum á óvart að koma þó að okkur, sem n. erum, hafi verið nokkur vandi á höndum við að skila af okkur fullkomnu nál., og við tökum enn að sjálfsögðu við athugasemdum, eins og kom fram í máli hæstv. ráðh., og þurfum að samræma enn betur ýmis þau sjónarmið sem á lofti eru varðandi þennan atvinnuveg sem og aðra atvinnuvegi okkar þjóðar.

Varðandi þessa till. má segja það, að flest atriði hennar eru slík að undir meginefni þeirra geti allir þeir tekið sem á annað borð vilja heilbrigðan og öflugan landbúnað á Íslandi, landbúnað sem geri hvort tveggja í senn: sinni bændastéttinni sem best tekjulega og félagslega og sinni þörfum neytenda sem allra best og á sem hagkvæmastan hátt. Þar hljóta að koma til sameiginlegir hagsmunir beggja aðila. Þeir hljóta að eiga að vera þar í fyrirrúmi. Það er hollast fyrir atvinnugreinina, það er hollast fyrir stéttina, sem framleiðir þessa dýrmætu vöru, og eins fyrir þá, sem vörunnar neyta, þá sem vöruna kaupa. Hér þarf því tvímælalaust í allri stefnumörkun að gæta þess vel, að sem best samvinna og samstarf takist milli framleiðenda og neytenda, langt umfram það sem verið hefur.

Ég held að ein frumforsendan fyrir því, að við getum byggt okkar landbúnað sem fjölbreyttastan og blómlegastan, sé sú, að við gætum við að nýtingu landsins. Þar verðum við að láta sem mesta skynsemi ráða. Þar verðum við að rannsaka enn betur en gert hefur verið hvert beitarþol lands okkar er og hvernig við nýtum það best, og kannske verður þessi landnýting hollasta leiðarljósið sem við höfum í framleiðslumálum landbúnaðarins í heild, alla vega þegar til lengri tíma er lítið. Það er auðvitað alveg ljóst, að það er nauðsyn að land okkar sé sem mest í byggð, og þá á ég ekki við það að halda hverju einstöku býli í byggð, hversu fjarri byggð sem það kann að vera, heldur fyrst og fremst að skapa lífvænleg skilyrði þeim byggðum sem í hættu eru, en þjóna ákveðnum tilgangi bæði byggðarlega séð varðandi landbúnaðinn og ekki síður varðandi einstök landssvæði og þéttbýlið.

Vegna þess að ég á sæti í þeirri n., sem getið var um að framan, get ég farið hér fljótt yfir sögu og aðeins tæpt á nokkrum atriðum sem eru að miklu leyti eigin hugleiðingar.

Ég held að það sé nauðsynlegt að landbúnaður eða búseta í sveitum verði styrkt, ekki aðeins með þeim aukabúgreinum, sem nú er mjög talað um, heldur og ýmsum smáiðnaði sem tengdur er landbúnaði og þjónustu við landbúnaðinn. Ég minni á till., sem hér hefur verið samþykkt á Alþingi varðandi þetta, og minni á það, að Framkvæmdastofnun ríkisins hefur látið fara fram á þessu rækilega rannsókn sem bendir til þess, að hér sé um býsna mikla möguleika að ræða í þessum efnum. Ég vil líka taka það fram varðandi aukabúgreinarnar, sem ég efast ekki um að sé fullur vilji hjá hæstv. núv. landbrh. að framfylgja mjög strangt, að þá sé tryggt að það séu bændur sem njóti þeirra, en að ekki komi nýir aðilar sem hreinn viðauki við stéttina, menn sem ættu í raun og veru að stunda allt annað.

Menn greinir nokkuð á um þær tvær höfuðtegundir búgreina sem við byggjum á í dag. Skoðun mín er sú varðandi mjólkurframleiðsluna, að hún þurfi að vera sem næst því að anna innanlandsþörf okkar. Það er auðvitað fullljóst hins vegar, að það þarf vissa sveigju, það þarf vissa umframframleiðslu til þess að taka á móti óvæntum og sérstökum áföllum. Hversu mikil sú sveigja á að vera skal ég ekki segja hér um, en ekki þætti mér óeðlilegt að sú tala ætti að vera einhvers staðar í kringum 5% eða nálægt því. Við vitum að ef áföllin verða mikil dugar þetta tæplega til. Hér er góð skipulagning höfuðatriði, og þá þurfum við að hafa það í huga miklu betur en við höfum gert, að markaðssvæði og framleiðslusvæði séu í sem nánustu samhengi, að það sé sem nánast samhengi á milli framleiðslusvæða annars vegar og markaðssvæða hins vegar, þó ég viti að þar sé ekki auðvelt úr að bæta, síst í einu vetfangi.

Varðandi sauðfjárframleiðsluna gegnir nokkuð öðru máli. Ég verð að játa að offramleiðsla þar verður vissulega að vera innan skynsamlegra marka. En ég segi það einnig hiklaust, að með tilliti til þess dýrmæta iðnaðarhráefnis og þeirrar miklu atvinnu, sem t. d. ullin og gærurnar okkar skapa og geta skapað í enn ríkari mæti en þær gera í dag, þarf hér að gæta vel að. Einhver umframleiðsla, jafnvel veruleg, kann því að vera meira en réttlætanleg, ekki síst ef okkur tekst að skapa okkur betri markaði fyrir kjötið en hefur verið til þessa. Eins og kom fram í máli hæstv. landbrh. fer nú fram þjóðhagsleg úttekt á gildi landbúnaðarframleiðslunnar í heild. Ég geri mér alveg ljóst að það er slæmt að þurfa að leggja fram stefnumótun í þessum málum án þess að þessi þjóðhagslega úttekt liggi fyrir. Að niðurstöðum hennar þarf vandlega að hyggja og í raun og veru byggja stefnumótunina á þeim í verulegum atriðum, því að hér er bæði um þjóðhagslegt atriði að ræða og eins kemur þá í ljós hvert gildi landbúnaðurinn hefur í raun og veru fyrir okkar efnahagslíf.

Varðandi kjör bænda vil ég aðeins segja það, að vissulega er brýnt að þeir hafi sambærileg kjör við aðrar vinnandi stéttir þjóðfélagsins. Varðandi kjör er um miklu víðari skilning að ræða en aðeins sjálf launin. Það er um að ræða aðstöðu alla, ekki síst þá félagslegu, sem er ákaflega mikilvæg og er kannske í dag mest ábótavant þrátt fyrir allt, þó ég viti að bændur séu allra manna félagslyndastir. En þeir eiga oft erfitt með að sinna þessu félagslega eðli sínu svo sem best mætti vera. Það þarf því að tryggja að búandfólk búi ekki við lakari félagsleg og um leið og ekki síður vinnufarsleg réttindi en aðrar stéttir.

Ég legg áherslu á að það verði rækilega kannað, hvaða búskaparform sé heppilegast. Við viljum stuðla að því, að félagsbúskapur sé efldur, og ég bendi þar á till. sem flutt var af Þorbjörgu Arnórsdóttur fyrr í vetur og fékk hinar bestu undirtektir manna úr öllum flokkum. Kostir þess búskaparforms eru í mörgum tilfellum of ótvíræðir til þess að við eigum ekki hiklaust að stuðla þar að og styrkja sem best, og þar inn í kemur hinn félagslegi þáttur ekki hvað síst.

Sú nefnd, sem hefur starfað að þessum málum, hefur unnið að því að fá ákveðna búrekstrarkönnun. Að henni er nú verið að vinna og úr henni fást án efa margar hagnýtar upplýsingar. Ég held að þessi búrekstrarkönnun sé mjög nauðsynleg og hana þurfi að gera sem allra ítarlegasta. Þar verður t. d. að koma í ljós hversu uppbygging stendur, hver staða búanna er, hver aldur ábúanda er, hver líkindi eru um ábúendaskipti. Ég bendi t. d. á það alveg hiklaust, að það er staðreynd að margt aldrað fólk býr of lengi við of erfiðar aðstæður. Til þess að bæta þar úr þarf að mínu viti tvennt til að koma: stórefling Jarðakaupasjóðs til þess að tryggja þessu fólki viðunandi verð fyrir sitt lífsstarf og um leið viss dvalarheimilisaðstaða, svo sem við nokkrir þm. Alþb. höfum flutt till. um hér á Alþingi, þar sem smábúskapur væri mögulegur svo þetta fólk þyrfti ekki að hverfa algerlega frá sínu lífsstarfi, heldur gæti sinnt því áfram þó í smáum mæli væri.

Þá hlýtur að vera nauðsynlegt að viss framleiðslustjórnun fari fram. Sú framleiðslustjórnun er nú reynd, og vissulega er full ástæða til þess að gæta vel að, hvernig hún tekst, og sníða þar af þá vankanta sem á eru og reyna úr að bæta. Þar kemur t. d. svæðisskiptingin vel til greina. Ég viðurkenni að svæðisskipting má ekki vera of einskorðuð. Hún má ekki vera eins og stundum hefur verið sagt, að þarna skuli vera mjólkurframleiðsla eingöngu, þarna sauðfjárframleiðsla eingöngu; en með höfuðáherslu þó á annað hvort þarf að huga vel að hvort við getum ekki svæðisskipt landinu að nokkru.

Framleiðslustýringin hlýtur svo að miklu leyti að stjórnast af stofnlánum. Fjárfestingarlánastjórnin þarf því að vera sem virkust, og þar hafa vissulega viss skref verið tekið af stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Það getur þurft vissa svokallaða haftastefnu þegar út í ófæru er stefnt eða hreint gáleysi, og þá þarf kjark til þess og á að hafa kjark til þess að setja þar við vissar skorður og viss takmörk, því að margir þeir, sem þar hafa fjárfest langt um of, eru nú í sannkallaðri hengingaról í dag einmitt af þeim ástæðum.

Ég vil taka það fram og leggja á það sérstaka áherslu, að stjórn fjárfestingarmála landbúnaðarins á ekki einvörðungu að taka til bænda eða til fjárfestingar á vegum bænda sjálfra, hún á ekki síður að taka til vinnslustöðva landbúnaðarins, því að þar sýnir sagan okkur að margt hefði öðruvísi mátt vera varðandi uppbyggingu þeirra. Oft hefur verið vikið í umr. um landbúnaðarmál að þéttbýlisbúskapnum og menn verið nokkuð ráðvilltir þar hvað gera skyldi. Ég held að við eigum að gæta töluvert vel að þessu. Ég held að þessi búskapur sé töluvert miklu meiri en skýrslur sýna. T. d. er þessi búskapur, sem ég kalla þéttbýlisbúskap eða aukagetu manna sem stunda aðra atvinnu eða atvinnugreinar, stundaður miklu meira á lögbýlum heldur en menn hafa gert sér grein fyrir.

Ég t. d. stunda „hobbýbúskap“, sem ég er með, á lögbýli og er ágætt dæmi þar um. Ég held að þessum búskap eigi að setja þröngar skorður. Ég held að bann sé rangt í þessum efnum. Hér nefnilega um vissa sálarheill að ræða í mörgum tilfellum. (Gripið fram í.) Já, ég tala nú ekki um ef um svo alvarlega hluti væri að ræða, sem menn þekkja eflaust dæmi um af Vestfjörðum.

Ég verð hins vegar að segja það að það þarf að setja viss skilyrði sem illt er undan að komast. Ég nefni sem dæmi að hér mætti hugsa sér hámarksstærð t. d. og að menn hefðu ekki nema ákveðinn fjölda búfjár undir höndum, þeir sem stunduðu aðra atvinnu einvörðungu.

Það væri að æra óstöðugan að ætla að fara að ræða þessi mál í heild, enda ætla ég ekki að gera það. Ég ætla aðeins í lokin að víkja örfáum orðum að þeirri framleiðslustjórnun sem nú hefur verið reynd.

Ég held að fóðurbætisskatturinn sé meira en réttlætanlegur að vissu marki. Offramleiðsla, sem byggð er á innfluttu kjarnfóðri, er endileysa. Hún hlýtur að vera endileysa. Hvernig fóðurbætisskattinn á að framkvæma er svo mat manna og þar þarf að reyna að komast að sem réttastri og bestri niðurstöðu. Ég held að það sé rétt, sem hæstv. landbrh. kom hér inn á áðan, að við megum vara okkur á því að vera með svo flókið kerfi í þessu að það sé undanþágukerfi og alls konar skriffinnskukerfi sem tröllríði þessum málum. Við þurfum þess vegna að finna upp það kerfi sem einfaldast getur verið og um leið virkast, og ég held að við fáum núna af þessu dýrmæta reynslu sem rétt er að hafa í huga varðandi framtíðarskipan þessara mála.

Hvað sem menn vilja segja um kvótakerfið, og þar hafa bændur sjálfir lagt hönd á plóginn varðandi framleiðslustjórnun, þá held ég að það sé rétt, að það þurfi að sýna sig hvernig það kerfi kemur út, það þurfi að sýna gildi sitt, það þurfi að sýna vankanta sína og kosti og að loknum ákveðnum reynslutíma þurfi að framkvæma á því endurmat og þá þurfi að tryggja fyrst og fremst að þeir lakar settu og frumbýlingarnir fái sem best notið sín í þessum efnum. Þó að ég hafi hér talað áður um það, að við megum ekki stefna blint í offramleiðslu, þá hljóta áfram, sem betur fer, að verða frumbýlingar á Íslandi sem við þurfum að hlynna að eftir föngum og við eigum sannarlega að láta njóta sín, ef þeir eru menn til þess að stunda þessa atvinnugrein á þann máta sem hagkvæmast og best er.

Þetta eru nokkur áhersluatriði sem ég vildi koma á framfæri, þó ég vænti þess að geta fjallað ítarlegar um þetta þegar hæstv. landbrh. flytur hér tillögu um stefnumörkun sem ég hef átt að nokkra aðild að semja og ég vona að geti verið sem fyrst, þó ég dragi ekkert úr því, að málið er svo vandasamt og að svo mörgu að hyggja og ýmsar þær kannanir, sem við höfum verið með í gangi, svo stutt á veg komnar að enn hlýtur nokkur tími að liða þar til full samræming hefur átt sér stað og ríkisstj. getur lagt fram heildstæða stefnumörkun sem er eitthvert gagn að til frambúðar.