09.03.1981
Neðri deild: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2776 í B-deild Alþingistíðinda. (2889)

237. mál, þýðingarsjóður

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um þýðingarsjóð á þskj. 469, sem við höfum leyft okkur að flytja, hv. þm. Ingólfur Guðnason og ég.

Frv. þetta fjallar um sjóð sem styrkt geti útgefendur til útgáfu þýðinga á erlendum bókmenntum. Það er talinn einn af hornsteinum menningar okkar, að íslenska þjóðin eigi aðgang að fjölbreytilegum bókakosti, bæði fræðiritum og fagurbókmenntum. Í samræmi við þetta sjónarmið svo og það grundvallarsjónarmið, að réttur manna til menntunar og menningar skuli vera sem jafnastur, eru rekin almenningsbókasöfn í landinu til þess að gera þann bókakost, sem fyrir hendi er nú á íslensku, sem aðgengilegastan almenningi. Jafnframt er reynt að hafa á boðstólum nokkurt úrval bóka á erlendum málum, eftir því sem fjárframlög leyfa.

Það er ljóst, að bækur á erlendum málum nýtast ekki nema takmörkuðum hluta landsmanna vegna þess að því fer fjarri að öll þjóðin sé læs á erlendar tungur. Sá hluti landsmanna, sem þannig er farið um, er því algjörlega háður þeim bókakosti sem til er á móðurmálinu, og er auðsætt að hér er um að ræða mikinn mun á aðstöðu einstaklinga til þess að kynna sér það sem hugsað er og skrifa á erlendum tungum. Þennan aðstöðumun er að sjálfsögðu aldrei hægt að jafna fullkomlega. En mikið mætti gera til úrbóta með því að auka verulega útgáfu á íslenskum þýðingum þeirra erlendra skáldrita og fræðirita sem umræddust eru á hverjum tíma. Á slíka útgáfu hefur verulega skort á undanförnum árum vegna þess að við val þýddra rita til útgáfu ráða oftast nær markaðslögmálin ein og aðeins eru valin rit sem talin eru líkleg til vinsælda og sölu. Er þá yfirleitt um að ræða svokallaðar afþreyingarbækur, sem að vísu geta verið ágætar til síns brúks, en auka litlu við reynslu eða þekkingu lesandans og gefa litla hugmynd um það úrval sem fyrir hendi er, þar sem þær samtíðarbókmenntir, sem mikilsverðastar eru taldar, verða nær algjörlega út undan. Hið sama gildir um sígild bókmenntaverk sem öllum menningarþjóðum þykir sjálfsagt og nauðsynlegt að eiga í vönduðum þýðingum á eigin tungu. Stór hópur landsmanna á því mjög takmarkaðan aðgang að slíkum ritum.

Þess má einnig geta, að vandaðar þýðingar á góðum bókmenntum eru mikilsverður þáttur í bókmenntastarfi hverrar þjóðar. Bókmenntum okkar er þörf áhrifa og strauma erlendis frá, og slíkir straumar verða sterkari og nákomnari ef þeir koma í gegnum íslenskar þýðingar. Auk þess eflist tungan að sveigjanleik og tjáningarhæfni í glímunni við að orða merkilegar hugsanir á okkar eigin tungu. Þarf þessu til stuðnings ekki annað en að nefna það mikla gildi sem snilldarþýðingar manna eins og Jóns Þorlákssonar, Sveinbjarnar Egilssonar, Magnúsar Ásgeirssonar og Helga Hálfdanarsonar hafa haft fyrir íslenskar bókmenntir.

Vissulega var ekki unnt að sækja um neina styrki handa þessum mönnum. En þá var öldin önnur, menn höfðu ekki þær fjárhagskvaðir sem nútímamenn hafa, og hrædd er ég um að þeir nútíma Íslendingar verði ekki margir sem vinna það starf sem þarna var unnið, þó að vissulega sé þar okkar ágæti Helgi Hálfdanarson undantekning.

Við lauslega athugun á íslenskri bókaskrá kemur í ljós að af u. þ. b. 100 erlendum bókum, sem þýddar eru árlega á íslensku, eru innan við tíu ritverk sem almennar viðurkenningar njóta, og að tala slíkra ritverka útgefinna á íslensku hefur lítið breyst á síðustu áratugum meðan fjöldi hinna léttvægari bóka hefur aukist í réttu hlutfalli við aukna efnalega velmegun þjóðarinnar.

Þýðing góðra bóka er erfitt og tímafrekt starf. Væri það greitt í réttu hlutfalli við tíma og erfiði yrði þýðingarkostnaður mikilsverðra bókmennta mun hærra hlutfall útgáfukostnaðar en þýðingarkostnaður afþreyingarbókmennta. Þetta er vafalaust ein af ástæðunum fyrir því, hve lítið er gefið út af góðum þýddum bókum, bókum á Íslandi. Væru útgefendur styrktir til þess að greiða þýðendum sómasamleg laun fyrir slík störf, líkt og Þýðingarsjóður Norðurlandaráðs styrkir þýðingar af einu Norðurlandamáli á annað, væri vafalaust unnt að auka mikið fjölbreytni og gæði þeirra bóka sem allur þorri manna á aðgang að. Með því væri tvímælalaust stigið skref fram á við í jafnréttismálum og hornsteinar menningar okkar og bókmennta til muna styrktir.

Nú er mér ljóst að fjölmargir hv, þm. setja spurningarmerki við þegar farið er að tala um markaða tekjustofna. Og vissulega get ég verið sammála því, að það er e. t. v. ekki æskilegt að allt of stór hluti fjárlaga hverju sinni sé bundinn í mörkuðum tekjustofnum. Hitt er hins vegar jafnljóst, að oftlega þarf markaðan tekjustofn til að slík mál sem þessi lognist ekki út af. Ég held að hér sé um að ræða mál sem hver einasti þm. hv. deildar hlýtur að geta verið sammála um. Við tölum um jafnrétti, við tölum um jafnrétti karla og kvenna, við tölum um jafnrétti manna til atvinnu. Ég held að við megum ekki gleyma — mitt í allri þeirri umræðu — mikilvægi þess að allir Íslendingar geti tesið nokkuð af því merkilegasta sem hugsað er og skrifað í heiminum á hverjum tíma. Ég vil því leyfa mér að skora á hv. deildarþingmenn að taka þetta mál alvarlega og veita því brautargengi þannig að það verði afgreitt á þessu þingi.