10.03.1981
Sameinað þing: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2788 í B-deild Alþingistíðinda. (2900)

379. mál, skilyrði fyrir ríkisábyrgð vegna lántöku Flugleiða

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þau svör, sem ráðh. veitti, og það yfirlit, sem hann gaf yfir þróun mála. Það hlýtur hins vegar að vekja undrun, að ráðh. og aðrir fulltrúar ríkisstj., sem áttu í viðræðum við Flugleiðir þegar þetta mál var til afgreiðslu, skyldu geta komist að þeirri niðurstöðu þá, og væntanlega án mótmæla flugfélagsins Flugleiða, að aðalfund mætti halda fyrir lok febr. 1981, en komist síðan að þeirri niðurstöðu, að það sé ekki hægt. Þannig hafa svör og viðbrögð ráðh. verið — og reyndar nefndarformanna sem hafa verið að krukka í þessu máli greinilega með ríkisstj. án þess að það væri borið undir nefndirnar. Þannig hafa viðbrögð þeirra verið. Þeir hafa fallist á að breyta skilyrðum sem Alþingi setti. Ráðherrar og nefndarformenn hafa fallist á að breyta skilyrðum sem Alþingi setti.

Það var einmitt þetta sem við fulltrúar Alþfl. vöruðum við á sínum tíma. Við sögðumst ekki leggja okkur í það, hvernig skilyrðin yrðu samsett, það hefðu farið fram viðræður milli ráðherra og fyrirtækisins og annarra oddvita og fulltrúa ríkisstj. væntanlega líka og þar hefðu menn komist að ákveðinni niðurstöðu varðandi þessi skilyrði. En við sögðum: Við viljum hafa skilyrðin kvitt og klár. Við viljum að ef sett eru skilyrði, þá séu þau sett til að halda þau. Þess vegna m. a. lögðum við til að skilyrðin yrðu sett í lög.

Nú eru það ljóst, að með þetta hefur verið höndlað eftir að Alþingi afgreiddi málið. Og í raun mætti segja að forsendurnar fyrir afgreiðslu Alþingis væru brostnar. Þetta tel ég að sé ekki til fyrirmyndar um vinnubrögð. Ég tel að þetta sé óvirðing við Alþingi. Einmitt það hefur gerst, sem við vöruðum við, að menn eru að setja skilyrði sem síðan er ekki staðið við með þeim hætti sem gengið er frá þeim.

Nú kunna vitaskuld að vera ótal orsakir fyrir því, að erfitt sé að halda þá fundi, sem menn vilja halda, fyrir þennan tíma. En það verður að teljast andkannalegt að menn skyldu þá ekki geta séð það fyrir skömmu fyrir jól, heldur uppgötva það 8. jan. eða í janúarmánuði alla vega, ef ég man rétt. Það er fallist á að þessu sé breytt, hluthafafundur ákveði tvo menn, og þá eru menn líka að uppgötva að það gildi ákveðnar samþykktir fyrir fyrirtækið, sem m. a. feli það í sér að ekki megi kjósa nema fimm menn í stjórn. Á ég að trúa því, að ráðh. og aðrir oddvitar ríkisstj. hafi ekki sett sig inn í það, hvað væri mögulegt og hverjar væru samþykktir fyrirtækisins, þegar skilyrðin voru sett. Ósköp finnast mér það kúnstug vinnubrögð ef svo er.

Ég vil líka spyrjast frekar fyrir um hlutafjárútboðið til starfsfólksins, vegna þess að mér hefur borist til eyrna að það hafi kannske verið staðið svolítið klunnalega að þessu hlutafjárútboði og menn ekki beinlínis teygt sig mjög í átt til starfsfólksins. Einn starfsmaður sagði mér að samkvæmt auglýsingu, sem hann hefði haft aðgang að varðandi þessi mál, hafi hlutabréfin verið boðin með tveggja daga fyrirvara og beðið um að þau yrðu staðgreidd. Hann sagði: Þetta skilyrði gat ég ekki uppfyllt. — Áður hafði verið talað um að hlutabréfin gætu fylgt í launaumslögunum. Mér hefur líka skilist að aðrir starfshópar hafi fengið ámóta fyrirvara varðandi þetta mál, enda er útkoman, eins og upplýst var hér af ráðh., sú að starfsfólkið hefur ekkert keypt. Og m. a. hið fjársterka félag flugvirkja hefur ekkert keypt og ansar ekki einu sinni erindum.

Var ekki hugmyndin sú, var það ekki hugmyndin, ráðh., þegar þessi mál voru til afgreiðslu hér á þingi, að hann fylgdist með því að útboð á hlutafé til starfsfólksins færi fram með eðlilegum og greiðvirkum hætti?

Ég vil svo að öðru leyti ítreka þær fsp. sem ég bar fram um framtíðaráætlanirnar og stefnumótun í þessum málum. Það gengur sú saga, ég veit ekki hvort nokkuð er til í henni, að e. t. v. ætli Flugleiðir að selja hina nýju vél. Og það hefur líka heyrst, að Air Bahama stæði ekki sérlega vel. Kannske getur ráðh. upplýst eitthvað af þessum málum líka. Ég veit að starfsfólki fyrirtækisins líður ekkert vel við þessar aðstæður.