11.03.1981
Neðri deild: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2857 í B-deild Alþingistíðinda. (2975)

174. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. um að leyfa dragnótaveiðar í Faxaflóa tel ég eðlilegt að komi fram, og ég vil lýsa því hér yfir að ég er fylgjandi því, að veiðar í dragnót í Faxaflóa verði leyfðar. Ég er því einnig fylgjandi, að Hafrannsóknastofnunin eigi að gera tillögur um skipulag þeirra veiða og þá sérstaklega aflamagn, veiðitíma og veiðisvæði.

Hitt finnst mér ekki rétt, eins og er í frv., að Hafrannsóknastofnunin eigi að segja til um fjölda veittra leyfa. Það er ekki á verksviði vísindamanna eða vísindastofnunar. Það hlýtur að vera á verksviði stjórnvalda eingöngu. Ég held að með því að taka slík ákvæði inn í þessi veiðileyfi ein og sér sé verið að skapa mjög víðtækt fordæmi á ýmsum öðrum sviðum. Þar sem ég á sæti í þeirri n., sem fær frv. til meðferðar, ætla ég ekki að fjölyrða frekar um þetta atriði. En ég er efnislega sammála því sem hæstv. ráðh. sagði í framsöguræðu sinni fyrir frv.

Ég vil einnig taka undir það sjónarmið sem kom fram hjá hv. 4. þm. Suðurl., að það hefur margoft verið bent á að skarkolastofninn færi vaxandi, hann væri því vannýttur hjá okkur á sama tíma og við gengjum mun lengra en vísindamenn leggja til við nýtingu aðalfiskstofnsins, þorskstofnsins, og teldum okkur hafa getað leyft okkur það, enda hefur það verið nú árum saman, en þrátt fyrir að það hefur verið gert hafa vísindamenn hækkað sínar tillögur verulega, þrátt fyrir svartsýni á þeim árum sem hin svokallaða „svarta skýrsla“ var gefin út. Það kemur því ákaflega undarlega fyrir sjónir þegar menn eru að bera saman dragnótaveiðar nú, með þeim breytingum, sem gerðar hafa verið, og öllum þeim takmörkunum, sem fylgdu, — bera þær saman við dragnótaveiðar eins og þær voru fyrir nokkrum áratugum. Þetta þolir auðvitað engan samanburð og fær ekki staðist, að á sama tíma og við veiðum meira en vísindamenn leggja til af aðalfiskstofnunum geti menn verið á móti því að nýta það sem vísindamenn leggja til að nýtt verði.

Ég fyrir mitt leyti get alls ekki staðið á því að leggjast gegn því hér á Alþingi sem vísindamenn leggja til, eins og Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til í þessu máli.

Sérstaklega hefur fiskifræðingurinn Aðalsteinn Sigurðsson fylgst með skarkolastofninum víðs vegar kringum landið og þá ekki síst í Faxaflóa og hefur birt í tímaritinu Ægi mjög merkilegar greinar um tilraunaveiðar með dragnót og síðast í desemberhefti Ægis á s.l. ári um tilraunaveiðar með dragnót í Faxaflóa sem þeir framkvæmdu sumarið 1980. — Við megum ekki gera svona atriði að trúaratriði þó að í ákveðnum kauptúnum eða kaupstöðum hafi menn skipast á móti dragnót og aftur á öðrum stöðum með dragnót. Ég held að þingmenn eða stjórnmálamenn eigi ekki að láta segja sér fyrir verkum í þeim efnum.

Það er til ágæt saga af þingmanni, einum þekktasta stjórnmálamanni landsins. Þegar hann kom á fund í sínu kjördæmi, í Keflavík, það var Ólafur Thors, voru menn almennt með dragnót. Þá sagði hann: Auðvitað er ég með dragnót hér í Keflavík, en þegar ég kem í Garðinn er ég á móti dragnót. — En hann gat leyft sér ýmislegt sem aðrir geta kannske ekki.

Ég held að það sé sama hvort maður kemur í Keflavík eða Garðinn eða Keflavík eða Akranes, að ef við teljum vera óhætt að veiða meira og nýta fiskstofnana betur, þ. e. þá stofna sem eru í uppbyggingu og eru vannýttir, eigum við tvímælalaust að nýta þá. Og við verðum líka að gæta þess í sambandi við það, að við höfum haldið fram á alþjóðavettvangi — og þá á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna — að við teljum okkur geta nýtt og þurfa að nýta alla fiskstofna. Ef við verðum uppvísir að því að nýta ekki ákveðna fiskstofna eiga aðrir rétt á að fá að nýta þá. Á sama tíma og við erum að beita fiskimenn okkar og útgerð ákaflega hörðum og róttækum aðgerðum og draga með því úr veiði megum við ekki í leiðinni gera okkur seka um að nýta ekki þá fiskstofna sem vísindamenn okkar telja að séu vannýttir. Þetta er það sem ræður afstöðu minni til þessa máls, og því vit ég styðja frv., en vil gjarnan að það falli niður úr greininni sem ég nefndi í upphafi máls míns.