12.03.1981
Sameinað þing: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2872 í B-deild Alþingistíðinda. (2996)

124. mál, veiðar og vinnsla á skelfiski í Flatey

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þetta litla mál hefur orðið tilefni óvenjumikilla umræðna og miklu meiri en ástæða er til, því að þetta mál á vissulega erindi eins og það hefur verið flutt. Þetta er einmitt rétti vettvangurinn til að flytja mál af þessu tagi, þ. e. að setja þau í þáltill: form. Þegar þm. fá hugmynd um hugsanlega úrlausn á vandamáli í byggðarlagi sínu, sem þeir vilja fá athugaða, þá flytja þeir að sjálfsögðu slíkt mál á Alþingi eins og hér hefur verið gert. Og það, sem þeir ætlast til með því, er að þeir, sem hafa yfir þekkingu og aðstöðu að ráða til þess að kanna, hvort hugmynd af slíku tagi gæti nýst eða verið framkvæmanleg, verði fengnir til þess að gera þá könnun. Þetta vakti fyrir flm. till. öllum þremur, að óska eftir að þessi könnun yrði gerð. Og það að þessi till. skuli hafa verið flutt hér og bent á hugsanlega leið til úrbóta hefur áreiðanlega átt sinn þátt í því, að hæstv. sjútvrh. lét einmitt kanna þetta mál nú í vetur.

Ég vil enn fremur vekja athygli á að þó að í tillgr. sé rætt um leyfi til veiða og vinnslu á skelfiski — en ekki hörpudiski einvörðungu, eins og vikið er að — þá þarf það ekki endilega að vera, að þarna þurfi til að koma leyfi til bæði veiða og vinnslu á skelfiski. Vel gæti verið að niðurstaðan yrði sú, að þó að af vinnslu gæti ekki orðið í landi væri rétt að heimila þessum aðilum veiðar.

Mér finnst það vera að bera í bakkafullan lækinn, þær umr. sem hafa orðið hér af þessu tilefni. Ég veit ekki betur en að margar slíkar þáltill. hafi komið fram á Alþingi með hugmyndum um ýmsar úrbætur í atvinnumálum, bæði fámennra og fjölmennra byggðarlaga. Ástæðan fyrir því, að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson kvaddi sér hér hljóðs sérstaklega áðan með þeirri ræðu sem hann flutti, er e. t. v. sú, að hér er um svo fáa menn að ræða, svo fátt fólk og svo langt í burtu, að hv. þm. hefur þótt óhætt að leggjast á þetta fámenna byggðarlag af öltum þunga. Þetta er nú í fyrsta skipti á þessu þingi sem hv, þm. hefur talið ástæðu til að taka hér til máls af þeirri röggsemi og með þeim sannfæringarþunga sem hann flutti mál sitt hér á vordögum árið 1978. Ég man eftir því, að þá flutti hv. þm. álíka skörulega ræðu 1. maí, þar sem hann lagði út af kafla úr ritverki eftir Halldór Laxness, umræður sem áttu sér stað í þrælakistunni á Bessastöðum milli Jóns Hreggviðssonar og Ásbjörns Jóakimssonar sem hafði neitað að gerast ferjumaður fyrir menn kóngsins. Og hv. núv. þm., sem þá var á leiðinni í framboð, hvatti menn mjög til þess, Íslendinga, að gerast ekki ferjumenn fyrir kóngsins menn á Skerjafirði.

Nú hafa það orðið örlög þessa hv. þm., eftir að hann gerðist hér alþm., að gerast slíkur ferjumaður hjá núv. hæstv. ríkisstj., gerast ferjumaður ríkisstj. á Skerjafirði til þess að flytja fyrir hæstv. ríkisstj. menn kóngsins. Hann gerir það svikalaust. Hv. þm. tók svo til orða að það þyrfti kannske ekki að horfa svo í peninginn um framkvæmdir til þess að bæta atvinnu aðeins fjögurra manna. En dýrir eru nú orðnir þessir þrír ráðh. Alþb. fyrir fólkið í landinu. Ég veit ekki betur en hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, ferjumaður ríkisstj. á Skerjafirði og víðar, hafi gert sér lítið fyrir og keypt þrjú stykki af ráðherrastólum fyrir 7% kjaraskerðingu og sé einmitt að gera það nú. Það kallar hv. þm. slétt skipti, að fá þrjá ráðherrastóla fyrir 7% lækkun á launum.