04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

354. mál, útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir

Egill Jónsson:

Herra forseti. Vegna síðustu orða hæstv. landbrh. þar sem hann tók upp orð mín er ég varaði við ógætni í þessum efnum, þá væri kannske réttara að orða það þannig að vara við óskhyggju. Það er hrein óskhyggja ef menn láta sér detta í hug að þeir erfiðleikar, sem landbúnaðurinn stendur frammi fyrir nú í dag, verði leystir með nýjum búgreinum. Það er hrein óskhyggja. Það er annað mál, hverju nýjar búgreinar og ný atvinnutækifæri í sveitum kunna að geta áorkað í framtíðinni til að halda uppi dreifðri byggð á Íslandi.

En út af því, sem við höfum verið að fjalla um í sambandi við vanda landbúnaðarins, má kannske aðeins segja frá því hér, að við upphaf þess tíma er núverandi kerfi var tekið upp, þ.e. í kringum 1960, gaf erlendi markaðurinn um 75% af því verði sem skráð var hér innanlands, þ.e. 75% af búvöruverðinu. Að meðaltali hefur erlendi markaðurinn gefið í kringum 53% þessa tvo áratugi. En nú gefur hann 30–40% eða helmingi minna en hann gerði fyrir 20 árum. Þetta er sannleikurinn um verðlagsþróunina hér innanlands og verðrýrnunina á útflutningsbótafénu. Minna má á það hér líka til enn frekari skýringar í þessum efnum, að síðan þessi vandi upphófst árið 1977, sem ég vitnaði til áðan, þ.e. að sí og æ skortir meira fjármagn til útflutningsbóta, — á þessu tímabili hefur landbúnaðarframleiðslan vaxið um innan við 4%, á sama tíma og allur þessi vandi hefur verið að grafa um sig. Þessar staðreyndir eru alveg óhagganlegar í þessum efnum. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég er að ljúka máli mínu. En að öðru leyti get ég alveg staðfest það sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði áðan, að Sjálfstfl. lagði fram á síðasta Alþingi till. til stefnumótunar í landbúnaðarmálum, og það eru ekki nema örfáir dagar þar til Sjálfstfl. leggur þá till. fram á nýjan leik. Þá gefst væntanlega tækifæri til að skýra þessi mál enn þá nánar.