12.03.1981
Sameinað þing: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2883 í B-deild Alþingistíðinda. (3007)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. En ég vil aðeins minnast á orðið „fjármálaóreiða“, sem ég mun vera borinn fyrir að hafa notað. Ég skal viðurkenna að þetta orð er hægt að misskilja og er vafalaust allt of sterkt í notkun hér, enda meinti ég það ekki á þann veg sem hægt er að misskilja það, því að fáum mönnum treysti ég betur en fjármálastjóra Ríkisútvarpsins og mundi síðast af öllu vilja væna hann um nokkra óreiðu. Það, sem ég átti við, voru þau stórfelldu fjárhagsvandræði sem Ríkisútvarpið hefur átt við að etja, og fer ég ekki ofan af því, að þessi fjármálavandræði hafa verið að myndast á undanförnum árum, og það verður að vera höfuðverkefnið í fjármálastjórn útvarpsins að komast út úr þeim ógöngum sem þar blasa við og útvarpið er í.

Það hefur einnig verið á það minnst og borin fyrir fyrirsögn í Vísi, sem ég hafði ekki tekið verulega eftir, og á henni byggt, að ég rugli saman húsbyggingarmálum og rekstri útvarpsins, t. d. hvað varðar dagskrárgerðina. Það er rétt, að þetta bar á góma í alllöngu samtali sem ég átti við blaðamann Vísis. En ég fylgdist ekki nákvæmlega með því, hvernig hann gekk síðan frá fyrirsögnum og öðru í sambandi við þetta. En það kom nokkuð fram í þessum viðræðum mínum við blaðamanninn, að það hefði komið fyrir á undanförnum árum að gengið hefði verið á afskriftafé Ríkisútvarpsins á þann veg, að afskriftafé hefði gengið til dagskrárgerðar. Ég held að þetta sé staðreynd, sem hægt er að fá upplýsingar um og staðfestingu á, og ég tel að það sé ekki óeðlilegt, þegar sú stefna er svo tekin að nota afskriftaféð til þeirra hluta sem ætlast er til, að þá kunni það að hafa líka sín áhrif á það fjármagn sem fer til dagskrárgerðar. Þetta vildi ég taka fram, og ég held að við verðum allir að lokum sammála um að óeðlilegt sé að færa þannig á milli fjárlagaliða eins og þarna hefur átt sér stað.

En sem sagt, aðalatriðið í þessu máli er það, að ég vinn að þessari skýrslugerð. Mér skildist, eins og beiðnin var lögð fram, að óskað væri eftir viðamikilli og umfangsmikilli skýrslu um útvarpið og þannig er að þessu máli staðið. Og þetta er meira verk en menn skyldu ætla, ef þetta á að vera sæmilega frágengið mál. Ég stefni að því að þessi skýrsla verði til svo fljótt sem verða má og vonandi verður það núna í lok mánaðarins.