18.03.1981
Sameinað þing: 63. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2973 í B-deild Alþingistíðinda. (3111)

140. mál, árangur nemenda í grunnskólum og framhaldsskólum

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil þakka góðar undirtektir menntmrh. Ég skildi hann svo, að hann vildi greiða fyrir því, að þetta mál fengi afgreiðslu í nefnd og hjá þinginu.

Ég vil aðeins bæta því við það sem ég sagði hér áðan, að það er rétt sem hann sagði, að tíska breytist í sambandi við málnotkun. Ég man hvað ég varð hissa þegar ég notaði einu sinni orðið dýrtíð í gagnfræðaskóla í 30 manna bekk og það þekkti enginn nemandi í bekknum þetta orð, vissi ekki hvað það þýddi. Og þá rifjaðist það upp fyrir mér, að sennilega notum við ævinlega orðið verðbólga nú orðið, en orðið dýrtíð hefur fallið í gleymskunnar dá og er ekki notað lengur.

Á hinn bóginn get ég ekki á það fallist, að ekki sé hægt að staðla próf til þess að mæla þekkingu manna í íslenskri tungu. Ég held að markmið okkar með íslenskukennslu séu almennt þau sömu. En á hinn bóginn ítreka ég það sem ég sagði áðan, að ég held að við séum komin þar á villigötur og að ýmsu því, sem mestu máli skiptir í sambandi við málrækt, sé ekki gefinn nægilegur gaumur í kennslunni og beinlínis ætlast til að því sé sleppt. En ekki gefst tími til að ræða það hér að þessu sinni. Að öðru leyti skal ég ekki lengja mál mitt, en aðeins leggja áherslu á það, að auðvitað er mismunandi árangur í skólastarfi. Yfirleitt reyna kennarar að leggja sig fram, og ég vona að orð mín hafi ekki fallið á þá lund, að það hafi eingöngu verið gagnrýni í þeim fólgin. Ég veit að mikið starf hefur verið unnið. Einkanlega held ég samt að skorti á um tengslin milli framhaldsskólans og grunnskólans og þau mál þurfi að hugsa betur.