23.03.1981
Efri deild: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3015 í B-deild Alþingistíðinda. (3157)

258. mál, ný orkuver

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég hef hlýtt með athygli á framsögu hv. 1. flm. þessa frv., 4. þm. Vestf. Frv. þetta var lagt fram á þinginu fyrir viku, en þann tíma, sem síðan er liðinn, hef ég dvalið í opinberum erindum erlendis. Ég hef tekið sæti á þinginu í dag og vil ekki láta hjá líða að fara af tilefni þessa frv. nokkrum orðum um efni þess og stöðu þeirra mála, sem það fjallar um, svo og um nokkrar af þeim hugmyndum sem fram komu hjá hv. flm. varðandi efni frv. og þætti, sem því tengjast, og þá sérstaklega varðandi orkunýtingarþáttinn. Ég ætla þó að reyna að fara ekki afar mörgum orðum um þetta viðamikla mál nú vegna þess að orkumálin hafa verið rædd þegar á þessum vetri hér í þinginu og m. a. í þessari hv. deild og ekki ástæða til að margendurtaka atriði sem fram hafa komið í þeim umr., þótt segja megi að góð vísa verði sjaldan of oft kveðin.

Ég tel ekkert óeðlilegt að stjórnarandstaðan leitist við að láta til sín taka í þessum málaflokki sem öðrum og hafi uppi viðleitni til tillögugerðar, eins og fram kemur í þessu frv. Þetta gerir stjórnarandstaðan og í þessu tilviku hv. þm. Sjálfstfl. hér í deildinni, sem eru flm. þessa frv., vitandi að að þessum málum hefur verið unnið og er unnið á vegum iðnrn. og orkuráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar samkvæmt markaðri stefnu í stjórnarsáttmálanum. Það kemur m. a. fram í þessu þingplaggi, frv. sem hér liggur fyrir, að þar er byggt á nokkrum þeim atriðum sem lögð hafa verið fram af mér til kynningar á undirbúningi og stöðu mála í þinginu á þessum vetri. Þar á ég sérstaklega við það kynningarefni um stöðu undirbúnings varðandi Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun sem tekið er inn sem fylgigögn þessa frv. Ég tel það út af fyrir sig ekkert aðfinnsluvert þó að stjórnarandstaðan hagnýti sér slík gögn til að skýra sitt mál, en kynningarbæklingar um þessi efni, stöðu undirbúnings og tæknilegar upplýsingar varðandi þessar tvær stórvirkjanir utan Suðurlands, sem mest hafa verið umræddar á þessum vetri, voru notaðir í sambandi við viðræður um undirbúning mála heima fyrir í héruðum í sambandi við samningaumleitanir við heimamenn um réttindamál og til kynningar á þeim vettvangi og einnig dreift hér til hv. þm. til þess að þeir áttuðu sig betur á stöðu þessara mála. Það voru Rafmagnsveitur ríkisins, sem settar hafa verið sem virkjunaraðili í sambandi við þessar fyrirhuguðu tvær virkjanir, sem hafa staðið að útgáfu þessa kynningarefnis sem hv. þm. þekkja.

Ég ætla í byrjun að fara nokkrum orðum um frv. sjálft efnislega, en það gerir, eins og hv. flm. hefur rakið, ráð fyrir að Alþingi veiti heimild til þriggja stórvirkjana í senn og að ríkisstj. verði heimilað að taka nauðsynlegt fjármagn eða ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs lán sem virkjunaraðilar taki til að standa að þessum miklu framkvæmdum. Þar að auki er svo gert ráð fyrir að bæta við virkjunarheimild vegna þriðju vélar Hrauneyjafossvirkjunar sem nokkuð skortir á að lagaheimild sé fyrir.

Það er vissulega matsatriði hversu langt menn teygja sig og hvað hv. Alþingi telur réttmætt að veita heimildir langt fram í tímann í sambandi við virkjanir og fjármögnun vegna raforkuöflunar í landinu. Eflaust mætti bæta við þennan lista ef menn vildu vera mjög stórtækir og sprengja fyrri met í þessum efnum og tína til heimildir fyrir virkjunaráformum sem komin eru á blað og nokkuð hefur verið að gert varðandi rannsóknir. Það þarf ekki annað en vísa til áætlana um virkjanir, m. a. í stórfljótum norðanlands, eins og Dettifossvirkjanir, sem nokkrar áætlanir hafa verið gerðar um, svo og um ýmsar virkjanir á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu, sem Landsvirkjun hefur gert um mynsturáætlun, svo að ekki séu nefndar hugmyndir og lauslegar áætlanir um frekari stórvirkjanir á Austurlandi, en einnig þar hafa verið gerðar mynsturáætlanir um hagnýtingu vatnsafls.

Ég tel að það sé nokkurt matsatriði hversu langt eigi að ganga í þessum efnum hverju sinni. En ég er út af fyrir sig ekki að gagnrýna það sem er sett hér á blað um þessi efni, að það sé veitt heimild fyrir virkjunum, sem mjög hafa verið um talaðar, og það sé lagt á vald ríkisstj. að ákveða frekar um framkvæmdir. Í þessu frv. felst raunar verulegt traust til ríkisstj. í sambandi við meðferð þessara mála, þar sem henni er ætlað á grundvelli þessara heimilda að taka ákvarðanir um frekari framvindu mála og henni er veitt heimild til þess að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs nauðsynlegar fjárveitingar í því skyni. En vegna orða, sem féllu hér hjá hv. frummælanda undir lok ræðu hans, þar sem hann nefndi að dregist hafi úr hömlu að ákveða næstu virkjunarframkvæmdir, eins og hann mun hafa orðað það, vil ég vekja athygli á að þetta frv., sem hér liggur fyrir, bætir ekki mjög ákvarðandi úr því. Það veitir heimildir — og það rúmar heimildir — til mikilla framkvæmda í þessum efnum, en það tekur ekkert af um það, í hvað næst skuli ráðist. Það er þó það sem mestu umtali hefur valdið í sambandi við orkumál á þessum vetri í sambandi við raforkumálin, og þar hefur fram komið að sitt sýnist hverjum um hvernig standa skuli að framkvæmdum og hvar hafist skuli handa.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því — sem raunar var gert af hv. frummælanda — sem fram kemur í 4. gr. frv., þar sem fram koma mjög ákveðnir og ljósir fyrirvarar í sambandi við undirbúning og byggingu viðkomandi orkuvera. Það segir, með leyfi hæstv. forseta, í 4. gr.:

„Undirbúningi að byggingu orkuveranna svo og framkvæmdunum sjálfum skal hraðað svo sem kostur er“ ég endurtek: „svo sem kostur er. Ekki er kveðið á um röðun framkvæmda, enda mega þær ekki hefjast nema fyrir liggi nákvæmar áætlanir um orkuverin, skilyrðum samkv. 1. gr. hafi verið fullnægt og tryggt hafi verið nægilegt fjármagn til framkvæmdanna.“

Hér er í rauninni vísað til þess sem er mergur málsins í sambandi við þessi efni, þ. e. að í stórframkvæmdir er ekki unnt að ráðast, ekki svo að vel fari a. m. k., nema nauðsynlegum undirbúningi sé lokið og fyrir liggi nákvæmar áætlanir, svo að notað sé orðalag frv., um viðkomandi mannvirki og fullnægt hafi verið skilyrðum og m. a. hafi verið gengið frá samningum varðandi réttindi og annað það er að slíkri mannvirkjagerð lýtur.

Ég hef verið þeirrar skoðunar og er það enn, að það sé í rauninni mjög æskilegt að þegar löggjafanum er ætlað að veita heimildir um stórframkvæmdir í landinu liggi það sem skýrast fyrir hv. Alþingi hvernig undirbúningi mála sé komið, hvað liggi fyrir í þeim efnum og hvað sé þar ógert. Auðvitað getur hv. Alþingi metið mál þannig, eins og hér er gert af hv. flm., að valdið sé best komið í höndum hæstv. ríkisstj. og framkvæmdavaldsins og þess sé að meta hvenær þessum nauðsynlega undirbúningi sé lokið og hvenær eigi að hefjast handa. Það ætti út af fyrir sig ekki að vera gagnrýnisefni af minni hálfu sem handhafa framkvæmdavalds í þessum efnum að fá slíkar rúmar heimildir. En ég hef sem alþm. og raunar áður en ég kom inn í þessa hv. stofnun lítið svo á að framlagning og samþykkt heimildarlaga, sem byggist á takmörkuðum og oft allsendis ófullnægjandi undirbúningi, sé nokkuð tvíeggjuð aðferð. Við höfum, eins og hv. þm. þekkja eflaust flestir hverjir og geta lesið sér til um í þingtíðindum, allmikið af heimildum til virkjunarframkvæmda sem aldrei hafa verið notaðar. Það var fyrir nokkrum árum — ég segi ekki: tískuatriði, en það var kappsmál þm. af einstökum svæðum á landinu að leggja fram í þinginu frv. til heimildarlaga um virkjanir á svæði í viðkomandi kjördæmi enda þótt mjög skammt hafi verið komið undirbúningi, hvað þá að einhver samanburðargrundvöllur lægi fyrir um kostnað, svo að ekki sé nefnt að réttindamál varðandi landeigendur, hvað þá landnýtingarmál eða náttúruverndarmál, hafi legið fyrir afgreidd af viðkomandi aðilum eða um þau samið. Ég hef talið að í þessum efnum megi ofgera með því, að löggjafinn veiti slíkar heimildir of fljótt, og það geti leitt til handahófskenndra ákvarðana nema menn standi þeim mun betur á verðinum að halda svo á málum að ekki sé ráðist í framkvæmdir fyrr en öllum nauðsynlegum þáttum undirbúnings sé lokið og slíkar ákvarðanir hvíli á nokkuð víðtæku mati eins og vera þarf í þessum efnum.

Það kemur líka í ljós, þegar horft er á þetta frv. og aths. sem því fylgja, að hv. flm. þess gera sér grein fyrir því, að það er ýmsu ólokið eða hefur verið áfátt ýmsu er varðar undirbúning þeirra stórframkvæmda sem hér er lagt til að heimildir verði veittar til, og því hafa þeir eðlilega sett fyrirvara inn í þetta frv. Mín hugsun í sambandi við undirbúning ákvarðana í þessum efnum, sem ég hef oft og mörgum sinnum greint frá opinberlega hér á hv. Alþingi og í fjölmiðlum á þessum vetri, hefur verið sú, að það væri eðlilegt að greina hv. Alþingi sem gleggst frá því, hvernig stöðu undirbúnings væri háttað, og helst að það væri búið að skera úr um sem flest vafaatriði sem varða það að unnt sé innan ekki langs tíma að ráðast í viðkomandi framkvæmdir, þannig að menn séu ekki að taka hér afstöðu til stórmála á mjög óljósum forsendum.

Ef við lítum til þeirra tillagna, sem hér er um að ræða og þetta frv. um heimildir varðandi ný orkuver snertir, skal ég hv. þdm. til glöggvunar fara örfáum orðum um þessi atriði.

Það er í fyrsta lagi lagt til að veita heimild til byggingar stórrar virkjunar á Austurlandi, og þar er raunar gert að skilyrði samkv. tillögum þessa frv. að í hana verði ekki ráðist fyrr en ákvörðun hefur verið tekin um að setja á stofn stóriðju á Austurlandi, eins og það er orðað.

Varðandi undirbúning að Fljótsdalsvirkjun er það að segja, að á s. l. ári, um það leyti sem núv. ríkisstj. var mynduð, var það mat rannsóknaraðila, sem unnið hafði að málum þar eystra, að það vantaði um tvö ár til að nauðsynlegum undirbúningsrannsóknum væri lokið eða að þessi virkjunarkostur væri kominn jafnfætis virkjun á Norðurlandi vestra tæknilega séð, þ. e. Blönduvirkjun, sem nefnd er sem númer tvö í þessu frv. án þess að þar sé verið að raða framkvæmdaröð, eins og skýrt er fram tekið í frv. Nú gerðist það hins vegar á liðnu ári, að það tókst í senn að afla fjármagns og nýta mjög vel mikið fjármagn, hátt í milljarð gkr., til vettvangsrannsókna í tengslum við þessa stóru virkjun á Austurlandi og það tókst þannig að jafna metin í sambandi við tæknilegan undirbúning þessarar virkjunar, sem í fyrravetur var talið að þyrfti við þær kringumstæður, sem menn gengu þá út frá, um tvö ár til þess að jafna. Var sannarlega mjög ánægjulegt að þetta skyldi gerast.

Þegar ég tek svo til orða segi ég þetta án þess að hafa í höndum á þessari stundu fullkomna úttekt eða úrvinnslu á þessum rannsóknum, en hennar er að vænta alveg á næstunni. Ég hef hins vegar reynt að fylgjast með gangi þessa máls, eins og öðrum þáttum sem snerta undirbúning eða athugun vegna virkjunarkosta í landinu, og það hefur ekkert það komið fram í sambandi við þessa virkjun og þær rannsóknir, sem fram fóru á s. l. ári, sem bendir til þess að ekki sé hægt að halda þar markaða braut og taka ákvarðanir um framhald í sambandi við hana miðað við tæknilegar forsendur, verkfræðilegar forsendur. Þarna er um að ræða, eins og tölur sýna, stóra virkjun, stærstu virkjun í afli ef miðað væri við það hámark sem hér er sett og nefnt hefur verið, en gæti lækkað hvað snertir afltölur ef gert væri ráð fyrir umtalsverðri sölu á orku frá þessari virkjun til orkufreks iðnaðar.

Ég tel það ekki skynsamlegt né réttmætt, sem fram kemur í þessu frv., að gera að skilyrði varðandi ákvörðun um þessa virkjun að þegar sé búið að Semja um sölu á tilteknu magni af orku frá virkjuninni til orkufreks iðnaðar. Ég tel ekki þörf á því, að slíkt skilyrði sé sett. En með því vil ég engan veginn segja að ég telji óeðlilegt að hluta af orkuframleiðslu þessarar virkjunar sé varið til atvinnuuppbyggingar, til orkufreks iðnaðar, enda verði staðið að uppbyggingu slíks iðnaðar með eðlilegum hætti og með þeim hætti sem stjórnarsáttmálinn gerir ráð fyrir í sambandi við slíka atvinnuuppbyggingu, þ. e. að allt forræði þar sé í íslenskum höndum, þar sé um að ræða fyrirtæki sem við Íslendingar höfum fullt vald á. En það er ekki nauðsynlegt né réttmætt að gera ráð fyrir því, að fyrir mannvirki, sem þarf jafnlangan undirbúningstíma og byggingartíma og þessi virkjun, sé nauðsynlegt skilyrði að búið sé að selja orkuna til kaupenda, til fyrirtækis sem nýtti hluta af þeirri orku. Og hvers vegna ekki? Vegna þess að þessi virkjun er einhver sú allra hagstæðasta í landinu. Þó svo við notuðum hana eingöngu til orkuframleiðslu fyrir almennan markað er einingarverð á kwst. frá þessari virkjun í Fljótsdal ámóta og gert hefur verið ráð fyrir frá Blönduvirkjun fyrir almennan markað. Þetta þýðir líklega lægsta einingarverð sem fáanlegt er frá virkjunum í landinu fyrir almennan markað í landinu.

Vegna þess að Sultartangavirkjun er hér þriðji virkjunarkosturinn, sem gert er ráð fyrir að heimild verði veitt til og ýmsir hafa rætt um að væri eðlilegt að ráðast í sem fyrst og væri að sumra mati, að mér hefur heyrst, hagkvæmasti virkjunarkosturinn, er þess að geta, að miðað við þessa forsendu, sölu til almenns markaðar í landinu og ekki í tengslum við stóran orkukaupanda, er verðið á orkueiningu frá Sultartangavirkjun mun hærra, allt að þriðjungi hærra, ef lítið er á tölurnar einar saman, en frá hinum virkjununum tveimur, Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun. Hefur að vísu verið á það bent í þessu sambandi og er rétt að geta þess hér, að menn færa fram atriði eins og að það kosti sitt hvað að færa sig yfir á nýtt svæði til að virkja, þó nokkur aukakostnaður fylgi því að flytja sig á milli landshluta til virkjunarframkvæmda og það eigi að taka inn í samanburð af þessu tagi. Auðvitað er hægt að vera með reikningskúnstir af slíku tagi. En hvenær í ósköpunum komast menn þá nær þeirri stefnu að dreifa virkjunum um landið, sem ég held að sé nú að verða sammæli hjá mönnum, hvar sem þeir búa í landinu, að sé nauðsynlegt, að sé skynsamleg stefna með hagsmuni þjóðarheildarinnar fyrir augum? Og þá segir það sig sjálft að við þurfum að leggja í nokkurn kostnað sem er því samfara að sitja ekki kyrr í sama stað og gera ekki bara út úr einni vör í þessum efnum. Sá viðbótarkostnaður við framkvæmdir, m. a. í vegum, vegabótum, svo að dæmi sé tekið, sem fylgir því að ráðast í stórar framkvæmdir á tilteknu svæði, nýtist auðvitað líka öðrum þáttum en virkjunarframkvæmdum. Hann nýtist viðkomandi svæði almennt og atvinnulífi þar og íbúum á slíkum svæðum, og eflaust er það einn þátturinn í þeirri eðlilegu ósk sem uppi er þar sem góðir virkjunarkostir eru, að í þá verði ráðist, enda takist samkomulag um landnýtingarmál og annað sem deilum veldur eða ágreiningi kann að valda, svo sem þekkt er á vissum stöðum.

Ég vil fullyrða það hér, að það hafa engar tafir orðið í ákvörðunum í sambandi við eða á framkvæmdum í þágu virkjunarmála vegna þess að ekki hafi verið veittar heimildir nú þegar fyrir slíkum framkvæmdum — eða hafa hv. alþm. gert ráð fyrir því og verið reiðubúnir til þess að bæta mörgum milljörðum gkr. ofan á fjárfestingar- og lánsfjáráætlun þessa árs, svo að dæmi sé tekið, til þess að herða þar á? Ég hef ekki orðið var við þann vilja, og á það, held ég, jafnt við um stjórn og stjórnarandstöðu, þó að ég vilji ekki vera að gera hv. stjórnarandstöðu sérstaklega upp skoðanir í þeim efnum því að hún hefur kannske ekki staðið með beinum hætti frammi fyrir því að svara slíkum spurningum. Ég hef orðið var við það hins vegar, að það hefur verið fyrirstaða að veita það fjármagn til orkuframkvæmda í landinu sem margir teldu æskilegt út frá ýmsum sjónarmiðum, m. a. til þess að lækka olíureikninginn og spara gjaldeyri og halda þar hraðar fram en gert hefur verið, þrátt fyrir þá stórauknu áherslu sem lögð hefur verið á þetta á síðustu árum og alveg sérstaklega í fyrra og nú á þessu ári, og er það út af fyrir sig ekki þakkarvert svo sjálfsagt sem það er í okkar þjóðarbúskap að herða á þessu sviði. Ég vil sem sagt fullyrða um þær heimildir sem nauðsynlegt er að Alþingi veiti til orkuframkvæmda á þessu ári og nauðsynlegt er eða mjög æskilegt er að verði veittar á yfirstandandi þingi og ég vona að verði, — að því gefnu að slíkar heimildir fáist, engar tafir hafa orðið á undirbúningi mála vegna þeirra virkjana sem hér eru nefndar og vissulega hafa allar verið í sviðsljósinu hver með sínum hætti af þeim sökum. Þvert á móti hefur verið unnið — það tel ég mig geta fullyrt — af fullri einurð og fylgni af þeim mönnum, sem starfað hafa að þessum málum á vegum iðnrn., að því að undirbúa þá þætti sem undirbúa þarf vegna þessara framkvæmda. Það á við um verktæknilegan undirbúning, það á við um félagslegan undirbúning, samninga við þá aðila, sem semja þarf við um þessar framkvæmdir, og mat þeirra aðila, sem meta þurfa einstaka þætti í sambandi við stórframkvæmdir af þessu tagi, þ. á m. náttúruverndaryfirvöld í landinu. Allir þessir þættir hafa verið í fullum gangi og eru í gangi. Með sem fyllstar upplýsingar um þessi efni hefur það verið ásetningur minn og ríkisstj. að leggja hér fram í þinginu framkvæmdaáætlun um raforkuöflun og raforkuflutning til lengri tíma litið og öflun nauðsynlegra heimilda til þess að ráðast í þær framkvæmdir sem næstar eru. Og auðvitað verður það samkomulagsatriði innan ríkisstj. og e. t. v. við stjórnarandstöðuna, því að ekkert vil ég hafa á móti því að geta tekið á málum með henni ef þannig ber undir, hversu langt menn vilja teygja sig í að veita framkvæmdavaldinu heimildir í sambandi við framkvæmdir af því tagi sem hér er um að ræða — stórframkvæmdir.

Varðandi uppbyggingarhraðann í raforkukerfi okkar segir í þessu frv. að framkvæmdunum sjálfum skuli hraðað svo sem kostur er. Það er ekki óskynsamlegt orðalag. En það segir ekki heldur mjög mikið,-ekki í þeim texta til laga sem hér er. Í aths. með frv. er hins vegar að þessu vikið og þar er þannig tekið til orða að hraða skuli öllum undirbúningi og framkvæmdum og, eins og þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Er það þá markmiðið, að búið verði að taka í notkun öll orkuverin samkv. 1 gr. áður en þessum áratug er lokið.“

Þetta er það sem segir um þetta efni. En það er ekki kveðið á um það í sjálfum lagatextanum, heldur kemur það fram hér sem stefnumið frá hv. flm. — Það segir í aths. með sömu grein:

„Til þess að þetta megi verða er nauðsynlegt að hefjast

þegar handa og hvar sem við verður komið. Þarf því að ráðast til atlögu við öll viðfangsefnin í senn.“

Þetta þýðir að strax verði efnt til sjálfra framkvæmdanna þar sem því verður við komið, en þar sem því er ekki að heilsa verði strax unnið að því að skapa þau skilyrði sem eru nauðsynlegur undanfari framkvæmda, svo sem ákvörðun um stóriðju á Austurlandi og að réttindi verði tryggð á Blöndusvæðinu. Síðar í aths. með sömu grein er talað um að þau vinnubrögð verði viðhöfð, að þeim — þ. e. væntanlega framkvæmdunum — verði öllum lokið á framkvæmdatíma heildaráætlunar um byggingu allra virkjana, eins og það er orðað í þessum aths.

Hér kemur það sem sagt fram eins og í frv.-textanum sjálfum, að hv. flm. gera sér grein fyrir að það þarf að undirbúa þessi verk. Þeim undirbúningi er ekki til fulls lokið þannig að hægt sé að ráðast í framkvæmdir og við það ber að miða í sambandi við framkvæmdirnar sjálfar. En nokkuð er það stórt sem sagt er: „Þarf því að ráðast til atlögu við öll viðfangsefnin í senn“ — ef átt er við að menn telji skynsamlegt að standa að byggingu allra þessara orkuvera á sama tíma.

Ég efast ekkert um stórhug hv. 1. flm. þessa frv. í sambandi við orkumál. Hann vill leggja þar nokkuð stórt undir og eflaust aðrir hv. flm., en ég er ekki búinn að sjá að þeir hinir sömu, jafnvel þótt framkvæmdavaldið hefðu, stæðu þannig að málum að unnið væri á fullu við allar þessar framkvæmdir í einu, enda leyfi ég mér að skilja þetta orðalag frekar þannig, að það sé unnið að undirbúningi mála varðandi þessi mannvirki á sama tíma, en ekki að það verði unnið að framkvæmdum samtímis, og vil þó engan veginn útiloka að það geti verið skynsamlegt ef markaður leyfir og býður að framkvæmdir geti farið saman að einhverju leyti við virkjanir í landinu. Það vil ég engan veginn útiloka að geti gerst í vissum tilvikum, enda falli það að markaðnum.

Þá vil ég, herra forseti, fara örfáum orðum um þann þátt málsins, þ. e. markaðshliðina, vegna þess að hv. flm. ræddi það nokkuð í máli sínum og við hljótum að horfa til þeirra mála þegar verið er að leggja áætlanir um stórframkvæmdir af því tagi sem hér um ræðir. Hversu svo sem menn vilja á þeim málum halda hljóta þessi atriði að þurfa að fylgjast nokkuð að, hugmyndir um nýtingu og hvernig menn ætla að tengja saman uppbyggingu orkukerfisins og nýtinguna. Þar er þó best að taka fram í upphafi, að í þessar stóru og hagkvæmu virkjanir getum við ráðist og lítið síðan á og metið í framhaldinu hversu hratt við nýtum orkuna, vegna þess að við höfum ekki hagstæðari kosti til orkuöflunar að mati sérfróðustu aðila en einmitt þá sem hér eru taldir, a. m. k. þegar um er að ræða Fljótsdalsvirkjun og Blönduvirkjun, jafnvel þó við séum eingöngu að virkja fyrir almennan markað í landinu. Sé það markmiðið að virkja sem hagkvæmast og virkja sem ódýrast getum við gengið þannig fram. Þess vegna tel ég ekki skynsamlegt að vera að tengja heimildir fyrir þessar virkjanir við ákvörðun um stórnotanda eða sölu til orkufreks iðnaðar, þó að slíkt gæti komið til greina ef öllum undirbúningi þar að lútandi væri lokið þannig að menn teldu sig geta gert slíkt dæmi upp með viðunandi hætti. Þetta er sem sagt einn möguleikinn, og hann skulum við hafa í huga þegar við ræðum þessi mál, að það er engin nauðung, eins og ég hef orðað það í umr. hér áður, að við þurfum að ráðast í stóriðju eða orkufrekan iðnað í landinu vegna þess að við erum að virkja það sem við köllum vera stórt. Við erum einfaldlega lengur að nýta þessar hagkvæmu virkjanir ef við tengjum þær ekki við atvinnuuppbyggingu.

En síðan kemur hin spurningin: Er það skynsamlegt fyrir íslenskan þjóðarbúskap, fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu að hagnýta þessar orkulindir, í þessu tilviki raforkuna, sem bakhjarl fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu? Þar er mitt svar nokkuð afdráttarlaust. Ég er þeirrar skoðunar, að í þessum orkulindum eigum við góðan bakhjarl fyrir atvinnuuppbyggingu í landi okkar á næstu árum og áratugum ef rétt er að málum staðið. En við þurfum að standa þannig að þeirri atvinnuuppbyggingu að hún verði okkur ekki að fótakefli efnahagslega eða hvað varðar sjálfstæði þjóðarinnar. Þar er hið efnahagslega sjálfstæði, eins og við væntanlega erum allir sammála um, undirstaða undir hinu pólitíska sjálfstæði. Það er mat mitt og míns flokks, að þessar forsendur séu ekki tryggðar nema við Íslendingar höfum forræði yfir þessum atvinnurekstri sem öðrum í landinu. Því viljum við ekki fara hraðar í þessum efnum en svo, að Íslendingar hafi þarna tök á málum og geti ráðið ferðinni. Þarna kann menn að greina á og hefur reyndar komið nokkuð ljóslega að skoðanir eru skiptar.

Nú ætla ég ekki að fara langt út í þá sálma að ræða hér einstaka orkunýtingarkosti. Ég vil hins vegar víkja hér að einu atriði, sem oft virðist gleymast í umræðum um þessi mál og mér þótti allnokkuð á skorta hjá hv. frsm. í máli hans í sambandi við umr. um þennan þátt málsins, orkunýtingunni, nýtingu þessarar auðlindar til uppbyggingar atvinnulífs í Íslandi, og spurningunni um hvaða stefnu við höfum og hvaða viðhorf við höfum til verðlagningar á orkunni til stórnotenda á Íslandi, ekki síst ef við ætlum að eiga þar einhver samskipti við erlenda aðila, sem ég útiloka ekki að skynsamlegt geti verið í einhverjum mæli í vissum tilvikum. Þá þurfum við sannarlega á því að halda að hafa mótað okkur um það stefnu hvað við ætlum að fá fyrir þessa orku, hvernig við ætlum að verðleggja hana. Þar vara ég afar sterklega við þeirri hugsun, að við eigum að henda okkur til sunds með því að fara að virkja og virkja í þessum og hinum landshlutanum, jafnvel samtímis, með þann hugsunarhátt að auglýsa eftir kaupendum úti um heiminn, auglýsa með þeim hætti sem stundum hefur heyrst í máli manna sem hratt hafa viljað fara í þessum efnum, að hér uppi á Íslandi sé að hafa orku sem kosti sáralítið, sé nánast að hafa fyrir „spottprís“. Þannig eigum við ekki að ganga til verka.

Mér rennur það til rifja þegar ég heyri menn ræða um það í sömu andránni, eins og við höfum orðið vitni að á undanförnum dögum og vikum, að við eigum m. a. að hraða okkur mjög í virkjunum í landinu til þess að geta stækkað álverið í Straumsvík, væntanlega undir þeim merkjum sem þar er siglt, og það jafnvel réttlætt með því að með því eigum við að geta fengið meira verð fyrir orkuna. Ætli sé nú ekki vænlegt, hv. þdm., að sjá framan í það, hvaða möguleikar eru á að ná fram einhverri sanngirni í viðskiptum við þann erlenda aðila, sem þar er við að eiga, áður en menn fara að bjóða fala meiri orku við lágu verði til þess fyrirtækis? Ég tek þetta hér sem dæmi til þess að undirstrika þýðingu þess, að í sambandi við umræður um þessi mál í umræðum um orkufrekan iðnað, höfum við það mjög vel í huga að við þurfum í sambandi við stefnumótun um þessi atriði að marka okkur stefnu um hvað við viljum fá, hvaða svigrúm það er sem við erum að tala um í sambandi við orkuverð í þessum efnum. Við þurfum að gæta þess, að við erum hér að tala um hina miklu fjárfestingu í þessum virkjunum og við höfum ekki það upp úr því sem við þurfum að hafa og eigum að geta haft nema við séum orðnir sæmilega sameinaðir um það, Íslendingar og íslensk stjórnvöld, hvað við viljum hafa fyrir þessa auðlind. Hvar ætlum við að setja mörkin? Ekki er ráðlegt að standa þannig að málum að sitja uppi með svo og svo mikið af virkjaðri orku og vera í vandræðum með fjárfestinguna og fjárfestingarkostnaðinn og nánast vilja ganga að hverju sem er í sambandi við orkusöluna. Þannig eigum við ekki að standa að málum.

Við, sem að áætlunum vinnum um þessi efni, höfum talið skylt að horfa á þennan þátt mála jafnhliða og reyna að reisa merki um að við stingum við fæti í sambandi við það verð sem við ætlum okkur að fá, ef við ætlum að nýta þessa orku í atvinnuuppbyggingu í landinu þannig að íslenskt þjóðarbú hafi eitthvað annað upp úr því en kannske glundroða í öðrum atvinnurekstri í landinu, kollsteypu sem þegar upp er staðið gefur kannske minna en ekki neitt.

Herra forseti. Ég hef þegar tekið nokkurn tíma hér til að ræða þessi efni og á þó raunar afar margt ósagt af því sem leitar á hugann þegar farið er yfir þessi mál. En ég vil ekki að við séum hér að efna til meiri deilna um mál en efni standa til eða nauðsyn krefur. Ég vænti þess, að stjórnarandstaðan geti tekið undir það stefnumið ríkisstj. að næst skuli ráðist í virkjun fyrir landskerfið utan eldvirkra svæða, utan Suðurlands. Ég vil alveg sérstaklega í því samhengi vara við þeim málflutningi, sem fram hefur komið í umr. um þessi mál, að það sé nauðsynlegt að fara í virkjun hér á Suðurlandi til að lenda ekki í orkuskorti svipað og gerst hefur á yfirstandandi vetri, að fara að taka mið á Sultartangavirkjun til að lenda ekki í orkuskorti. Sem betur fer er ekki þörf á slíku. En það er hins vegar þörf á að gera ráðstafanir og það á allra næstu árum til að bæta stöðu þeirra virkjana og þess afls, sem búið er að setja niður á Suðurlandi, með vatnaveitum, með mannvirkjum sem gera það kleift að ráða við ísvandamálin í Þjórsá við Búrfellsvirkjun. Um það vænti ég líka að ekki sé ágreiningur. En að slíkum mannvirkjum gerðum og með því að vinna jafnframt að virkjun utan Suðurlands getum við með auðveldum hætti náð saman endum í okkar orkubúskap og jafnframt haft einhverja orku aflögu til orkufreks iðnaðar í landinu, sem yrði að vísu ekki stórfelldur á allra næstu árum, á þeim árum sem við erum að vinna okkur út úr því stóra verkefni að koma innlendum orkugjöfum í gagnið í húshitum í landinu og koma orkudreifingunni í landinu í viðunandi horf. Í það fjárfestum við mikið á þessum árum og á sama tíma og við þurfum að vinna okkur markvisst fram úr því verkefni að finna eðlilega kosti í iðnaðaruppbyggingu í landinu, — kosti sem reynast ekki neikvæðir efnahagslega, sem reynast búhnykkur, en ekki hið gagnstæða. Að þeim málum er unnið og ég vil að að því sé staðið í góðri samvinnu við Alþingi.

Á vegum ríkisstj. er starfandi nefnd sem vinnur að því að marka fyrir hennar hönd orkustefnu næstu ára og áratuga. Ég vænti þess, að útlínur að þeirri stefnu liggi fyrir með vordögum þannig að hv. stjórnarandstaða geti einnig sagt sitt álit á þeirri stefnumörkun áður en hún kemur til frekari meðferðar hjá þinginu á komandi vetri. Þá á ég við alla þá þætti sem eðlilegt er að dregnir séu mn í sambandi við stefnumörkun í orkumálum til langs tíma, einnig að því er snertir orkuverð, verðlagningu á orku til atvinnurekstrar og stórnotenda í landinu. Ég tel að við þurfum að nýta þennan tíma vel, næstu misseri og næstu ár, til að leggja undirstöður undir skynsamlega hagnýtingu orkulinda okkar til eflingar atvinnulífs í þessu landi. Þar er það auðvitað mikilsvert verkefni að koma innlendum orkugjöfum í gagnið hvarvetna þar sem hagkvæmt og skynsamlegt reynist, væntanlega einnig með eldsneytisframleiðslu áður en mjög langur tími liður, þannig að öryggi okkar sé sem best tryggt og við séum reiðubúnir að taka á í þeim efnum strax og hagkvæmni og öryggissjónarmið bjóða, en einnig til að efla útflutningsframleiðslu með orkulindir okkar sem bakhjarl. Þar er raforkan auðvitað einn þýðingarmesti þátturinn. En við skulum ekki gleyma jarðvarmanum að heldur, því að ekki síst á sviði iðnaðar mun hann reynast okkur notadrjúgur í framtíðinni.

Herra forseti. Það ætti ekki að vera mitt að vanþakka þær heimildir sem hér er lagt til að framkvæmdavaldið fái í þessum efnum. Ég tel eðlilegt að á þessi mál, þær tillögur sem hv. sjálfstæðismenn í stjórnarandstöðu í þessari þd. hafa hér lagt fram í frv.-formi, sé lítið jafnhliða þeim tillögum sem ríkisstj. mun leggja fram í þessum málum innan skamms. Ég vænti þess vissulega að sem best samstaða geti tekist um þessi efni og áfram verði unnið eins og að undanförnu að því að leysa þau efni og álitamál sem varða einstaka framkvæmdaþætti í sambandi við raforkuöflunina.