23.03.1981
Neðri deild: 65. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3025 í B-deild Alþingistíðinda. (3164)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Í forföllum hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, sem er frsm. fjh.- og viðskn. Nd., mæli ég fyrir nál. á þskj. 509 um frv. til l. um ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu. Þetta er nál. frá 2. minni hl. nefndarinnar.

Nefndin hefur fjallað um frv. Haldnir voru sameiginlegir fundir um málið og bárust margháttuð gögn, eins og fram kemur í nál úr Ed.

Eftir að frv. barst n. í Nd. hefur verið rætt við fulltrúa frá fjmrn. um skattamál og fulltrúa frá Kjararannsóknarnefnd um þróun kaupmáttar.

Fjh.- og viðskn. Nd. klofnaði í afstöðu til málsins, eins og fram kemur á framlögðum þskj. Mér er þó óhætt að fullyrða að allir nm. séu sammála um eitt meginatriði, en það er að verðbólga sú, sem herjað hefur hér um árabil, sé mikill bölvaldur. Þegar umræðan beindist aftur á móti að því, hverjar leiðir væru líklegar til að lækka verðbólguna, skildust leiðir.

Við, sem stöndum að nál. á þskj. 509, teljum að með samþykkt frv. þess, sem hér liggur fyrir, megi vænta verulegs árangurs til hjöðnunar verðbólgu, eins og raunar blasir við nú þegar, en hér er um brbl. að ræða sem í gildi hafa verið hátt á þriðja mánuð og hafa sýnt verulegan árangur á þessu sviði. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. mælir því eindregið með því, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir. 2. minni hl. skipa Halldór Ásgrímsson, Ingólfur Guðnason og Guðmundur J. Guðmundsson.