24.03.1981
Sameinað þing: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3058 í B-deild Alþingistíðinda. (3184)

377. mál, greiðslufrestur á tollum

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Eftir að frv. um það mál, sem hér er spurt um, voru lögð fram á Alþingi í fyrravor og þeim vísað til hv. fjh.- og viðskn. voru þau send til umsagnar öllum þeim aðilum sem talið var rétt að fengju þetta mál til umfjöllunar. Þessir aðilar hafa allir sent sínar umsagnir til nefndarinnar og fjmrn. hefur að sjálfsögðu fengið umsagnir þessara aðila líka. (Gripið fram í.) Hefur rn. ekki fengið umsagnirnar? Ef svo er, þá er mjög auðvelt að bæta úr því. Ég vil þess vegna undirstrika og ítreka það sem kom fram í máli hv. 10. þm. Reykv., þ. e. hvort hv. fjmrh. væri ekki reiðubúinn til að taka upp samstarf við fjh.- og viðskn. til þess að reyna að ná fram afgreiðslu á þeim frumvörpum sem nú þegar liggja fyrir þessari hv. deild og voru flutt snemma á þessu þingi. Það gæti orðið til þess að hraða þessu máli. Ég trúi því, að ef menn hefðu verulegan áhuga á að koma þessu máli fram, svo sem við flm. höfum og mjög þarft er að það nái fram, þá held ég að mjög auðvelt væri að vinna þannig að þessu máli að frumvörpin gætu orðið að lögum áður en þessu þingi lyki.