26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3119 í B-deild Alþingistíðinda. (3258)

239. mál, vínveitingar á vegum ríkisins

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Út af orðum hv. síðasta ræðumanns, hæstv. forseta Sþ., vil ég segja þetta: Það var síður en svo ætlun mín að drótta einu eða neinu að þeim ágætu mönnum sem gegna forsetastöðum Alþingis nú, enda líklega síður en svo ástæða til í þessum efnum. Þetta eru stakir reglumenn — flestir — og bindindismenn. Hitt sagði ég og bað forseta, þá sem hér væru inni og þá sem e. t. v. kynnu að vita betur, að leiðrétta ef ég færi með rangt mál. Það hefur verið gert hér nú. Ég þarf ekki að upplýsa hvaðan þessi vitneskja mín er. Ég tel mig hafa fengið hana frá mönnum sem ég get treyst að fari með rétt mál.

Ég vil sérstaklega leggja áherslu á það, þó að það kæmi líklega ekki fram í máli mínu, að ég á ekki eingöngu við forseta Alþingis. Ég á við Stjórnarráðið almennt, ráðh. landsins sem halda veislur í Ráðherrabústaðnum eða annars staðar.

Með tilliti til þess, hve þungar ásakanir ég fékk hér fyrir ósæmilega hegðun mun ég kanna þetta mál nánar. Það er nefnilega ýmislegt sem er ekki í hámælum haft, en gerist engu að síður. Ég hef tekið þetta sem hefð sem búið er að skapa í kringum Stjórnarráð Íslands eftir að Alþingi hætti að veita ákveðna risnu í áfengi sem löngum hefur tíðkast hér. Það veit ég að hæstv. forsetum Alþingis mun kunnugt um, að þarna var gerð breyting á og að því er ég hef talið á vitorði allra hv. þm. hefur önnur hefð verið upp tekin.