26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3124 í B-deild Alþingistíðinda. (3263)

242. mál, rannsóknir á háhitasvæðum landsins

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil í tilefni þessarar þáltill. segja örfá orð.

Ég vil byrja á að þakka flm. hennar fyrir þann áhuga sem þeir sýna þessu málefni: að efla með skipulegum hætti rannsóknir á háhitasvæðum landsins. 1. flm., sem mælti hér fyrir þessu máli og rakti grg. með þáltill., á þakkir skildar fyrir vandaðan undirbúning að þessari tillögugerð, eins og vænta mátti, en hann er áhugamaður um orkumál og hefur sjálfur unnið að þeim málum sem verkfræðingur. Ég get því tekið undir það sem fram kemur í þáltill., bæði efnislega í till. sjálfri og eins þau atriði sem gerð er grein fyrir í grg. með till. Þau eiga öll erindi, að því er mér virðist, inn í það samhengi sem till. beinist að.

Við erum hér með geysilega mikla auðlind sem á eflaust eftir að nýtast þjóð okkar í framtíðinni ekki síður en vatnsaflið og aðrar auðlindir sem þjóðin hefur úr að spila. En þetta er orkulind sem við höfum ekki nýtt meira en vatnsaflið og kannske hlutfallslega minna, ef marka má grófar áætlanir sem fyrir liggja um hversu mikil hún sé að magni til. En þar er vitneskjan enn þá takmörkuð vegna takmarkaðra rannsókna, ekki síst á háhitanum. Tölur, sem eru nokkurra ára gamlar, í þessu samhengi gera ráð fyrir að háhitinn geti numið um 80 þús. gwst. í varmaorku. Er þá talið að þar sé um lágmark að ræða, því að það er eflaust mjög undir tækni komið og tækniþróun í þessum málum hversu langt mé sækja í þessum efnum. Það má vel vera að í framtíðinni verði hægt að sækja í jarðvarmann víða á hinu gosvirka belti landsins út fyrir þau svæði þar sem jarðvarminn gerir nú vart við sig á yfirborði, á hinum svonefndu háhitasvæðum fyrir utan lághitasvæðin sem við höfum verið að nýta í þágu húshitunar og ylræktar á undanförnum árum og þar á marga lund verið staðið myndarlega að verki.

Nýtingarmöguleikar háhitans eru, eins og gerð er grein fyrir með þessari þáltill., fjölþættir. Það er ekki síst slík fjölþætt nýting sem við eigum að hafa í huga við þær áætlanir sem gera þarf og kosta fjármagn eins og aðrar rannsóknir. Ég hef þá í huga nýtingu fyrir utan þá hagnýtingu til raforkuframleiðslu sem þegar er í gangi á þremur svæðum á landinu: í Svartsengi, í háhitasvæðinu við Námafjall í Bjarnarflagi og við Kröflu svo sem þekkt er. Fyrir utan þessa nýtingu til raforkuframleiðslu er jafnhliða hægt að nýta varmann í þágu iðnaðar og á öðrum sviðum, svo sem til ylræktar, bæði varðandi gróður og dýr, þ. e. græðlingarækt, svo að dæmi séu tekin, og fiskrækt, sem hagnýta má í þrepum með nýtingu sama svæðis, sömu notkun. Og það skiptir ekki minna máli, eins og hér hefur verið gerð grein fyrir, að vel sé staðið að þessum málum ekki síður en í sambandi við nýtingu vatnsaflsins. Í rauninni erum við hér með flóknara verkefni á ferðinni. Þeim mun meiri ástæða er til að hugað sé að undirbúningi og rannsóknum með tímann fyrir sér, að ætla sér góðan tíma til þessara verkefna. Ég tel að liður í þeirri orkustefnu, sem ríkisstj. vinnur að að móta, þurfi einmitt að vera rannsóknaáætlun um háhitann í svipuðu formi og vakin er athygli á með þessari þáltill.

Eignarrétturinn á þessari auðlind skiptir verulegu máli þegar hugsað er til rannsókna og ekki síður til nýtingar. Það hefur verið áhugamál ýmissa á undanförnum árum að fá úr því skorið, hverja beri að telja eigendur að þessari auðlind. Viðhorf okkar Alþb.-manna í þeim efnum eru ljós. Þau hafa verið sett fram í sambandi við stefnumótun okkar um orkumál í þá veru að líta beri á þann jarðvarma, sem sækja þarf niður í iður jarðar með borunum, t. d. miðað við 50–100 m dýptarmörk, sem almenningseign. Að undirbúningi löggjafar að þessu leyti er unnið og hafa raunar áður komið fram frumvörp hér á Alþingi sem sérstaklega varða háhitasvæðin. Ég minni á tillöguflutning Magnúsar Kjartanssonar, fyrrv. iðnrh., sem ítrekað flutti frv. um að háhitasvæði landsins skyldu verða almenningseign, og ég tel brýnt, ekki síst vegna þess að nú er orðið fyllilega tímabært að herða á rannsóknum og hugsa til nýtingar þessara auðlinda meira en verið hefur, að fyrr en seinna fáist úr þessu skorið varðandi umráða- og eignarrétt yfir þessari miklu auðlind.

Í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. er gert ráð fyrir að sett verði lög um eignar- og umráðarétt jarðhita. Ég vænti þess, að hægt verði að sýna á yfirstandandi þingi frv. þar að lútandi til kynningar, því að ljóst er að það verður tæpast afgreitt á mjög stuttum tíma, en gæti orðið grundvöllur fyrir efnislegri meðferð og væntanlega afgreiðslu málsins og lagasetningu að þessu leyti á næsta þingi.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að bæta hér við fleiri orðum þó mjög margt mætti um þetta segja. Það er rétt, sem hv. frummælandi sagði áðan, að einmitt á þessu sviði getum við Íslendingar verið veitendur í sambandi við orkumál í alþjóðlegu samhengi og erum það nú þegar með vissum hætti. Það þýðir ekki að við höfum náð þeim tökum sem æskilegust séu á rannsóknum þessara mála, hvorki skipulagslega né tæknilega. Við eigum þar mjög margt ólært og eftir að móta stefnu okkar skýrar en tekist hefur til þessa. En það er eitt þýðingarmesta atriðið að skilningur sé fyrir því hér á löggjafarsamkomunni, sem fer með fjárveitingavaldið, að fjármagn fáist til nauðsynlegra rannsókna, nauðsynlegs undirbúnings. Við munum áreiðanlega ekki þurfa að sjá eftir þeim krónum sem til þess er varið. Þvert á móti getum við vænst þess að uppskera af slíkri fjárfestingu í rannsóknum á þessu sviði ríkulega í framtíðinni. Því vil ég eindregið hvetja til þess, að veitt verði fjármagn í þessu skyni í vaxandi mæli á komandi árum og jafnhliða því sem við áttum okkur á hagnýtingarmöguleikunum betur en verið hefur, en það byggist að sjálfsögðu m. a. á niðurstöðum þeirra rannsókna sem hér er gerð tillaga um að ráðist verði í.