31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3191 í B-deild Alþingistíðinda. (3316)

375. mál, lán til íbúðabygginga

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það hefur komið fram í umr. um þessa fsp., að tekið hefur nokkuð langan tíma að afgreiða þetta mál. Það er út af fyrir sig alveg rétt. Það hefur tekið talsverðan tíma, en til þess liggja alveg sérstakar ástæður.

Félmrh. greindi frá því, að það hefði verið sett nefnd í málið og hún hefði skilað áliti sínu á skömmum tíma. Þessi mál eru þannig vaxin, að lausaskuldir fólks eru yfirleitt í bönkunum, hjá sparisjóðnum og síðan í byggingarvöruverslunum, bæði einkaverslunum og í kaupfélögunum. Það er ljóst að leita þarf samkomulags við bankana og við sparisjóðina um hvernig með þessi mál skuli farið, því að að langmestu leyti eru þessi lausaskuldalán hjá bönkum og sparisjóðum. Það voru þess vegna teknar upp viðræður við bankana og fulltrúa sparisjóðanna strax eftir að nefndin hafði skilað áliti sínu, og síðan hafa þessir aðilar verið að fjalla um málin og þau hafa verið í nokkurri biðstöðu á meðan. Þau eru ekki alveg einföld vegna þess að hér er um að ræða margs konar tæknileg vandamál sem þarf að leysa úr áður en endanlega er gengið frá þessum málum.

Varðandi kjörin er mér óhætt að segja að það sé í öllum aðalatriðum samkomulag um þau. Ég vonast til þess, að náð verði fullu samkomulagi um þau alveg á næstunni, um það, hvernig þessu verður fyrir komið. Það getur auðvitað verið með ýmsu móti, en ríkisstj. leggur alveg sérstaklega áherslu á að þannig verði gengið frá þessum málum og um þau fjallað með þeim hætti að sem aðgengilegast verði fyrir einstaklingana og þeir geti fengið afgreiðslu sinna mála á einum stað, en þurfi ekki að ganga á milli margra stofnana og margra aðila til að fá þau leyst.

Ein af ástæðunum fyrir því, að þetta hefur tekið sinn tíma, er sú, að sparisjóðirnir í landinu hafa lánað mikið af skammtímalánum einmitt vegna húsnæðismála. Það er talið að yfir 50% af ráðstöfunarfé sparisjóðanna liggi einmitt í lánum vegna húsnæðismála. Þess vegna hefur það verið erfiðara fyrir sparisjóðina en t. d. fyrir bankana að taka ákvarðanir um hvernig með þetta skuli farið. En eins og ég sagði áður held ég að samkomulag um þessi mál sé alveg handan við hornið og niðurstöður geti legið fyrir alveg á næstunni.