31.03.1981
Sameinað þing: 68. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3238 í B-deild Alþingistíðinda. (3366)

267. mál, menntun fangavarða

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Það er komið fram yfir venjulegan fundartíma svo ég skal aðeins segja örfá orð.

Í fyrsta lagi fagna ég þeirri umr., sem hér hefur orðið, og ég fagna ekki síður því, hversu víðtæk hún hefur orðið. Við flm. vissum að þegar við kæmum fram með till. af þessu tagi, yrðu umr. um hana á annað borð, þá yrðu þær viðkvæmar og næðu yfir flest svið þessara mála. Þær hafa gert það, sem betur fer, og því ber að fagna, því að öll eru þessi mál þannig að þau eru vissulega okkur til umhugsunar, jafnframt því sem ég er enn sannfærðari en ég var um að hér er að réttu upphafi vikið í þessari till. mjög réttilega og nauðsyn að koma því sem fyrst á

Hæstv. dómsmrh. sagði réttilega að þessi menntun, sem er reyndar ekki öðruvísi en samkvæmt sérbókun í kjarasamningum, væri yfirborðskennd. Því miður er það einmitt það sem fangaverðir hafa verið að benda á, að hún væri allt of yfirborðskennd, hún nægði þeim engan veginn, þeir væru ekki ánægðir með hana, þeir vildu meiri menntun og staðbetri til þess að byggja á starf sitt og það væri aðalkrafa þeirra.

Hér hefur fjármagnið komið til umr. og að hér þyrftu eftir að fylgja vissar fjárveitingar ef þessi till. ætti ekki að vera sýndarmennska ein. Hv. þm. Albert Guðmundsson þekkir okkur alla flm. að því að flytja ekki sýndartillögur í sambandi við svona mál. Ég hygg því að hann hafi ekki verið með þá meiningu að baki og að till. væri flutt í þeim tilgangi, enda ítrekaði hann einmitt stuðning við hana og lagði áherslu á að hún næði sem allra fyrst fram að ganga til þess einmitt að byggja á nauðsynlegan grunn fyrir fjárveitingu til þessarar menntunar, því það vita menn, að eftir að menn eru búnir að lögfesta slík atriði er ólíkt léttari róðurinn að ná fram fjárveitingum til þeirra mála en ef menn svífa meira og minna í lausu lofti. Lögregluskólinn hefur t. d. sannað að þegar þar var um ákveðna lögleiðingu að ræða, ákveðna menntun að ræða, þá hafa fjárveitingar til þess farið nokkuð — að vísu ekki fullnægjandi eflaust, en nokkuð eftir því sem til hefur verið ætlast. Þannig reikna ég einnig með að verði ef þessi till. verður samþ. og menn koma því í verk að lögleiða þessa menntun. — Þá verður ekki mjög erfitt að sækja á fjárveitingavaldið með að veita það nauðsynlega fjármagn sem þarf.

Ég veit þetta af reynslu úr fjvn. Ég veil hvaða grunn við þurfum að hafa þar. Hæstv. dómsmrh. hefur starfað þar líka og veit að grunnurinn að þessu er ákveðin lagasetning sem leggur ríkisvaldinu ákveðnar skyldur á herðar varðandi lágmarksmenntun eins og við erum hér að tala um. Þar af leiðandi er fjárveitingavaldið skyldugt um leið til þess að taka til þess jákvæða afstöðu og veita til þess fé.

Hitt er svo annað mál, sem hér hefur verið komið nokkuð inn á og ég hef kannske ekki gert nægileg skil í upphafi, fangelsismálin almennt, en ég sagði það og segi enn: Þar er um svo víðtækt og viðamikið mál að ræða að við flm. sem aðrir hér inni treystum okkur áreiðanlega ekki til að taka þau fyrir í einni þál. Það þarf miklu meira til. En ég vona og veit reyndar að hæstv. dómsmrh. mun vinna að þessum málum öllum í heild, ekki bara þessu, heldur öllum í heild, til hagsbóta fyrir þá sem njóta eiga.

Ég skal svo láta mín lokaorð vera þau, að vitanlega skiptir það mjög miklu máli að til starfa af þessu tagi, sem snerta mjög viðkvæm mannleg samskipti, veljist góðir menn. En ég er sannfærður um að ef rétt er að menntun þessara manna staðið gerir hún það sem hér var sagt áðan: Hún gerir góða menn betri.