05.11.1980
Efri deild: 9. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

73. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Enn mæli ég fyrir frv. í þessari hv. deild og nú frv. til l. um breyt. á lögum um útflutningsgjald af sjávarafurðum, nr. 5 13. febr. 1976, og er það þskj. 79.

Núverandi útflutningsgjald er 5.5% af fob-verðmæti útfluttra sjávarafurða og er það nær almenn regla. Í eldri lögum um útflutningsgjald — fyrir breytingu á sjóðakerfi sjávarútvegsins 1976 — var heimilað að draga frá fob-verðmæti saltsíldar ákveðna fjárhæð vegna umbúðakostnaðar. Það er ekki óeðlilegt þar sem umbúðakostnaður er mikill hluti af framleiðsluverðmæti saltsíldar, en að sjálfsögðu, eins og hv. þm. vita, eru þessar umbúðir innfluttrar og síðan fluttar út aftur. Þessi heimild var notuð t.d. á árinu 1975. Við sjóðakerfisbreytinguna var þessi heimild felld niður, enda var útflutningsgjald þá lækkað og reynt að afnema sem flest sérákvæði.

Síldarsöltun hefur algera sérstöðu, eins og ég rakti áðan, og þykir því rétt að flytja nú frv. um niðurfellingu þessa gjalds að þessu sinni.

Þetta er forsenda fyrir þeirri verðákvörðun sem samkomulag varð um á milli kaupenda og seljenda. Ég taldi ekki annað fært en að fallast á þetta samkomulag, enda eru forsendur mjög sterkar fyrir því, að þetta sé gert.

Kostnaður við hverja tunnu og einkum kostnaður við sérstök hjálparefni, svo sem krydd og sykur, hefur hækkað verulega frá því í fyrra, úr því að vera 10 þús. kr. í um 15600 kr. fyrir hver 100 kg innihalds í tunnu.

Jafnframt er lagt til að gerð verði samsvarandi breyting og gerð var í fyrra með lögum nr. 101/1979 til lækkunar á útflutningsgjaldi til þess að greiða fyrir síldveiðum og síldarsölu á þessari vertíð, einkum ediksöltuðum síldarflökum eða söltuðum síldarflökum sem verkuð eru á svipaðan hátt. Þessi síldarflök eru seld til Efnahagsbandalagslanda, fyrst og fremst til Vestur-Þýskalands, en þar hefur orðið sú þróun upp á síðkastið að tollur hefur verið lagður á útfluttar síldarafurðir frá löndum utan Efnahagsbandalagsins. Enginn tollur var innheimtur fyrst, síðan 3% og nú 5% þannig að með þeim tolli reynist ógerningur að ná því verði sem um hefur verið samið við seljendur.

Ég vil jafnframt geta þess, að því miður eru á þessum markaði mjög miklar blikur á lofti nú. Þar eru kröfur um enn meiri hækkun á unnum síldarafurðum. Rætt er um toll frá 7.5% í 20%. Um þetta hefur verið rætt við hæstv. viðskrh., sem mun taka þessi mál til meðferðar í viðræðum við Efnahagsbandalagið um slík tollamál. Þarf ekki að taka fram að hækki tollur svo er nokkurn veginn örugglega girt fyrir sölu á saltaðri síld til Efnahagsbandalagslanda.

Önnur ástæða, sem mér þótti nauðsynlegt að taka tillit til þegar ég ákvað að leggja fram umrætt frv., er sú staðreynd að sala á síld nú virðist ýmsum vandkvæðum bundin. Að vísu hafa náðst betri samningar um saltsíld en menn gerðu sér vonir um, fyrst við Svía og síðan við Rússa. Þar er selt fyllilega það magn sem menn gera ráð fyrir að unnt verði að vinna. Hins vegar er sala á frystri síld erfiðleikum háð og alger óvissa um þá sölu. Sölustofnanir hafa ekki getað gefið upp ákveðið magn til frystingar. Þetta er vandamál sem hlýtur að koma til umfjöllunar næstu daga, því þá verður að fullu saltað upp í þá samninga sem tekist hefur að gera um sölu á saltaðri síld. Af þessari ástæðu þótti mér jafnframt nauðsynlegt að stuðla að því að selja mætti ediksaltaða og sérverkaða síld til Vestur-Þýskalands.

Herra forseti. Að þessum orðum sögðum og lokinni þessari umr. legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.