01.04.1981
Neðri deild: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3270 í B-deild Alþingistíðinda. (3384)

221. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. lætur ekki mikið yfir sér, enda er það ekki nema um fjórar línur að lesmáli. En þrátt fyrir það að ekki eru mörg orð í frv. er hér um mjög veigamiklar breytingar að ræða, sem frv. gerir ráð fyrir, og farið mörg skref aftur á bak frá þeirri þróun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. Með lögunum frá 13. febr. 1976 voru lagaákvæði um mismunandi útflutningsgjöld af sjávarafurðum numin úr gildi og í þeirra stað lagt eitt útflutningsgjald á allar sjávarafurðir. Þá nam þetta gjald um 6% af fob-verði útfluttra sjávarafurða. Gjaldið var síðan lækkað á árinu 1979 í 5% og síðan hækkað á s. l. ári í 5.5%.

Eins og hæstv. sjútvrh. sagði er sú breyting á útflutningsgjaldinu, sem hér er lagt til að verði gerð, í tengslum við fiskverð, hið síðbúna fiskverð á s. l. vetri, sem ekki var ákveðið fyrr en rúmum mánuði eftir að það átti að liggja fyrir. Þetta frv. gerir ráð fyrir afturvirkni vegna þess að þar segir: „Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. skal útflutningsgjald af frystum sjávarafurðum framleiddum á árinu 1981 nema 4.5% af fob-verðmæti útflutnings og útflutningsgjald af skreið og hertum þorskhausum framleiddum á árinu 1981 10% af fob-verðmæti útflutnings.“

Það er liðinn fjórðungur af árinu þegar fyrir þessu frv. er mælt hér í hv. þingdeild, og þar er lagt til að gerðar séu veigamiklar breytingar sem eiga að ná til framleiðslu á sjávarafurðum frá 1. jan., um s. l. áramót.

Ég vil lýsa því yfir, að ég er algjörlega andvígur þessari breytingu á útflutningsgjaldinu, því að það hefur í för með sér að hér er verið að breyta þeirri stefnumörkun sem Alþingi hefur samhljóða fallist á árum saman, að samræma útflutningsgjald af sjávarafurðum, en ekki láta markaðsaðstæður ráða breytingum á gjaldinu hverju sinni. Með þessu frv. er gengið þvert á tilgang laganna um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, en samkvæmt þeim lögum eru þar sjálfstæðar deildir sem hver fyrir sig á það fjármagn sem hver framleiðslugrein fyrir sig leggur henni til.

Það hafa skipst á skin og skúrir í framleiðslu hinna einstöku greina í sjávarútvegi, bæði fyrir og eftir að Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins tók til starfa. Ég minni á að í mörg ár var skreiðarmarkaðurinn afar veikur og sala á skreið var nánast óframkvæmanleg á tímabili. Þó að nú hafi ræst úr er það tilgangur laganna um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, að þá eigi þessi grein að leggja meira til sinnar deildar til þess að taka við sveiflum sem kunna að verða á mörkuðum. En með þessu frv. er farið út á þá óheillabraut að taka kúfinn af, þar sem eru möguleikar á að hagnast um stundarsakir, og færa yfir til annarra greina. Eins og Verðjöfnunarsjóðurinn er byggður upp er hér gengið alveg þvert á það sem áður hefur gerst, allt frá því að lögin tóku gildi. Ég fyrir mitt leyti vara við þessum aðgerðum og tel þær stórhættulegar. Það er ekki hægt að taka með þessum hætti af þessari grein þó að hún sé góð nú í bili. Það getur verið að þessi markaður hrynji jafnvel á næstu mánuðum og þá veiti þessari deild Verðjöfnunarsjóðsins ekki af að eiga sterkan varasjóð til að mæta verðsveiflum á erlendum mörkuðum. En ef það á, þegar gengur vel hjá einni grein, að taka af henni til þess að jafna upp í þeim greinum, sem þá eru verr settar, þá verður Verðjöfnunarsjóður aldrei því hlutverki vaxinn að standa undir neinum verðsveiflum á erlendum mörkuðum. Þá er verið að stefna að því að byggja aldrei upp neina deild í sjávarútvegi, þannig að aldrei verður hægt að nota Verðjöfnunarsjóðinn til þess að taka á sig verðsveiflur á erlendum mörkuðum. Þetta hlýtur hver einasti maður að skilja. Hér er farið inn á svo varhugaverða leið með þessu, stórvítaverða, að ég furða mig á því að þetta skuli hafa verið samþykkt í ríkisstj.

Og nú vil ég leyfa mér að spyrja ráðherra, aðra ráðherra en hæstv. sjútvrh., hvort þeir hafi gert sér ljóst að þeir eru að eyðileggja Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins með því að fara inn á þessar brautir, hvort það sé ætlun þeirra og ætlun stuðningsliðs þessarar hæstv. ríkisstj. að eyðileggja Verðjöfnunarsjóðinn, koma í veg fyrir að Verðjöfnunarsjóðurinn geti tekið á sig verðsveiflur á erlendum mörkuðum í framtíðinni. Til hvers hefur þá verið barist í þessi ár frá því að Alþingi setti svo að segja samhljóða lögin um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins? Hafa hæstv. ráðherrar gert sér grein fyrir því, þegar þeir lögðu blessun sína yfir að þetta frv. væri flutt sem stjfrv., hvað þeir eru um leið að leggja til að verði um Verðjöfnunarsjóðinn og hvað þeir eru um leið að leggja til að farið sé langt aftur í tímann og þessi viðleitni öll eyðilögð í einu vetfangi?

Það hafa fyrr, líka á árunum eftir að Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins var stofnaður, verið sveiflur í einstökum greinum og sömuleiðis í frystingu. En það hefur aldrei verið léð máls á því að fara inn á þessar brautir, vegna þess að um leið og það er gert er verið að kippa grundvellinum undan Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins. Þó að þetta mál líti sakleysislega út á pappírnum, þá er á bak við það verið að rífa niður það sem byggt hefur verið upp á mörgum undanförnum árum. Þetta verður ekki það eina sem verður gert í þessum efnum. Um leið og eitthvað annað kemur fyrir aðra grein, þá verður því haldið áfram á þeirri forsendu, að það hafi verið byrjað á þessu einu sinni og þá er sjálfsagt að höggva oftar í sama knérunn.

Ég endurtek það að ég furða mig á því, að þessum erfiðleikum í rekstri frystihúsa almennt sé mætt með þessum hætti. Ég á sæti í þeirri nefnd sem væntanlega fær þetta frv. til meðferðar. Og ég get sagt það alveg strax, að ég væri tilbúinn að afgreiða þetta frv. strax í dag, tilbúinn að leggja til að það yrði fellt. Önnur afgreiðsla kemur ekki til greina frá minni hendi, því að hér er verið að rífa niður það sem sjávarútvegurinn hefur sjálfur verið að byggja upp með Verðjöfnunarsjóðnum. Það er það sem skiptir höfuðmáli.

Hitt er svo annað atriði, sem jafnframt er vítavert, en þó engan veginn eins og þetta, að þessi frv. séu á ferðinni þegar vertíð er langt komin. Þegar ársfjórðungur er liðinn á þetta að verka aftur fyrir sig..Og þetta er ekki eina málið. Það er einnig olíugjald til fiskiskipa sem var tekið fyrir í sjútvn. fyrr í dag og ekki afgreitt á þeim fundi, en fullur vilji nm., a. m. k. þeirra sem mættu á fundinum, að afgreiða það mjög bráðlega eða innan eins eða tveggja daga, því að okkur er ljóst að það er ákaflega erfitt að láta svona mál bíða vikum og mánuðum saman, — mál sem eiga í reynd að verka aftur fyrir sig.

Þetta frv. gæfi tilefni til að ræða almennt um sjávarútveginn, stöðu hans. Ég ætla þó ekki að gera það þrátt fyrir að hæstv. ráðh. færi að tala um stöðu hinna ýmsu greina í sjávarútvegi í framsöguræðu sinni fyrir þessu frv. Það er hægt að byggja á slíku áliti frá Þjóðhagsstofnun, en hlaupa alltaf yfir það þegar illa hefur gengið. Þegar taprekstur hefur verið, sem atvinnufyrirtækin eru að velta á undan sér, er það aldrei tekið inn í spár eða framreikning Þjóðhagsstofnunar fyrir yfirstandandi ár.

Það er vitað mál, að fleiri milljarðar eru í vanskilum bæði hjá útgerðinni og fiskvinnslunni, í atvinnufyrirtækjum í öllum landsfjórðungum, sem þessi fyrirtæki hafa velt á undan sér vegna taprekstrar á s. l. ári og fleiri árum. Þetta dæmi á auðvitað að vera inni í þessum framreikningi ef við ætlum að líta raunsæjum augum á hver staðan er hverju sinni. Það þýðir ekki, eins og hæstv. ráðh. gerði, að lesa þennan framreikning frá ári til árs og segja: Svona lítur dæmið út með gleraugum Þjóðhagsstofnunar — þegar ekki er tekið minnsta tillit til allra þeirra milljarða sem velt er á undan sér í bráðabirgðalánum sem eru með okurvöxtum. Það dugar ekki fyrir menn — hvorki ráðh. eða þm. né aðra — að horfa fram hjá því, að ástandið í fjölmörgum fyrirtækjum er geigvænlegt vegna þess mikla taprekstrar sem átt hefur sér stað sérstaklega á árinu 1980. En það gefst tækifæri til að ræða þá hlið málsins nánar mjög fljótlega.

Ég vildi ekki láta hjá líða að láta skoðun mína koma hér fram eftir að hæstv. sjútvrh. fylgdi þessu máli úr hlaði, og hún er sú, að hér sé farið inn á hættulega braut. Með þessari breytingu er verið að rífa niður það sem hefur verið byggt upp varðandi stofnun og rekstur Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins, sem ég tel að geti orðið bæði þjóðfélaginu í heild og sjávarútveginum til stórskaða. Það hefur ekki verið deilt um það í stjórnmálaflokkum, að Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins var talinn á sínum tíma nauðsynlegur. Það hefur verið sameiginlegt álit alþm., að það beri að byggja upp Verðjöfnunarsjóðinn á þeim grundvelli sem lögin voru byggð á, á þann veg að hver grein framleiðslu eða hver deild í sjóðnum sé sjálfstæður aðili, og aðeins sú grein greiðir til þeirrar deildar og fær sömuleiðis aftur greiðslur frá henni þegar markaðshorfur eru með þeim hætti. Eins og ég sagði brýtur þetta frv. þennan grundvöll gjörsamlega niður. Því er það ekki einungis skaðlegt nú í augnablikinu, heldur hættulegt vegna framtíðarinnar hvað snertir Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins.