01.04.1981
Neðri deild: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3283 í B-deild Alþingistíðinda. (3397)

269. mál, heilbrigðis- og vistunarþjónustu fyrir aldraða

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Því miður finnast mér þessi hvatningarorð, sem hæstv. heilbrmrh. fór með í lok ræðu sinnar, hálf-hjárænuleg. Á ég þar við að hvatningarorð hans um að afgreiða þetta mál fljótt og vel séu með allannarlegum blæ, vil ég orða það, þegar þess er gætt, að hér er lagt fram mesta miðstýringar- og þjóðnýtingarfrv. sem hefur komið fram á yfirstandandi þingi, og vantar vissulega sáralítið á að gengið sé hreint til verks af hæstv. ráðh. og flokksbræðrum hans og komið með tillögu um þjóðnýtingu og hreina eignaupptöku á sjálfseignarstofnunum fyrir aldraða sem hafa verið að byggjast upp á liðnum áratugum hér á höfuðborgarsvæðinu t. d. Að vísu get ég vel skilið þetta með hliðsjón af fyrri hug hans til samtaka sjómanna og vitna t. d. til ræðu hans frægrar, sem hann hélt árið 1978, í sigurvímu sósíalistahaustsins 1978, þegar hann hélt að þúsund ára ríki þeirra væri runnið upp hér á landi, þegar hann taldi að næsti stóráfangi í íslenskri pólitík væri að ná völdum sérstaklega í Sjómannafélagi Reykjavíkur og þar af leiðandi í öðrum samtökum sjómanna og einnig í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, þá væri ekkert til fyrirstöðu þúsund ára ríkinu. Það má vel vera, að þetta sé áfangi, vegna þess að hann veit að það eru sjómannasamtökin í Reykjavík og Hafnarfirði sem hafa stigið hvað stærst og áhrifamest spor í því að vinna að velferðarmálum aldraðra á liðnum áratugum.

Nú leggur hæstv. ráðh. það til með samráðssemjendum þessa frv., nú leggja þeir til að taka þessi mál algerlega undir ráðherravald, að öll stjórnun mála, innri, sem ytri, á heimilunum, um byggingu og rekstur þeirra, um vistun vistmanna verði tekin úr höndum þeirra, sem hafa haft með þetta að gera, og flutt upp í rn. hæstv. heilbrmrh. Þetta er meginþátturinn í frv. hans. Skal ég nú rekja aðeins það sem á undan var gengið á síðustu misserum.

Í apríl 1979 skipaði þáv. hæstv. heilbr.- og trmrh., Magnús H. Magnússon, nefnd manna til að vinna að endurskoðun gildandi laga um dvalarheimili aldraðra. Þessi nefnd var þannig skipuð, að það var leitað til aðila frá nær öllum meginþáttum þeirra sem með þetta mikilsverða og þýðingarmikla mál hafa að gera. Ég minnist þess, að ráðuneytisstjóri þessa hæstv. þáv. ráðh. kom til mín og bað mig um að taka sæti í þessari nefnd sem nokkurs konar talsmaður svokallaðra sjálfseignarstofnana sem eru enn þá langstærsti aðilinn á þessu sviði hér á landi. Formaður nefndarinnar var landlæknir, sem er sá embættismaður landsins sem hvað mest hefur með þessi mál að gera í gegnum embætti sitt þótt hæstv. núv. heilbr.- og félmrh. hafi ekki einu sinni þótt ástæða til að sýna honum frv. sitt né hafa neitt samráð við það embætti um gerð þess. Landlæknir var formaður þessarar nefndar. Auk þess var í nefndinni fulltrúi frá sveitarfélögunum, getum við sagt, Adda Bára Sigfúsdóttir, borgarfulltrúi í Reykjavík, Þór Halldórsson yfirlæknir, sem nú hefur enn verið kallaður til af skiljanlegum ástæðum, og aðstoðarmaður hans, Ársæll Jónsson, sem þó hvarf frá vegna annarra starfa sinna, en hann fór utan meðan nefndin var að störfum.

Þessi nefnd skilaði til hæstv. ráðh. tillögum sínum, mjög ítarlegum tillögum í mörgum þáttum um þessi mál, þ. á m. um endurskoðun laganna um dvalarheimili aldraðra. Nefndin skilaði tillögunum 1. apríl 1980.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir kom hér í ræðustól á liðnu hausti og skýrði frá því með miklum bægslagangi, — sem þó er ekki vani hennar, enda lítil og prúð kona hér í þingsölum sem annars staðar, — skýrði frá því, að ráðh. væri bara rétt ókominn með nýtt frv. um málefni aldraðra. Hún sá ástæðu til að rjúka hér upp í ræðustól með þessa tilkynningu, vegna þáltill. sem hér var til umr. og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir flutti ásamt fleiri þm. Ég hafði satt að segja álitið, þegar svo fljótlega var brugðið við, að hæstv. núv. heilbrmrh. hefði haft einhverja hliðsjón af þeirri miklu og ítarlegu vinnu sem lögð var í það frv. sem samið var fyrir Magnús H. Magnússon meðan hann gegndi þessu starfi, en þar var kallaður til fjöldi — ekki aðeins áhugamanna, heldur fagmanna, sem að þessum málum vinna, ekki aðeins úr Reykjavík og nágrenni, heldur víðs vegar að af landinu. Og það var leitað jafnvel út fyrir landsteinana til þess að fá nýjustu upplýsingar um hvaða stefnur væru efst á baugi í þessum málum hjá okkar nágrannaþjóðum. Og það hafði auðvitað verið gert áður. Það hafa sjómannadagssamtökin gert um margra ára skeið og haft fyrir framan sig og notið reynslu og menntunar þeirra sem við þessi mál fást í okkar nágrannalöndum, og svo bætt við eigin reynslu af sínum rekstri hér á landi, bæði í Reykjavík og Hafnarfirði, og reyndar notið reynslu manna annars staðar frá hér á landi líka.

En þetta virðist allt vera sett til hliðar. Það eru teknir nýir aðilar til samráðs m. a. hv. þm. Guðrún Helgadóttir sem væntanlega hefur farið í einu og öllu að vilja hæstv. ráðh. Það, sem kannske kemur manni helst á óvart, er að í hópinn bætist hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, sem hefur m. a. verið talsmaður þess í sínum flokki og fyrir þann flokk, sem telur sig vera hvað stærstan, mestan og bestan í því að verja friðhelgi félagasamtaka til þess að láta gott af sér leiða, svo ekki sé meira sagt, og þarf ekki að fara lengra til samanburðar heldur en til Sambands ísl. samvinnufélaga. Nú hefur hann vissulega gefið tóninn um það, að þegar einhverjir aðrir taka völdin hér á Alþingi og í ríkisstjórn Íslands sé mjög auðvelt að ganga til og þjóðnýta það ágæta fyrirtæki eins og nú á að þjóðnýta þessar eigur verkalýðssamtakanna eða hluta þeirra.

Til viðbótar hafa þeir fengið fyrrv. þm. Sjálfstfl., Odd Ólafsson, sem er eignamikill maður, og aldrei hef ég heyrt annað en hann hafi haldið vel utan um sitt og vilji gera það, og ekki síður utan um það sem hann hefur verið með í að skapa hér á landi, en hann er einn ótrauðasti brautryðjandi í margs konar framkvæmdum fyrir öryrkja og berklaveika. Bendi ég á þann þátt sem hann hefur átt í byggingu Reykjalundar svo og byggingu margra íbúðarhúsa Öryrkjabandalagsins og enn fremur stofnun og rekstri Happdrættis S.Í.B.S. Með þessu samráði sínu, samráðssamsetningu með hæstv. heilbrmrh. og hans flokki, sé ég ekki annað en hann sé um leið að opna möguleika fyrir sömu þjóðnýtingunni á þeim ágætu stofnunum, að hann sé að kalla það yfir sig.

Einhverjir fleiri komu þarna til. Það er, eins og ég sagði áðan, yfirlæknirinn Þór Halldórsson, sem lengi hefur prédikað þessa stefnu og þar fylgt í hvívetna þeirri stefnu heilbrigðisstéttanna sumra, að það megi engir aðrir koma að þessum málum en þeir, það megi ekki sjást neitt átak frá öðrum aðilum en þeim sjálfum, að stjórnun eða framkvæmd slíkra mála verði að vera alfarið og eingöngu á vegum heilbrigðisstéttanna. Þetta er fyrst og fremst komið til vegna þess, að þeir vilja ekki sjá rekstrarlegan samanburð, það er fyrst og fremst vegna þess, að þeir vilja ekki láta sjá rekstrarlegan samanburð á stofnunum, sem hafa verið reknar sem sjálfseignarstofnanir af einstaklingum eða félögum þeirra, og svo hinum opinberu stofnunum undir þeirra stjórn. Og að sjálfsögðu tekur núv. hæstv. heilbmrh. undir þetta því að hann ætlar að flytja þetta allt upp í rn. til sín og stjórna þessu öllu þaðan, ekki aðeins fjárfestingunni og því, hverjir eigi að byggja, heldur líka daglegum rekstri og vistun á heimilin sjálf. Ef það hefði komið upp einhver kvörtun um það á sjálfseignarstofnun, að misfarið hefði verið með vistanir þar, þá gæti ég skilið þetta. En ætli sveitarstjórnarmennirnir, sem sæti eiga hér á Alþingi og koma víðs vegar að af landinu, segi það? Ætli fyrrv. starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins, eins og Rúna litla á Blómsturvöllum, geti sagt það, sem nú er orðin hv. þm. Guðrún Helgadóttir? A. m. k. átti hún vel innangengt á þessi heimili hér í Reykjavík meðan hún var þar, þótt hún segði ekki alltaf satt frá um ástand þeirra sem hún var að biðja um vistun fyrir, en það er annað mál.

Ég hefði helst óskað eftir því, herra forseti, að einhver af ráðherrum Sjálfstfl. væri hér í salnum áður en ég held áfram máli mínu, með tilliti til þess sem ég ætla að vitna til og þeir þurfa gjarnan að fá að heyra, ef herra forseti vildi gera svo vel að athuga t. d. um það, hvort eignarréttarmaðurinn Pálmi Jónsson, hæstv. landbrh., sé hér við eða verndari eignarréttarins og félagafrelsisins, hæstv. dómsmrh., hvort þeir séu í húsinu.

Það er af mörgu að taka og það er hægt að halda áfram að ræða þetta mál. Þótt ég hafi, í stórum dráttum lýst hér skoðunum mínum á málinu, þá skal ég taka það fram strax, að að sjálfsögðu eru ýmis atriði í frv. hæstv. ríkisstj. — sem stendur að frv.-flutningunum þótt heilbrmrh. flytji það — sem vel má byggja á. Og ég skal fúslega viðurkenna að nokkuð hefur verið betrumbætt það frv. sem samið var og ég átti aðild að, á þann hátt að það er einfaldara. En það má líka vera að í ljós komi við nánari athugun, sem alls ekki hefur gefist tækifæri til, en mun væntanlega gefast þar sem ég á sæti í þeirri hv. nefnd sem fær þetta frv. til meðferðar, að það sé eingöngu vegna þess að félagsþátturinn hafi að mestu leyti verið tekinn út. En í þeirri endurskoðun, sem fram fór á vegum nefndarinnar sem Magnús H. Magnússon skipaði, voru þeir þættir skoðaðir jafnframt eða sumir þeirra a. m. k. og nýjar tillögur gerðar þar um. Og það hafði tekist samkomulag um ágreiningsatriði, og það var einmitt landlæknir sjálfur, sem starfaði í skjóli eða að ósk þáv. hæstv. ráðh., sem beitti sér fyrir því, að samkomulag náðist á milli þessara aðila og menn gátu nokkurn veginn unað við það sem út úr því kom. En síðan hefur sem sagt verið gerð gerbreyting á því sem þá var unnið — og tek ég þó enn fram að það má vel vera, að svo mikið megi út úr þessu fá að gera megi það að skaplegu frv. áður en veturinn er á enda.

Meðal þess, sem ég hef rekið augun í, og það er að vistunarþjónusta fyrir aldraða. 3286 sjálfsögðu sérstakur kafli að ræða um, — það er um Framkvæmdasjóð aldraðra. Í gegnum alla kafla og nær allar greinar er mottóið þetta: ríkið, ríkið, ríkið, sem er stóri pabbinn í öllum þessum málum, og sveitarfélögin að vísu að nokkru leyti, en ríkið er það samt sem á að stjórna og ráða og aðrir eiga ekki til að koma. Að sjálfsögðu vil ég undirstrika það, að fram til þessa hafa auðvitað íslensk lög og reglugerðir gilt um sjálfseignarstofnanir í eigu félaga og félagasamtaka. (Forseti: Ég harma það að þurfa að tilkynna hv. ræðumanni að hvorugur þessara hæstv. ráðh. er í húsinu eins og stendur.) Og að sjálfsögðu ekki höfuðljónið, hæstv. forsrh.? Mér hefur auðnast að komast af án þeirra fram til þessa og ég vænti þess að mér takist það út þennan fund.

Í kaflanum um dvalarstofnanir t. d. er mjög þýðingarmikil breyting, að mér finnst, sem verður þó að kanna nokkru nánar. Mér finnst þar vera svo mikil efnisbreyting að þar þurfi nefndin að hafa sérstaka gát á. Það skilyrði er t. d. alveg tekið út og algerlega gengið fram hjá því, að dvalarheimilin, sem eru á vissan hátt miklu dýrari stofnanir en íbúðir aldraðra, þótt sérhannaðar séu og kallist verndaðar íbúðir, að þessi heimili séu búin endurhæfingaraðstöðu, sem nú er til á öllum þessum heimilum. Þessi endurhæfingaraðstaða er náttúrlega fyrst og fremst miðuð við heilsufarsástæður þeirra sem búa þar. En henni er líka ætlað að koma í veg fyrir að þetta fólk fari inn á dýrari stofnanir í framtíðinni. Það er verið að reyna að koma í veg fyrir það og draga úr tíðni öldrunarsjúkdóma og sjúkdóma almennt, sem leiða til þess, að þetta fólk sé flutt inn á dýrari stofnanir. En þessu er sleppt í frv., og ég get ekki séð annað en að með því orðalagi, sem hæstv. ráðherrar leggja til, sé þarna óbeint verið að reyna að koma inn undir lagaákvæði um sjúkratryggingagjald og skyldu sjúkratrygginga til þess að greiða visst gjald í ákveðnum stofnunum, — það sé verið að reyna að lauma þarna inn byggingum, sem eru kannske leiguíbúðir aldraðra og hafa verið byggðar í allt öðrum tilgangi en sem dvalarheimili aldraðra, sem eru miklu fullkomnari og dýrari stofnanir bæði í byggingu og rekstri.

Það má segja um c-lið 11. gr. eins og um þennan b-lið, sem ég var að vitna til, að það er afskaplega lítið tekið fram um það, hvers sé krafist af hjúkrunarheimilum. Um langdvalardeildir er ekki getið sérstaklega, heldur hjúkrunarheimill til langdvalar, og ekki getið um nein skilyrði fyrir því, að slík heimili fái að heita þessu nafni, sem á auðvitað að vera skilyrði fyrir fjárframlagi frá opinberum aðilum. Það er ekki gert. Ég bendi hv. nefnd í þessu sambandi á frv. sem liggur nú fyrir þessari hv, deild og er til afgreiðslu í heilbr.- og trn. Frv. varðar sérhannaðar byggingar fyrir aldraða og öryrkja. Ég er 1. flm. þess. Í því frv. er þetta skilgreint. Ég sé enn betur nú, þegar þetta ríkisstj.-frv. er hér lagt fram, þýðingu þess að við setjum okkur ekki aðeins reglur, heldur lög um það, hvað við séum að tala um þegar við erum að tala um hinar einstöku íbúðagerðir og stofnanagerðir fyrir aldrað fólk. Það er enn þýðingarmeira, sé ég, nú en áður til þess að óvandaðir pólitíkusar, sem komast í það vald og þá aðstöðu að sitja í ráðherrasæti, geti ekki misnotað þetta vald sitt til að hygla pólitískum samstöðumönnum í sveitarstjórnum eða annars staðar hér á landi, sem við þekkjum því miður allt of mikið af.

Smábreytingar, sem þeir fjórmenningarnir undir yfirstjórn ráðh. hafa gert við samningu þessa frv., eins og að útiloka að gildandi lög og reglur sjálfseignarstofnana um fjölda manna í stjórn fái að gilda áfram, eru auðvitað hlægilegar. Að vera að binda þetta með einhverri algildri reglu um fjölda, sem búin er til inni í lokuðu fundarherbergi ráðh. án þess að talað sé við nokkurn mann, — það hefur að sjálfsögðu lítið að segja, en það er þó með þessu verið að skapa erfiðleika fyrir þá sem hafa lög og reglur þróaðar um áratuga skeið sem þeir vinna eftir. Þetta er því aðeins til að auka erfiðleika í stjórnun hjá þeim.

Sama má segja um fleiri atriði, eins og í 16. gr. Þar er svo komið, að það er ekki aðeins nývistun á dvalarheimilin sem ellimálanefndir, skipaðar ráðherra, eiga að sjá um, heldur eiga þær líka að hafa úrskurðarvald um nauðsynlegan tilflutning milli eininga eftir heilsufari einstaklinga á hverjum tíma. Hverjum dettur í hug að á þessum heimilum aldraðra sé verið að leika sér með tilflutninga? Nú má vera að það, sem valdi þessum misskilningi hjá þeim, sem hafa staðið að samningu þessa frv., sé að þeir eru alltaf með einhverjar stofnanir í huga sem ganga þvert ofan á allar stefnur í Vestur-Evrópu og sérstaklega á Norðurlöndum í sambandi við málefni aldraðra, þar sem nr. eitt er talað um heimili hinna öldruðu. Það er verið að útiloka frá þeim spítala- og stofnanablæinn, það er verið að búa til heimili fyrir þetta fólk. Og svo á að leita til einhverra pólitískra aðila, sem pólitískur ráðh. skipar, eftir leyfi til þess að flytja á milli herbergja á einhverju heimill, — pólitískra aðila sem eru skipaðir af ráðh., sem að sjálfsögðu er pólitískur, geri ég ráð fyrir. Ég held að það verði a. m. k. illfært fyrir hæstv. heilbrmrh. að undanskilja sig því að vera pólitískur. (Gripið fram í.) Fyrst hæstv. ráðh. grípur fram í, þá vil ég benda honum á að það fer auðvitað ekki fram tilflutningur á slíkum heimilum nema að faglegu mati. Heldur maðurinn að öskukarlinn, sem kemur einu sinni í viku til að hreinsa ruslatunnurnar, fari að segja til um að eitthvert fólk sé flutt til? Það eru auðvitað stjórnendur á heimilinu, sem eru færir um að framkvæma það faglega mat betur en nokkrir aðrir aðilar. Á ég þá við bæði hjúkrunarkonur og lækna á slíkum heimilum, sem í 99% tilfella segja til um slíka flutninga. Við þurfum, ekki að fá neina embættismenn ríkisins, sem hafa verið skipaðir af hæstv. heilbrmrh., til að segja til um þetta. Við, sem umgöngumst þetta fólk daglega og kannske mánuðum og árum saman, þekkjum miklu betur vandamál þess en utanaðkomandi aðilar. En að vera að taka stjórnina úr höndum þeirra, sem hafa mest vitið á að þjóna þessu fólki sem best, og flytja til annarra aðila, það tel ég hina mestu vitleysu, svo ég segi ekki meira þar um að sinni.

Þá kem ég enn að því, sem ég hef þegar sagt um 20, gr., en efni hennar var á sínum tíma mikið átakamál í þeirri starfsnefnd sem ég hef vitnað til. Það er um undangengið mat á vegum ellimálanefndar. Að sjálfsögðu getur þetta mat farið fram á hennar vegum og um það varð samkomulag. Hins vegar er ekki hægt að ætlast til þess, að aðilar, sem hafa safnað fé, fengið fé að láni af eigin sparifé úr eigin sjóðum og beitt fyrir ákveðinn hóp manna, eins og t. d. sjómannasamtökin hafa gert, — það er ekki hægt að ætlast til að þeir aðilar haldi þessu áfram eftir að búið er að taka úr þeirra hendi getuna til að ráðstafa því í eigin húsakynni. Vissulega falla þessir aðilar eins og aðrir undir gildandi lög um tryggingar á vegum ríkisins, sjúkratryggingar og aðrar tryggingar, og vissulega á að fara fram mat til að segja til um það, hvort aðilar falli undir það. En dettur t. d. fyrrv. starfsmanni Tryggingastofnunar ríkisins, hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, það í hug eða er hún að gagnrýna fyrrv. samstarfsmenn sína í Tryggingastofnuninni, læknana, trúnaðarlæknana sem þar starfa, er hún að gefa það í skyn, að þeir séu ekki starfi sínu vaxnir? Þetta hefur m. a. verið þeirra aðalstarf fram til þessa, og það fer enginn maður á sjúkratryggingagjald öðruvísi en þeir samþykki það samkv. tillögum lækna á viðkomandi heimilum. Þetta veit þessi hv. þm.

Þetta verður enn hlálegra í ljósi þess, að það hefur tekist með miklu átaki að fá aðra aðila verkalýðshreyfingarinnar til að taka þátt í að leysa þetta vandamál. Síðast í morgun hringdi til mín formaður eins stærsta stéttarfélagsins hér í Reykjavík og skýrði mér frá því, að þeir ætluðu að hjálpa sjómannadagssamtökunum, — vegna þess neyðarástands sem ríkir í málum sjúkra aldraðra hér í Reykjavík og nágrenni, — þeir ætluðu að hjálpa þeim á þessu ári með 25 millj. gkr. framlagi. Fyrir nokkrum vikum gaf Verkamannafélagið Dagsbrún 5 millj. kr. í sama augnamiði, og stærsta verkalýðsfélag landsins, Verslunarmannafélag Reykjavíkur, samþykkti á aðalfundi sínum að félagið beitti sér fyrir byggingu dvalar- og hjúkrunarheimills fyrir aldraða félagsmenn. Þeir hafa líka rætt við þessi sömu samtök um það að verða þátttakendur í að leysa það stóra verkefni sem verið er að vinna að í Hafnarfirði, hjúkrunarheimili eða hjúkrunardeild Hrafnistu þar. Og við skulum hafa það í huga, að þarna er um að ræða félag sem hefur yfir að ráða sjúkrasjóði sem mörg hundruð millj. gkr. koma í árlega. Og nú ætlar hæstv. ráðh., sem á að hugsa m. a. um fjárhag ríkisins, — eins og kollega hans, hæstv. fjmrh., og aðrir ráðh. gera dæmalaust vel eins og við höfum fyrir augum daglega, — þeir ætla með þessari frv.-herfu sinni að slá á þessar hendur. Hverjum dettur í hug að eftir að þetta er orðið hreint ríkisapparat í deild hjá Svavari Gestssyni uppi í rn. hans, — hverjum dettur í hug að þessir aðilar fari að safna fé fyrir Svavar? (Forseti: Hæstv. á að segja.) Að safna fé fyrir hæstv. ráðh. Svavar?

Fyrir ekki alllöngu skilaði einn hv. þm. hér mjög ítarlegu nál. þar sem hann spurði m. a., hvort menn vildu vinna kauplaust fyrir kommúnista, og vitnaði í sínu nál. í forustugrein í Þjóðviljanum 28. febr. 1978 undir yfirskriftinni: „Ætlar þú að vinna kauplaust 5–6 vikur fyrir Geir?“ Í framhaldi af þessu hélt þessi sami þm. áfram og taldi sig geta með góðri samvisku sent reikning til Alþb., Svavars Gestssonar, formanns þess, um óuppfyllt loforð um samningana í gildi, sem nam samkv. hans útreikningi 736 þús. kr. Þetta kallaði hann í ræðu sinni að vinna kauplaust fyrir Svavar. Í framhaldi af þessu sýnist mér að það eigi að fara að safna fyrir Svavar, verkalýðshreyfingin eigi að fara að safna fyrir Svavar. Ég efast um að það verði mikill hugur í mönnum til þess, og ég held að það sé langbest fyrir hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. — og þar á meðal verndara eignarréttarins, sem eiga sæti innan ríkisstj., ráðh. Sjálfstfl. — að taka harða og hreina afstöðu og þjóðnýta þessi fyrirtæki. Það má ábyggilega ná samkomulagi við eigendur þessara stofnana, sem eins og t. d. Hrafnista í Reykjavík hafa aldrei fengið krónu frá Svavari Gestssyni eða öðrum ráðherrum til að byggja það heimili, en endurbyggingarverð þess nú er metið á 7–8 milljarða gkr. Honum ætti ekki að verða skotaskuld úr því að borga það út, og þessi samtök geta þá farið í einhverja aðra starfsemi. Það eru ekki nema 3–4 milljarðar sem liggja bundnir í Hafnarfirði, svo að það er best að þeir fái þetta og borgi fyrir það. En þetta er fé, sem þessir aðilar, sjómannadagssamtökin, hafa safnað. Vegna þess, að hæstv. ráðh. talar um að þeir hafi af rausnarskap veitt nokkurn byggingarstyrk til Hrafnistu í Hafnarfirði, vil ég taka það fram, að við honum hefur auðvitað aldrei verið tekið með því hugarfari að verið væri að afsala eignarrétti til ríkisstj. eða neinna annarra aðila, það er alveg öruggt. Það, sem veitt var á síðustu fjárlögum nemur um 4% af áætluðu byggingarverði og loforð er um að á næstu fimm árum verði veitt sem nemur um 20% af þessum áætlaða byggingarkostnaði. Það er nú rausnin þar.

Ef við ræðum nokkuð nánar um þá grein þar sem höfundar þessa frv. fjalla um Framkvæmdasjóð aldraðra, þá þykir mér það nokkuð einkennilegt, að þá virðist vera samkomulag um að leggja enn einn viðbótarskattinn á veitingahús hér í borginni, sem ég held að sé níundi eða tíundi sérskatturinn sem þessi starfsemi færi til að standa undir fjármögnun þessara mála, hafandi það í huga, að um margra ára skeið hefur félagsskapur, reyndar fleiri en einn, sem hefur unnið gegn því böll sem neysla áfengis óneitanlega skapar fyrir þá sem ekki hafa þann innri búnað að þola að neyta þess, reynt að fá starfsfé með þessu móti, en ekki hefur fengist að leggja smávegis gjald á þessi hús til að styrkja þá starfsemi. En nú á allt í einu að vera hægt að taka milljónir kr. af þessum sama rekstri til að byggja yfir aldrað fólk.

Nú má segja sem svo, að það séu margar aðrar leiðir til, og vissulega hefur því verið hreyft á einn og annan hátt, að það væri hægt að hugsa sér fleiri leiðir til að fjármagna þessa starfsemi. Ég tek eftir því, að lagt er til að Byggingarsjóður aldraðra verði lagður niður samkv. þessu frv. og að Framkvæmdasjóður aldraðra taki við eignum hans, sem ekki eru miklar, vegna þess að þeim hefur verið úthlutað jafnóðum og þær hafa skapast og eru ekki aðrar en 40% tekna af Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna. Þessi skipting var ákveðin eftir aðeins 9 ára starf happdrættisins, en Happdrætti DAS er byggt upp og rekið af sjómannadagssamtökunum og 60% ágóðans fara til bygginga sem þeir standa fyrir. Á því happdrættisári, sem lauk 30. apríl 1980 voru þessar tekjur eftir árið ekki meiri en það, að 60% gerðu rúmar 49 millj. gkr. og 40% tæpar 33 millj. Þetta voru nú öll ósköpin. Eftir að byggingarsjóðslögin eiga að falla úr gildi verð ég að skilja frv. þannig að happdrætti DAS eða Sjómannadagsins hafi þá 100% ágóðans til sinna afnota og er það út af fyrir sig vel. Ef ekki, ef þetta á að fara inn í Framkvæmdasjóð í höndum ráðh., þá get ég ekki séð annað en önnur happdrætti geti átt þetta yfir höfði sér jafnframt. Og vera má að samráð við Odd Ólafsson, einn af stofnendum og stjórnendum Happdrættis SÍBS, sé einmitt byggt á því, að hæstv. ráðh. ætli að ganga þar til verks líka og afhausa nokkrar krónur af þeim samtökum til þess að geta úthlutað svo aftur frá sér pólitískt.

Ég bendi hins vegar á að ekki vantar mikið á að jafnmiklar tekjur og þessi sjómannasamtök, sem ég hef margoft minnst á, hafa til umráða fáist af annarri tekjulind, en það er endurgreiðsla á 90% af skemmtanaskatti sem Laugarásbíó hefur. Þessi upphæð nam á árinu 1980 30 millj. kr. rúmum. Við rekum líka í umboði bæjarstjórnar Hafnarfjarðar Bæjarbíó, og það eru nokkrar milljónir sem þaðan fást. Hér er auðvitað tilvalin leið fyrir hæstv. ráðh. að fara. Þessar fjárupphæðir hafa farið um áratuga skeið til þess að byggja félagsheimill víðs vegar um landið. Nú er neyðarástand hér á Reykjavíkursvæðinu. Af hverju ekki að taka af þeim bíóum, sem borga beint inn í félagsheimilasjóð, til þess að standa undir þessum kostnaði m. a.? Ég sé fljótlega fram á að það gætu orðið 200 millj. gkr. á ári miðað við tekjur ársins 1980. Eins má auðvitað benda á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, þegar við höfum í huga þann mikla mismun sem hefur orðið á því sem hefur verið lagt á Reykjavíkurborg, m. a. vegna þeirrar byggðastefnu sem Alþingi og undanfarandi ríkisstjórnir hafa staðið fyrir.

Ég minntist á þetta í minni framsöguræðu fyrir lagafrv. um sérhannaðar íbúðir aldraðra og öryrkja. Ég benti á að það, sem m. a. hefði orsakað tilflutning hins mikla fjölda aldraðra inn á Reykjavíkursvæðið, væri sú stefna sem þar hefði verið rekin. Út af fyrir sig getum við sagt sem svo, að það sé ekkert að því, og því hafði hæstv. ráðh. sjálfur orð á þegar það frv. var rætt, að mig minnir, eða eitthvað skylt því, en alla vega hefur það komið fram hjá honum í ræðum hér á Alþingi nýlega að hann vildi helst að við gætum búið þannig að öldruðu fólki að það gæti búið hvar á landinu sem er. Undir þetta tek ég heils hugar, enda hef ég reyndar lengi rekið þessa stefnu. Og samkv. þessu frv., samkv. 20. gr., má segja að á móti þessu sé komið, en þar segir, með leyfi forseta:

„Að fengnu mati (þ. e. ellimálanefndar) skal vista einstakling á þeirri stofnun, sem hann kýs, óháð svæðisskiptingu, eftir því sem við verður komið.“

Þetta þýðir sem sagt að ef ellimálanefnd, sem hefur með þessi vandamál á Þórshöfn að gera, ákveður að það eigi að vista einhvern þaðan hingað til Reykjavíkur, á heimili hér, þá er það heimilt burtséð frá vilja eigenda viðkomandi heimilis hér. En ég velti nú fyrir mér hvað stjórnendur Reykjavíkurborgar segi, sem hafa lagt mikið af mörkum á s. l. árum af útsvarstekjum borgaranna í Reykjavík til þess að byggja yfir aldrað fólk, bæði það, sem er fætt hér og uppalið og hefur búið hér alla sína tíð, og það, sem hingað hefur flutt, — hvað segja þeir um það þegar ellimálanefndir, ráðherraskipaðar pólitískar nefndir, þó að þær eigi að heita faglegar, það vill nefnilega til að fagmenn í þessum málum eru stundum pólitískir, og ég hef rekið mig sérstaklega á það innan heilbrigðisstéttanna, hæstv. ráðh. — (Félmrh.: Þm. á væntanlega við borgarlækninn sérstaklega.) Ja, hann er pólitískur jafnframt. Hvað segja nú stjórnendur Reykjavíkurborgar við því, þegar þau sveitarfélög, sem ekkert hafa lagt að sér til þess að mæta þessum vanda heima fyrir hjá sér, geta reiknað með því að þetta verði allt í lagi, þetta verði allt saman vistað hér af Reykvíkingum, þeir taki við þessum vanda? Ætli það sé þá ekki nær að reyna að fara þá leiðina að nota Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að mæta þessu vandamáli og segja: Ykkur er velkomið að koma hingað. — Og ég get vel skilið það, að fólk vilji koma á suðlægari breiddargráðu í ellinni, þar sem betra veðurfar er, heldur en búa norður á Hornströndum eða í enn verra umhverfi. Ég get vel skilið það og það á ekkert að hafa á móti því. Við höfum sérlært fólk hér, við höfum bestu stofnanir til þess að taka á móti sjúku fólki, til þess að gæta heilbrigði þess og betrumbæta heilsu þess þegar það kemst hingað og til þeirra mörgu sérfræðinga og stofnana sem hér eru á þessu sviði, þannig að ég hef ekkert á móti því. Það er sjálfsagt að gera það og auðvitað eigum við að gera það ef við getum og ef fólk vill það sjálft, sem eru margar, margar ástæður fyrir. Það á ekki að standa á móti því. En þá verður þjóðfélagið í heild líka að koma til hjálpar og standa undir þeim sérstaka kostnaði sem íbúar Reykjavíkur verða fyrir af þessum ástæðum og nágrannasveitarfélögin að sjálfsögðu líka.

Herra forseti. Ég vildi að sjálfsögðu láta þetta koma fram hér strax við 1. umr., en þar sem ég á sæti í nefndinni, sem fær málið til meðferðar, skal ég ekki fara ítarlegar út í þetta núna. Þó get ég ekki komist hjá því að benda á eitt og þess vegna spurði ég eftir hæstv. ráðherrum Sjálfstfl. sem ég hef lengi átt sæti með og tekið þátt í stefnumótun Sjálfstfl. ásamt þeim margsinnis. Þar hafa þeir verið samþykkir og tekið þátt í að móta ýmislegt sem gott er og hollt og fallegt, og af því að þeir eiga hlut að máli þessa frv., langar mig, — með leyfi hæstv. forseta — að taka upp aðeins stutta mgr. úr stefnu Sjálfstfl. í efnahags- og atvinnumálum í síðustu kosningum, sem ég hefði viljað — og ég vona að þeirri spurningu verði komið til þeirra — spyrja þá um, hvort þetta frv. falli beinlínis undir þær skoðanir. Með leyfi forseta er einn kaflinn um ákveðna verkaskiptingu í síðustu kosningastefnuskrá Sjálfstfl. á þessa leið:

„Verkaskipting ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila svo og skipting tekjustofna milli ríkis og sveitarfélaga verði ákveðin með það fyrir augum að dreifa valdi, koma á hreinni verkaskiptingu og færa ábyrgð á ákvörðunum um útgjöld til þeirra sem teknanna afla eða hafa á annan hátt besta aðstöðu og mesta hvatningu til þess að taka skynsamlegar og hagkvæmar ákvarðanir. M. a. færist bygging og rekstur grunnskóla og heimila fyrir yngstu og elstu íbúana alfarið til sveitarfélaga og samtaka íbúanna. Starfsfræðsla heilbrigðisstofnana verði hér tekin til sérstakrar athugunar og þar verði fleiri aðilum en hinu opinbera búin betri skilyrði til að reka slíkar stofnanir.“

Þetta er m. a. atriði sem þeir hæstv. ráðherrar Sjálfstfl. tóku þátt í að samþykkja, og var ekki ágreiningur um þetta atriði í kosningastefnuskrá Sjálfstfl. fyrir haustkosningarnar 1979. (Forseti: Á hv. þm. mikið eftir af ræðu sinni?) Nei, ég skal vera fljótur með það sem ég á eftir, hæstv. forseti. Mig langar til að koma með tvær stuttar tilvitnanir til viðbótar. Það er um stefnu Sjálfstfl. í ýmiss konar félagslegum málaflokkum sem varða frelsi til framfara. Þar er hið sama endurtekið og, með leyfi forseta, var sagt þar m. a., að „frjáls félagasamtök í heilbrigðismálum njóti aukins stuðnings“, og enn fremur, að „öldrunarlæknisdeildir komi upp í tengslum við almenn og sérhæfð sjúkrahús auk hjúkrunarheimila aldraðra, jafnframt því sem öldruðum sé auðveldað að dveljast sem lengst í heimkynnum sínum“ Þetta m. a. var samþykkt meðan hv. þáv. þm. Oddur Ólafsson var formaður í viðkomandi málefnanefnd sem þetta samþykkti. Og til viðbótar má að sjálfsögðu benda á síðustu landsfundarsamþykkt Sjálfstfl. frá 1979, en sami maður var þá formaður í þessari málefnanefnd og allir núv. hæstv. ráðherrar Sjálfstfl. tóku þátt í að samþykkja þetta án nokkurra aths. Þar segir m. a. í kafla um félagslega þjónustu og endurhæfingu, með leyfi forseta:

„Sérstaklega ber að efla starf félaga og áhugamanna og landssamtaka sem vinna mikið og óeigingjarnt starf að margvíslegum félagsmálum.“

Kannske við sjáum næst frv. frá þessum hv. aðilum, sem felur í sér yfirtöku eigna Slysavarnafélags Íslands og einhverra fleiri slíkra.

Herra forseti. Þetta frv. virðist hafa það að aðalmarkmiði að auka miðstýringu heilbrigðis- og vistunarþjónustu fyrir aldraða, þ. e. að hverfa frá dreifingu valdsins. Og það má gera ráð fyrir, ef það verður samþykkt, að aukin miðstýring leiði til vaxandi skriffinnsku og drepi niður hið mikla framtak einstaklinga og félagasamtaka á sviði öldrunarmála, sem leiðir til þess að framboð vistunarrýmis minnkar, þ. e. vandinn eykst. Jafnframt leiðir hin vaxandi miðstýring til þess, að hægfara verða þjóðnýttar hinar ýmsu stofnanir sem einstaklingar og félagasamtök á sviði öldrunarþjónustu hafa byggt upp. Ætti öllum að vera ljóst að rekstur slíkra stofnana í höndum félagasamtaka og einstaklinga er miklu hagkvæmari en í höndum ríkisins, enda margsannað. Helstu afleiðingar vaxandi miðstýringar heilbrigðiskerfisins eru óhagkvæmari nýting fjármagns og seinkun ákvarðanatöku vegna skriffinnsku og nefndarákvarðana. Það er hart að vita til þess, að markmið heilbrigðiskerfisins er þá ekki lengur að veita hámarksþjónustu á lágmarksverði, sem leiðir til hagkvæmustu nýtingar fjármagns í heilbrigðiskerfinu.