01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3313 í B-deild Alþingistíðinda. (3405)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég ætla að leitast við að svara nokkrum spurningum sem fyrir mig hafa verið lagðar hér, en að öðru leyti mun ég ekki taka þátt í þeirri umr., sem hér fer fram, og skal koma að því seinna hvers vegna.

Af hverju ég flyt brtt. við þetta frv. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur? Það er ofur einfalt. Vegna þess að ég tel að það, sem ég legg til, sé betra og skynsamlegra en það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir leggur fram. Að sjálfsögðu mun ég greiða því atkv., að þetta mál fari í viðeigandi nefnd og hljóti hér þinglega meðferð.

Þó að ég hafi upplýst hér í dag að hæstv. félmrh. ætli að skipa nefnd til að endurskoða lög um jafnrétti kvenna og karla, þá hefur það ekkert með að gera gang þessa máls hér í þinginu. Þetta hélt ég að ég þyrfti ekki að segja hv. þm. Karvel Pálmasyni sem hefur verið hér lengur en ég.

Í sambandi við athugasemdir, sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði við brtt. mínar einkum í sambandi við till. mína um að 4. gr. í frv. hennar falli niður, vil ég segja þetta: Ég geri á því mikinn mun, hv. þm., hvort Jafnréttisráð stendur að könnun eða hvort Jafnréttisráð framkvæmir könnunina sjálft. Ég vil aðeins leyfa mér að spyrja þm. hverjar hugmyndir hún hafi um starfslið Jafnréttisráðs? Ef Jafnréttisráð ætti sjálft að framkvæma könnun á misrétti karla og kvenna í landinu hvað verðar laun, hvað varðar heimilisvinnu, hvað varðar alls kyns starfsaðstöðu, hvað telur hv. þm. þá að Jafnréttisráð þyrfti stóran starfshóp til að framkvæma þá vinnu? Ég vil ítreka það sem ég sagði hér í dag: Til slíkra verka er Hagstofa Íslands, til slíkra verka er á ákveðnu sviði Kjararannsóknarnefnd. Við höfum Þjóðhagsstofnun í landinu. Við höfum þessar stofnanir til að framkvæma slíka vinnu. Það segir hins vegar ekkert um að Jafnréttisráð eigi ekki að beita sér fyrir að slík vinna sé framkvæmd.

Ég sé ekki ástæðu til að svara öðru því sem hér hefur komið fram. Mér þykir þessi umr. taka hina skrýtnustu stefnu og ekki bera vott um að Alþingi Íslendinga væri miklu betur komið þó að hér væru jafnari skipti á hlut karla og kvenna. Mér þykir a. m. k. skörin farin að færast upp í bekkinn ef ég, hinn kvenmaðurinn hér í hv. deild, er orðinn höfuðfjandmaður jafnréttis í landinu. Er hægt að bjóða hv. þm. svona vitleysu? Það getur vel verið að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir uni sér vel í þessum selskap og taki upp þá siðu sem hér fara fram, en ég ætla ekki að gera það. Og ég tel það ekki til framdráttar jafnrétti karla og kvenna í landinu. Ég tel að ég sé hér þm. fyrir það sem ég er talin geta gert, sem kona, hitt kynið í þessu landi, og ég ætla að haga mér sem slík. Ég hef ekkert að læra af þessum ágætu bræðrum sem eru hér. Ég ætla ekki að gera þetta mál að flokkspólitísku máli. (Gripið fram í.) Nei, hv. þm., heldur tel ég að þeir kæru bræður gætu lært ofurlítið af mér. Ég ætla ekki að ganga inn í þetta hlutverk, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, og ég held að hv. þm. sé allt of vel meinandi og vel vinnandi til þess að gera það heldur. Við skulum ræða um þetta mál, sem er brýnt, sem er nauðsynlegt, en ekki á þessum grundvelli.

Ýmislegt má saka Alþb. um, en tæplega fyrir að hafa staðið í vegi fyrir jafnrétti karla og kvenna. Ég ætla hins vegar ekki að segja að það sé til neinnar fyrirmyndar í þeim efnum frekar en aðrir stjórnmálaflokkar í þessu landi. Það er bara einn þm. af kvenkyni fyrir Alþb. Það er eiginlega ekkert, sem við getum hrósað okkur af, annað en það, að fyrir Framsfl. er enginn, ef það er eitthvað til að hrósa sér af. Hinir flokkarnir hafa einn kvenmann hver, það er nú allt og sumt, þannig að Alþb. hefur ekki hreinan skjöld þar. Það kann að vera, að maður eigi að gæta bróður síns, en ekki ætla ég að fara að taka hér hanskann upp fyrir hæstv. félmrh.

Ég get hins vegar lýst skoðun minni á því máli sem menn telja hér, t. d. hv. þm. Karvel Pálmason, að sé kveikjan að þessari umr. Ég tel raunar ekki að þar þurfi neina slíka kveikju. Mín skoðun á því máli er sú, að það sé meira en vafasamt hvort þar var mismunað körlum og konum til starfs. Jafnréttisráð gat ekki tekið einarða afstöðu til þess máls. Ég skal hins vegar ekkert fullyrða um það, hvort þetta var rétt veiting eða röng. Til þess skortir mig þekkingu á þeim fræðum sem það fólk, sem um þessa stöðu sótti, er menntað í. En eitt get ég fullyrt: að hæstv. félmrh. hefur ekki veitt þessa stöðu karlmanni af því að hann var karlmaður, svo vel þekki ég hann, að ég leyfi mér að fullyrða það. Hvort það var svo endanlega rétt veiting verður hann að svara fyrir. (Gripið fram í.) Ég heyrði því miður ekki hvað hv. þm. Karvel Pálmason sagði. Hins vegar fagna ég því, að hann er skyndilega staðinn hér upp á Alþingi Íslendinga og farinn að ræða jafnréttismál, því miður meira af kappi en forsjá eins og oft áður.

Ég vænti þess, hv. þm., að þessi mál verði ekki dregin niður í þessa venjulegu flokkspólitísku umr. sem þjónar engum tilgangi vegna þess að málefnið gleymist fyrir offorsi út í þá sem um málefnin eru að tala. Þetta mál er allt of alvarlegt, allt of gott mál til þess, og ég skora á þá einu systur, sem ég á hér í hv. deild, að láta ekki þvæla sér út í slíka umr. Þetta málefni á betra skilið.