01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3325 í B-deild Alþingistíðinda. (3413)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Hér er til umr. frv. til l. um heilbrigðis- og vistunarþjónustu fyrir aldraða. Þetta er eflaust gagnmerkt frv., enda margir hv. þm. búnir að taka hér til máls og lýsa kostum frv. og göllum. Hæstv. heilbrmrh. hvatti þm. til að ganga rösklega til verks og er það vel, en þó mun það gætinna manna háttur að flýta sér hægt, og á ég þá við að í þessu frv. eru ýmis ákvæði sem þyrfti að huga betur að.

Ég ætla ekki að ræða þetta frv. verulega efnislega, en taka aðeins smágrein hér til umr. Það er fyrst og fremst 3. gr., en þar er gert ráð fyrir að landinu verði skipt í þjónustusvæði samkv. lögum nr. 57/1978, um heilbrigðisþjónustu. Og í 4. gr. er gert ráð fyrir því, að á hverju þjónustusvæði skuli starfa ellimálanefnd í stjórnunartengslum við heilsugæslustöðvar. Það voru þessi atriði sem mig langaði til að huga að.

Hér er ég með þau lög sem vitnað er í frv., lög um heilbrigðisþjónustu sem samþykkt voru á Alþingi 6. maí 1978. Þar kemur dálítið undarleg staða upp. Sjálfsagt hafa margir eitt og annað við það að athuga, hvar þeir eru settir niður í þessum lögum um heilbrigðisþjónustu, en ég ætla að gera tvö umdæmi að umræðuefni hérna.

Hólmavíkurumdæmi: Þess starfssvæði er Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Hrófbergshreppur. Hólmavíkurhreppur, Kirkjubólshreppur, Fellshreppur, Óspakseyrarhreppur og Bæjarhreppur í Strandasýslu. Auk þess eru Geiradalshreppur, Reykhólahreppur, Gufudalshreppur, Múlahreppur og Flateyjarhreppur. Það segir okkur að Flatey á Breiðafirði er í Hólmavíkurlæknishéraði. Ef menn athuga nú aðeins nánar hvað þarna er um að vera, hvernig fólk úr Flatey, ef það kennir sér einhvers meins og telur sig þurfa að leita læknis, nær læknisfundi, þá þætti mér gaman að því, að hv. þm. hugleiddu hvaða leið þeir mundu fara til Hólmavíkur til þess að leita læknis. Þá færu þeir væntanlega frá Flatey með skipi. Það er sjálfsagt víða hægt að lenda á Barðaströndinni, en það mundi líklega fara að Reykhólum — maður gæti ímyndað sér það — fara upp í Múlanesið eða þá eitthvað vestar. Þá eru eftir fjallvegir á þessu svæði úr Austur-Barðastrandarsýslu og yfir í Strandasýslu. Þar munu vera til tveir fjallvegir. Það er Steinadalsheiði, en fyrir löngu er hætt að halda við vegi á þeirri heiði, enda er þar þröngur dalur og allan veturinn eflaust snjór, og síðan er það Tröllatunguheiði, sem er upp úr Geiradal, geysihár fjallvegur og yfirleitt ekki bílfær nema í mesta lagi þrjá mánuði yfir hásumarið.

Þetta er þeim úr Flatey ætlað. Mér þætti ekki líklegt að þarna sé um minna en tveggja daga ferð að ræða.

Svo að ég taki Hvammstangaumdæmi, þá eru þar allir hreppar í Vestur-Húnavatnssýslu, sem eðlilegt má teljast, en frá því að fyrst kom læknir á Hvammstanga hefur Bæjarhreppur í Strandasýslu alltaf verið í Hvammstangalæknishéraði. Þeim, sem ókunnugir eru , ætla ég að segja að sá hreppur er að vestanverðu við Hrútafjörðinn, frá Hrútafjarðará og út með Hrútafirðinum. Þessi hreppur hefur alltaf verið í Hvammstangalæknishéraði, en með þessum lögum frá 1978 er honum allt í einu laumað inn í Hólmavíkurlæknishérað. Það er yfir tvo fjallvegi að fara úr Bæjarhreppi til Hólmavíkur sem jafnan á vetrum eru mjög illir yfirferðar vegna snjóa. En svona eru þessi lög um heilbrigðisþjónustu sem vitnað er til í frv. um heilbrigðis- og vistunarþjónustu fyrir aldraða. Ég veit ekki hver hefur samið þessi lög um heilbrigðisþjónustu, en það liggur alveg ljóst fyrir, að þeir, sem hafa þar að staðið, hafa ekki gert sér grein fyrir hvað þeir voru að gera, hafi þá ekki aðrar hvatir legið til. Og þeir hafa a. m. k. ekki hugsað um þá sem þjónustunnar áttu að njóta. Þar hefur örugglega ekki verið leitað t. d. umsagnar hreppsnefndar Bæjarhrepps, vegna þess að hreppsbúar fréttu fyrst nokkrum mánuðum eftir að lögin höfðu tekið gildi að þeir væru allt í einu komnir í Hólmavíkurlæknishérað.

Ég veit ekki, eins og ég sagði, hvaða hvatir hafa legið til þess, að Bæjarhreppur í Strandasýslu, sem alla tíð hefur verið í Hvammstangalæknishéraði, er allt í einu kominn í Hólmavíkurlæknishérað. Og þetta frv., sem hér er til umr., gerir ráð fyrir að Bæjarhreppur eigi að vera í ellimálanefnd með Strandamönnum, þ. e. á Hólmavík. Þeir eiga þá að vera á einum báti, Bæjarhreppur og Flatey á Breiðafirði, í ellimálanefnd með Hólmvíkingum. Allir, sem til þekkja, munu að sjálfsögðu sjá hve mikil fjarstæða þetta er. (Félmrh.: Enda hefur lögunum ekki verið hlýtt, hv. þm.) Lögum á að sjálfsögðu að hlýða. En hæstv. félmrh. veit að þetta gildir meira en bara það, hvar menn eru í nefnd. Það skiptir máli fyrir þá, sem standa að heilsugæslustöð eins og læknishérað gerir, eiga að byggja upp, taka hlut í uppbyggingu heilsugæslustöðvar. Og mér fyndist miklu eðlilegra að Bæjarhreppur í Strandasýslu tæki þátt í uppbyggingu á heilsugæslustöð á Hvammstanga, vegna þess að þar hafa þeir alla þjónustu og hafa alltaf haft, heldur en að fara að taka þátt í uppbyggingu heilsugæslustöðvar á Hólmavík, þar sem þeir hafa aldrei notið þjónustu og munu aldrei njóta. Í þessu sambandi má benda á að fimm hreppar í Vestur-Húnavatnssýslu ásamt Bæjarhreppi í Strandasýslu eru einmitt núna að gera sameiginlegt átak í byggingu aðstöðu fyrir aldrað fólk á Hvammstanga, þannig að þeir ætla sér ekki í framtíðinni að vera í samvinnu við þá norðar á Ströndunum um þessi mál. Mér þykir þá miklu eðlilegra að Bæhreppingar eigi þess kost að nota sinn atkvæðisrétt þegar á að fara að kjósa ellimálanefnd fyrir þetta svæði heldur en eiga að taka þátt í því ásamt þeim í Flatey að kjósa ellimálanefnd fyrir Hólmavíkurhérað, þar sem þeir munu aldrei koma til með að njóta neinnar þjónustu. Ég get ekki litið á þetta öðruvísi en þvingun, að það eigi að þvinga þetta fólk, sem aldrei hefur notið læknisþjónustu eða neinnar heilbrigðisþjónustu á Hólmavík, — það eigi að fara að þvinga það þangað gegn vilja þess, gegn margítrekuðum erindum hreppsnefndar Bæjarhrepps til heilbrigðisyfirvalda hér í Reykjavík um að fá að vera áfram í Hvammstangalæknishéraði. Ég vil beina þessu til nefndar þeirrar, sem á að fjalla um þetta frv. að umr. lokinni, og skora á hana að gera leiðréttingu hér á. Ég er þá sérstaklega að hugsa um Bæjarhreppinn, og mér finnst það liggja í hlutarins eðli, að þá verði öðru klúðri viðkomandi Hólmavíkurumdæmi kippt í liðinn um leið.

Herra forseti. Það var fyrst og fremst þetta atriði sem ég ætlaði að leggja áherslu á, vegna þess að ég veit um hug heimamanna í Bæjarhreppi, að þeir vilja vera áfram í Hvammstangahéraði, hafa aldrei sótt læknisþjónustu til Hólmavikur og munu sennilega aldrei gera það vegna landfræðilegrar legu Bæjarhrepps, því að ég skal endurtaka það, þeir eiga yfir tvo fjallvegi að fara á leið til Hólmavíkur, en á leið til Hvammstanga er farið með ströndinni.

Erindi mitt hingað upp, herra forseti, var að benda þeirri hv. þm., sem fær þetta frv. til umfjöllunar, á þennan agnúa sem ég tel og heimamenn telja að sé á fyrirkomulagi þessara mála.