01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3351 í B-deild Alþingistíðinda. (3429)

94. mál, vernd barna og ungmenna

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lýsa furðu minni á þeim athugasemdum sem hv. 8. landsk. þm. gerði við 2. gr. þess frv. sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum nr. 53 frá 1966, um vernd barna og ungmenna. Því miður eru mál sem þessi rædd í slíkum trúnaði, að ekki er hægt að taka dæmi. En við erum öll borgarfulltrúar. Og borgarstjórn, þar áður borgarráð, hefur nýlega rætt mál, barnaverndarmál, á lokuðum fundi, þar sem fer ekki á milli mála að þessi grein á rétt á sér. Ég get nefnt dæmi um misbeitingu í þessu tilfelli, og það nýlegt dæmi og annað dæmi en það sem ég vitna hér til undir rós. Ég legg mikla áherslu á að þessi grein verði með og við henni verði ekki hróflað.

Sönnunarskylda er ekki á barnaverndarnefnd gagnvart neinum öðrum en barnaverndarráði, og borgarfulltrúar — sem eru þó ábyrgir fyrir kjöri á barnaverndarnefndarmönnum — fá ekki þau gögn sem barnaverndarnefnd byggir sínar ákvarðanir á, þrátt fyrir þann trúnað sem þar ríkir á lokuðum fundi, í þröngum hópi borgarráðsmanna, þar sem engir aðrir eru viðstaddir.

Ég vil þakka flm., hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni, fyrir að flytja þetta frv. til laga. Ég veit að við erum báðir borgarfulltrúar — það er hv. þm. Guðrún Helgadóttir líka — og höfum talsverða þekkingu á þessum málum sem slíkir. Borgarfulltrúi Guðrún Helgadóttir, sem hefur setið í barnaverndarnefnd eftir því sem hún upplýsti hér, hlýtur að vera öllum þessum greinum og breytingum sammála. En ég ítreka að það er kominn tími til að það alræðisvald, sem barnaverndarnefnd hefur — að undanteknu því að hægt er að áfrýja dómum hennar til barnaverndarráðs — er ógnvekjandi. Ég tala þar af reynslu, og ég tel að það sé brýn nauðsyn að ganga þannig frá lögum að um misbeitingu geti ekki verið að ræða í neinu tilfelli.