02.04.1981
Sameinað þing: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3368 í B-deild Alþingistíðinda. (3448)

15. mál, landhelgisgæsla

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Örfá orð.

Hv. 4. þm. Suðurl., sem hér var að ljúka máli sínu, gaf enn góð ráð og upplýsingar og hvatti til þess, að vel væri farið með fé ríkisins og leitað skyldi til þeirra jafnan sem mesta og besta þekkingu hafa hverju sinni við ráðstöfun fjár. Kann ég honum bestu þakkir fyrir þetta.

En ég er honum ekki sammála um það sem hann sagði um síðustu setninguna í grg. frv. Það er engum að tala um að yfir þessum málum eigi að hvíla einhver sérstök leynd eða þessu eigi að leyna. Þvert á móti á að leggja á borðið þær upplýsingar sem fyrir hendi eru, sérstaklega þegar búið er að afla þeirra. En ekki er vanþörf á, a. m. k. öðru hverju, að minna menn á að vera í störfum sínum bundnir vissum trúnaði við þau verkefni sem þeim eru falin. Ég er ekki að segja að það þurfi sérstaklega að minna hv. 4. þm. Suðurl. á þessi rök, en þau eru þó til.

Hv. 1. landsk, þm. minntist m. a. á það, að þörf væri á að endurskoða lög um landhelgisgæsluna. Ég get út af fyrir sig vel á þetta fallist. Ég gat þess fyrr í þessum umr. að Landhelgisgæslan stæði að vissu leyti á vegamótum og hennar málefni þyrfti öll að ræða gaumgæfilega með hliðsjón af þeim auknu og vaxandi skyldum eða skyldustörfum sem henni eru lögð á herðar. Hitt má líka segja, að nefnd sú, sem talað er um að hér verði sett á laggirnar, geti athugað þessi mál sérstaklega. E. t. v. má enn bæta því við, að stundum er frekari þörf á að skoða framkvæmd laga og reyna að fylgja eftir ákvæðum gildandi laga en hugsa eingöngu um lagabreytingar.

Hv. 1. landsk. þm. gat enn fremur um það, að hann teldi eðlilegt að fela Gæslunni fleiri verkefni, svo sem aukin störf að vitaþjónustunni. Ég get vel á þetta fallist og veit ekki betur en þetta mál sé einmitt til umræðu í nefndum þingsins nú.

Þá minntist þessi sami hv. þm. á það, að starfsmenn Gæslunnar hefðu ekki verkfallsrétt. Þetta er hverju orði sannara. Ég tel að eins og störfum þessara manna er háttað sé þessi regla rétt. Hins verður vel að gæta, að þessir ágætu starfsmenn gjaldi ekki þessarar lagareglu, heldur þvert á móti njóti hennar. Það verður að sjá svo um, að þeir njóti þessarar sérreglu þegar kjör þeirra eru skoðuð og allar aðstæður, en hún bitni ekki á þeim.

Hv. 4. þm. Norðurl. e., Stefán Jónsson komst að orði eitthvað á þá leið, að við — þá átti hann við þm. — yrðum að segja allt í Sþ., án tillits til þess hvort það kæmi viðkomandi ráðh. vel eða illa, í stað þess að ganga upp í ráðuneyti og hjala þar við hann. (Gripið fram í: Já, í eyra hans.) Já, þetta er út af fyrir sig alveg rétt. Og ég hef aldrei gert athugasemdir við það, að þm. töluðu héðan úr þessum ræðustól um allt mögulegt. Vissulega hafa þeir fullt málfrelsi og þarf ekki um það að tala. Og sannarlega er hér um upplýsingar og málefni að ræða sem allan þingheim varða. En hitt er það, að ef einhver hv. alþm. býr yfir einhverjum válegum upplýsingum sem geta skipt talsvert miklu máli um góða stjórn landsins mála, þá ætlast ég til þess að hann skjóti því að sínum ráðh., sérstaklega þegar um dygga og trausta stuðningsmenn núv. ríkisstj. er að ræða, eins og ég veit að hv. 4. þm. Norðurl. e. er. (StJ: En ekki Árni.) Ja, það er nú svo. Ég læt þeirri athugasemd ósvarað í bili.

Þá kem ég loks að orðum hv. 6. þm. Norðurl. e. Hann lét í það skína að starfsmenn Gæslunnar ættu erfitt með að ná mínum fundi eða stjórn starfsmannafélagsins, að því að mér skildist, og að ég hefði ekki upplýsingar um málefni Gæslunnar frá réttum aðilum. Ég gat þess fyrr í þessum umr., að þó að ég hefði ekki talað við hvern og einn af starfsmönnum Gæslunnar hefði ég mínar upplýsingar ekki einungis frá einum aðila, heldur fleirum. Í rn. eru að sjálfsögðu menn sem þekkja þessi störf af áratugalangri vinnu. Auk þess gat ég þess, að starfandi væri á vegum rn. innanhúsnefnd sem væri skipuð vel hæfum mönnum. Það eru Ólafur Walter Stefánsson skrifstofustjóri, Þröstur Sigtryggsson skipherra og Valdimar Indriðason framkvæmdastjóri. En til þess að fyrirbyggja allan misskilning vil ég taka það skýrt fram, að það eru ekki einungis yfirmenn Landhelgisgæslunnar eða stjórn Starfsmannafélagsins sem velkomnir eru á minn fund hvenær sem er eftir nánara samkomulagi, heldur hver og einn einasti starfsmaður Gæslunnar. Ég vona að þeir eigi ekki erfitt með að ná mínum fundi ef þeir gera góðar tilraunir í þá átt.

Ég er alveg sammála hv. 6. þm. Norðurl. e. um það, að nauðsynlegt er að bæta tækjakost Gæslunnar og allan aðbúnað til mikilla muna. Hún þarf að fá betri búnað og öruggari tæki og nýtískulegri tæki sem svara kröfum tímans. Vissulega er hér um stórmál að ræða sem vert er og sjálfsagt að athuga gaumgæfilega, og ég þakka þeim ræðumönnum, sem hafa tekið þátt í þessum umr., fyrir það, sem þeir hafa lagt jákvætt til málanna, og þann áhuga sem þeir hafa sýnt verkefnum Landhelgisgæslunnar.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð nú, en vil enda ræðu mína á svipuðum orðum og ég endaði á fyrstu ræðu mína um þessi mál: að við verðum að halda uppi öflugri landhelgisgæslu á sjó og í lofti og leggja á okkur að greiða þann kostnað sem af því leiðir.