05.11.1980
Neðri deild: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

47. mál, niðurfelling á opinberum gjöldum barna 1980

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þær umr., sem hér hafa verið, nema að litlu leyti.

Það, sem við verðum fyrst og fremst að líta á í þessu máli, er af hverju þessir skattar eru upp teknir og hvort einhver sanngirni er í því að þeir séu upp teknir. Hvernig voru þeir áður? Mér finnst litlu máli skipta tekjuþörf ríkisins í því sambandi, heldur sú staðreynd, að við höfum verið að reyna að byggja upp heilsteypt skattakerfi sem á að taka tillit til aðstæðna hverju sinni. Menn hafa reynt að gera það af góðri samvisku á Alþingi. Það hefur verið góð samstaða um það. Hins vegar hefur ekki verið samstaða um þær prósentur í skattlagningu sem hafa verið lagðar til grundvallar. Það hefur verið mjög góð samstaða hér á Alþ. um að byggja upp það sem við viljum halda að sé réttlátt skattkerfi. Það væri mikil ógæfa ef menn ætluðu að hætta þeirri samstöðu, því að ég held að hún hafi orðið okkur til styrktar í þessum málum.

Ég vil halda því fram, að þau skattalög, sem nú gilda, séu kannske það helsta tæki sem okkur hefur tekist að koma á í sambandi við baráttuna við verðbólguna. Þessi skattalög eru mikilvæg í baráttunni gegn verðbólgunni. Ég leyfi mér að fullyrða að ekki er hægt að benda á eitt einasta mál á undanförnum árum á Alþ. sem hefur verið jafnmikilvægt í því sambandi.

Það hafa alltaf verið miklir skattalækkunarmenn á Alþingi. Nú heyrist mér að hv. þm. Halldór Blöndal sé orðin mesti málsvari þeirra, en á árunum 1974–1978 áttu skattalækkunarmenn sér aðra málsvara. Það verður að hafa sinn gang. Það verða á hverjum tíma miklir skattalækkunarmenn á Alþ., en mér sýnist að það sé reynsla sögunnar að þeir komi fyrst og fremst úr röðum stjórnarandstöðunnar, en breyti svo til þegar í stjórnarstólinn kemur. Þetta er að sjálfsögðu mikill veikleiki á vinnu stjórnmálamanna, sem ég skal ekki gera hér frekar að umræðuefni.

Spurningin um hvort á að skattleggja tekjur barna er vissulega þess verð að um sé spurt. Mér heyrist hv. 1. flm. taka undir það í frv. sínu, að vissulega sé réttlætanlegt að slíkt sé gert. Ég skil hann svo, að það sé fyrst og fremst vegna þess, hvað þessi skattlagning kemur seint, að hann vilji leggja skattana af í bili. En við komumst hins vegar ekki fram hjá því, að slík ákvörðun að skattleggja tekjur barna hefur verið tekin af öllum stjórnmálaflokkum á Íslandi allt frá því að skattlagning hófst og tekjur barna hafa ávallt verið skattlagðar.

Áður en núverandi kerfi var tekið upp og síðast þegar þessar tekjur voru skattlagðar var það gert með þeim hætti, að það var heimilt að draga svokallaðan námsfrádrátt frá tekjunum og einnig var heimilt að fara fram á svokallaða sérsköttun. Þessi svokallaða sérsköttun, sem menn þurftu að fara fram á, gat þýtt það, — það var á árinu 1979 að þessi skattlagning fór síðast fram, — að aðeins var lagður skattur á tekjur barns sem svaraði 120 þúsundum, ég held að ég fari rétt með: 120 þús. og 800 kr. Tekjur, sem voru þá umfram þennan skólafrádrátt eða námsfrádrátt plús 120 800 kr. voru því í mörgum tilfellum í reynd skattfrjálsar.

Haustið 1976 var lagt fram frv. af hæstv. þáv. fjmrh., Matthíasi Á. Mathiesen, sem var undirbúið af nefnd undir hans forustu. Þar var ekki gert ráð fyrir að væri tekið upp staðgreiðslukerfi skatta og þar var gert ráð fyrir að tekjur barna væru skattlagðar með tekjum foreldra og hin svokallaða sérsköttun væri felld niður. Hins vegar var gert ráð fyrir að ákveðið tekjumark yrði skattfrjálst þannig að á fyrstu upphæðina legðist enginn skattur, en síðan allþungur skattur á það sem á eftir kæmi.

Nýtt frv. var lagt fram á þinginu 1977–78, sem var árangur af endurskoðun þess frv. sem lagt var fram 1976 og hafði hlotið mjög litla umfjöllun þingmanna á Alþ., og á það jafnt við um þá, sem þá voru í stjórnarandstöðu, og hina, sem studdu þáv. ríkisstj. Þá var niðurstaðan sú, að tekjuskattur barna yrði 5% miðað við staðgreiðslu. Ég minnist þess, að um það var rætt, að líklegt væri að heimild sveitarfélaganna til að leggja á útsvar yrði 2%. — Nú eru sveitarfélögin frjáls að því að nokkru leyti, sem betur fer, hvernig þau leggja á sinn skatt. Þó að þeim sé heimilt að leggja 3% útsvar á tekjur barna er enginn að skylda þau til þess. Þau verða að sjálfsögðu að hafa svigrúm til þess að ákveða slíkt eins og ríkissjóður. — Þá var rætt um það, að slíkt hámarksútsvar yrði 2%. Hins vegar minnist ég þess ekki, að það hafi verið rætt um sjúkratryggingagjald, enda var það tekið upp um það leyti. Ég man ekki alveg hvaða ár það var, en sennilega var það 1976 eða 1977. Þetta var gert m.a. vegna þess að það stóð til að taka upp staðgreiðslukerfi skatta. Ég skil það svo, að enn sé hugmyndin að taka upp staðgreiðslukerfi skatta. En sannleikurinn er sá, að þegar við samþykktum þessi lög á Alþ. 1978 vissum við mætavel að staðgreiðslukerfi skatta yrði ekki komið á í ársbyrjun 1979. Þm. geta flett upp á því í umr. um þessi mál að okkur var það fullljóst. Við vissum þess vegna að þessi skattur, ef á yrði lagður, gæti orðið skattur sem kæmi eftir á. Hins vegar býst ég við að við höfum látið þetta gott heita, og ég segi það fyrir mitt leyti, í þeirri trú að verið væri að vinna af fullri hörku og fullri einurð að því að taka þetta kerfi upp og því bæri að setja þennan skatt í slíkt form strax og bíða ekki eftir því að slík breyting yrði tekin upp. Það er líka ýmislegt annað í þessum lögum, sem gerir ráð fyrir staðgreiðslukerfi skatta, sem væri ekki síður ástæða til að breyta ef menn væru endanlega búnir að gefa upp á bátinn hugmyndina um staðgreiðslukerfi skatta, sem ég vona að sé ekki hér á hv. Alþingi.

Ég sé að hv. þm. Matthías Á. Mathiesen er ekki í salnum. Ég sá hann hér fyrir stuttu. En ég vil aðeins gera að umræðuefni þær skattprósentur sem hér um ræðir. Hann segir í viðtali við Morgunblaðið að ríkisstj. hafi hækkað skatta ungmenna úr 5% í 11.5%. Þetta er vægast sagt mjög villandi fyrirsögn. Ég vil ekki kalla hana beint fals, en hún er afskaplega villandi því að 5% skatturinn, sem var tekinn í lög, var miðaður við staðgreiðslu. Þá var gert ráð fyrir 35% verðbólgu milli ára þannig að þessi 5% mundu jafngilda tæpum 8% skatti ef hann væri færður upp. En niðurstaðan varð sú, að skatturinn var ákveðinn 7% og voru ýmsar skoðanir á lofti um það, en sú varð niðurstaðan.

Það er rétt, að ekki var búið að taka neina ákvörðun um heimild til sveitarfélaganna til að leggja útsvar á þessar tekjur. En það hefur alltaf verið gert ráð fyrir að slík heimild legðist ekki niður, vegna þess að sveitarfélögin höfðu þessa heimild áður.

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé ekki hægt að komast fram hjá því í heilsteyptu skattkerfi að leggja skatt á vinnutekjur barna. Það er ýmislegt sem þar kemur til. Við vitum að það eru ýmsir millifærslumöguleikar tekna á milli einstaklinga sem alls ekki er hægt að líta fram hjá. M.a. af þeirri ástæðu tel ég rétt að leggja nokkurn skatt á vinnutekjur barna. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, að þessi skattur eigi að vera hóflegur svo að hann dragi ekki úr vilja ungmenna til að sjá sér farboða og vinna að einhverju leyti fyrir sínum skólakostnaði. Þetta er mikilvægt og má ekki draga úr því.

Menn tala gjarnan um pólitískt þróttleysi. Í miklum leiðara í Morgunblaðinu fyrir stuttu er sagt m.a. að það sé til marks um pólitískt þróttleysi þegar forsrh. og fjmrh. kyrja þann söng, að barnaskattarnir komi þeim ekkert við og það hafi verið hinum vondu sjálfstæðismönnum að kenna. Ég held að það sé ekki okkur sæmandi að vera með slíkan málflutning. Það bera allir pólitískir flokkar á Íslandi ábyrgð á þessari stöðu mála. Menn geta haft mismunandi skoðanir á því, hvort þetta hafi verið rangt og það beri að fella þessa skatta niður. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég vil hins vegar minna á að það þarf mikinn pólitískan þrótt til að halda uppi og standa vörð um heilsteypt skattkerfi. Það er afskaplega lítið mál að rífa það niður. Það hefur oft verið gert smátt og smátt. Ég minni þar á söluskattskerfi okkar sem er búið að rífa í tætlur og eyðileggja með alls konar breytingum út og suður sem hafa verið samþykktar hér á Alþ. og þm. meira og minna staðið fyrir. Ég vara við því, að menn reyni að byrja á slíkum leik varðandi hið nýja tekjuskattskerfi, og væri nær, að menn settust niður saman og reyndu að treysta það og styrkja, en vera að klípa út úr því og eyðileggja þá heildarmynd sem þó komst á með þeim lögum.