02.04.1981
Sameinað þing: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3389 í B-deild Alþingistíðinda. (3471)

99. mál, eldsneytisgeymar varnarliðsins

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég þakka þær undirtektir sem þessi till. hefur fengið og þá sérstaklega frá hæstv. utanrrh., sem hefur rakið hvernig máli þessu er háttað, hversu mikið eldsneytismagn er til í landinu og um hve mikla aukningu er að ræða ef þessir tankar verða byggðir. Allir, er komið hafa í ræðustólinn, hafa mælt með samþykkt till., utan félmrh. Þó var hann það hógvær að það er ætlun mín að ræða hans nú hafi verið undirbúningur undir það, að í næstu ræðu mæli hann með samþykkt till. Alla vega veit það á gott hve hógværðin var mikil.

Ég minni á það, eins og hæstv. utanrrh., að mál þetta er til komið vegna óska frá Íslendingum, vegna krafna frá bæjarstjórnum á svæðinu í grennd við herstöðina um að frelsa íbúana frá þeirri mengunarhættu, sem olíutankarnir, sem nú eru, valda þeim, og líka vegna þess að tankarnir eru mjög fyrir af skipulagslegum ástæðum. Það er alllangt síðan bæjarstjórnirnar hófu máls á því, að við þetta yrði ekki unað, það yrði að bæta úr. Menn hafa verið hræddir við það, hve ástand tankanna hefur verið slæmt. Það er mjög slæmt. Það er verra en menn gera sér almennt grein fyrir, held ég, og væri nokkur þörf á því, að þeir, sem hæst tala um þetta, gerðu sér ferð suður eftir til að kynna sér hvernig ástandið er.

Það hafa margir orðið til þess að taka undir þessar röksemdir Suðurnesjamanna eða Keflvíkinga og Njarðvíkinga. Er rétt að vitna í grein sem birtist í Þjóðviljanum 19. 12. 1978, en þar segir, með leyfi forseta:

„Frá því 1974 hefur sem sagt ekkert verið gert í þessu alvarlega máli. Menn stinga einfaldlega höfðinu í sandinn og bíða þess rólegir að vatnsból Suðurnesja verði eyðileggingunni að bráð. Í þessari staðreynd speglast enn og aftur undirlægjuhátturinn gagnvart hernum í heiðinni. En það er ekki aðeins herinn sem ber ábyrgð, heldur ekki síður þeir embættismenn sem um málið hafa fjallað og stungið háskalegum niðurstöðum undir stól. Nýbökuðum ráðh. utanríkismála og heilbrigðismála og formanni varnarmáladeildar og heilbrigðiseftirlits ber að hreinsa embætti sín af ábyrgðinni áður en það verður of seint. Fyrirrennarar þeirra í þessum embættum hafa í þessu máli sýnt slíkt fyrirhyggjuleysi að furðu gegnir, en slíkt hefur því miður verið einkenni fyrir samskipti Íslendinga, íslenskra ráðamanna, við herinn.“

Ég lýk þessari tilvitnun, en þetta er vitni um það, hversu margir og ólíklegustu aðilar hafa komið Suðurnesjamönnum til hjálpar í rökstuðningi þeirra.

Það kom fram í máli hæstv. félmrh. áðan að hann væri tilbúinn að leggja sitt af mörkum til að leysa mengunarvandamálin og einnig hvað varðar skipulagsmálin. Því er það brennandi spurning á vörum okkar hinna: Hvernig má það vera? Hvernig ætlar hann það að gera?

Það kom einnig fram í ræðu hans, að hann hefur ekki lesið þessa till. til þál., því að hann óskaði eftir því sérstaklega að hinar ýmsu stofnanir yrðu látnar gefa umsögn um hvernig með þetta mál yrði farið. Það kemur fram í grg. tillögunnar að þessir aðilar hafa nú þegar um þetta fjallað og reyndar margir fleiri. Þegar hafa borist umsagnir frá Brunamálastofnun, Skipulagsstjóra, Siglingamálastofnun, heilbrigðisfulltrúa Suðurnesja, Heilbrigðiseftirliti ríkisins, Raunvísindastofnun, Hafnamálastofnun, frá Jóni Jónssyni jarðfræðingi, sem allra manna best hefur kannað vatnasvæðin þar syðra, frá Náttúruverndarráði og nokkrum öðrum.

Þessi till. er flutt vegna þess að fram hafa farið umræður í fjölmiðlum um það, að samkomulag sé um að stöðva nauðsynlegar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli. Reyndar hefur það síðar komið fram, að til sé samningur um að ekkert verði framkvæmt nema með leyfi Alþb., svo skrýtið sem það er. En í máli hæstv. utanrrh. kom fram að það væri varla unnt að hraða þessum framkvæmdum. Ég tel að það sé ekki rétt. Ég held að ljóst sé að hægt sé að hraða þessum framkvæmdum, vilji er allt sem þarf. Það er mjög nauðsynlegt vegna þeirra íbúa sem við þetta þurfa að búa. Það er aðalatriðið og bið ég menn að hafa það í huga.

Þeir eru örfáir sem hafa mótmælt byggingu þessara tanka. Alþb.-menn hafa gert það á mjög hógværan hátt núna í seinni tíð. Það vakti þó athygli syðra, að forstjóri Olíufélagsins hf. mótmælti þessu eða sagðist telja að það væri engin þörf á þessum tönkum. Það var gert mikið úr þessu, rætt um þetta í Tímanum og þeir átu það upp í Þjóðviljanum. Mér fannst áðan sem komin væri skýring á því, hvers vegna þau andmæli komu fram, en það kom fram að varnarliðið leigir tanka af Olíufélaginu í Hvalfirði. Mig grunar að það séu feikilega miklar upphæðir sem það fær fyrir leigu á tönkum sem varnarliðið gaf þeim á sinum tíma eða seldi á „spottprís“, þannig að fjárhagslegir hagsmunir reki þann aðila til að bregðast öndverður við.

Ég tel óþarfa að hafa um þetta fleiri orð, nema ég vona að menn átti sig á því, að fyrir okkur, sem búum þarna syðra, eru mengunarhættan og skipulagsvandræðin aðalmálið og það þarf að leysa. Við þurfum hér í Alþingi að eiga frumkvæði að því að leysa svona mál. Það má deila um hvar mannvirkin eigi að vera og hversu hratt breytingin eigi að ske, en hún verður að ske. Það er hyggja mín, að hún verði að gerast mjög fljótt því við vitum ekki nema nú þegar hafi orðið slys. En hafi það ekki orðið komum við í veg fyrir það með því að samþykkja þessa till. Ég vona að það verði gert með sem allra stærstum meiri hluta.— Vafalaust verður hún samþykkt, en ég vona að sem allra flestir taki þátt í því.