06.04.1981
Sameinað þing: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3415 í B-deild Alþingistíðinda. (3481)

387. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1981

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ef menn vilja freista þess að draga upp heildarmynd af stefnunni í efnahagsmálum, sem núv. hæstv. ríkisstj. virðist fylgja og lesa má af fjárlögum yfirstandandi árs og þeirri lánsfjáráætlun, sem nú liggur loksins fyrir, virðast mér helstu einkennin vera þessi:

Ríkisbúskapurinn í heild er rekinn með umtalsverðum halla. Þótt fjárlög séu hallalaus að nafninu til felst í því sá feluleikur, að sívaxandi hluti ríkisútgjalda er einfaldlega ekki tekinn með í reikninginn í hinum eiginlegu fjárlögum, heldur birtist í formi sívaxandi skuldaaukningar í lánsfjárlögum. Æ stærri hluti heildarfjármunamyndunar í þjóðarbúskapnum er fjármagnaður með lánum. Hlutur lánsfjár í útlánum fjárfestingarlánasjóða fer ört vaxandi. Þrátt fyrir takmarkaðan árangur verðtryggingarstefnunnar, sem Alþfl. getur sérstaklega lýst ánægju sinni yfir, er engu að síður ljóst að eigin fjármögnun sjóða og bein ríkisframlög af skatttekjum til opinberrar fjárfestingar fara minnkandi sem hlutfall af heildarfjárfestingu. Hlutur erlendra lána til langs tíma fer vaxandi, einnig sem hlutfall þjóðarframleiðslu. Erlendar skuldir til langs tíma nema nú 2.5 millj. gkr. á hvern einstakling í landinu eða 10 millj. gkr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Greiðslubyrði vaxta og afborgana af löngum erlendum lánum sem hlutfall af útflutnings- og gjaldeyristekjum fer einnig vaxandi og stefnir í yfir 15% af útflutningstekjum á árinu 1981. Í samanburði við aukningu fjármunamyndunar opinberra aðila, sem í sívaxandi mæli er fjármögnuð með lánsfé, fer fjárfesting einkaaðila í atvinnulífinu hlutfallslega minnkandi. Þess eru og mörg dæmi nú, eins og reyndar oft áður, að á lánsfjáráætlun er gert ráð fyrir umtalsverðum lántökum til að standa undir óarðbærum framkvæmdum og jafnvel hreinum rekstrarútgjöldum einstakra ríkisstofnana. Þetta staðfestir að lánsfjáráætlun í heild og erlendar lántökur alveg sérstaklega eru greinilega meðhöndlaðar sem afgangsstærð í ríkisfjármáladæminu. Undir það teppi sópar hæstv. ríkisstj. gjarnan hvers kyns útgjöldum sem ekki rúmast innan ramma fjárlaga ef stjórnvöld vilja leggja kapp á að sýna þau hallalaus að nafninu til.

Reynslan sýnir að á undanförnum árum hafa bæði tekju- og útgjaldaáform samkv. lánsfjáráætlunum farið úr böndum. Flest bendir til þess, að þessi lánsfjáráætlun verði þar engin undantekning. Sérstaklega verða gefnar forsendur áætlunarinnar um verðlagsþróun og gengi á næstu mánuðum að teljast ótraustar. Þrátt fyrir nokkra vísbendingu um jákvæðan árangur verðtryggingarstefnunnar, sem áður var vikið að, sem birtist í nokkurri innlánsaukningu í bankakerfinu, verður fátt ráðið af þessari lánsfjáráætlun um hvaða stefnu ríkisstj. hyggst fylgja og hvaða tækjum hún hyggst beita til almennrar peningamálastjórnar. Enn er allt í fullkominni óvissu um gengisskráningu næstu mánaða, um vaxtastefnu og um verðlagsþróun.

Þetta virðast mér vera nokkrir helstu þættirnir í þeirri heildarmynd sem nauðsynlegt er að gera sér af stefnu og aðgerðum núv. ríkisstj. í ríkisbúskapnum og efnahagsmálum almennt. Sú mynd, sem hér er dregin upp, sýnir vel hversu ólíkt efnahagskerfi okkar er í ýmsum grundvallaratriðum þeirri efnahagsskipan sem viðgengst með þeim þjóðum sem eiga þó að heita að vera á svipuðum pólitískum breiddargráðum og við. Efnahagsskipan okkar er smám saman að taka á sig mynd sem í allt of mörgum veigamiklum þáttum er ekki óáþekk því sem tíðkast í hagkerfi Austur-Evrópulandanna.

Í hinu blandaða hagkerfi markaðsbúskapar og opinberrar stýringar, sem ríkjandi er í Vestur-Evrópu, eru fjárfestingarákvarðanir að mestu teknar í fyrirtækjunum sjálfum. Eigin fjármögnun fyrirtækjanna sjálfra stendur undir bróðurpartinum af heildarfjárfestingu. Forstöðumenn fyrirtækja verða við þær aðstæður að taka áhættu og laga rekstur sinn stöðugt að síbreytilegum aðstæðum á markaði og verða því að beita ströngu arðsemismati við fjárfestingarákvarðanir. Arðsemi og hagnaðarvon eru enn drifkraftur þess hagkerfis. Hlutverk ríkisins sjálfs er fyrst og fremst að stuðla með almennum aðgerðum að heildarjafnvægi í þjóðarbúskapnum og skapa skilyrði fyrir auknum hagvexti og aukinni framleiðni.

Hér á landi er það ríkjandi stefna að atvinnureksturinn, fyrirtækin sjálf, er löngum rekinn með halla eða á núllpunkti. Almenningur á þess yfirleitt ekki kost að ávaxta sparnað sinn í atvinnulífinu sjálfu milliliðalaust.

Sparifjármyndun er lágt hlutfall af heildarþjóðarframleiðslu, hrikalega lágt. Sparnaður er mest af því taginu að hann er þvingaður fram með lagaboði, t. d. hjá lífeyrissjóðum, og ráðstöfun hans, sbr. þessa lánsfjáráætlun og þessi lánsfjárlög, einnig háð lagaboði stjórnvalda að verulegu leyti. Fyrirtækin í landinu eru því háð bankastofnunum um rekstrarfé og opinberum aðilum um fjárfestingarfé og ávöxtunarkjör. Fjármunamyndun í atvinnuvegunum er að langmestu leyti háð opinberu forræði. Opinberi geirinn þenst stöðugt út á kostnað atvinnulífsins, sem á þó að bera uppi hina sameiginlegu þjónustu. Arðsemismat hins opinbera, hvort heldur er ríkisvaldið sjálft eða einstök fyrirtæki á þess vegum, er áberandi veikt. Það hefur neikvæð áhrif á hagvöxt og á lífskjaraþróun þegar til lengdar lætur.

Markaðskerfi með samkeppni og heildarstjórn af hálfu opinberra aðila í stað beinnar íhlutunar er sú efnahagsskipan sem skilað hefur mestum hagvexti og bestum lífskjörum í heiminum. Slíkt hagkerfi hefur í raun og veru verið af lagt hér á landi. Verðmyndunin er mestan part háð stjórnvaldsákvörðunum. Hin innbyggða sjálfvirkni þessa kerfis, sem ræðst af vísitölubindingu launa við verðlagsákvarðanir og gengi, setur efnahagskerfið á hvolf með fárra mánaða millibili. Samt er ekki hægt að tala um það í alvöru að hér sé ástundaður áætlunarbúskapur. Miklu fremur er hér um að ræða allsherjar pólitískt forræði í efnahagsmálum og fyrirgreiðslukerfi. Efnahagsskipan af þessu tagi ber mörg verstu einkenni þeirrar efnahagsstjórnar sem t. d. Pólverjar eru nú í uppreisn gegn.

Sögulega séð er hæpið að fullyrða að þessu kerfi hafi verið komið á af pólitískum ásetningi eða að einhver sérstakur stjórnmálaflokkur öðrum fremur beri á því ábyrgð. Það hefur náð að þróast smám saman og festa sig í sessi fyrir samspil margvíslegra kringumstæðna. Núv. ríkisstj. tók við þessu kerfi. Það hefur einkum og sér í lagi verið byggt upp á hinum annálaða verðbólgu- og framsóknaráratug. Núv. ríkisstj. heldur þessum arfi við af gömlum vana. Stefna hennar er óbreytt frá stefnu flestra ríkisstjórna á umræddum áratug. Mottóið er: Meira af því sama.

Lagalegar forsendur fyrir afgreiðslu fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar ríkisstj. er að finna í IV. kafla svokallaðra Ólafslaga. Þar segir svo í 14. gr., með leyfi forseta:

Ríkisstj. skal leggja fyrir Alþingi fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir fyrir eitt ár í senn, og skulu þær fylgja fjárlagafrv. Áætlununum skal fylgja stefnumótun í meginatriðum næstu þrjú árin eftir lok þess fjárhagsárs, sem fjárlagafrv. tekur til. Markmið áætlananna er að tryggja, að heildarumsvif í fjárfestingu og þróun peningamála og lánamála samrýmist þjóðhagslegum markmiðum.“

Í 15. gr. segir, einnig orðrétt með leyfi forseta: „Fjárfestingar- og lánsfjáráætlunum skal jafnan fylgja mat á mannaflaþörf áætlaðra framkvæmda í heild, og þar með mat á atvinnuástandi í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð sérstaklega.“

Í 16. gr. segir, með leyfi forseta:

„Lántökuheimildir eða ábyrgðarheimildir, sem veittar eru vegna opinberra framkvæmda eða fjárfestingarlánasjóða í lánsfjárlögum þessum, skulu skoðast sem hámarksákvæði á því fjárlagaári, sem þær eiga við.“

Í 21. gr. segir, einnig orðrétt, með leyfi forseta:

„Einnig skal gæta þess, að lánveitingar sjóðanna taki fyrst og fremst mið af sem hagkvæmastri nýtingu fjármagns til aukinnar framleiðni og framleiðslu og hver einstök lánveiting verði ákveðin eftir samræmdum reglum um arðsemismat.“

Þessar tilvitnanir í skuldbindandi lagafyrirmæli Alþingis um, hvernig að afgreiðslu lánsfjáráætlana skuli staðið hér á hinu háa Alþingi, staðfesta, svo að ekki verður um villst, að málsmeðferð ríkisstj. að þessu sinni felur í sér hreint og klárt lagabrot í a. m. k. sex greinum.

Með leyfi að spyrja: Hvar er að finna eitthvað sem getur gengið undir nafninu stefnumótun í meginatriðum næstu þrjú árin? Hvergi. Hvar er að finna það mat á mannaflaþörf áætlaðra framkvæmda sem kveðið er á um í 15. gr.? Það hefur ekki verið lagt fram.

Í 16. gr. er sagt fullum fetum að lántöku- og ábyrgðarheimildir skuli skoðast sem hámarksákvæði. Á bls. 23 í framlagðri grg., þar sem fjallað er um lánsfjármarkaðinn, er viðurkennt, eins og þar segir orðrétt, „að lánsfjármarkaðurinn hefur sprengt af sér þær skorður sem settar voru með lánsfjáráætlun.“ Þar segir einnig: Gert var ráð fyrir að nettólánastreymi til opinberra aðila mundi aukast á árinu 1980 um 23% frá fyrra ári. Aukningin reyndist hins vegar vera hvorki meira né minna en 83% — Þar er einnig gert að umtalsefni hversu langt erlend lán fóru fram úr áætlun árið 1980. Það er því orðið hversdagslegt að lánsfjáráætlanir standast einfaldlega ekki, hvorki að því er varðar útgjaldaáform né heldur tekjuöflun. T. d. voru verðbréfakaup bankakerfis og lífeyrissjóða í lánsfjáráætlun 1980 áætluð 99 millj. kr., en reyndust samkv. bráðabirgðaniðurstöðum, sem nú liggja fyrir, einungis vera 49 millj. kr.

Hvað er að segja um þau lagafyrirmæli í 21. gr., að útlán fjárfestingarlánasjóða skuli taka fyrst og fremst mið af sem hagkvæmastri nýtingu fjármagns til aukinnar framleiðni og framleiðslu og hver einstök fjárveiting verði ákveðin eftir samræmdum reglum um arðsemismat? Manni verður að spyrja: Hvernig koma slík lagafyrirmæli heim og saman við lántökuáform upp á 1.7 milljarð gkr., sem ætlað er til að standa straum af útflutningsbótum vegna landbúnaðarafurða, langt umfram lagaheimildir frá fyrra verðlagstímabili, og er þó búið að verja 12 milljörðum kr. í sama skyni á fjárlögum ársins 1981? Hvernig kemur þetta heim og saman við áform um lántöku upp á 3.3 milljarða gkr. vegna Lánasjóðs ísl. námsmanna? Hvernig kemur þetta heim og saman við lántökuáform um rúmlega 3.6 milljarða gkr. sem á að verja til að standa straum af greiðslu vaxta og afborgana vegna Kröfluævintýrisins? Þar að auki er svo gert ráð fyrir lántöku upp á 3.3 milljarða gkr. til nýrra framkvæmda við þessa gufulausu virkjun á sama tíma og sérfróðir aðilar mæla með því, að vélasamstæður verði fluttar þaðan að Svartsengi, þar sem þær gætu komið að einhverjum notum. Mér er spurn: Getur það samræmst þessum lagafyrirmælum að ætla að útvega Byggðasjóði erlend lán upp á 3.1 milljarð gkr. rúmlega ef sjóðnum er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að útvega fé til framkvæmda sem í einstökum greinum mega teljast óarðbærar? Ef þær eru ákveðnar samkv. ákvörðun Alþingis vegna þess að þær eru taldar félagslega æskilegar er talið réttlætanlegt að niðurgreiða þessi vaxtakjör. En hitt er þó augljóst mál, að við slíkar kringumstæður á ekki að leita erlendrar lántöku til að standa undir slíkum framlögum, heldur á að sjálfsögðu að fara þar eftir ákvæðum eldri laga um að leggja Byggðasjóði til framlag á fjárlögum, sem upphaflega var ákveðið 2%, en nú er ekki staðið við. Sama máli gegnir um lántöku til RARIK vegna félagslegra framkvæmda. Það er vandséð að réttlætanlegt sé að afla erlendra lána til að greiða úr rekstrarerfiðleikum ríkisfyrirtækja eins og Ríkisútvarps eða Lagmetisiðjunnar Siglósíldar. Sama er að segja um fjárfestingu ríkisfyrirtækja eins og Skipaútgerðar ríkisins, ef því er slegið föstu að ekki sé um að ræða fjárfestingu, sem ráðgert er að skili sér, eða rekstur, sem lýtur kröfum um arðsemi.

Hér hafa verið nefnd nokkur dæmi um að framkvæmdavaldið, ríkisstj., leyfir sér að þverbrjóta bein lagafyrirmæli um hvernig að lánsfjáráætlun og afgreiðslu hennar á Alþingi skuli staðið. Önnur lagaákvæði eru sömuleiðis sniðgengin með vafasömum hætti. Alþm. eru að vísu orðnir því vanir, sérstaklega í tíð núv. hæstv. ríkisstj., að handhafar framkvæmdavaldsins, sem eiga þó að heita að vera í þjónustu löggjafarvaldsins og framfylgja vilja þess, virði Alþingi gersamlega að vettugi þegar ákvarðanir eru teknar í hinum þýðingarmestu málum. Aðferð ríkisstj. við setningu brbl. um s. l. áramót er þar aðeins eitt dæmi af mörgum. Ekkert ákvæði umræddra brbl. var komið til framkvæmda fyrr en Alþingi var aftur sest á rökstóla að loknu jólaleyfi. Vinnubrögð af þessu tagi — sérstaklega af hálfu ríkisstj. sem taldi það sér helst til ágætis í upphafi að hafa orðið til þess að bjarga virðingu Alþingis — eru auðvitað forkastanleg. Út yfir tekur þó þegar handhafar framkvæmdavaldsins taka sér sjálfdæmi um að brjóta þau lög sem Alþingi hefur sett og þeim ber skilyrðislaust að hlíta.

En sú aðferð, sem nú er að festast í sessi, að ætla Alþingi að fjalla um og afgreiða ríkisfjármálin í tvennu lagi, annars vegar með hinum eiginlegu fjárlögum, en hins vegar með lánsfjáráætlun og lánsfjárlögum með margra mánaða millibili, er sérstaklega ámælisverð og óviðunandi og það er einkum af tvennum ástæðum:

Í fyrsta lagi er með þessum vinnubrögðum verið að stilla Alþingi upp við vegg frammi fyrir orðnum hlut og hindra að Alþingi geti með eðlilegum hætti haft áhrif á heildarstefnuna í ríkisfjármálum. Í raun og veru er nánast ógerningur að flytja brtt. í veigamiklum málum við lánsfjárlög vegna þess að slíkar brtt. kalla rökrétt á annars konar afgreiðslu hinna eiginlegu fjárlaga sem þá eru fyrir löngu afgreidd. Þm. geta t. d. verið fylgjandi fyrirhuguðum framkvæmdum sem ráðgerðar eru á lánsfjáráætlun, en verið hins vegar af grundvallarástæðum ósammála því að fjár til framkvæmdanna sé aflað með erlendum lántökum, eins og ég raunar þegar hef nefnt mörg dæmi um. Með því að afgreiða lánsfjáráætlun mörgum mánuðum á eftir fjárlögum er þessum þm. raunverulega stillt upp við vegg. Flytji þeir brtt., sem fela í sér að draga úr óhóflegum lántökum, getur það orðið til þess að útiloka framkvæmdir sem þeir í sjálfu sér eru fylgjandi og eiga rétt á sér, en þeir hefðu viljað fjármagna með öðrum hætti. Það er af þessari ástæðu sem það var augljóslega vilji Alþingis, sbr. 14. gr. IV. kafla Ólafslaga um fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir, sem ég hef þegar vitnað til, að kveða á að lánsfjáráætlun skyldi fylgja fjárlagafrv. Ríkisfjármálin á að fjalla um og afgreiða í einu lagi. Það má ekki verða að almennri reglu að lánsfjáráætlun verði í reynd að eins konar ruslakistu ríkisfjármálanna, þar verði fyrst og fremst um að ræða afgangsstærð þannig að á lánsfjáráætlun verði settar allar þær framkvæmdir eða þau útgjaldaáform, sem ekki tekst að fjármagna af skatttekjum viðkomandi fjárlagaárs, án tillits til þess, hvaða áhrif slíkur afgreiðslumáti hefur á skuldaaukningu, greiðslubyrði lána, verðbólguþróun og aðrar þjóðhagsstærðir.

Í öðru lagi er ljóst að ríkisstj. er með þessum vinnubrögðum að ástunda feluleik með ríkisfjármálin sem er ábyrgðarlaus og óviðunandi fyrir Alþingi. Núv. ríkisstj. hefur sem kunnugt er talið það helstu skrautfjöðrina í sínum hatti að henni hafi tekist að stöðva hallarekstur ríkissjóðs, skuldasöfnun við Seðlabanka og seðlaprentun. Almenningi hefur verið talin trú um að í þessum efnum hafi talsverður árangur náðst. Staðreyndirnar tala hins vegar allt öðru máli þegar ríkisfjármálin eru skoðuð í heild. Ríkisbúskapurinn í heild, þegar menn skoða hvort tveggja í senn, fjárlög og þau dulbúnu fjárlög sem hér liggja fyrir, er sannanlega rekinn með stórkostlegum halla. Hallareksturinn sem hlutfall af heildartekjum ríkissjóðs hefur reyndar aldrei verið meiri á s. l. áratug en samkv. áætlunum ársins í ár. Ég vil í því efni leyfa mér að vekja athygli þm. á umsögn Verslunarráðs Íslands um það frv. til lánsfjárlaga sem hér liggur fyrir. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Á undanförnum árum hefur gætt vaxandi tilhneigingar til að færa ýmis framkvæmdaútgjöld A-hluta ríkissjóðs yfir á svokallaðan lánajöfnuð. Þannig er látið líta svo út, að fjárlög séu afgreidd hallalaus og stór hluti ríkisútgjalda kemur ekki beinlínis fram í 1. gr. fjárlaga. Lánajöfnuðurinn er síðan endanlega staðfestur með lánsfjárlögum og þá um leið skuldaaukningu ríkissjóðs ráðstafað til einstakra útgjaldaframkvæmda. Í raun felur þessi framsetning raunverulegan halla á fjárlögum ríkisins, sem síðan er fjármagnaður með lánum. Um leið er almenningi talin trú um að fjárlög hafi verið afgreidd hallalaus. Að mati Verslunarráðsins er þessi framsetning og slík afgreiðsla á fjárlögum mjög villandi og varasöm. Má í þessu sambandi benda á að í fjárlögum nágrannaþjóða okkar eru öll útgjöld ríkisins með talin, hvort sem þau eru fjármögnuð með sköttum eða lánsfé, og sýna þannig mismun á tekjum og gjöldum ríkissjóðs.“

Með þessari umsögn, sem ég nú hef vitnað til, er birt tafla, sem tekur til áranna 1970–1981 og sýnir áætlaðan rekstrarjöfnuð, lántökur ríkissjóðs og greiðsluafgang eða halla sem hlutfall af heildartekjum ríkissjóðs. Á þessari töflu má sjá að fjárlög hafa í raun og veru verið afgreidd með halla allt síðan á árinu 1973 með einni undantekningu, þ. e. árið 1979, en það ár var sem kunnugt er gripið til afturvirkrar viðbótarskattheimtu á síðari hluta ársins til að rétta af fyrirsjáanlegan halla. Engu að síður héldu ríkisstjórnir því fram öll árin nema árið 1974, að fjárlög væru afgreidd með afgangi. Um þetta segir í áður tilvitnaðri umsögn, með leyfi forseta:

„Flest hin síðari ár hefur raunveruleg útkoma ríkisfjármála verið enn hrikalegri, með miklum halla og skuldaaukningum framfjárlög. Útgjöld ríkissjóðs hljóta ætíð að vera fjármögnuð með sköttum. Jafnvel þótt skattlagningu vegna hluta útgjalda sé frestað með skuldaaukningu verður ríkið fyrr eða síðar að greiða lánið, en eins og kunnugt er koma fjármunir ríkisins á endanum ávallt frá skattgreiðendum.“

Ég hef nú í eins stuttu máli og mér er unnt gagnrýnt ýmis grundvallaratriði þeirrar stefnu í ríkisfjármálum sem fylgt er af núverandi ríkisstj. og lesa má af fjárlögum yfirstandandi árs og þeirri lánsfjáráætlun sem hér liggur fyrir. Einnig verður ekki hjá því komist að gagnrýna harðlega vinnubrögð ríkisstj. við afgreiðslu málsins. Ríkisstj. er uppvís að því að virða að vettugi lagafyrirmæli sem Alþingi hefur sett og þjóna þeim megintilgangi að Alþingi geti fjallað um ríkisfjármálin í heild á sama tíma. Það er beinlínis vítavert að forsrh. skuli láta hálft ár líða frá því að fjárlagafrv. er lagt fram af hálfu fjmrh. og þar til lánsfjáráætlun er tekin til afgreiðslu. Með þessu er að mínu mati ekki aðeins verða að brjóta lög: þarna er verið að víkja sér undan því aðhaldi sem í því felst að afgreiða ríkisfjármálin í heild samtímis, hvort tveggja fjárlög og lánsfjárlög. Alþingi hlýtur að krefjast þess, að þessi vinnubrögð verði ekki endurtekin.

Þessu til viðbótar tel ég svo rétt að vekja sérstaka athygli á eftirfarandi.

1. Það er eitt höfuðeinkenni þessarar lánsfjáráætlunar, að vanda ríkisfjármálanna er í vaxandi mæli velt yfir á lánsfjáráætlun með meðfylgjandi skuldaaukningu. En ekki nóg með það. Nú er komin reynsla á það, hvernig tekist hefur til í framkvæmd við að framfylgja lánsfjárlögum. Sú reynsla er vægast sagt afar slæm. Það hlýtur að valda áhyggjum. Það bendir eindregið til þess, að mikið skorti á nauðsynlega arðsemi í þeim efnum. Að þessu er vikið víða í greinargerðum Þjóðhagsstofnunar, Seðlabanka og hagsýsludeildar fjmrn. með lánsfjárlagagreinargerðinni. Á árinu 1979 fóru t. d. erlendar lántökur fram úr áætlun sem nam 17.3 milljörðum gkr. samkv. bráðabirgðatölum fyrir árið 1980 fóru erlendar lántökur fram úr áætlun sem nam 21.7 milljörðum gkr., en um þetta efni segir í greinargerð Seðlabankans, með leyfi forseta:

„Þessa miklu hækkun má að einhverju leyti rekja til meiri fjármagnsþarfar vegna hækkunaráhrifa gengis og verðlagsbreytinga umfram forsendur lánsfjáráætlunar ásamt meiri framkvæmdum, bæði opinberra aðila og einkaaðila, en áætlað var. Einnig komu til langtímarekstrarlán, sem ekki hafði verið gert ráð fyrir í lánsfjáráætlun. Afborganir af löngum lánum eru áætlaðar 37.6 milljarðar gkr. og verður þá nettóaukning langra lána 69.7 milljarðar gkr. á árinu 1980. Þetta svarar til um 12% af útflutningstekjum, en 5.3% af þjóðarframleiðslu. Þetta er hærra hlutfall en árið áður, eins og síðan eru nefndar til tölur um.“

Einnig segir í greinargerð þeirra Seðlabankamanna í kaflanum um bankakerfið, orðrétt, með leyfi forseta: „Peningamálaáætlanir, sem settar hafa verið fram í lánsfjáráætlunum síðustu ára, hafa jafnan miðast við verðlagsforsendur sem síðan reyndust óraunhæfar, bæði vegna óvæntra verðhækkunartilefna og“ — taki menn nú eftir — „vegna þess að viðnámsaðgerðir báru ekki óskaðan árangur. Þótt mikilvægur árangur hafi náðst á sviði peningamála á síðustu árum“ — hér er að sjálfsögðu verið að víkja að raunvaxtastefnu Alþfl. — „þá verður hann aðeins að takmörkuðu leyti rakinn til þessara áætlana“, segir í umræddri greinargerð Seðlabankans. Hér er augljóslega við það átt, að þann takmarkaða árangur, sem náðst hefur á sviði peningamála, megi fyrst og fremst rekja til þeirrar verðtryggingarstefnu sem Alþfl. hefur lengst af verið einarðastur málsvari fyrir.

Þessi dæmi, sem hér hafa verið nefnd, nægja til að sýna fram á að lánsfjáráætlanir og meðfylgjandi lög hafa reynst illa í framkvæmd. Það á bæði við um öflun lánsfjár á innlendum markaði, sbr. reynsluna af verðbréfakaupum lífeyrissjóðanna, sem og um þau hámörk sem sett hafa verið fyrir erlendum lántökum. Þetta verður einfaldlega að breytast til batnaðar. Alþingi gerir allt of mikið að því að samþykkja lög og lagafyrirmæli sem síðan eru að meira eða minna leyti sniðgengin í framkvæmd eftir geðþótta einstakra ráðherra hverju sinni. Stefnumörkun í efnahagsmálum og peningamálum sérstaklega er mikilvægari en svo að pólitískt lauslæti af þessu tagi megi líðast öllu lengur.

2. Enda þótt stjórn ríkisfjármálanna sé lausbeisluð, eins og hér hafa verið nefnd næg dæmi um, er ekki siður áhyggjuefni að peningamálastjórnin virðist vera svífandi í lausu lofti. Það er okkur Alþfl.-mönnum að sjálfsögðu ánægjuefni, eins og ég hef vikið að áður, að verðtryggingarstefnan sem við áttum mestan þátt í að fá lögfesta hér á Alþingi með sögulegum hætti, hefur nú í reynd skilað þýðingarmiklum árangri þótt í litlum mæli sé. Einhver háskalegasta afleiðing óðaverðbólgunnar á liðnum áratug hefur mælst í síminnkandi hlutfalli sparnaðar af þjóðartekjum. Hér hefur verið um að ræða algert hrun sem rekja má til neikvæðrar ávöxtunar sparifjár. Þannig höfðu inneignir landsmanna í bankakerfinu, þ. e. peningamagn og sparifé í hlutfalli við vergar þjóðartekjur, hrunið úr hápunktinum 53% á árabilinu 1963–1964 niður í 21.5% eða rúmlega fimmtung vergra þjóðartekna á árinu 1978. Frá og með árinu 1979 hefur þetta hlutfall hins vegar þokast aðeins upp á við á ný. Þannig var það 23% árið 1979 og 23.8% árið 1980. Ytri kringumstæður í þjóðarbúskap okkar eru nú slíkar, að þetta hlutfall ætti að geta farið myndarlega upp á við á yfirstandandi ári ef hringlandaháttur núv. hæstv. ríkisstj. í vaxtamálum verður ekki til þess að snúa þróuninni aftur í öfuga átt. Sú fullkomna óvissa, sem nú ríkir um áform ríkisstj. varðandi gengisskráningu, vaxtamál og verðlagsákvarðanir, getur hæglega stefnt þessum takmarkaða árangri í hættu. Peningamálastjórnin er því enn mjög veikur punktur hjá núv. ríkisstj. Í þeim köflum greinargerðarinnar, sem fylgir lánsfjáráætlun og fjalla um bankakerfið og lánsfjármarkaðinn, kemur hvergi neitt fram um hvaða tækjum ríkisstj. hyggst beita til að örva frekari sparifjármyndun, treysta lausafjárstöðu bankakerfisins til að mæta hugsanlegum áföllum og sveiflum, svo sem yfir sumarmánuði, eða hafa tök á útlánum banka og sparisjóða.

Það á að vera eitt meginmarkmið peningamálastefnunnar að stórefla innlendan sparnað, treysta eiginfjárstöðu fyrirtækja og fjárfestingarlánasjóða, efla þannig innlenda lánsfjármögnun og draga úr þörfinni fyrir erlent lánsfé. Verðtryggingarstefnan er rétt aðeins að byrja að skila árangri. Enn vantar mikið á að sá árangur geti talist viðunandi eða sambærilegur við það sem gerist með öðrum þjóðum þar sem hagstjórn er með skynsamlegum hætti. T. d. hefur hluti lánsfjár í fjármögnun fjárfestingarlánasjóða farið verulega vaxandi á undanförnum árum. Önnur fjármögnun sjóðanna er að langmestu leyti opinbert framlagsfé, þar sem eigin fjármögnun skilar litlu til nýrrar ráðstöfunar, eins og segir orðrétt í kaflanum um fjárfestingarlánasjóði. Ríkisstj. hefur einmitt réttlætt þá stefnu sína að draga stórlega úr beinum ríkisframlögum á fjárlögum til fjárfestingarlánasjóða og vísa þeim þannig í vaxandi mæli á lánamarkaðinn með því að eiginfjárstaða fjárfestingarsjóða hljóti að fara batnandi vegna verðtryggingarskilmála útlána. En eldri og óverðtryggð lán vega enn mjög þungt hjá sjóðunum og hin öra verðbólga skerðir fé þeirra enn þá verulega. Dæmi um þetta er t. d. að eigin fjármögnun Fiskveiðasjóðs verður sífellt erfiðari. Samkv. endurskoðaðri lánsfjáráætlun 1980 er hún neikvæð um 42 millj. kr. og árið 1981 neikvæð um 74 millj. kr. Þetta gefur tilefni til að árétta það, að það væri hið mesta glapræði ef ríkisstj. nú gripi til þess ráðs, til að afla sér einhverra stundarvinsælda, að skerða frekar ávöxtunarkjör sparifjár eða falla frá verðtryggingarstefnunni yfirleitt. Slík undanlátsstarfsemi mun hefna sín grimmilega síðar meir.

Mér þykir rétt að árétta það við þessar umr, að Alþfl. er enn sem fyrr eindregið fylgjandi þeirri stefnu að draga úr sjálfvirkni jafnt í ríkisbúskapnum sem í verðmyndunarkerfinu. Með frv. sínum um jafnvægisstefnu í efnahagsmálum og samræmdar aðgerðir gegn verðbólgu frá því í des. 1978 lagði Alþfl. til að flest þau lög, sem kvæðu á um sjálfvirka tekjustofna eða sjálfvirk útgjöld, yrðu afnumin. Þetta þýðir hins vegar ekki að Alþfl. fylgi núv. ríkisstj. í því að skerða stöðugt bein framlög af skatttekjum ríkissjóðs til fjárfestingar ríkisins og ríkisstofnana og vísa í staðinn að mestu eða öllu leyti til erlendrar lántöku. Allra síst getur slíkt talist skynsamleg fjármálastjórn þegar um er að ræða augljóslega óarðbæra fjárfestingu, rekstrarútgjöld eða félagsleg framlög. Með þvílíku háttalagi er aðeins verið að gefa út ávísanir á meiri skattheimtu síðar meir. Það er í þessu efni aðalatriði, að Alþingi gefist kostur á, svo sem lög kveða á um, að afgreiða fjárlög og lánsfjárlög í einu lagi. Með því móti hlýtur Alþingi að verða að horfast í augu við takmarkaða tekjustofna af skattheimtu sem og hitt, að erlendum lántökum eru líka takmörk sett. Vilji menn hafa hóf á hvoru tveggja verður Alþingi í staðinn að sætta sig við niðurskurð ríkisútgjalda þar sem slík útgjöld gefa minnst í aðra hönd.

Ég hef nú í stórum dráttum, herra forseti, gert grein fyrir grundvallarsjónarmiðum að því er varðar almennu stefnuna sem fram kemur í þessari lánsfjáráætlun eða lánsfjárlögum. Ég vildi nú leyfa mér að fara örfáum orðum um þær brtt. sem við Alþfl.-menn leggjum hér fram. Ég hef áður vikið að því, að það eru af tæknilegum ástæðum, vegna þess að lánsfjárlög eru svo löngu seinna á ferðinni en fjárlagaafgreiðslan, takmörk fyrir því, hvernig unnt er að flytja raunhæfar brtt. Engu að síður leyfum við okkur að flytja fimm brtt. og skal ég reyna að gera stuttlega grein fyrir þeim.

1. brtt. snertir 3. gr. lánsfjárlaga þar sem fjallað er um lagaþvingun á ráðstöfunarfé lífeyrissjóða. Brtt. okkar er efnislega fólgin í þrennu.

1. Í stað þess að beita hér lagaþvingunum skuli þetta gert að heimildarákvæði, þannig að Byggingarsjóður verkamanna, Byggingarsjóður ríkisins, Framkvæmdasjóður Íslands, ríkissjóður og fjárfestingarlánasjóðir, sem viðurkenndir eru af Seðlabanka og hafa heimild til verðtryggingar o. s. frv. skuli bjóða lífeyrissjóðum, sem lögbundnir eru, kaup skuldabréfa með fullri verðtryggingu o. s. frv.

2. Þá felst brtt. okkar í því, að vilji lífeyrissjóðirnir ráðstafa fé sínum með þessum hætti skuli Byggingarsjóður ríkisins hafa forgang að því er varðar fyrstu 20% af ráðstöfunarfé sem þarna er um að ræða. M. ö. o.: hugmyndin með till. er að tryggja að þessu fjármagni verði fyrst og fremst varið til húsnæðismála.

3. Þá segir svo í brtt. okkar, að ríkisstj. skuli gera sérstakt samkomulag við lífeyrissjóðina um framkvæmd og tímasetningu skuldabréfakaupanna innan ársins og um lánstíma og lánskjör, í stað þess að slíkt verði eingöngu ákveðið með einhliða reglugerð fjmrn.

Rökstuðning fyrir þessari brtt. er að vísu hægt að hafa í löngu máli, en það er aldeilis óþarfi vegna þess að ekki þarf annað en að leiða til vitnis sjálfan fjmrh., sem á þeirri tíð þegar hann var í stjórnarandstöðu flutti sjálfur og hafði framsögu fyrir brtt. sem efnislega eru á sömu lund. Ég vil leyfa mér að vitna beint til ummæla hæstv. fjmrh. frá þeirri tíð þegar hann var stjórnarandstöðuþm. á árinu 1977 og sagði þá við þingumræður, orðrétt, með leyfi forseta:

„Það er hinn þáttur málsins sem er okkur fyrst og fremst þyrnir í augum, að hér er verið að taka fjármagn lífeyrissjóðanna traustataki með löggjöf og ráðstafa því á ákveðinn hátt. Þetta fjármagn og þessir sjóðir eru að nokkru leyti bein eign verkalýðshreyfingarinnar og að nokkru leyti óbein eign. Verkalýðshreyfingin fékk því framgengt, að þessir sjóðir tóku til starfa og hafa verið byggðir upp, og hún varð á sínum tíma að kosta því til að slá af launakröfum sínum, fórna nokkru til þess að þetta spor yrði stigið. En hitt er jafnljóst, að verkalýðshreyfingin lætur sig miklu skipta hvað verður um þetta fjármagn og það er ekki eðlilegt að þetta fjármagn sé af henni tekið nema að undangengnum frjálsum samningum við þá sem raunverulega eiga þetta fjármagn og hafa ráðstöfunarrétt á því lögum samkvæmt. Lágmark væri að þeir samningar gengju út á það, til hvaða þarfa þetta fjármagn verður notað“, en það er ekki tekið traustataki með löggjöf.

Þetta eru eigin orð hæstv. fjmrh. í sama máli. Ég þykist ekki þurfa að fara í grafgötur um það, samkv. þessum vitnisburði, að hann muni að sjálfsögðu styðja þá brtt. sem við nú flytjum og er efnislega samhljóða málflutningi hans frá því að hann sat sjálfur á stjórnarandstöðubekk.

2. brtt. okkar Alþfl.-manna er við 9. gr. Í aths. við 9. gr. segir svo: „Erlend lántaka Framkvæmdasjóðs Íslands nemur á árinu 89 milljörðum gkr. Af þessari fjárhæð eru 72 milljarðar ætlaðir til endurláns til fjárfestingarlánasjóða, en auk þess hefur Framkvæmdasjóður tekið að sér meðalgöngu um útvegum á 1.7 milljarði gkr. lánsfjár til Framleiðsluráðs landbúnaðarins vegna greiðslna útflutningsbóta verðlagsársins 1979/1980.“

Ég hef áður vikið að því, að erlend lántaka sem verja á til þess að borga með matargjöfum okkar til útlendinga frá liðnu verðlagstímabili, kemur náttúrlega ekki undir neinum kringumstæðum til mála. Það kemur ekki til mála að það sé sjálfgefið fyrir fram að veitt verði ríkisábyrgð á slíkum lánum. Hitt kann að vera annað mál, að menn geri ekki athugasemdir við það þótt Framkvæmdasjóður hafi milligöngu um slíka lánsútvegun, ef það er algjörlega á hreinu að þessi upphæð, sem er umfram lagaheimildir, komi einfaldlega í hlut lántakenda og þeir beri þá sjálfir kostnað af greiðslu afborgana og vaxta. Vera má að færa megi rök fyrir því, að það sé eðlilegt að færa þessar greiðslur yfir á lengri tímabil. En við getum ekki fallist á að sá háttur verði á hafður sem hér er lagt til af hálfu ríkisstj., enda þótti mönnum nóg um þegar sami leikur var leikinn að því er varðar þriggja milljarða lántöku sem varð að hreinum skrípaleik hér á síðasta Alþingi.

3. brtt., sem við flytjum, er við 16. gr. lánsfjárlaga, en 16. gr. er ein af þeim fjölmörgu greinum sem fjalla um skerðingu á framlögum ríkissjóðs til hinna ýmsu fjárfestingarlánasjóða, í þessu tilfelli til húsnæðislánakerfisins. Í stað 27 887 þús. komi samkv. þessari brtt. 75 millj. kr. og í stað 43 millj. komi 90 millj. kr.

Það er rétt að gera stuttlega grein fyrir því, hvað hér er um að ræða. Við viljum tryggja að heildarframlög ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna verði ekki lækkuð frá því sem var samkvæmt eldri lögum. Það er algjör forsenda þess, að í framtíðinni verði unnt að hækka lánahlutfall Byggingarsjóðs ríkisins í hinum ýmsu lánaflokkum. Hér er verið að reyna að tryggja að helstu markmiðin, sem sett voru í húsnæðismálafrv. fyrrv. félmrh., Magnúsar H. Magnússonar, komist til framkvæmda. Auk þess voru 2 prósentustig launaskatts af 3 prósentustigum samningsatriði við verkalýðshreyfinguna á sínum tíma og því vandséð hvernig ríkisstj., sem kveðst byggja tilveru sína á nánu og órjúfanlegu samráði við verkalýðshreyfinguna, getur stefnt að því að fella slíkt heiðursmannasamkomulag niður einhliða.

Brtt. felur því í sér að 1% launaskattsins fari áfram til Byggingarsjóðs ríkisins, en hitt 1% fer til Byggingarsjóðs verkamanna samkv. 17. gr., og að Byggingarsjóður ríkisins fái úr ríkissjóði sem samsvarar fyrra byggingarsjóðsgjaldi af tekju- og eignarskatti og af innflutningi. Þrátt fyrir þessa brtt. vantar enn talsvert upp á að byggingarsjóðirnir fái sameiginlega jafnmikil framlög úr ríkissjóði og eldri lög gerðu ráð fyrir. Til dæmis má gera ráð fyrir að hvert prósentustig í launaskatti gefi meira en 75 millj. kr. Hér er raunverulega um það að ræða, að ríkisvaldið hefur með nánast óheiðarlegum hætti neitað að standa við skuldbindingar sínar um framlög til húsnæðislánakerfisins. Við teljum okkur ekki skuldbundna til þess, þótt við gerum þá kröfu, að þessum fjármunum verði skilað til réttra aðila, að gera í staðinn tillögur um aðra fjáröflun, enda leiðir það af þessari tvískiptingu lánsfjáráætlunar og fjárlaga að á því eru tæknilegir örðugleikar.

Við 25. gr. flytjum við einnig brtt. Um hana segir í aths. með leyfi forseta:

„Samkvæmt bráðabirgðayfirliti um lánsfjáröflun ríkissjóðs 1980 skorti um 26 milljarða gkr. á að innlend lánsfjáröflun stæðist áætlun. Í megindráttum var það lánsfé frá innlánsstofnunum og lífeyrissjóðum sem ekki aflaðist að fullu. Útgjöld Rafmagnsveitna ríkisins vegna byggðalínuframkvæmda reyndust allnokkur hærri en áætlað var eða alls 4.38 milljarðar gkr. Af ofangreindum ástæðum er nú leitað lántökuheimildar allt að 30 millj. vegna framkvæmda 1980.“

Um þetta er það að segja, að við teljum eðlilegt, þegar um er að ræða framkvæmdir Rafmagnsveitna ríkisins vegna byggðalina, að veita heimild til að taka 5 millj. kr. erlent lán þar sem hér er væntanlega að verulegu leyti um að ræða erlenda kostnaðarliði. Hins vegar teljum við fráleitt að selja ríkisstj. sjálfdæmi um það, þegar á daginn kemur að hennar eigin lánsfjárlög eða lánsfjáráætlanir standast ekki og við þær er ekki staðið, að hún fái þá heimild til að reyna að rétta þann halla af með erlendum lántökum. Þess vegna er till. okkar efnislega á þá leið, að heimild verði veitt til erlendrar lántöku upp á 5 millj., en að öðru leyti verði ríkisstj. vísað til þess að afla lánsfjár á innlendum lánsfjármarkaði og þá væntanlega hjá því bankakerfi sem stjórnarliðar segja nú sjálfir að standi verulega betur að vígi en verið hefur um skeið.

Loks er eftir að gera grein fyrir síðustu brtt., sem er við 27. gr. Þar segir í aths., með leyfi forseta:

„Heimildar er aflað til þess að taka lán fyrir afborgunum af lánum ríkissjóðs og er ætlunin að lántakan samsvari afborgunum af lánum vegna framkvæmda við Kröfluvirkjun og við byggðalínur, sbr. framsetningu fjárlaga.“

Við leggjum einfaldlega til að þessi grein verði óbreytt frá því sem hún var á síðustu lánsfjárlögum, þ. e. við leggjumst ekki gegn því að fjmrh. og ríkisstj. fái heimild til að breyta óhagstæðum skammtímalánum í lengri lán ef þess gæfist kostur á erlendum lánsfjármarkaði að afla lána með betri kjörum. En við viljum ekki gefa ríkisstj. sjálfdæmi um að afla erlendra lána til að greiða niður fyrri erlend lán af því makalausa Kröfluævintýri.

Þá hef ég í raun og veru lokið því að gera grein fyrir þeim brtt. sem við nú flytjum. En ég vil taka það fram að gefnu tilefni, að við höfum ekki að þessu sinni lagt fram brtt. um framlag eða lánsfjárheimild vegna fyrirhugaðra framkvæmda við byggingu nýrrar flugstöðvarbyggingar á Keflavíkurflugvelli og það er af auðskildum ástæðum. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að rifja upp ummæli sem hæstv. viðskrh. viðhafði um það mál við umr. um afgreiðslu fjárlaga 19. des. s. l. Hann sagði svo orðrétt, með leyfi forseta:

„Á þskj. 329, brtt. við frv. til fjárlaga undir VI. lið, er brtt. frá hv. þm. Friðrik Sophussyni, Karvel Pálmasyni, Guðmundi Karlssyni og Lárusi Jónssyni um að til gjalda á fjárlagafrv. verði 2 milljarðar vegna flugstöðvarbyggingar á Keflavíkurflugvelli og tekin lán að sömu upphæð. Í tilefni af þessari brtt. vil ég segja þetta:

Eins og raunar er kunnugt hefur utanrrh. borið fram tillögu í ríkisstj. um að sérstök lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli verði tekin inn á fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Tillaga utanrrh. hefur ekki verið afgreidd í ríkisstj., en hann hefur áskilið sér rétt til að bera fram brtt. við lánsfjáráætlun. Nú er verið að endurskoða hönnun byggingarinnar með það fyrir augum að lækka byggingarkostnað, og væntanlega verður því verki lokið um miðjan febrúarmánuð n. k. Með tilliti til þessa og svo hins, að lánsfjáráætlun verður ekki afgreidd fyrr en að loknu jólaleyfi þm., sýnist eðlilegast að fresta ákvörðun í þessu máli.“

Ég leyfi mér út af þessu máli að vitna til þessara ótvíræðu ummæla hæstv. viðskrh., sem raunverulega boðaði það, í umboði hæstv. utanrrh., að hann hefði áskilið sér rétt til að flytja slíka brtt. Við gerum að sjálfsögðu ráð fyrir að við þetta verði staðið. Það þarf ekki að taka það fram, að við lýsum stuðningi við þá till. þegar hún kemur fram.

Herra forseti. Mikilvægustu markmið, sem keppa ber að í ríkisfjármálum og peningamálum, miðað við ríkjandi aðstæður í íslenskum þjóðarbúskap, eru þessi að mati okkar Alþfl.-manna: Að örva innlendan sparnað, að efla eiginfjárstöðu fyrirtækja og lánasjóða, að draga úr lántökuþörf bæði einkaaðila og opinberra aðila og þá ekki síst að draga úr erlendum lántökum. — Á það skortir mikið að stefna núv. ríkisstj., eins og hún verður skilin af fjárlögum og lánsfjárlögum, fullnægi þessum skilyrðum.

Það stefnir ekki í rétta átt þegar hlutfall lánsfjár í útlánum fjárfestingarlánasjóða fer sívaxandi. Það var 48.2% árið 1978, það var 59.7% árið 1979, það var 57% árið 1980 og svo verður aftur stökkbreyting til hins verra samkv. áætlun 1981, þ. e. 67.5%.

Það stefnir ekki í rétta átt þegar erlendar lántökur fara langt umfram lagaheimildir tvö ár í röð, um 17.3 milljarða gkr. árið 1979 og yfir 20 milljarða árið 1980.

Það stefnir ekki í rétta átt þegar erlend lán til langs tíma nema síhækkandi hluta af vergri þjóðarframleiðslu. Þau nema nú í árslok 1980 tæpum 600 millj. gkr.

Á árabilinu 1976–1979 voru erlend lán til langs tíma á bilinu frá 32–34% af vergri þjóðarframleiðslu. Á s. l. ári var þetta hlutfall 35%. Í ár er talið samkvæmt áætlun að það stökkvi upp í 37%. Þetta er langt yfir hættumörkum hjá þjóð sem býr við jafneinhæft og sveiflukennt atvinnulíf og við gerum.

Það stefnir ekki í rétta átt þegar greiðslubyrði af löngum erlendum lánum fer síhækkandi sem hlutfall af útflutningstekjum. Þetta hlutfall var komið í 14.1% árið 1980, og það eru fullkomlega raunsæjar horfur á því, að það fari yfir 15% á árinu 1981.

Það stefnir ekki í rétta átt þegar lánsfjármögnun sem hlutfall af heildarfjármunamyndun fer síhækkandi. Hlutur lánsfjármögnunar í fjármögnun hins opinbera var 57.1% árið 1979, það var 62.4% árið 1980 samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum og svo kemur enn einu sinni stökkbreyting upp á við samkvæmt áætlun 1981. Gert er ráð fyrir að hlutfallið verði 70.1%.

Það stefnir ekki í rétta átt, ef sú þróun heldur áfram ár frá ári að ríkið sölsi undir sig sífellt stærri hlut af þjóðartekjum á sama tíma og atvinnulífið hangir á horriminni og verður sífellt háðara pólitískri skömmtunarstjórn misviturra stjórnmálamanna. Allra síst er þetta æskileg þróun þegar vitað er af ótal dæmum að arðsemin í ríkisbúskapnum er allra síst til fyrirmyndar.

Þannig mætti nefna fleiri dæmi um að stefna núv. ríkisstj. í efnahagsmálum almennt horfir ekki til réttrar áttar að okkar mati. Það skortir aðhald í ríkisfjármálum. Peningamálastefnan er í lausu lofti. Stefna ríkisstj. í málefnum atvinnuveganna er í ýmsum grundvallaratriðum röng. Landbúnaðarpólitíkin er röng. Fiskveiðistefnan er hringlandaleg. Mikið skortir á að íslenskur iðnaður fái að njóta samkeppnisaðstöðu sem sambærileg getur talist við keppinauta þeirra með öðrum þjóðum. Nýjar atvinnugreinar og ný fyrirtæki eiga erfitt uppdráttar vegna þess hversu ítök hagsmunaaðila í hefðbundnum greinum eru allsráðandi við pólitískar ákvarðanir.

Herra forseti. Ég skal nú láta máli mínu lokið. Ég vil geta þess að lokum, að hér ekki langt frá okkur var nýlega boðið upp á óvenjulega skemmtun í skammdeginu þar sem var revían „Skornir skammtar“. Mín viðbrögð voru þau, þegar ég heyrði þessa ágætu revíu, að því miður væri nafnið réttnefni að því leyti að „húmorinn“ var þar helst til af skornum skammti. Þó má segja að revíuhöfundum hafi stundum tekist upp, t. d. þegar þeir sneru kjörorði stjórnarandstöðuflokka allra tíma: koma tímar koma ráð — upp á stefnu og störf hæstv. ríkisstj. sem virðist starfa undir kjörorðinu: Kommatímar og kommaráð. Hún virðist vera því marki brennd.