07.04.1981
Neðri deild: 73. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3490 í B-deild Alþingistíðinda. (3544)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Með lögum nr. 40/1978, um tekju- og eignarskatt, var mörkuð á Alþingi ný og gerbreytt löggjöf um álagningu tekju- og eignarskatts, einkum að því er varðar ákvörðun skattstofna. Hér hafði þá um langt árabil ríkt ófremdarástand í þessum efnum, m. a. vegna þess hvernig verðbólgan hafði leikið þá löggjöf sem þá var búið við. Einkum komu þessir gallar fram í skattlagningu atvinnurekstrarins þar sem ýmist var um að ræða álagningu tekjuskatts á stofn, sem ekki gat talist raunverulegar tekjur, eða þá að raunverulegar tekjur voru skattfrjálsar. Þessir veigamiklu gallar komu reyndar einnig fram við skattlagningu einstaklinga, en eldri lög um þetta efni tóku ekkert mið af áhrifum verðbólgunnar á fjárhagslega afkomu einstaklinga og fyrirtækja.

Helstu breytingar langanna frá 1978 voru þessar: Frádráttarliðum hjá einstaklingum, sem ekki stunda atvinnurekstur, var fækkað, en jafnframt voru reiknaðar tekjur af eigin húsnæði felldar niður. Tekinn var upp fastur 10% frádráttur sem einstaklingar geta notað í stað tiltekinna frádráttarliða. Tekin var upp takmörkuð sérsköttun hjóna, 50% frádráttur vegna útivinnandi eiginkvenna var felldur niður. Skattlagningu á einstaklinga í atvinnurekstri var breytt með aðgreiningu atvinnurekstrar og eiganda rekstrarins. Þær breytingar, sem telja verður veigamestar, voru ákvæði laganna um almennt og stöðugt endurmat eigna, afskriftir af endurmatsverði, notkun endurmats við útreikninga á skattskyldum söluhagnaði, breyttar reglur um meðferð fjármagnskostnaðar í atvinnurekstri og sérstakar aðgerðir til útreiknings á áhrifum verðbólgunnar á peningalegar eignir og skuldir aðila í atvinnurekstri. Margt fleira mætti telja sem ekki er ástæða til að rekja hér. Þessi löggjöf er um margt mjög merkileg þótt hún geti á engan hátt talist fullkomin fremur en önnur mannanna verk. Hér er um mjög flókið mál að ræða sem afar erfitt er að finna einfalda lausn á við þær verðbólguaðstæður sem við búum við. Ég tel þó að þessi löggjöf hafi haft veruleg áhrif til eðlilegri skattlagningar, þegar á heildina er lítið, og ég hygg að hún hafi haft víðtækari áhrif til eðlilegri viðskiptahátta og meira jafnvægis í þessum efnum en menn almennt gera sér grein fyrir.

Það frv., sem hér er til umr., gerir ráð fyrir allmörgum breytingum á gildandi skattalögum, en fjöldi þeirra breytinga segir lítið um innihald þeirra eða mikilvægi. Breytingarnar má flokka þannig:

1. Ýmsar tæknilegar breytingar sem í flestum tilvikum eru fallnar til að auka á skýrleika laganna og samstaða ætti að geta náðst um.

2. Breytingar sem varða skattstofna einstaklinga og atvinnurekstrar, en um það eru skiptar skoðanir hér á Alþingi.

3. Breytingar sem varða skattálagninguna sjálfa, þ. e. þá skatta sem reiknaðir eru af skattstofnum. Í því felst ákvörðun á skatthlutföllum og skattstigum, en þar er fyrst og fremst um hina pólitísku ákvörðun að ræða.

Eins og stundum áður eru breytingar á skattalögum seint á ferðinni hér á hv. Alþingi. Að þessu sinni ber að átelja sérstaklega hversu seint þetta frv. er fram komið. Ríkisstj. hefur haft ærinn tíma til þess að ákveða hverjar breytingar hún vildi gera á lógum þeim sem samþykkt voru vorið 1978 og þá náðist svo víðtæk samstaða um að samþykkt voru mótatkvæðalaust þótt þm. hefðu aths. að gera um einstakar greinar laganna. En hér hefur farið sem oft áður hjá þessari hæstv. ríkisstj., að erfitt hefur reynst að komast að niðurstöðu. Og þegar niðurstaða loks fæst er afraksturinn í sjálfu sér heldur ómerkilegur. Ég undanskil þar þó ýmsar breytingar sem horfa til bóta og varða einkum tæknileg atriði, eins og ég nefndi áðan.

Þegar frv. er loks fullbúið af hendi hæstv. ríkisstj. á helst að keyra það í gegnum þingið á einni viku samkv. sérstakri ósk hæstv. fjmrh., þótt hann tali í ræðu sinni um hálfan mánuð þar sem vika mun liðin síðan hann afhenti fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna frv. í nokkurn veginn endanlegri mynd. En við þessari ósk hæstv. ráðh. er ekki hægt að verða, þótt honum og öðrum stjórnarliðum kunni að reynast erfitt að skilja að fleiri en þeir þurfi að tjá sig í þessum mikilvæga málaflokki, bæði um þetta frv. og annað sem stjórnarandstaðan hefur áhuga á og hefur raunar flutt tillögur um á þessu þingi og varðar skattamál.

Stjórnarandstöðunni er fulljóst að vont er að vera með breytingar á skattalögum þegar komið er fram í maí eða jafnvel fram undir miðjan maí eins og líkur eru á að verði í þetta skipti. En þar er ekki við stjórnarandstöðuna að sakast, heldur ríkisstj. eina. Ríkisstj. getur svo skotið sér á bak við þá afsökun, að beðið hafi verið eftir tölvuútskriftum, eins og hæstv. ráðh. nefndi áðan. Fyrir utan hin tæknilegu atriði, sem ég tæpti á áðan að brtt. eru gerðar um í þessu frv., er um að ræða breytingar á umdeildum atriðum, eins og t. d. 59. gr. laganna sem ég kem nánar að síðar. Síðan er um að ræða það sem kallað er uppfylling á því fyrirheiti ríkisstj. sem birt er í svokallaðri efnahagsáætlun frá því á gamlársdag, að skattar á almennar launatekjur skuli lækkaðir þannig að sú lækkun samsvari um 1.5% kaupmáttarauka hjá þeim sem hafa meðaltekjur eða minna, eins og segir í aths. við þetta frv. Og þar er bætt við að megintilgangur frv. sé sá að efna þetta fyrirheit. Ég kem einnig nánar að því síðar.

En það, sem mér finnst líka einkenna þetta frv., er að það endurspeglar stefnu Alþb. í skattamálum. Við höfum sem sagt enn eina sönnunina fyrir því, hver ítök Alþb. eru í núv. ríkisstj. Þessi endurspeglun á stefnu Alþb. kemur einkum fram í skattstiganum og útfærslu hans og í öðru lagi þar sem breytt er skattlagningu atvinnurekstrarins. Ég nefni þar sérstaklega skerðingu á fyrningum, sem ástæða er reyndar til að ætla að séu óframkvæmanleg ákvæði eins og þau eru í frv., auk þess sem stórvarhugavert er að hræra í hlutum eins og hér er gert. Þá nefni ég einnig það sem ég vil kalla sýndarmennsku og kemur fram í því ákvæði frv., að heimilt sé að draga frá tekjum helming greiddrar húsaleigu vegna leigu á íbúðarhúsnæði til eigin nota vegna tekjuársins, eins og segir í 11. gr. frv. Ég skal nú víkja nokkru nánar að meginefni þess.

Ég fer ekki mörgum orðum um þær tæknilegu breytingar sem ráðgerðar eru hér, en ég tel þær flestar til bóta, eins og t. d. frekari skýringar varðandi söluhagnað íbúðarhúsnæðis, lóðaréttinda og hlutabréfa. Þær breytingar, sem snúa. að einstaklingum utan atvinnurekstrar og varða skattstofna þeirra, eru einkum þessar: Greidd húsaleiga er gerð frádráttarbær að hálfu, eins og það heitir. Lágmarksfrádráttur frá tekjum einstæðra foreldra skal vera 75% hærri en hjá einhleypingum. Nýting ónýtts persónuafsláttar til greiðslu eignarskatts er heimiluð, og ég tek strax fram að ég tel það vera til bóta. Ég fellst á það, að einstæðir foreldrar hafa farið heldur illa út úr skattlagningunni samkv. hinum nýju skattalögum, en ég bendi hins vegar á að varhugavert er í skattalögum að vera með slíkar sérreglur sem hér er gert ráð fyrir, og þarf ekki mörgum orðum að því að eyða, að slíkar reglur er mjög auðvelt að misnota.

Samkv. 11. gr. frv. er heimilað að draga frá helming greiddrar húsaleigu vegna leigu á íbúðarhúsnæði til eigin nota, enda sé hún vegna tekjuársins, eins og segir í 11. gr. frv. Eins og ég sagði áðan, held ég að hér sé um sýndarmennsku að ræða. Ef ég man rétt flutti hæstv. núv. fjmrh. brtt. í Ed. þegar skattafrv. var til meðferðar þar vorið 1978, — hann flutti þá brtt. við frv. þess efnis, að húsaleiga yrði frádráttarbær, þó að tilteknu marki. Núna virðist hann hafa haft hálfan sigur með því að koma inn ákvæði um að helmingur greiddrar húsaleigu yrði frádráttarbær. En ég bið menn að athuga sérstaklega hverju þarna er verið að breyta. Þetta er nýr tölul. við E-lið 1. mgr. 30. gr. gildandi laga. Í næstsíðustu mgr. E-liðar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Í stað frádráttar samkv. D-og E-lið 1. mgr. þessarar greinar má að vali manns draga 10% af tekjum samkv. 1. tölul. A-liðs 7. gr. þegar frá þeim hafa verið dregnir þeir liðir sem um ræðir í 1.-5. tölul. A-liðs 1. mgr. þessarar greinar“ o. s. frv. Þetta þýðir m. ö. o. það, að sá, sem velur þann kost að fá til frádráttar 10% af tekjum, getur ekki bætt við frádrátt sinn greiddri húsaleigu. M. ö. o.: þetta kemur í fæstum tilvikum þeim til góða í raun og veru sem eru leigjendur. Ég bendi á að þeir, sem eru leigjendur, skulda þá heldur ekkert, það kunna þó að verá undantekningar, en þeir skulda ekkert vegna íbúðarkaupa eða íbúðarbygginga og fá þar af leiðandi engan vaxtafrádrátt. Það segir okkur jafnframt að þeir hljóta í langflestum tilvikum að velja heimildina til að draga 10% frá tekjum sínum fyrir álagningu. Þetta segir því það, að þeir, sem leigja, eru gjarnan hinir tekjulægri í þjóðfélaginu. Annaðhvort kemur þá þeim til góða, eins og ég áðan sagði, heimildin til þess að draga 10% frá tekjum eða þeir velja heldur hinn kostinn, að tíunda frádráttarliði eins og heimilt er í skattalögum. En hvort tveggja geta menn ekki gert, að velja 10% af tekjum sínum til frádráttar og að bæta við greiddri húsaleigu. Þess vegna held ég að hér sé meira verið að sýnast en annað.

Eins og ég nefndi áðan segir svo í aths. við lagafrv. þetta að megintilgangur þess sé að efna það fyrirheit að lækka skatta sem samsvari 1.5% kaupmáttarauka hjá þeim sem hafa meðaltekjur eða minni. Í þessum orðum felst stórkostleg blekking. Þessi blekking felst í því, sem áður hefur raunar verið margsinnis rakið, að fyrst eru skattar hækkaðir með rangri skattvísitölu, en síðan lækkaðir — m. a. með þessu móti — til þess að sýna örlæti ríkisstj. gagnvart hinum tekjulægri. Í aths. með þessu frv. er það rakið, að í fjárlögum fyrir árið 1981 hafi verið gert ráð fyrir skattvísitölu 145 stigum, og hæstv. ráðh. rakti hér áðan hvað þetta þýddi, þ. e. um 65 millj. eða 6.5 milljarða gkr. umfram þá álagningartölu sem lá til grundvallar tekjuáætlun fjárlaga. Í aths. er einnig tekið fram að tekjubreyting milli áranna 1979 og 1980 hafi numið 51% og því hefði þurft að miða við skattvísitölu 151 til að halda skattbyrðinni óbreyttri frá álagningu 1981, eins og ráðh. rakti líka áðan. En hvað sem liður útskýringum hæstv. ráðh. er þessi tala röng. Við höfum um það óyggjandi upplýsingar, að breyting milli ára var 53%. Sjálfstæðismenn lögðu til við afgreiðslu fjárlaga að skattvísitalan yrði 153 stig, en sú till. var felld af stjórnarliðum.

Samkv. fjárlögum, sem samþykkt voru skömmu fyrir jól, var stefnt að 23–24 milljarða gkr. skattahækkun að raungildi frá því sem var í fyrra. Það þýddi að skattahækkun sú í heild — þá á ég við bæði beina og óbeina skatta — sem orðin var og var á ábyrgð þessarar og síðustu ríkisstj. var orðin 70–80 milljarðar gkr. að raungildi frá skattalögunum 1978 eða sem jafngildir rúmlega 1.7 millj. gkr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu.

Það verður ekki hjá því komist að rekja með nokkrum orðum við þetta tækifæri þær skattahækkanir sem orðið hafa frá því að ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar fór frá völdum 1978, ekki síst vegna þess að hæstv. fjmrh. var hér enn einu sinni að reyna að sanna að núv. ríkisstj. væri ekki að hækka skatta.

Samkv. gildandi fjárlögum hækka skattar að raungildi frá því sem var í fyrra og í gömlum krónum talið sem ég nú skal nefna: Orkujöfnunargjald, sem lagt var á fyrst í fyrra og er í raun 1.5% söluskattur, leggst nú á allt árið, en hins vegar hluta ársins í fyrra. Þess vegna vex skattþunginn verulega á þessu ári af þessum gjaldstofni. Þá nefni ég einnig innflutningsgjald á sælgæti og vörugjald á sælgæti og gosdrykki sem eru nýir skattar. Hækkun tekju- og eignarskatta umfram verðlag er óumdeilanleg. Í fjárlögum voru þessir skattar áætlaðir með því að hækka þá frá fjárlögum 1980 um 42% eins og var verðlagsforsenda fjárlaganna. Og við endanlega afgreiðslu fjárlaga voru þeir hækkaðir samkv. brtt. stjórnarliða um 6.4 milljarða gkr. En hér er ekki öll sagan sögð því að sú skattvísitala, sem meiri hluti þingsins, stjórnarliðar, samþykkti, þ. e. 145, eins og áðan var rakið, hækkar tekju- og eignarskatta einstaklinga um meira en þetta eða nálægt 6.5 milljörðum í viðbót, í álagningu vel að merkja, í álagningu á yfirstandandi ári, en í innheimtu um 4 milljarða kr. að óbreyttum lögum. Þegar þessar staðreyndir eru athugaðar er hætt við að loforðið um skattalækkun sem jafngilti 1.5% kaupmáttaraukningu fyrir lágtekjufólk, reynist jafnvel meiri blekking en núv. ríkisstj. hefur haft í frammi í stjórn efnahagsmála á öðrum sviðum og er þá langt til jafnað. En það á sem sagt að vera megintilgangur frv. að efna þetta fyrirheit, eins og segir í aths. með því.

Það hefur áður verið rakið og skal enn nefnt hér, að frá því að ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar tók við völdum árið 1978 og hóf feril sinn með því að leggja á afturvirka skatta hefur heildarskattreikningur almennings hækkað að raungildi um 70 milljarða kr, til ríkisins miðað við verðlag fjárlaga 1981, og að auki má svo áætla að 10% hækkun útsvara, sem stuðningslið ríkisstj. á Alþingi hefur heimilað, bæti 10 milljörðum gkr. við þessa summu. Þetta jafngildir því, eins og ég sagði áðan, að á þessu ári greiði hver fimm manna fjölskylda 1700 þús. gkr. eða 17 þús. nýjar í beina og óbeina skatta fram yfir þá upphæð sem þessar fjölskyldur greiddu ef óbreytt lög og reglur giltu um skatta til hins opinbera frá því sem var á miðju ári 1978. Þessi aukaskattreikningur til ríkisins er í stórum dráttum svona — og ég nefni þetta enn í gömlum krónum:

Í fyrsta lagi hækkun tekju- og eignarskatta einstaklinga 17.5 milljarðar, hækkun söluskatts um 2 prósentustig haustið 1979 16 milljarðar, hækkun vörugjalds á sama tíma um 6% 11 milljarðar, gjald á ferðalög til útlanda 2.4 milljarðar, nýtt innflutningsgjald á sælgæti 1.2 milljarðar, nýtt vörugjald á sælgæti og gosdrykki 3.6 milljarðar, hækkun verðjöfnunargjalds á raforku 1.8 milljarðar, skattahækkun á bensín umfram aðrar verðlagshækkanir 15 milljarðar, orkujöfnunargjald — sem er í raun 1.5% söluskattur — 13 milljarðar og svo markaðar tekjur ýmsar í ríkissjóð 6.9 milljarðar. Þetta eru samtals 93.4 milljarðar, en frá dregst lækkun óbeinna skatta og tolla upp á 22.3 milljarða heildarraungildishækkun skatta frá 1978 er því um 71 milljarður rúmlega.

Ef þessi skattreikningur, sem hér hefur verið rakinn, er hafður í huga verður, eins og ég sagði, heldur lítið úr þeirri skattalækkun sem ríkisstj. gumar nú af í sambandi við framlagningu þessa frv. Ég mun ekki fara út í einstök dæmi um það, hvernig álagning kemur út fyrir einstaka tekjuhópa eða gjaldendur með mismunandi fjölskyldustærðir, það munu aðrir gera.

Gert er ráð fyrir veigamikilli breytingu hjá þeim einstaklingum sem hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Þessi veigamikla breyting felst í niðurfellingu 59. gr. laganna. Um þetta atriði hygg ég að séu nokkuð skiptar skoðanir í þinginu. Það hefur lengi verið skoðun mín og ég held flestra þm., að allan atvinnurekstur beri að skattleggja eftir sömu grundvallarreglum, hvort sem hann er í eigu hlutafélaga, samvinnufélaga, sameignarfélaga eða einstaklinga. Þetta hefur ekki verið gert og gilda enn þá mismunandi reglur um þetta efni. Með lögum nr. 40/1978 var stigið skref til samræmingar í þessu efni með því að atvinnurekendum með sjálfstæða starfsemi var gert að reikna sér laun frá atvinnurekstrinum með hliðstæðum hætti og gerist almennt hjá þeim sem t. d. starfa við eigið sameignarfélag, sem er sjálfstæður skattaðili. Það er með öllu óeðlilegt, að atvinnureksturinn sitji ekki við sama borð í þessum efnum.

Það verður að viðurkenna, að framkvæmd 59. gr. hefur á ýmsan hátt mistekist. Framkvæmdin hefur allt of mikið snúist um smáatvinnurekendur og einyrkja, án þess að litið hafi verið til umfangs rekstrar og annarra atriða, eins og lögin kveða þó á um. Það er mikill misskilningur, að með 59. gr. hafi skattyfirvöld fengið ótakmarkað vald til áætlunar tekna á atvinnurekendur. Sú meginregla gildir í þessu sambandi, að skattyfirvöldum ber að sýna fram á að skattframtal sé rangt eða tortryggilegt ætli þau að breyta því. Hafi skattyfirvöld gert slíkar breytingar eða áætlanir án þess að þessum skilyrðum hafi verið fullnægt, eins og reyndin virðist vera, þá standast þær breytingar ekki. Ég var fylgjandi þeirri stefnu, sem lögin frá 1978 mörkuðu í þessu efni, og vil raunar ganga lengra varðandi samræmingu á skattlagningu atvinnurekstrarins, svo sem með því að heimila sjálfstæðum atvinnurekendum að leggja í varasjóð eins og félög hafa heimild til. Slíkum ákvæðum er hins vegar erfitt að koma við án aðgreiningar á atvinnurekstri og eiganda hans. Ég vil sérstaklega benda á að eftir að þessi regla um reiknaðar tekjur verður felld úr lögum fellur einnig niður sú heimild til þeirra, sem hafa með hendi sjálfstæða starfsemi, að nýta sér 10% frádráttarmöguleikann.

Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta atriði. Sjálfstæðismenn styðja það að fenginni reynslu, að þessi ákvæði verði numin úr lögum. En ég get ekki látið hjá liða að benda á þá gagnrýni á framkvæmd laganna sem fram kemur í aths. við þetta frv. Þar segir efnislega að ákvæði 59. gr. hafi ekki verið framkvæmt eins í öllum skattumdæmum landsins og auk þess virðist sem ekki hafi verið nægilegt tillit tekið til einstakra aðstæðna framteljenda í öllum tilvikum. Síðan eru gefnar tölulegar upplýsingar um það, hvernig álagning samkv. þessum heimildum var framkvæmd árið 1980, og hæstv. ráðh. rakti það að nokkru áðan. Af þessum tölulegu upplýsingum er dregin sú niðurstaða, að með ákvæðum 59. gr. hafi verið gengið of langt í þá átt að ákveða laun á aðila, þótt þeir hafi ekki haft neinar hreinar tekjur, og þeim þar með gert að greiða skatt af tekjum sem aldrei urðu til. Þessar niðurstöður athugana eru sem sagt forsenda fyrir því, að ríkisstj. leggur nú til að þessi ákvæði verði felld brott með lögum.

Eins og ég sagði áðan styðja sjálfstæðismenn þessa niðurstöðu og fluttu raunar um það till. í desembermánuði s. l. sem stjórnarliðar treystu sér þá ekki til að samþykkja, eins og menn rekur minni til. Í þeim orðum, sem ég tiltók hér úr aths. við þetta lagafrv., felst mjög snörp gagnrýni á þá embættismenn sem hafa haft með framkvæmd skattalaganna að gera, og þá ekki síst á hæstv. fjmrh. sem hefur þar æðsta vald. Get ég ekki betur séð en hér sé um algera uppgjöf að ræða. Hæstv. fjmrh. og ríkisstj. treystir sér ekki til að framkvæma lögin eins og þau þó kveða skýrt á um að þau skuli framkvæmd.

Ég vil aðeins minna frekar á orðalag greinarinnar eins og hún er, ekki síst vegna þess að ég átti hlut að því á sínum tíma, að þetta ákvæði var lögfest. Ég vil jafnframt minna á hver var skilningur meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd. vorið 1978. Mér sýnist rétt að þetta komi fram. Ég nefni þar úr 59. gr. þetta, að ríkisskattstjóri skuli árlega setja skattstjórum viðmiðunarreglur til ákvörðunar launa gjaldþegns og skattstjóri ákvarði síðan tekjur þessar með hliðsjón af viðmiðunarreglunum og skuli þá gætt aðstöðu viðkomandi aðila, aldurs hans, heilsu og starfstíma, umfangs starfsins og annarra atriða er máli skipta. Síðan eru sérstök ákvæði um viðmiðunartekjur þeirra er landbúnað stunda. Þetta voru býsna skýr ákvæði í 59. gr.

Þegar ég talaði fyrir nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. 28. apríl 1978 sagði ég svo um þessi atriði, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisskattstjóri skal árlega setja skattstjórum viðmiðunarreglur til þessarar tekjuákvörðunar. Um þessi ákvæði hafa orðið nokkuð skiptar skoðanir. Því hefur verið haldið fram, að með framangreindum heimildum verði skattyfirvöldum gefnar of frjálsar hendur með álagningu skatta á hina ýmsu aðila sem stunda alls konar smáatvinnurekstur. Meiri hl. n. telur ekki ástæðu til að óttast ranglæti af hálfu skattyfirvalda á þessu sviði eða óréttmæta skattlagningu láglaunafólks í smáatvinnurekstri. Lýsir meiri hl. n. þeim skilningi sínum á 59. gr., að með henni sé lögð skilyrðislaus skylda á herðar skattyfirvalda að taka tillit til þeirra atriða, sem upp eru talið í greininni og áhrif hafa á launaupphæðina, sem skattþegn ákveður sér sjálfur.“

En nú hefur því hér verið lýst hvernig framkvæmdin hefur verið, og hún hefur orðið öll önnur en lagagreinin beinlínis lagði fyrir skattyfirvöld. Og hún hefur orðið öll önnur en meiri hl. n, lýsti sínum skilningi og ég var hér að lesa upp. Því miður reyndist meiri hl. n. á þessum tíma ekki sannspár að því er varðaði þá skoðun, að ekki væri ástæða til að óttast ranglæti af hálfu skattyfirvalda á þessu sviði. Það hefur sem sé sýnt sig að ranglæti hefur verið framið. Eins og ég rakti áðan felst í aths. með lagafrv. mjög hörð gagnrýni á framkvæmd skattalaganna og þar með á hæstv. fjmrh. sjálfan. Við sjálfstæðismenn teljum því að núv. ríkisstj. sé alls ekki treystandi fyrir framkvæmd ákvæða sem þessara, sem verið hafa í lögum, og munum því, eins og ég sagði, styðja það, að þau verði numin brott. Ég hlýt í þessu sambandi líka að nefna að ýmsir sjálfstæðismenn hafa frá upphafi verið því andvígir að þessi heimild væri yfirleitt í lögum. En brottfall þessara ákvæða virðist núna vera orðið aðaláhugamál Alþb. Ég segi ekki annað en það, að öðruvísi mér áður brá. En þegar áhrif þessarar ákvörðunar, ef tekin verður, fara að koma í ljós, við skulum segja eftir 2–3 ár, þá mega menn minnast þeirrar umr. sem yfirgnæfandi var í þjóðfélaginu á árunum fyrir 1978, þ. e. skattleysi þeirra sem einhvern rekstur eða sjálfstæða starfsemi stunduðu. Sú umr. kann þá að rifjast upp fyrir mönnum að nýju.

Ég vil þá fara nokkrum frekari orðum um breytingar sem varða skattlagningu atvinnurekstrarins.

Í 14. og 17. gr. frv. felast meginbreytingarnar varðandi atvinnureksturinn. Heimildin í 44. gr. skattalaganna til sérstakrar fyrningar á móti reiknaðri tekjutilfærslu vegna verðbreytinga er skert. Gert er ráð fyrir að hún lækki úr 50% í 40% af tekjufærslu. Í 17. gr. eru ákvæði sem skerða munu fyrningarheimildir fyrirtækja verulega. Ég vek sérstaka athygli á þessari grein og ég á afar bágt með að trúa því, að framsóknarmenn í stjórn og þeir, sem telja sig sjálfstæðismenn í stjórnarherbúðunum, geti staðið að þessari breytingu. Hér er um það að ræða að fyrningarheimildir verða almennt skertar um 10%, því að það eru ekki mörg fyrirtæki í landinu sem hafa 5% hagnað af heildartekjum. Menn skulu muna það, að fyrningarhlutföll voru verulega lækkuð með lögum nr. 40/1978 frá því sem áður var, og það má benda á dæmi þar sem hlutföllin eru nú lægri en eðlilegt væri miðað við endingartíma ýmissa eigna. Það er því með öllu óhæft að ætla að lækka fyrningarhlutföllin enn. Svo sé ég ekki í fljótu bragði með hvaða hætti fyrirtækjum verði gert kleift að framkvæma þetta.

Það væri raunar fróðlegt að spyrja hæstv. fjmrh. hvaða fyrirtæki það eru í landinu sem skila þeirri afkomu sem þarna er gert ráð fyrir. Eru þetta fyrirtæki í iðnaði, verslun eða þjónustu? Ég held að tölur Þjóðhagsstofnunar um afkomu atvinnuveganna yfirleitt segi ekki að þessi sé afkoman. Mér sýnist að með þessu ákvæði séu nánast þurrkaðar út fyrningar, ef þessi regla á að haldast, og öll þau fyrirtæki, sem hafa einhvern hagnað, og reyndar fleiri verða samkv. ákvæðum þessarar greinar fyrir skerðingu. Ég læt í ljós þá afdráttarlausu skoðun, að það, sem hér er ráðgert, sé engan veginn boðlegt. Ég segi það fyrst og fremst vegna þess, að flest fyrirtæki hafa þegar lokið sínu uppgjöri. Fyrirtæki, sem þannig er ástatt um, þurfa að reikna þetta allt saman að nýju, og hjá þeim vakna einnig spurningar um nýtingu á öðrum heimildum í skattalögum, sem þau hafa ekki nýtt í sínu uppgjöri vegna þeirra ákvæða sem í gildi voru og eru reyndar enn. Afturvirkar breytingar sem þessar verður að stöðva, og það verður að gera í eitt skipti fyrir öll. Satt að segja héldu menn að það hefði verið gert með setningu skattalaganna 1978. Þegar þau lög eða það frv. var til meðferðar hér á Alþingi 1978 var lögð á það rík áhersla, að snúið væri við af þeirri braut sem allt of lengi hafði verið gengin, að vera sífellt að krukka í skattalög þannig að um afturvirkni væri að ræða. En um leið og komin er ný vinstri stjórn er byrjað aftur á sama leiknum, að breyta skattalögum þannig að þau hafi afturvirk áhrif. Þessi ákvæði, sem hér er ætlunin að lögfesta, setja raunverulega öll fyrirtæki í landinu í óvissu. Þau setja allt starf á skattstofunum úr lagi. Þau framtöl, sem þegar hafa komið inn til skattstofu, verða öll að fara í sérstaka endurskoðun og enduruppgjör. Starfslið skattstofanna verður að breyta þeim. Í öllum tilvikum þarf til að koma nýtt reikningsuppgjör. Kostnaður við slíkt er gífurlegur og fyrirhöfnin mikil. Þessar aðferðir eru, eins og ég sagði áðan, alls ekki boðlegar og ber þegar af þeirri ástæðu að fella þessar greinar.

Með þessu frv. er enn ráðist að atvinnurekstrinum í landinu eftir kokkabókum Alþb. Þegar allur rekstur á nú í miklum erfiðleikum verða menn að skilja að ekki eru efni til aukinnar skattlagningar. Hæstv. fjmrh. verður að gera sér ljóst að aukin skattlagning á atvinnureksturinn að undanförnu hefur dregið úr hagnaði og þar með möguleikum hans til þess að greiða tekjuskatt. Stóraukin skattlagning á flestum sviðum, svo sem hækkun launatengdra gjalda, ég nefni þar slysatryggingagjald og lífeyristryggingagjald, hækkun fasteignaskatta, sérstakra skatta á atvinnuhúsnæði, veruleg hækkun aðstöðugjalds hjá vinstri meiri hlutanum í Reykjavík, allt þetta gerir nú fyrirtækjum erfitt fyrir. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Vilji ríkisstj. auka tekjuskattsgreiðslur atvinnurekstrarins þarf að skapa honum skilyrði til að geta skilað hagnaði. Hér er stefnt í þveröfuga átt á öllum sviðum og er nú vart hægt að tala um nýfjárfestingu í atvinnurekstri án þess að ríkið sé þar með. Þetta er hættuleg þróun, þróun sem leiðir okkur hraðbyri til sósíalisma og ríkisforsjár með allri þeirri ógæfu sem því fylgir. Með ýmsum aðgerðum er enn girt fyrir það, að sparnaður, sem kann að leita í atvinnureksturinn, sé skattlagður sem sparifé. Ýmislegt bendir til að meira fé sé nú í bönkum og fjárfestingarsjóðum en stundum áður. Það leiðir svo hugann að því, hvernig búið sé að atvinnurekstrinum. Ekkert er gert til þess að laða menn að því að leggja fé í atvinnureksturinn, og þetta frv. er síður en svo þar til hvatningar.

Ég fer nú að ljúka máli mínu. Ég vil í lokin taka það fram, sem reyndar hefur komið fram í máli mínu, að ég er samþykkur ýmsum þeim breytingum sem ráðgerðar eru í þessu frv. En eins og komið hefur fram í máli mínu líka er ég andvígur öðrum atriðum. Þar á ég sérstaklega við breytingar á fyrningarreglunum varðandi atvinnureksturinn. Ég er einnig andvígur þeirri skattapólitík sem kemur fram í ákvörðunum á skattstiga og skatthlutföllum, og ég ítreka svo enn að þessar breytingar eru allt of seint á ferðinni. En þar er, eins og ég áður sagði, eingöngu við ríkisstj. að sakast, en ekki stjórnarandstöðuna.

Og svo að lokum lýsi ég enn yfir sérstakri andstöðu minni við það, að þær breytingar, sem hér eru ráðgerðar og hafa afturvirk áhrif, hafa í för með sér stórfelldan kostnað í sambandi við uppgjör fyrirtækja og þær hafa í för með sér stórfellt vinnuálag á skattstofurnar í landinu.