08.04.1981
Efri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3534 í B-deild Alþingistíðinda. (3563)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Í brtt., sem hér er til umr., er aðeins um að ræða heimild til lántöku. Ég hef í ríkisstj. áskilið mér rétt til að fylgja slíkri brtt. ef fram kæmi, og hefur þessi afstaða mín verið bókuð í gerðabók ríkisstj. Þó að þessi lántökuheimild verði samþykkt gilda ákvæði stjórnarsáttmálans eftir sem áður þannig að framkvæmdir geta ekki hafist nema fyrir liggi samþykki allra ráðh. Það er minn skilningur að lántökuheimild þessi verði ekki notuð nema að fengnu samþykki allrar ríkisstj. Samþykkt þessarar till. brýtur því ekki í bága við stjórnarsáttmálann að einu eða neinu leyti. (Gripið fram í.) Já, fjmrh. talaði nokkuð langt mál áðan, en ég heyri að hann hefur brunnið inni með eitthvað. (Gripið fram í.) Ég hafði ekki hugsað mér að ræða mikið við hann í þessum fáu orðum sem ég segi hér. Ég hugsa að það sé álíka vonlaust fyrir hann að ætla að snúa mér af réttri leið og það er fyrir mig að reyna að leiða hann frá villu síns vegar.

Sú fjárhæð, sem um er að tefla í þessari lántökuheimild, er að mínu mati óþarflega há. Það er vafasamt að framkvæmdir við byggingu nýrrar flugstöðvar geti hafist á þessu ári að nokkru ráði, jafnvel þó að allt félli nú í ljúfa löð, samþykkt væri að nota lántökuheimildina af öllum ráðh. og samþykkt væri að hefja framkvæmdir. Þess vegna hefði þessi fjárhæð gjarnan mátt vera miklu lægri. (StJ: Því lægri, því betra.) Því lægri, því betra. Lengi er von á einum. — Það, sem ég tel aðalatriðið við þessa tillögugerð og samþykkt hennar, er að með því sýnum við lit, með því sýnum við áhuga og vilja í þessu máli. Það liggur þó fyrir að Bandaríkjaþing hefur samþykkt fjárveitingu í þessu skyni. Sú fjárveiting fellur niður ef ekki er farið að fást við framkvæmdir að einhverju ráði 1. okt. 1982. Ég held þess vegna að fyrir málið og vegna þess sem þarf að vinna að þessu máli á eftir, ef eitthvað verður hugsað til þess að gera í þessu, hefði verið gott að fá fram heimild til nokkurrar fjárhæðar, ekki svo stórrar að hún þyrfti að setja lánsfjáráætlun úr böndum, en væri þó vottur þess að við vildum og ætluðum að fara í þessa framkvæmd. Það tel ég aðalatriðið. Á þetta lagði ég mjög mikla áherslu í ríkisstj. og tók fram, að þó að ég setti þar fram ákveðna upphæð væri ég til samkomulags um hverja aðra og lægri fjárhæð. En það var ekki hlustað á það. Þess vegna er nú komið sem komið er, að þessi till. er komin hér fram. Stundum fer það svona þegar menn hlusta ekki á varnaðarorð.

Mér er ljóst að erfitt er á þessu stigi að ætla að bæta verulega við lánsfjáráætlun. En ég tel að það hefði mátt stilla þessari lántökuheimild það í hóf að hún hefði ekki þurft að setja lánsfjáráætlun úr neinum skorðum, auk þess sem þetta er aðeins heimild, eins og ég sagði, sem ekki er séð enn þá hvort notuð verður af því að samþykki allra ráðh. þarf til. (LJ: Heimildin er nú aðeins allt að 20 millj. kr.) Já, það er „allt að“. Það er ekkert bundið við ákveðna upphæð. En það er blærinn á till. Það hefði kannske farið betur í menn ef þessi hámarksupphæð hefði verið örlítið lægri, en því er náttúrlega auðvelt að breyta ef vilji er fyrir hendi til samkomulags. Satt að segja hélt ég í gær, að þegar 3. umr., sem þá átti að fara fram þegar í stað, var frestað væri það gert í því skyni að leita samkomulags um þetta mál. (StJ: Var henni ekki frestað vegna þess að ráðh. hafði augljóslega komist að samkomulagi við stjórnarandstöðuna?) Nei, samkv. yfirlýsingu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar í útvarpinu í gær var þessi frestun vegna þess að hann taldi að það þyrfti að tryggja afstöðu stjórnarliða. (Gripið fram í.) Já, við skulum koma að því síðar.

Mér kom þessi yfirlýsing spánskt fyrir sjónir, ég verð að segja það. Ég kannast að vísu við það, að í stjórnarskránni stendur að þm. séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína. Hins vegar stendur þar ekkert um að þm. eigi að fara eftir fyrirmælum hv, þm. Ólafs Ragnars Grímssonar. Hvað sem aðrir gera nú í því efni mun ég ekkert fara eftir fyrirmælum hans. (StJ: Ykkur hefur nú aldrei komið vel saman, Ólafur.) Nei, en það gæti batnað, samkomulagið, ef hann tæki svolítið skynsamlegar á málum í framtíðinni. En hv. þm. er ekki hér og ég ætla ekki að fara að ræða frekar við hann um þetta.

Auðvitað liggur það fyrir, að Sjálfstfl. og Framsfl. stóðu á sínum tíma, 1974, að þeim samningum sem unnið hefur verið eftir síðan um byggingu nýrrar flugstöðvar. Það verður þess vegna að ætla að þessir flokkar hafi ákveðna skoðun í þessum efnum. (Gripið fram í: Þeir hættu samstarfinu um ýmis önnur mál.) Já, en þetta skildi ekki á milli. Það var gott samkomulag um þetta áfram. Framsfl. hefur áréttað vilja sinn í þessu efni á nýafstöðnum miðstjórnarfundi. Þessi till. liggur fyrir, og því var lýst yfir af þeim sem mælti fyrir henni, að Sjálfstfl. og Alþfl. stæðu að henni. Þess vegna verð ég að segja að ég tel það ekki ófróðlegt fyrir mig að sjá framan í þá þm. sem ætla að greiða atkv. gegn þessari till. og ég tel það ekki ófróðlegt Fyrir þingheim að sjá hverjir þeir eru. Og ég tel það ekki ófróðlegt fyrir sjálfan landslýðinn að sjá það. Það kemur í ljós.

Ég held að það verði varla dregin í efa nauðsyn á því að fá nýja flugstöð á Keflavíkurflugvelli. Sú flugstöð, sem þar er nú, var byggð árið 1948 og voru þá ekki ætlaðir lengri lífdagar en í hæsta lagi 20 ár. Það hefur að vísu verið tjaslað við hana nokkrum viðbótum, það hafa fram farið á henni viðbætur, en ég held að flestir, sem fara um þarna, hljóti að vera sammála um það, þrátt fyrir þá viðleitni sem hefur verið til að bæta aðstöðuna þar, að hún sé allsendis ófullnægjandi, auk þess sem hún er af öllum, sem til þekkja, talin hættuleg vegna þess að ef þarna kviknaði í er því miður hætt við að það gæti hlotist mikið slys og ógæfa af. Þó er þetta ekki aðalatriðið, heldur hitt, að bygging nýrrar flugstöðvar er algert skilyrði, alger forsenda fyrir því, að aðskilnaður á milli varnarliðsstarfseminnar og farþegaflugs geti átt sér stað. Ég hefði talið að það væri brennandi áhugamál flestra Íslendinga að þessi aðskilnaður gæti átt sér stað. Sú var tíðin að svo var. (StJ: Á aðeins að skilja á milli?) Við skulum vona að framtíðin verði þannig að það þurfi ekki að hafa hér varnarlið. En þó að ég t. d. hafi út af fyrir sig mikla samúð með við skulum segja óskhyggju herstöðvaandstæðinga held ég að það sé ekki raunsætt eins og er að gera ráð fyrir að varnarliðið fari á brott. Ég held að það verði hér eitthvað áfram, — og því ekki þá að búa eins vel að þessu og hægt er?

Menn hafa talið, og sjálfsagt ekki að ástæðulausu, að ýmis óheppileg áhrif stöfuðu af því að hafa erlent varnarlið í landinu og hafa þar umgang um. Þá held ég að þeir hinir sömu hljóti að hafa mikinn áhuga á að skilja þarna á milli. Það er ekkert skemmtileg aðkoma á flugvöll að þurfa að aka í gegnum herstöð. En ef þessi flugstöð yrði byggð þar sem henni er ráðgerður staður er gert ráð fyrir að flugvöllurinn með varnarliðsstarfseminni verði algerlega afgirtur og skilið þar á milli. Til skamms tíma þurftu menn að fara í gegnum hlið þarna, þegar keyrt var til flugstöðvarinnar, og í því hliði voru hermenn. Ég hef nú fengið því til vegar komið að hermennirnir fóru og íslenskir lögreglumenn komu alfarið í staðinn. Ég hef hvergi séð þess getið. Það virðist ekki hafa vakið mikla athygli. Menn virðast hafa haft áhuga á einhverju öðru í sambandi við þessi mál en þvílíku. Þess vegna tel ég að það liggi alveg ljóst fyrir, að það er mikil nauðsyn á því að byggja þarna þessa flugstöð. En ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það hérna. Það gefst sjálfsagt tími til þess að ræða þessi mál öll nánar síðar og gera sér þá grein fyrir þeim.

Hönnun flugstöðvarbyggingar er lokið nú og kostnaðaráætlun liggur fyrir miðað við janúarmánuð s. l. og það hafa verið fengnar álitsgerðir aðila, m. a. flugráðs. Álitsgerð flugráðs var auðskilin. Hún hefur þann kost fram yfir ýmsar aðrar álitsgerðir að hún er gagnorð eða fyllir ekki margar blaðsíður. En hún segir alveg það sem flugráð vill segja. Það mælir með þessari flugstöðvarbyggingu, en hefur þann fyrirvara á, að hún eigi ekki að hafa forgang umfram aðrar framkvæmdir varðandi flugmál.

Það er alveg rétt, að ástand í flugmálum hér á landi er sjálfsagt ekki nógu gott. Þrátt fyrir að það hafi verið unnið stórvirki í þeim málum í raun og veru er náttúrlega óskaplegt að hlusta á það hér hjá hæstv. fjmrh. og hæstv. fyrrv. samgrh. að öryggismál á sumum þessara flugstöðva séu í ólagi. Ég tel ekki að það ætti að vera mikið átak að koma öryggismálum á þessum flugstöðvum í sæmilegt lag. Það er ekki vansalaust fyrir Alþingi, fyrir fjárveitingavaldið, að ganga ekki frá þeim málum svo að í lagi sé. Einhverju er nú eytt í annað eins. Maður er furðu lostinn að heyra slíkar yfirlýsingar, að öryggismál flugvalla skuli vera látin í ólagi. Hitt er ljóst, að ástand flugvallanna er ekki gott. Því er mjög víða ábótavant og aðbúnaður að farþegum víðs vegar um landið á þessum flugvöllum er ófullnægjandi. (StJ: Batnaði samt með þessum 20 millj.) Já, ef valið væri þarna á milli, en svo er ekki og er engin áætlun uppi um að verja 20 millj. til endurbóta á flugvöllum úti á landi eða til umbóta í öryggismálum þar. Það er ekki sá valkostur sem hér er um að ræða. Hitt er annað mál, að það mætti gjarnan hafa í huga í þessu sambandi og í framhaldi af því, sem hæstv. fjmrh. var að tíunda, þá tekjupósta sem kæmu til ríkissjóðs og annarra ágætra þarfa á Keflavíkurflugvelli, og væri ekkert ófróðlegt dæmi að gera það upp 10, kannske 20 ár aftur í tímann, hverjar tekjur hefðu verið af Keflavíkurflugvelli og flugumferðinni þar, og athuga hvaða hlutfall væri á milli þeirra tekna og þess sem hefur verið varið til flugmála hér á landi. Ætli það mundi þá ekki koma í ljós að tekjur af þessum eina flugvelli, Keflavíkurflugvelli, hefðu farið langt í það að standa undir því sem gert hefur verið á öðrum flugvöllum hér á landi. Þetta er rannsóknarefni.

Það hefur enn fremur verið fengin rekstraráætlun frá fjárlaga- og hagsýslustofnun. Ég var nú dálítið hissa á þeim ummælum sem hæstv. fjmrh. lét falla um það. Hann taldi að þetta hefði verið unnið án þess að honum væri nokkuð kunnugt um, ekkert samband hefði verið haft við sig o. s. frv. Ég er að vísu ekki kunnugur þarna í fjmrn., en hitt veit ég, að fjárlaga- og hagsýslustofnun heyrir alfarið undir fjmrh. Það vekur nokkra undrun mína, þegar ég veit að hann er duglegur maður, að hann skuli ekki fylgjast betur með starfi þessa annars síns ráðuneytis en svo, að þetta verk sé unnið án þess að hann hafi hugmynd um það.

Þær aðfinnslur eða gagnrýni sem hann hafði uppi á þessa rekstraráætlun held ég að séu alveg ómaklegar í sjálfu sér. Það er ekki reynt að villa neinum sýn í þessari rekstraráætlun. Það er tekið fram skýrum stöfum þar, að ekki sé reiknað með fjármagnskostnaði. Það er algild regla að slíkt er ekki gert. Ég held að hæstv. fjmrh., sem var samgrh. í mars 1979, hafi látið gera af einhverjum ástæðum rekstraráætlun um nýja flugstöð á Keflavíkurflugvelli. Það var áreiðanlega ekki fjármagnskostnaður tekinn til greina. En aðalatriðið er að ekki er farið í neinar felur með þetta og skýrslan er alveg glögg að þessu leyti. Hún villir ekki á sér heimildir að þessu leyti. Það er óskaplegur misskilningur hjá hæstv. fjmrh., að utanrrn. hafi gefið hagsýslustofnuninni einhverjar forsendur sem hún ætti að fara eftir. Það er mér alveg óhætt að fullyrða að ekki hefur komið til mála, enda hygg ég að hann ætti að þekkja þessa ágætu stofnun, sem undir hans stjórn vinnur, það vel að honum sé ljóst að hún lætur ekki fela sér verk þannig að henni séu gefnar þær forsendur sem hún á að fara eftir. Það er alveg fráleitt. Hún hefur haft algerlega frjálsar hendur um þetta verk og unnið það með þeim hætti sem hún hefur talið rétt vera og við eiga.

Hitt er alveg rétt, að þó að búið sé að ganga frá hönnun er margt eftir ógert í þessu sambandi og það er margt sem þarf að vinna áður en til framkvæmda getur komið. En það er náttúrlega sumpart verk sem ekki er hægt að fara að vinna og ekki er nein skynsemi í að fara að vinna nema maður viti hvert er stefnt í þessum efnum. Þess vegna er það aðkallandi að ríkisstj. geri það upp sem fyrst, hvert hún ætlar að stefna í þessum efnum. En eins og ég sagði: Það er margt sem er eftir að vinna þó að hönnunin sé frá og það tekur sinn tíma og þess vegna er ekki víst hversu mikið verður hægt að vinna á þessu ári þó að lán væri tekið. Þó þykir mér líklegt að hægt væri að vinna eitthvað að jarðvinnu, vegagerð og því um líkt, að undirbúa.

Hæstv. fjmrh. talaði mikið um að hann vildi ekki að þetta væri vafið inn í neinar hernaðarframkvæmdir. Ég lít þannig á að ekki sé verið að vefja þetta inn í neinar hernaðarframkvæmdir. Hann gat þess, að hann hefði ekki séð nýjustu teikningar af þessu. Úr því er hægt að bæta. Þá hygg ég að það komi alveg greinilega fram, að ekki er í þessari byggingu gert ráð fyrir neinni annarri starfsemi en tilheyrir flugstöðvarbyggingu.

Það olli hneykslun hjá honum að það væri fenginn einhver stuðningur við þessa framkvæmd hjá Bandaríkjamönnum. Ég get ekki tekið undir þá hneykslun. Ég tel ekkert óeðlilegt við það. Þetta er framhald og til fullnustu á þeim samningi sem gerður var 1974 um aðskilnað á milli starfsemi varnarliðsins og starfsemi farþegaflugs. Til þess að sá samningur verði framkvæmdur er ekki nema eðlilegt og sanngjarnt að Bandaríkjamenn leggi fram sinn skerf. Það gera þeir líka ríflega eða eru tilbúnir að gera það af því að þessi vandi stafar nú einu sinni af því, að við höfum varnarliðið hér. Það er sú staðreynd sem er verið að ganga út frá í þessu máli. —

Satt að segja höfum við tekið á móti fjármunum til uppbyggingar á Keflavíkurvelli, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, í stærri stíl en þetta. Þar er t. d. um að ræða lengingu á flugbraut sem gera á Keflavíkurflugvöll að fyrsta flokks alþjóðlegum millilandaflugvelli. Og flugturninn er engin smáframkvæmd. Þessar framkvæmdir voru að öllu leyti kostaðar af bandarísku fé. Menn geta haft misjafnar skoðanir á því, en ég tel að þeir, sem virkilega hafa áhuga á því að fram fari aðskilnaður þarna á milli hernaðarumsvifa og farþegaflugrekstrar, ættu ekki að vera andstæðir því, að Bandaríkjamenn legðu eitthvað í þetta. Ég sé ekki að það sé neitt ósiðrænt við það. Og auðvitað er þetta og verður að öllu leyti íslensk framkvæmd þó að það verði lagt í þetta bandarískt fé að nokkru leyti. Það er beinlínis gert ráð fyrir því í þeim samningi sem gert er ráð fyrir að verði gerður áður en framkvæmdir geta hafist. Þar mun það verða tekið fram berum orðum að flugstöðin sé algerlega íslensk eign og Íslendingar verði að sjá um viðhald hennar eingöngu framvegis. Þannig er ekki neinn vafi á því, að þarna er um íslenska framkvæmd að ræða — sérlega íslenska ef borið er saman við flugturninn t. d. og lengingu lendingarbrauta og ljós á lendingarbrautum sem gera, eins og ég sagði, Keflavíkurflugvöll að því sem hann er, ágætum millilandaflugvelli.

Hinu er svo ekki að neita, að aðalvandinn, sem er við að fást í sambandi við þetta mál, ef menn vilja ræða um það í alvöru og með rökum, en ekki samkv. einhverjum fyrir fram gerðum tilfinningum, er óvissan sem ríkir í millilandaflugi. Því verður ekki neitað, að hún getur sett hér strik í reikninginn, og auðvitað verður að hafa vakandi auga á því á þessu ári, hver þróunin verður í þeim efnum. Engum dettur annað í hug. Flestir munu nú hugsa sér að þarna verði millilandaflugvöllur og eitthvert millilandaflug hljóti alltaf að verða á milli Íslands og annarra landa. En hvað um það, það getur vel verið að það sé tilefni til að skoða þetta nánar.

Ég held að það sé ekki hægt að segja að þessi flugstöðvarbygging sé, eins og hún liggur fyrir núna og eins og hún hefur verið takmörkuð, óhæfilega stór, og ég held að ekki sé hægt að segja að óhæfilegur íburður sé í henni. Það breytist náttúrlega ákaflega mikið aðstaða frá því sem er í núverandi flugstöð, t. d. aðstaða fyrir starfsfólk. Hún verður allt önnur. Hún er nánast engin í núverandi flugstöð. Og það verður allt rýmra en nú er. En ég efast um að það sé raunhæft að gera ráð fyrir að hægt sé að hafa flugstöðina minni en þarna er gert ráð fyrir. Það sjá menn betur þegar menn kynna sér teikningar af þessu. Hitt er annað mál, að það hefur verið lagt nokkuð í útlit þessarar byggingar. Ég tel þetta verða mjög fallega byggingu ef hún rís einhvern tíma. Það er ekki sama hvernig sú bygging er sem menn fyrst koma í er þeir koma til landsins. (StJ: Eða fara síðast frá.) Ég neita því ekki, að lagt hefur verið nokkuð í þetta. Það getur vel skeð að talsverður kostnaðarauki liggi í þessu útliti. En hitt er það, að ef því ætti að breyta og ætti að teikna upp flugstöð á ný, einhvern kassa, eins og menn sums staðar sjá, og síðar er svo klesst öðrum kassa utan á, þá mundi þurfa að fara að teikna þetta og hanna alveg upp á ný. Það yrði líka kostnaður því samfara.

Vissulega er það svo, að hafa verður vakandi auga á hver framvindan er í okkar millilandaflugmálum og það getur verið óhjákvæmilegt að horfast í augu við staðreyndir í þeim efnum, en það er náttúrlega ekki lokað fyrir það á neinn hátt þó að svona till. verði samþykkt. Það getur verið gott að hafa hana ef til hennar þyrfti að taka að einhverju eða öllu leyti.

Það vil ég svo undirstrika að lokum, að ég hef verið til samkomulags um hvaða fjárhæð þarna yrði sett. Ég er til samkomulags um það. Mér finnst að menn ættu að sýna samkomulagsvilja í þessu og fallast á að það yrði tekin inn einhver hófleg lántökuheimild í þessu skyni sem ekki færði lánsfjáráætlunina neitt úr skorðum. Það finnst mér að hæstv. fjmrh. ætti líka að gera, því að hann sagði það nú og lýsti þeirri skoðun sinni, að fyrr eða síðar mundi þarna rísa ný flugstöð. Má kannske segja að það þurfi ekki mikinn spámann til þess að segja það, en samt sem áður sagði hann „fyrr eða síðar“. (Gripið fram í.) Er það aðstaða starfsfólksins? Ég held að menn ættu ekki að telja hana mjög eftir. Menn geta farið og kynnt sér, hvernig hún er, og athugað hvaða fjöldi manna vinnur í þessari byggingu.

Nei, fyrr eða síðar mun hún rísa. Hún rís ekki á meðan hv. Alþb.-menn eru í stjórn nema með þeirra vilja. Það hafa þeir tryggt sér. Það liggur fyrir í stjórnarsamningnum. Engum manni og allra síst mér dettur í hug að fara að reyna að hagga við honum. En kannske hún rísi ekki fyrr en þeir eru farnir úr stjórn.