08.04.1981
Neðri deild: 74. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3560 í B-deild Alþingistíðinda. (3613)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, hv. 9. þm. Reykv., lagði fram þessa spurningu: Hvað er Sjálfstfl. og ekki Sjálfstfl.? Hann tók sem dæmi að við ættum þrjá sjálfstæðismenn í núv. ríkisstj. sem að öllum líkindum mundu standa með framlengingu þessa skatts. Ég spyr á móti: Hvað er Alþfl. og hvað er ekki Alþfl.? Hér eru tveir kratar búnir að tala á nokkrum mínútum, einn með framlengingu skattsins og annar á móti honum. Hvað er Alþfl. og hvað er ekki Alþfl.?

Vegna þeirra hugleiðinga, sem hafa komið fram hjá mönnum varðandi sjálfstæðismenn sem sæti eiga í ríkisstj.: Þeir eru ekki einir dæmi um að innan þessarar ríkisstj. er viljinn allt sem þarf til þess að breyta um skoðanir. Það hefur komið fram og var fundið að því, að við í Sjálfstfl. stæðum ekki að og vildum ekki stuðla að verslun og viðskiptum. Ég mótmæli því. Við gerum það að sjálfsögðu. Og það er ekki eingöngu vegna þess að einhverjir efnamenn eigi í hlut. Innan þessara raða eru kannske þeir smælingjar í launþegastéttum sem við ættum frekast að horfa til. Alla vega, og þá tel ég innan viðskiptastéttarinnar verslunarmenn og skrifstofumenn hafa þeir innan sinnar atvinnugreinar stærsta stéttarfélag landsins. Það er svo þýðingarmikið að núv. hæstv. heilbrmrh., formaður Alþb., hefur talið það þýðingarmesta af komandi verkefnum hjá sér að ná þessu félagi undir sinn verndarvæng og þeim smælingjum sem þar eru.

Það vekur auðvitað athygli þegar Alþfl.-menn tala um þennan skatt hér í þingsölum, og ég tala nú ekki um þegar hv. 4. þm. Reykv. segir að hann sé á móti skattinum, að þeir sverja hann ekki af sér, enda viðurkennir hv. þm. Vilmundur Gylfason að Alþfl.-menn áttu þátt í að koma þessum skatti á og hann er hér áfram m. a. vegna þeirra og fyrst og fremst vegna þeirra. En ég bendi á og tek undur þau orð sem komu fram í ræðu hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar, að það getur auðvitað verið réttlætanlegt, og þess vegna hefur þessi skattur að öllum líkindum verið lagður á, að leggja skatta á einhverja grein, þar sem er of mikil þensla, til þess að draga úr henni. Í þessu tilfelli verður að ætla að þessi skattur hafi verið notaður sem nokkurs konar hagstjórnartæki. Það er hins vegar alls staðar viðurkennt núna að þessu markmiði hefur verið náð. Það er ekki aðeins að það er mikið framboð af verslunar- og skrifstofuhúsnæði í Reykjavík, heldur vitum við líka að það gengur kaupum og sölur langt undir sannvirði. Þannig er ljóst að því markmiði, sem vinstri flokkarnir beittu sér fyrir á sínum tíma í sambandi við þessa skattlagningu, hefur verið náð og skatturinn er óþarfur. Þess vegna mun ég greiða atkv. gegn þessu frv.