09.04.1981
Sameinað þing: 72. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3571 í B-deild Alþingistíðinda. (3625)

266. mál, raforkuflutningur til Vesturlands

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég ætla að reyna að veita hv. 4. þm. Vesturl. nokkra úrlausn við fsp. hans og hef leitað til þess aðila sem með þessi mát hefur að gera fyrir hönd ríkisins, Rafmagnsveitnanna, eftir svörum eða áliti á þeim spurningum sem hér koma frá hv. þm.

Fyrsta spurning hv, þm., sem hann hefur þegar mælt hér fyrir, hljóðar þannig: Hvaða þátt á sú bilun, sem verið hefur á rafmagnssæstrengnum yfir Hvalfjörð frá 23. des. s. l. í þeim rafmagnstruflunum sem verið hafa á Vesturlandi undanfarið?

Og svarið er: Lítinn sem engan. Þess má þó geta, að í tveimur tilvikum á bilanatímabili strengsins hefði rafmagnstruflun á Vesturlandi staðið skemur en raun varð á ef strengurinn hefði ekki verið bilaður. — Og ég bæti hér við frá eigin brjósti að flutningurinn eftir línunni fyrir Hvalfjörðinn kemur inn í þetta mat sem þarna kemur fram hjá Rafmagnsveitunum eins og ég sé það.

Önnur spurning: Eru fleiri ástæður en veðurfar sem komið hafa í veg fyrir viðgerð á Hvalfjarðarstrengnum? Svar: Strengurinn er orðinn 23 ára. Við skoðun á honum neðansjávar hefur komið í ljós tæring á hlífðarkápu a. m. k. á einum stað í námunda við bilunarstaðinn. Vegna sífelldrar ótíðar og hafróts hefur ekki reynst kleift að kafa meðfram öllum strengnum, eins og nauðsynlegt er áður en til viðgerðar kemur, en hún er ráðgerð í maímánuði n. k.

Þriðja spurning: Hvaða áætlanir eru til um nýjar flutningslínur raforku til Vesturlands og um Vesturland? Svar: Áætlað er að ný lína 220 kílóvolt frá Hrauneyjafossi að Brennimel í Hvalfirði verði tengd haustið 1982. Þá er áætlað að ný lína 132 kílóvolt verði lögð frá Brennimel að Vatnshömrum 1984 og frá Vatnshömrum til Glerárskóga í Dölum 1985, einnig 132 kílóvolta lína. Þá er á áætlun lína frá Ólafsvík til Hellissands sem ráðgert er að leggja á þessu ári, 19 kílóvolt, og ráðgerð er 66 kílóvolta lína frá Stykkishólmi til Grundarfjarðar. Fyrirhugað er samkv. fyrirliggjandi áætlunum að hún komi á árunum 1986 til 1987.

Fjórða og síðasta spurning hv. þm. er þannig: Hvernig verður brugðist við og aflað raforku fyrir Vesturland ef bilanir verða á linunni frá Geithálsi að Vatnshömrum í Borgarfirði? Er þá t. d. búnaður til staðar til að fá raforku frá Norðurlandi á vestursvæðið?

Svarið er: Takist að gera við sæstrenginn yfir Hvalfjörð og halda honum í rekstri er hægt að þjóna Vesturlandi, Snæfellsnesinu um hann. Að öðrum kosti getur orðið knappt um raforku á Vesturlandi, suðvestanvert eða sunnanvert, ef línur frá Geithálsi, Brennimel og Vatnshömrum eða þar á milli bila.

Ég vænti þess, að þessi svör veiti nokkra úrlausn í því sem hér er spurt um. Ég tek undir það sem hér kom fram og áður hefur heyrst, að afar þýðingarmikið er að huga að því að flutningskerfi raforkunnar sé í sem bestu lagi. Það er ekki nóg að hafa virkjanir og dreifa þeim um landið þannig að þær komi með eðlilegum hætti inn á okkar raforkukerfi. Flutningskerfin þurfa líka að vera sem traustust. Og þar skiptir máli, eins og raunar kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að menn hafi möskvatengingar eða hringtengingar sem stundum eru svo kallaðar. Og hringtenging byggðalínanna, lokun byggðalínuhringsins milli Austurlands og Suðurlands skiptir mjög miklu máli í þessu samhengi.

Ég vænti þess að hvorki standi á framkvæmdavaldinu né hv. Alþingi að tryggja framgang þessa máls og menn hafi það vel í huga í sambandi við fjárveitingar til orkumála, að tengilínurnar, meginstofnlínur, sem og annað dreifikerfi þarf fjárveitingar til þess að hægt sé að halda því í eðlilegu horfi. Það þarf að huga að þeim þáttum ekki síður en að sjálfri raforkuöfluninni, virkjanaframkvæmdum.