09.04.1981
Sameinað þing: 72. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3573 í B-deild Alþingistíðinda. (3628)

385. mál, störf verkaskiptingarnefndar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hinn 26. febr., 1976 skipaði þáv. félmrh., Gunnar Thoroddsen, nefnd til að fjalla um skiptingu verkefna og tekjustofna milli ríkis og sveitarfélaga svo og um önnur samskipti þeirra. Formaður nefndarinnar var skipaður Hallgrímur Dalberg ráðuneytisstjóri og með honum voru skipaðir í nefndina fimm menn samkv. tilnefningu Sambands ísl. sveitarfélaga og fjórir af félmrh. án tilnefningar.

Nefndinni var ekki ætlað að semja frv. til l. um breytingar á samskiptum ríkis og sveitarfélaga, heldur aðeins að taka saman og skila félmrh. álitsgerð um málið. Nefndinni var ekki settur neinn ákveðinn frestur til að skila álitsgerð sinni. Nefndin ákvað að haga starfi sínu þannig að í fyrsta hluta álitsgerðar yrði gerð grein fyrir grundvallarsjónarmiðum hennar og gerðar tillögur um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélags án þess að fjármál væru brotin til mergjar, síðan lagðar fram till. um stjórnsýslukerfið og loks um tekjustofna sveitarfélaga.

Fyrsta áfanga skýrslunnar, sem fjallar um grundvallarsjónarmið og verkefnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, var skilað í hendur félmrh. 17. apríl 1976. Þegar hér var komið var gert nokkurt hlé á störfum nefndarinnar eða frá apríl 1978 þar til í febr. 1979. Ollu því fyrst og fremst sveitarstjórnar- og alþingiskosningar sumarið 1978 svo og stjórnarmyndunarviðræður og stjórnarskipti haustið 1978.

28. febr. 1979 skipaði þáv. félmrh. Magnús H. Magnússon sex nýja menn í nefndina og leysti jafnframt jafnmarga nefndarmenn frá störfum.

Áskell Einarsson, framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Norðlendinga, starfaði sem áheyrnarfulltrúi í verkefnaskiptingarnefndinni frá sama tíma.

Annarri áfangaskýrslunni, sem fjallar um stjórnsýslukerfið, skilaði nefndin í hendur félmrh. 29. jan. 1980. Loks skilaði nefndin þriðju áfangaskýrslunni, sem fjallar um tekjustofnamál sveitarfélaga, til félmrh. 8. des. s. l. Allar þessar áfangaskýrslur hafa jafnóðum verið sérprentaðar og hefur þeim verið dreift meðal sveitarstjórnarmanna og fleiri aðila.

Hvað varðar framhald málsins nú þegar nefndin hefur lokið störfum er því til að svara í fyrsta lagi, að félmrn. og Samband ísl. sveitarfélaga hafa látið prenta í einni sérstakri handbók allar álitsgerðir nefndarinnar og hefur þessari handbók verið dreift til þm. nýverið, þannig að þeir, sem hlut eiga að máli, geta kynnt sér efni þessara skýrslna.

Í öðru lagi hef ég, eftir að hafa kynnt málið í ríkisstj., ákveðið í framhaldi af störfum nefndarinnar að skipa nefnd er hafi það hlutverk að endurskoða sveitarstjórnarlög, nr. 58 1961, með síðari breytingum, svo og lög nr. 70 1970, um sameiningu sveitarfélaga, og lög nr. 5 1962, um sveitarstjórnarkosningar.

Vænti ég þess, að sú nefnd geti orðið til innan skamms og verður þá gerð grein fyrir því opinberlega.