09.04.1981
Sameinað þing: 72. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3577 í B-deild Alþingistíðinda. (3631)

248. mál, aðstoð ríkisins við Siglósíld

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er eðlilegt að hv. þm. Lárus Jónsson sjái ástæðu til þess að spyrjast fyrir um fjárhagsaðstoð hæstv. fjmrh. til Lagmetisiðjunnar Siglósíldar. Málefni hennar hafa verið talsvert til umræðu í dagblöðum undanfarið og gefur það tilefni til þess að spyrja hæstv. fjmrh. ef hann sér ástæðu til og getur svarað framhaldsspurningum sem snerta málefni Siglósíldar.

Það er í fyrsta lagi hvernig standi á vélakaupum, þ. e. dósagerðarvélum frá Noregi nýlega, hvort reiknuð hafi verið út arðsemi slíkrar vélar og hvað þeir reikningar sýna. En þess skal getið, að í landinu eru til slíkar vélar hjá K. Jónssyni, tvö stykki sem það fyrirtæki hefur til eigin nota, og hjá Norður-stjörnunni í Hafnarfirði, sem er rekin af opinberum aðila, eru til tvær vélar sem eru meira og minna ónotaðar. Og hjá Dósagerðinni er til ein slík vél sem sérstaklega var keypt á sínum tíma til þess að sinna þörfum Siglósíldar.

Á undanförnum fimm árum hefur Siglósíld framleitt árlega 3 millj. dósa, en hver vél getur framleitt um 7 millj. á ári, og er þá gert ráð fyrir dauðum tíma jafnframt. Tekið skal fram að það er aðeins botninn sem framleiddur er, lokið er keypt erlendis frá. Talið er að slík vél kosti u. þ. b. 100 millj. gkr., 1 millj. nýkr. Og mér skilst að það liggi fyrir umsókn frá Siglósíld um 350 millj. til þess að fjárfesta í húsnæði Siglósíldar. Það væri gott að fá þetta upplýst ef hæstv. fjmrh. getur gert það.

Eins er ástæða til þess, þegar um er að ræða gífurlegar aukafjárveitingar og reyndar ríkisframlag ár eftir ár í fjárlögum, að kynna þingheimi þá rekstrarreikninga Lagmetisiðjunnar. Mér er sagt, ég kann ekki að rekja það hvort rétt er, að það þurfi u. þ. b. 70 dollara til þess að framleiðslukostnaður náist á einn kassa frá verksmiðjunni, en á Rússlandsmarkaði fáist aðeins 57 dollarar þannig að hver kassi sé framleiddur með 13 dollara halla. Ef hæstv. ráðh. getur af því tilefni, sem hér gefst, svarað þessum framhaldsspurningum um fjármál Siglósíldar, sem er mjög eðlilegt að hann geri í þessum umr. vegna þess að aukafjárveitingin byggist áreiðanlega á þessum atriðum sem ég hef nefnt, þá væri það vel þegið.