10.04.1981
Efri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3606 í B-deild Alþingistíðinda. (3688)

293. mál, söluskattur

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. á þskj. 610 um ákveðna breytingu á lögum um söluskatt. Ég flutti þetta frv. hér í fyrra um svipað leyti. Málið fékk mjög góðar undirtektir hér í þessari sömu deild, en orð voru jafnframt látin falla í þá átt að hér væri um dæmigert stjórnarandstöðumál að ræða. Það náði ekki fram að ganga, málið strandaði í nefnd. Og það er nú svo að falleg bros og hlýleg orð duga skammt í þessu máli ef ekki fylgir raunverulegur vilji til að hjálpa málinu áleiðis. Það er í trausti þess, að sá vilji sé nú fyrir hendi hér á Alþingi, að ég freista þess að flytja málið á ný með þremur flokkssystkinum mínum, þeim Agli Jónssyni, Lárusi Jónssyni og Salome Þorkelsdóttur. Reyndar reyndi ég nú að fá til liðs við okkur flm. úr stjórnarliðinu, en því miður sáu þeir sér ekki fært að skrifa upp á hjá mér. En það skiptir auðvitað ekki meginmáli hvort nöfn þeirra standa á frv. ef þeir á annað borð vilja styðja málið í þinginu og koma því í höfn nú.

Ég hef nú unnið málið upp á nýtt, reynt að grúska enn betur í myrkviði okkar söluskattslaga og hef fengið til liðsinnis við mig hæfa, sérfróða menn sem gerþekkja þetta mál frá öllum hliðum. Og ég held að mér sé óhætt að staðhæfa að í því formi, sem málið liggur fyrir núna, leiki ekki neinn vafi á um hvernig það skuli framkvæmt, en einmitt það var talið einn af vanköntum málsins í fyrra.

Ég leyfi mér að vitna til grg., með leyfi forseta, en þar segir m. a.:

„Eins og undanþáguákvæðum varðandi vöruflutninga innanlands er nú háttað í söluskattslögunum skapast mikið misræmi eftir því hvort vörur eru fluttar til endursölu eða beint á vegum endanlegs kaupanda. Þannig þurfa endursöluaðilar úti á landsbyggðinni að innheimta söluskatt af flutningsgjaldi vörunnar og leggja hann ofan á endanlegt söluverð til neytandans. Hefði hins vegar sami neytandi keypt vöruna í Reykjavík og séð um flutninginn sjálfur, þá hefði flutningskostnaðurinn verið söluskattsfrjáls samkv. 3. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga um söluskatt. Hið sama gildir um kaup á söluskattsfrjálsum vörum, t. d. matvörum. Í þeim tilvikum leggst söluskattur ekki ofan á flutningsgjaldið. Neytendur úti á landi eru þannig ranglega látnir greiða söluskatt af flutningskostnaði þegar þeir kaupa söluskattsskyldar vörur út úr verslun á viðkomandi stað. Verður ekki betur séð en ríkið sé þarna í rauninni að brjóta eigin lög með innheimtu söluskatts af flutningskostnaði í þessum tilvikum.“

Ég vil minna á að í þessari tilvitnuðu grein, 1. mgr. 7. gr. söluskattslaga, stendur skýrum stöfum að flutningskostnaður sé undanþeginn söluskatti.

„Frv. það, sem hér er flutt, getur því skoðast sem nánari útfærsla á undanþáguákvæðum söluskattslaganna, lagfæring á alvarlegri gloppu sem allt of lengi hefur viðhaldið óverjandi ranglæti. Það er ekki nóg með að sjálft flutningsgjaldið ásamt ýmsum öðrum kostnaðarliðum valdi verulegri hækkun á vöruverðinu, heldur leggst þar nú ofan á 23.5% söluskattur sem hagnaður ríkisins af þessu óhagræði fólksins úti á landsbyggðinni sem háð er aðdráttum lífsnauðsynja um langa vegu.

Framkvæmd frv.“ — og þá á ég fyrst og fremst við 1. gr. sem er aðalinntak málsins — „yrði alveg hliðstæð því sem gerist við vörusölu veitingahúsa, þar sem sá hluti veitinganna, sem samsvarar innkaupum á skattfrjálsum matvörum, er ekki söluskattsskyldur (sbr. 3. tölul. 13. gr. reglugerðar nr. 169/1970, um söluskatt, með áorðnum breytingum).“

Ég held að ég ætti að lesa upp þessa grein í reglugerðinni, sem er alveg hliðstæð þeirri framkvæmd sem gert er ráð fyrir í þessari lagagrein, en reglugerðargreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Sá hluti af fæðissölu veitingahúsa, greiðasölustaða og annarra aðila, sem selja tilbúinn mat, sem samsvarar innkaupsverði þeirra matvæla sem undanþegin eru söluskatti samkv. 2. tölul, þessarar greinar eða með öðrum hætti.“ — Hér er verið að tala um undanþágu frá söluskattinum í þessari reglugerð og ég held áfram: „Þessum aðilum skal heimilt að draga innkaupsverð söluskattsfrjálsra matvæla frá heildarveltu, áður en söluskattsskil eru gerð.“ Þetta er nákvæmlega eða svo til alveg samhljóða 1. gr. frv. sem er megininntak málsins.

„Þessi ranglega skattheimta — auk þess sem hún hefur í för með sér talsverðan beinan kostnaðarauka fyrir fólk úti á landi — hefur jafnframt ýmsar óheppilegar hliðarverkanir sem renna enn sterkari stoðum undir nauðsyn þess að leiðrétta þetta misræmi. Þannig má t. d. gera ráð fyrir að vegna þess að neytendur úti á landsbyggðinni greiða söluskatt af flutningskostnaði einungis í þeim tilvikum þegar söluskattsskyld vara er flutt í verslun á viðkomandi stað, þá kjósi þeir frekar að kaupa vörur beint frá Reykjavík og flytja á eigin reikning, sérstaklega þegar um er að ræða stærri og dýrari vörur.“ — En þetta er svona, að kaupandi greiðir ekki söluskatt ef hann sendir sjálfur vöruna hér frá Reykjavík. Ef hann hins vegar kaupir hana úti á landi, út úr verslun þar í sínu plássi, þá leggst söluskattur á flutningsgjaldið. „Þannig færist verslunin úr héraði og dregur þannig úr vöruveltu í dreifbýli og skerðir um leið hag dreifbýlisverslunarinnar.“ — Það er nú ekki á bætandi erfiðleika dreifbýlisverslunarinnar í dag og það hefur ítarlega verið bent á hvaða byrðar eru lagðar á þá verslun umfram verslunina hér í Reykjavík og umhverfi hennar.

„Þó að veigamikil rök mæli með samþykkt þessa frv., m. a. þau, að ríkinu yrði þar með gert kleift að standa við eigin lög, þá skal viðurkennt að frv., ef að lögum yrði, mundi vafalaust fremur auka á en draga úr vinnu við hina þegar margflæktu framkvæmd söluskattslaganna, bæði að því er varðar hlut kaupmannsins, sem annast innheimtu söluskattsins ríkissjóði að kostnaðarlausu, og þá aðila sem sjá um eftirlit með söluskattsskilum. Því má hins vegar til svara, að benda má á fjölmörg dæmi hliðstæð þeirri breytingu sem hér um ræðir, svo sem undanþágu matvæla frá söluskatti, sem áður er til vísað, og í því sambandi undanþágu þess hluta vörusölu veitingahúsa sem er matvæli.“

Ég hef haft samband við veitingahúseiganda hér í Reykjavík og spurt hann hvort þessi framkvæmd sé flókin og erfið. Hann svaraði því til að hér sé raunar bara um einfalt bókhaldsatriði að ræða. Og það kemur alveg heim við 8. gr. söluskattslaganna þar sem þessu er lýst, hvernig reikningum og nótum yfir söluskattsskylda vöru skal haldið til haga og dregið frá heildarvöruveltunni mánaðarlega þegar söluskattsskil eru gerð.

Það er sem sagt ætlast til að fylgibréfum og reikningum, sem koma með vörunni sem send er til viðtakanda, endursöluaðila úti á landi, sé haldið saman, það sé lagt saman og sú upphæð sem út úr því kemur, dregin frá heildarveltunni áður en söluskatturinn er lagður á. Svo einfalt er málið þó að það hafi flækst fyrir mönnum á undanförnum árum að leiðrétta þetta óréttlætanlega misræmi og ranglæti.

„Erfitt reynist að fá metið og reiknað nákvæmlega hve mikið tekjutap fyrir ríkissjóð þessi niðurfelling söluskatts á flutningsgjald mundi þýða. En eftir því sem næst verður komist getur flutningskostnaður numið allt að 4–5% af vöruverði að meðaltali.“

Mig langar til í þessu sambandi að taka lítið dæmi, hvað þessi flutningskostnaður með álögðum söluskatti getur gert af sér. Það hefur verið reiknaður út viðbótarsöluskattur á gosdrykkjaflösku — eina litla gosdrykkjaflösku — á Egilsstöðum vegna flutnings flöskunnar frá Reykjavík til Egilsstaða. Viðbótarsöluskattur reyndist vera 13 aurar, þ. e. 13 gkr., miðað við flutning með skipi um Reyðarfjörð, en 27 aurar eða 27 gkr. miðað við flutning með bíl. Á sama tíma kostaði ein flaska af appelsíni, þessi sama flaska, 2.40 kr. eða 240 gkr. í smásölu í Reykjavík. Í þessu tilfelli er því um að ræða, eftir því hvort flutt er með bíl eða skipi, um 5.4–11.3% hækkun einungis vegna þessa ranglega innheimta söluskatts.

Það kemur líka í ljós að stundum er þarna um algera tvísköttun að ræða. Það getur t. d. orðið í þeim tilvikum þegar flutt er með bifreiðum frá vörubifreiðaflutningastöð. Þar er heimilt að leggja á svokallað afgreiðslugjald, sem auðvitað leggst ásamt með öðru á heildarkostnaðinn á vörunni úti á landi, og þar verður það aftur söluskattsstofn. Hér greiðir neytandinn því tvisvar sinnum söluskatt, fyrst af vörugjaldinu, sem leggst á vöruverðið, og síðan af heildarvöruverðinu, sem nú er söluskattsskylt með flutningsgjaldið inni í söluskattsstofninum. Þessu til skýringar get ég tekið sem dæmi ef sent er eitt tonn af þvottadufti vestur til Ísafjarðar. Þar reynist aukakostnaður vegna þessa litla afgreiðslugjalds 1738 kr. á hvert tonn miðað við heildarverðið sem er 825 þús. Ég er ekki að segja að þetta sé mjög stór upphæð, en með tilliti til þess að þarna er aðeins talað um lítinn hluta flutningsgjaldsins, afgreiðslugjaldið, kemur þetta mjög svo hlálega út.

Með tilliti til þess, að vitanlega þýðir þetta eitthvert tekjutap fyrir ríkissjóð, hef ég og við flm. miðað gildistökuákvæði við 1. jan. 1982, til þess að breytingin geti þá gengið í gildi með nýju fjárlagaári og hægt sé að taka tillit til hennar við gerð fjárlaga. En ég var ekki búin að nefna upphæðina sem eftir því sem næst verður komist er þarna um að ræða sem tekjutap ríkissjóðs.

„Miðað við söluskattsskylda veltu utan Reykjavíkur og nágrennis“ — þá er sem sagt verið að tala um það sem við venjulega köllum landsbyggðina utan Reykjavíkur og nágrennis — „gæti þetta tekjutap numið allt að 10 millj. nýkr. árlega“ — sem þýðir allt að einum milljarði í gkr. — „eða á bilinu 0.1–0.2% af áætluðum ríkistekjum samkv. fjárlögum 1981. Þessar tölur eru hér nefndar með fyrirvara um nákvæmni þeirra.“

Í lok grg. segir: „Engum blandast hugur um að ríkissjóður þurfi að halda utan að sínu, svo mörg horn sem hann hefur í að líta. Engu að síður hlýtur það að teljast óverjandi, að skattheimta ríkisins seilist eftir hagnaði í formi þeirrar fráleitu skattlagningar sem lagt er til í frv. þessu að felld verði niður. Hér er um að ræða svo gróflega mismunun og ójöfnuð milli landsmanna, eftir því hvar þeir eru búsettir á landinu, að ekki verður við unað og það því fremur sem þessi mismunun hefur orðið æ tilfinnanlegri með stöðugt hækkandi söluskatti á undanförnum árum.“ Margir hafa vísað til virðisaukaskattsins sem væri á næstu grösum og væri líklegur til þess að eyða þessu misræmi. En það er nú svo að nú heyrist lítið um virðisaukaskatt talað og hann virðist alls ekki enn í sjónmáli þrátt fyrir miklar bollaleggingar og umræður um hann á undanförnum árum.

Mér hefur verið bent á að hugsanlega hefði verið önnur leið til að koma þessu máli fram, í formi þáltill. eða jafnvel að ráðh. breytti viðkomandi reglugerð. Það má vel vera. Fyrir mér er það ekkert atriði hvort þetta mál kemst fram í þessu formi. Ef hægt er að koma því áleiðis eftir öðrum leiðum gildir það að sjálfsögðu einu ef á annað borð finnast skynsamlegar og framkvæmanlegar leiðir. Það, sem máli skiptir, er að ná þeim árangri að afnema þessa ósæmilegu skattheimtu sem við í rauninni erum öll sammála um að sé engan veginn réttlætanleg. Við erum þó hér, alþm., þrátt fyrir allt að vinna saman að einu verki. Við erum til þess kjörnir að láta gott af störfum okkar leiða í okkar litla þjóðfélagi. Við hljótum að geta sameinast um mál sem í stóru eða smáu er líklegt til þess að stuðla að auknu réttlæti, auknu jafnvægi og friði í þjóðlífi okkar. Mér finnst að það, sem við erum að fjalla um hér, sé einmitt slíkt mál þó það sé ekki í sjálfu sér mjög stórbrotið. Ég hlýt að skírskota alveg sérstaklega til og heita á, ef við værum fleiri hér inni úr liði dreifbýlisþm., að þeir styðji þetta mál og geri sitt til að það nái fram að ganga nú, eða sem allra fyrst. Að vísu er stutt í þinglok. En við vorum í gær að afgreiða viðurhlutamikil lög á tveimur klukkutímum. Það munu vera allt að 2–3 vikur til þingloka og ég endurtek: ef vilji er fyrir hendi er hægt að koma málinu fram. Ég veit að dreifbýlisþm. vita og skilja hvað hér er verið að tala um, og það er í rauninni ekki vansalaust og ekki dreifbýlisþm. á Alþingi sæmandi að láta þetta ákvæði dúsa í lögum lengur en orðið er. Þetta er, eins og ég hef áður sagt, ekki fyrst og fremst peningamál eða fjárhagsmál. Þetta er einfalt og augljóst réttlætismál sem við hljótum að gera gangskör að að ná fram.

Ég vil mælast til þess, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn. Og heyri einhver mál mitt úr þeirri hv. nefnd, þá heiti ég jafnframt á þann hinn sama að standa fast að málinu,- ég ætlaði ekki að segja: að sitja á málinu, heldur að koma því fram.