10.04.1981
Neðri deild: 78. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3622 í B-deild Alþingistíðinda. (3710)

281. mál, lífeyrissjóður sjómanna

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Þar sem ég hef ekki tækifæri til að fjalla um þetta mál í nefnd vil ég leyfa mér að gera hér örstuttar aths.

Ég held að á þessu frv. séu nokkrir augljósir gallar sem eru kannske frekar tæknilegs eðlis en nokkurs annars. T. d. í 3. gr. frv. hlýtur að eiga að standa í stað orðalagsins „1. og 4. mgr. 10. gr. falli brott“, sem er algerlega meiningarlaust: 1., 2., 3. og 4. mgr. 10. gr. falli brott. Annars hlýtur þetta að verða óskiljanlegt. En þetta er smáatriði.

Í 1. mgr. 3. gr. frv. er ekki kveðið á um skiptingu 10% iðgjaldsins milli sjóðfélaga og launagreiðanda. Þess vegna held ég að þar þyrfti að koma aftan við grein, þó að flestir þekki það, að sjóðfélagi skuli greiða 4% og launagreiðandinn 6%. Það telst varla nægilegt að slíkt sé samningsatriði. Það hlýtur að verða að standa í lögunum jafnframt.

Í 2. mgr. 3. gr. frv. er kveðið ítarlega á um iðgjaldastofn vegna sjóðfélaga á fiskiskipum öðrum en 500 rúmlesta skuttogurum og stærri. Síðan er talað um heimild sjóðsstjórnar til að ákveða iðgjaldastofn þeirra sem geta fengið aðild að sjóðnum þó að þeir stundi ekki sjómennsku. Þetta er allt gott og blessað. En það sýnist hafa gleymst að kveða á um iðgjaldastofn sjómanna á farskipum, varðskipum og skuttogurum 500 rúmlesta og stærri, og hann hygg ég að þurf1 að koma þarna inn. Jafnframt má geta þess, að iðgjöld vegna umræddra sjómanna hafa frá stofnun sjóðsins verið reiknuð af heildarlaunum, og það er ekki að mínu viti glöggt hvort því á að breyta, sem ég held að geti tæplega verið, þannig að þetta þarf líka breytingar við.

Smáatriði í sambandi við nafn frv., sem nú ber heitið Frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 49/1974, um lífeyrissjóð sjómanna: Þar hlýtur að verða að koma: sbr. lög nr. 15/1980, um breyting á þeim lögum, til að öllu sé til skila haldið. Smávegis tilvitnanir eru hér ekki heldur réttar, en ég sé ekki ástæðu til að vera að halda ræðu um það hér í þinginu. Ég mun að sjálfsögðu leggja þetta fram á blaði nefndinni til leiðbeiningar.

Í sambandi við breytingar á lögum um eftirlaun aldraðra, nr. 86/1980, voru gerðar breytingar á verðtryggingarákvæðum varðandi greiðslu á lífeyri frá Umsjónarnefnd eftirlauna. Þessar breytingar fólu í sér að lífeyrir nefndarinnar tekur nú breytingum 1. mars, 1. júní, 1. sept. og 1. des. ár hvert, samtímis því að launabreytingar verða á almennum vinnumarkaði og bætur almannatrygginga hækka. Áður breyttust þessar lífeyrisgreiðslur mánuði seinna. Samband almennra lífeyrissjóða hefur nú tekið upp þessa breytingu og þess vegna tel ég að rétt væri að samræma þessa greiðslu nú við þessa breytingu.

Ég skal ekki tefja tíma þingsins með því að fara út í þessi smáatriði, en mun leyfa mér að leggja fram brtt. á sérstöku þskj. sem nefndin lítur þá væntanlega á.