13.04.1981
Neðri deild: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3686 í B-deild Alþingistíðinda. (3767)

220. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Í sambandi við þetta mál vekur það náttúrlega fyrst athygli að enn einu sinni er Alþingi látið standa frammi fyrir gerðum hlut. Í 4. gr. frv. er talað um að lögin skuli þegar taka gildi og skuli ákvæði þeirra taka til fiskafla og hlutaskipta frá upphafi til loka árs 1981. Nú er sem sagt komið fram í aprílmánuð. Það liggur við að á hverjum einasta degi, sem þing kemur saman og mál eru afgreidd, séu til umræðu einhverjir pappírar frá ríkisstj. um að það eigi að fara aftur í tímann til að hafa fé af mönnum.

Annað mál er nú til umræðu í fjh.- og viðskn. Nd. Það eru skattamálin, skattalagafrv. Ég hef t. d. spurnir af því, að þær nýju fyrningarreglur, sem þar er gert ráð fyrir, muni kosta eitt útgerðarfyrirtæki í Norðurlandskjördæmi vestra, kjördæmi hæstv. landbrh., um 47 millj. gkr. sem komi eftir á. Eftirtektarvert er um þær hugmyndir, sem þar eru varðandi það mál, að hugmynd ríkisstj. er fyrst og fremst að níðast á frumframleiðslunni, níðast á sjávarútveginum og þeim greinum iðnaðarins sem þurfa á mikilli fjárfestingu að halda, enda virðist sem það sé markvisst unnið að því af stjórnvöldum að koma í veg fyrir að atvinnufyrirtæki geti endurnýjað atvinnutæki sín, vélakost sinn, þó að það sé náttúrlega forsendan fyrir aukinni framleiðni, bættum lífskjörum og meiri nýtni. Það má tala um það langt mál og skal ég ekki gera það hér, nema leggja áherslu á að ég get ekki tekið undir með 4. þm. Suðurl. og sagt: Það er komið sem komið er — og þess vegna greitt atkvæði með frv. Ég álít að hæstv. ríkisstj. beri fulla ábyrgð á því, sem hér fer fram, og get ekki fallist á það í aprílmánuði að greiða atkvæði með gjaldi sem á að gilda frá 1. jan.

Ég get út af fyrir sig tekið undir það, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði áðan, og má vera að ámælisvert sé að reyna ekki að koma frekar til móts við hans sjónarmið og sitja hjá við atkvgr. um þetta mál. En kjarni málsins er náttúrlega sá, að hæstv. sjútvrh. hefur ekki leitað eftir samkomulagi við stjórnarandstöðuna um að koma þessum málum í annað horf. Það er viðurkennt af öllum að olíugjaldið, eins og það er lagt á, hefur margvíslega galla og í rauninni er enginn samþykkur þessari gjaldtöku eins og hún er. Þess vegna hefði verið skemmtilegra að þetta mál hefði borið öðruvísi að og áhersla hefði verið lögð á að reyna að koma hér annarri skipan á.

Út af þeim ummælum hæstv. sjútvrh., að við höfum farið rangt með eða gert honum upp sakir, vil ég aðeins segja það, að ég var ekki viðstaddur viðræður Sjómannafélags Ísfirðinga og hæstv. sjútvrh. og get þess vegna ekki borið sjálfur vitni um það sem fram fór, en sem fskj. með nál. okkar er yfirlýsing frá stjórn Sjómannafélags Ísfirðinga, undirrituð af formanni þess, Gunnari Þórðarsyni, og af einhverjum ástæðum ber þessu bréfi ekki saman við það sem hæstv. sjútvrh. sagði. Ef rifjaðar væru upp ýmsar yfirlýsingar ríkisstj. og loforð og notaðar sem mælikvarða á það, hvor hefði rétt fyrir sér í þessum efnum, hæstv. sjútvrh. eða Sjómannafélagið fyrir vestan, er enginn vafi á að allir mundu hallast á þá sveifina að trúa fremur sjómönnunum.

Ég get tekið sem dæmi eitt: Hér átti að ræða í dag lánsfjáráætlun ríkisstj. Hæstv. forsrh. hafði við orð þegar hann talaði fyrir þeirri áætlun, að verðbólgan hér á landi mundi verða um 40% frá upphafi til loka árs. Þó lá fyrir að þeir menn, sem unnu þessa áætlun, gerðu ráð fyrir því og hafa spáð því, að verðbólgan verði yfir 50%. Og hvorum eigum við svo að trúa fremur varðandi verðbólguþróunina á þessu ári, sérfræðingum Þjóðhagsstofnunar eða einstökum ráðherrum? Raunar bera blaðafregnir með sér að þessi hæstv. ráðh. hafi sagt fyrir austan fjall að verðbólgan yrði ekki nema 35%. (Gripið fram í.) Ja, ég veit ekki. Ætli það? Þá verður búið að skrúfa hana laglega niður. Það mundi verða gefin út sérstök fréttatilkynning austur þar um að hún væri komin niður í 15%, eins og í nóvember. En þá væri ekki heldur von á góðu um næstu mánaðamót. Ég tala nú ekki um ef maður tæki til vitnis hæstv. félmrh. og rifjaði upp hverju hann hefði lofað á undangengnu ári, t. d. varðandi það, að hann mundi standa fast á því að kjör launþega yrðu ekki skert. Ætli formaður Alþb., sem nú er, hafi staðið sig jafnvel og Lúðvík Jósepsson í þeim efnum? Ég er hræddur um að Lúðvík hefði verið búinn að taka gleraugun nokkrum sinnum af sér áður en hann hefði sagt já við því, sem þessi hæstv. félmrh. hefur gert hér í deildinni hvað eftir annað, og hefði ekki látið hafa sig í þvílíkt og annað eins.

Herra forseti. Eins og þessi mál eru vaxin held ég að ég verði að trúa frekar sjómönnunum fyrir vestan.