13.04.1981
Neðri deild: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3688 í B-deild Alþingistíðinda. (3768)

220. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Frsm. 2. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Það er býsna langt síðan, við í hv. n. afgreiddum þetta mál frá okkur með heiðri og sóma. Það hefur ekki staðið á okkur að koma þessu máli áfram. Það er líklega orðin vika síðan við gengum frá þessu og það hefur ekki sést á dagskránni fyrr en nú.

Ég er ekki einn af þeim sem velgja þennan ræðustól úr hófi, herra forseti, og ég skal vera mjög stuttorður. Þrátt fyrir að ég hefði kannske fulla ástæðu til að segja nokkur vel valin orð í tilefni af ræðu hv. þm. Karvels Pálmasonar ætla ég að láta það kyrrt liggja að sinni. Hann bar sig listilega í þessum stól áðan, aldrei þessu vant, og það var svo áberandi dagsetningin sem hann las, sem sagt 23. mars 1981. Það mætti halda að textinn, sem maður les undir dagsetningunni á þessu bréfi, sem hann er nýbúinn að panta til sín vegna afgreiðslu málsins núna, fjallaði um álit Sjómannasambandsins í okt. í fyrra, því þá var þing Sjómannasambandsins hið tólfta í röðinni haldið.

Ég vil aðeins minna á þetta og þarf raunar ekki að vera að tönnlast neitt á því meir. En það, sem ég lét út úr mér í minni stuttu tölu áðan, voru orð fulltrúa sjómanna í Verðlagsráði og yfirnefnd, sem hann mælti við okkur á fundi í dag, 13. apríl. Það heyrðum við allir sem vorum þar við borðið. Ég trúi því ekki, að nokkur sé að reyna að snúa út úr því, sem hann sagði þar, eða efast um að ég hafi greint rétt frá.