13.04.1981
Neðri deild: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3688 í B-deild Alþingistíðinda. (3769)

220. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þetta mikið, en ég vona að mér sé ekki legið á hálsi fyrir að bera af mér það sem hér er gefið í skyn, að ég fari með ósannindi, ef ekki lygar, úr þessum stól.

Ég las upp áðan þau loforð sem ég gaf. Ef hv. þm. trúir því ekki getur hann spurt ríkissáttasemjara að því. Hann fór með þau skrifleg frá mér og las þau upp á fundi á Ísafirði. Ég átti fund með fulltrúum sjómanna á Ísafirði einu sinni þegar þeir komu á skrifstofu til mín. Þeir vildu fá að vita skoðun mína á olíugjaldinu, sem ég hafði hvað eftir annað gefið yfirlýsingar um að ég teldi vera vafasamt og bæri að teita að öðrum leiðum. Ég lít svo á að þeir séu að vísa til þess, enda kemur það greinilega fram. Það er allt annað yfirlýsing um skoðun og stefnu eða loforð um að afnema. Ég upplýsti þessa menn um það, að ég vildi breyta olíugjaldinu, og sagði þeim hvaða leiðir ég teldi koma til greina. Ég er satt að segja ekkert viss um að þeir hafi verið sérstaklega hrifnir af því að taka olíugjaldið af óskiptu. Þeir sögðu ekkert um það, en sjómenn hafa yfirleitt lagst gegn því að taka það af óskiptu líka. Þarna ber því á milli.

Ég sé ekki betur en að það, sem sjómannasamtökin segja um yfirlýsingu mína um skoðun og stefnu, sé rétt. Það er nákvæmlega það sem ég hef sagt úr þessum ræðustól. Hins vegar leyfir hv. þm. sér, að vísu undir rós, í áliti 1. minni hl. að gefa í skyn að ég hafi lofað þessu. Því, sem hann bar upp á mig, sný ég á hann.