27.04.1981
Neðri deild: 82. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3758 í B-deild Alþingistíðinda. (3859)

221. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Sjútvn. hefur fjallað um þetta mál, frv. til l. um breyt. á lögum um útflutningsgjald af sjávarafurðum, þess efnis, að þrátt fyrir 1. gr. skal útflutningsgjald af frystum sjávarafurðum framleiddum á þessu ári, nema 4.5% af fob-verðmæti útflutnings og útflutningsgjald af skreið og hertum þorskhausum framleiddum á árinu 1981 10% af fob-verðmæti útflutningsins.

Meiri hl. nefndarinnar er andvígur frv. og leggur fram nál. á þskj. 652, en minni hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt. Í áliti meiri hl. segir:

Við endurskoðun á sjóðakerfi sjávarútvegsins á árunum 1975-1976, sem tók gildi 16. febr. það ár, náðist viðtæk samvinna aðila í sjávarútvegi um að samræma útflutningsgjöld af sjávarafurðum á þá leið að greitt væri sama útflutningsgjald af öllum tegundum sjávarafurða. Hlutverk Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins er að draga úr áhrifum verðsveiflna er verða kunna á útflutningsafurðum fiskiðnaðarins. Þetta frv. gengur þvert á hlutverk sjóðsins og það gengur jafnframt þvert á þá stefnu sem mörkuð var við endurskoðun sjóðakerfisins um samræmingu útflutningsgjalds og er í hrópandi mótsögn við hlutverk Verðjöfnunarsjóðsins. Þess vegna teljum við óeðlilegt að gera þá breytingu sem frv. gerir ráð fyrir.

Í sjálfu sér má segja að þessi breyting sé ekki stórkostleg, ef litið er á hana eina og sér, en þegar lítið er á hana á þann veg sem ber að gera, að hér er verið að hverfa frá margyfirlýstri stefnu Alþingis og stjórnvalda og ganga þvert á það hlutverk sem Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins hefur, þá er hér um alvarlegt mál að ræða og stórskaðlegt, ekki fyrir sjávarútveginn einan, heldur einnig fyrir Alþingi og ríkisstjórn á hverjum tíma. Hér er gripið til þess óyndisúrræðis að nota sér það, að markaðir hafa verið góðir fyrir skreið, og reyna því að klípa af þeim hagnaði, sem þar myndast, til þess að bæta með stórfelldan hallarekstur á frystideild Verðjöfnunarsjóðs. Í staðinn fyrir að hækka viðmiðunarverð til skreiðardeildarinnar vegna góðrar afkomu hennar nú í bili og vera trúir því sjónarmiði og hlutverki sem Alþingi hefur sjálft markað í þessum efnum, að færa ekki fjármagn á milli deilda, þá er gripið til þessa óyndisúrræðis.

Það er fróðlegt í þessu sambandi að koma nánar inn á útflutningsgjaldið og sérstaklega þá stöðu Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Það var mikið írafár í stjórnarliðunum í sjútvn. Nd. að afgreiða þetta frv. Þeir töldu alveg sjálfsagt að afgreiða það umyrðalaust eins og fiskur er unninn núna á færibandi, en við stjórnarandstæðingar töldum rétt að hinkra örlitið við og álitum það ekki verða stjórnarliðum til stórskaða þó að þeir reyndu að draga andann og hugsa örlitið um hvað þeir væru að gera.

Ég óskaði eftir því við formann sjútvn., að hann fengi upplýsingar frá Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins um stöðu hinna ýmsu deilda. Hann varð við þessari beiðni og því tafðist afgreiðsla þessa máls í örfáa daga. Hitt er svo annað mál, að þegar fiskverð er ákveðið seint og síðar meir, eftir að komið er á annan mánuð frá því að verkið hefst, og svo líður enn hátt í tvo mánuði þar til þetta frv. er lagt fram, þá er það ekki til meðferðar í þingi fyrr en undir lok vertíðar, og er það út af fyrir sig ámælisvert. En hitt er ekki ámælisvert, að Alþingi afgreiði mál alveg á punktinum, eftir því sem um er beðið eða pantað af einstökum ráðherrum.

Fyrsta spurningin, sem ég óskaði eftir að formaður sjútvn. legði fyrir Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, var: Hvernig er staða hverrar deildar sjóðsins? Svarið er byggt á yfirliti sem sýnir greiðslustöðu Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins 1. jan. 1981, en þar sem enn hefur ekki farið fram endanlegt uppgjör allra aðila sjóðsins vegna ársins 1980, svo sem uppgjör á freðfiski, óverkuðum saltfiski, söltuðum ufsaflökum, loðnumjöli, loðnulýsi og fiskimjöll, þá eru innstæður þessara afurða að nokkru byggðar á áætlunum, segir starfsmaður Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins.

Þegar þessar upplýsingar eru gefnar er freðfiskdeildin með mínus 2160 þús. nýkr. Humar með innstæðu 13400 þús., hörpudiskur 85200 þús. og rækja 10860 þús. Samtals eru því í frystideildinni 30 millj. 620 þús. kr. Í deildinni fyrir saltfiskafurðir er óverkaður saltfiskur með innstæðu að upphæð 16480 þús., verkaður saltfiskur ekkert og söltuð ufsaflök 2600 þús. kr. eða samtals 19 millj. 80 þús. nýkr. í saltfiskdeildinni. Deildin fyrir saltsíldarafurðir er með innstæðu að upphæð 1600 þús. og deild fyrir skreiðarafurðir, sem lagt er nú mikið kapp á að rýra, er með 18680 þús. Í deild fyrir afurðir síldar- og fiskimjölsverksmiðja er loðnumjöli og lýsi, með 6 millj., fiskimjöl 4850 þús. og spærlings- og kolmunnamjöl 200 þús. Samtals er deild afurða síldar- og fiskimjölsverksmiðja með innstæðu upp á 11 millj. 50 þús. nýkr. Innstæða í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins er því 81 millj. 30 þús. nýkr., sem ég tel að sé síst of há upphæð, og auðvitað er herfileg staða þeirrar deildar sem stærst er, sem er deild fyrir frystar fiskafurðir.

Tímabilið frá 1. jan. til 31. maí 1981 er sérstakt verðjöfnunartímabil fyrir allflestar verðjöfnunarskyldar sjávarafurðir. Þessu tímabili er nú senn að ljúka, þó að tímabilið sé talið til 31. maí, þar sem vertíð lýkur væntanlega um 8. maí. Þá liggur fyrir niðurstaða um afkomu allflestra verðjöfnunarskyldra sjávarafurða. Því hefur verið tiltölulega auðvelt að gera yfirlit yfir og áætlanir um væntanlegar greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði fyrir þetta tímabil. Kemur þá í ljós að í freðfiskdeildinni er áætlað að greitt verði út hvorki meira né minna en 30700 þús. nýkr. miðað við áður ákveðnar útgreiðslur, þar af í freðfiskinn einan 30 millj.

Nú spyr ég hæstv. sjútvrh. hvað hann telji með þessu frv. að skreiðardeildin komi til með að gefa til þess að færa yfir til frystideildarinnar, og á hvern hátt ætlar hann eða ríkisstj. að fjármagna frystideildina til þess að hún standi við þær skuldbindingar sem stjórn Verðjöfnunarsjóðsins hefur ákveðið og ráðh. hefur staðfest. Hvernig á að afla fjár til að standa við þessar skuldbindingar? Fyrir utan freðfiskinn er í frystideildinni gert ráð fyrir að innheimt verði aðeins útflutningsgjald til Verðjöfnunarsjóðs af hörpudiski 2500 þús., en útgreiðsla úr rækjudeildinni verði 3200 þús. M. ö. o.: munurinn á inn- og útgreiðslu frystideildarinnar í heild er hvorki meira né minna en 30700 þús.

Það er líka mjög eftirtektarvert í sambandi við Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, að í deild fyrir saltfiskafurðir er ekki gert ráð fyrir að neitt verði innheimt af óverkuðum saltfiski, verkuðum saltfiski eða söltuðum ufsaflökum á þessu verðtímabili, og það er ekki heldur gert ráð fyrir að neinar útgreiðslur fari fram úr saltfiskafurðadeild. Á sama tíma og verð á saltfiski er mjög hagkvæmt í viðskiptalöndum okkar gerist það, að til þess að eiga fjármagn til að mæta verðsveiflum, sem alltaf geta átt sér stað, er þessi deild gerð algerlega óvirk. Hún er í reynd ekki til á þessu verðlagstímabili. Þetta finnst mér ákaflega undarlega að staðið við þær aðstæður sem nú eru í saltfiskverkun. Er þetta sönnun þess, að hagur þessarar greinar sé þrátt fyrir alveg sérstaklega gott söluverð og gott útlit í markaði ekki betri en það, að ekki er talið fært að taka eyri af henni til Verðjöfnunarsjóðsins allt þetta verðlagstímabil? Hvar stöndum við þá ef eitthvað bjátar á í sölu á þessum afurðum? Ég held að þetta sé í reynd sönnun þess, að það er búið að keyra allt til hins ýtrasta og að lengra verði ekki komist.

Þá skulum við hverfa frá saltfiskdeildinni og koma að deild fyrir saltsíldarafurðir, áætlun um hana. Að vísu falla þær afurðir ekki til á þessu tímabili, en þar er reiknað innheimt og útgreitt sé núll. Í deild fyrir skreiðarafurðir er reiknað með 18 millj. kr. innkomu. Í deild fyrir afurðir síldar- og fiskimjölsverksmiðja er reiknað með 3400 þús. kr. útgreiðslu og loðnumjöl og lýsi 3400 þús. kr. útgreiðslu. M. ö. o.: þær verða langt komnar þegar þessu verðtímabili lýkur og þá fer ekki að verða mikið upp á að hlaupa í því sambandi. Fiskmjöl, spærlings- og kolmunnamjöl er áætlað núll í báðum tilfellum, bæði inn- og út. Samtölur allra afurða eru áætlaðar 20 millj. og 500 þús. greiðslur innheimt, en út 36600 þús. Samtölur deilda eru áætlaðar 18 millj. inn, en 34 100 þús. út. Allar þessar útgreiðslur eru áætlaðar í samráði við sölusamtökin.

Ég spurði einnig hverjar væru horfur á árinu 1981. Því er svarað af starfsmanni Verðjöfnunarsjóðsins að það sé útilokað að segja nokkuð utan þess sem þegar hefur verið sagt frá og ég hef gert að umræðuefni, því að það séu svo margir þættir þar sem um hreina ágiskun sé að ræða. Það má auðvitað nefna þróun markaðsmála, væntanlega ákvörðun hráefnisverðs þegar kemur fram á árið því að það er auðvitað, eins og menn vita, aðeins ákvarðað nú út þessa vertíð. Inn í það koma auðvitað aflahorfur og almenn þróun kostnaðar innanlands. Því er ekki óeðlilegt að starfsmaður sjóðsins treysti sér ekki til að svara þeirri spurningu nánar. En við getum hver fyrir sig svarað að nokkru leyti þessum spurningum. Þegar við lítum á Verðjöfnunarsjóðinn og stöðu hans núna í ljósi þess, sem ég hef þegar sagt, og þeirra upplýsinga, sem ég hef nefnt, frá starfsmanni Verðjöfnunarsjóðsins, þá held ég að menn þurfi ekki að vera mjög ósammála um að Verðjöfnunarsjóðurinn stendur hörmulega illa og það fer hríðversnandi.

Ég held að það sé hið mesta óráð að grípa til þessa úrræðis, að færa milli deilda, taka af einni framleiðslugrein eins og skreiðarverkuninni og færa yfir í aðrar deildir. Það hefur oft komið fyrir að ákveðnar deildir í fiskiðnaði hafa ekki átt innstæðu í Verðjöfnunarsjóði og ríkissjóður hefur orðið að ábyrgjast hið almenna fiskverð þó að ekki hafi komið til útgreiðslu. En þrátt fyrir það hefur enginn sjútvrh. gert tillögu um að hrófla við útflutningsgjaldinu með þessum hætti. Hér er líka verið að fara inn á ákaflega varhugaverða braut, eftir að búið er að samræma útflutningsgjald eins og gert var með samþykkt laganna frá 16. febr. 1976, í fullu samkomulagi við alla aðila í sjávarútvegi, útgerðarmenn, sjómenn, yfirmenn og undirmenn og fiskkaupendur. Þegar búið var að ná þessu samkomulagi — og það hefur verið starfað í anda þess síðan hvað snertir Verðjöfnunarsjóðinn, hvað snertir útflutningsgjaldið, þá held ég að hæstv. ráðh. og ríkisstj. sé að fara út á mjög hála braut að gera þessa breytingu. Og í sannleika sagt skil ég ekki í því, að í stjórnarliðinu skuli enginn þm. vera til sem getur varað menn við þessari hættu, sem getur varað menn við því að hér er verið að fara inn á mjög hættulega braut.

Skreiðarmarkaðir hafa ekki verið með sterkustu mörkuðum okkar, heldur með þeim veikustu á undanförnum árum og skreiðin hefur gersamlega dottið niður og ekki orðið að neinu. Skreiðin hefur beðið í landinu allt upp í tvö ár óseld. Þó að mjög hafi ræst úr núna upp á síðkastið eru ýmsar blikur í lofti í sambandi við skreiðarmarkaði. Bæði óttast menn að verkun í skreið sé jafnvel of mikil og geti haft áhrif á markaðsverðið og menn óttast líka að aðalkaupandinn af skreið, sem er Nígería, sé að setja þak á skreiðarverðið, þannig að þessari hagstæðu verðþróun á skreiðarmörkuðunum sé nú að verða lokið svo ég segi ekki að hún sé að hrynja. En þessi þróun til hækkunar er búin og því er enn þá óráðlegra að fara þannig að. Þetta bjargar ekki freðfiskdeildinni nema að tiltölulega litlu leyti, en getur haft í för með sér að næsta eða þar næsta verðtímabil sé hvergi peninga að sækja í Verðjöfnunarsjóðinn.

Er það þá stefna hæstv. ríkisstj. að ganga af Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins dauðum? Þetta er einn liðurinn í því: að fara að hreyfa á milli hinna ýmsu greina sem eru sjálfstæðar. Sömuleiðis efast ég um að það fái staðist að færa til með þessum hætti, því að hver sú fiskverkun, sem hefur greitt í ákveðna deild, hún á það og hún hlýtur að líta svo á framvegis sem hingað til.

Samlag skreiðarframleiðenda sendi ásamt fleiri aðilum sjútvn. Ed. umsögn um þetta mál. Þar er vitnað í ályktun sem send var sjútvrh. 17. febr. í vetur. Þar segir: „Aðalfundur Samlags skreiðarframleiðenda, haldinn í Reykjavík 13. febr. 1981, varar eindregið við þeirri hugmynd stjórnvalda að mismuna útflutningsgreinum fiskiðnaðarins með útflutningsgjaldamillifærslu. Reynsla undanfarinna ára sýnir að engin grein fiskiðnaðarins hefur búið við meiri sveiflur og óvissu á sínum mörkuðum en skreiðarframleiðslan. Þar hafa skipst á tímabil hagstæðs og óhagstæðs verðlags, tímabil mikillar eftirspurnar og algerrar lokunar markaða um langan tíma. Fundurinn leggur áherslu á að Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins hefur það lögskipaða hlutverk að jafna út sveiflur hverrar greinar. Þá bendir fundurinn á að Verðlagsráð sjávarútvegsins hefur þegar ákveðið auknar álögur á skreiðarvinnsluna áður en nokkrir sölusamningar liggja fyrir. Verði markaðsþróunin næstu mánuði jákvæð, þá krefjast skreiðarframleiðendur þess, að það, sem greinin kann að verða aflögufær um, verði lagt í Verðjöfnunarsjóð til þess að mæta hugsanlegum markaðsörðugleikum á komandi tímum, en ekki millifært til annarra greina.“

Þarna segir í þessari ályktun það sem Alþingi hefur sjálft löngu samþykkt og það meira að segja samhljóða og engin rödd hefur komið hér fram um að breyta. Þar segir að verði einhver grein í sjávarútvegi aflögufær, þá verði lagt í Verðjöfnunarsjóð til þess að mæta hugsanlegum markaðserfiðleikum komandi tíma.

Það er undarlegt að þegar Alþingi hefur sjálft markað jafnviðamikla stefnu og stefnuna um hlutverk Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, sem enginn ágreiningur hefur orðið um, þá skuli menn úti í bæ eða uppi í stjórnarráði — eða hvar það er — ákvarða allt í einu að breyta þessari stefnu Alþingis. Alþm. lesa það í fjölmiðlunum og í ályktunum sérhagsmunasamtaka að til standi að breyta nú algjörlega þessari stefnu og hverfa frá því sem Alþingi hefur áður samþykkt og enginn ágreiningur verið um. M. ö. o.: það er litið á Alþingi eins og hvert annað viljalaust verkfæri sem eigi að gera það sem einhverjum ákveðnum herrum dettur í hug að krefjast, stað þess að Alþingi á að leiðbeina þessum ákveðnu herrum, sem dettur í hug að gera vitleysu, og sýna þeim fram á að það sé rangt, sem þeir eru að leggja til að gert sé og ætla sér að gera, og leiðrétta það.

Ég tel líka að það hefði fyllilega komið til greina að ríkisstj. — og þá hæstv. sjútvrh. í broddi fylkingar — hefði reynt að skapa sem víðtækast samstarf hér á Alþingi um hvernig ætti að snúast við þeim vanda sem fiskiðnaðurinn og sjávarútvegurinn stóð frammi fyrir um áramót, hvaða leið væri heppilegust til þess að mæta þessum vanda. Vitaskuld er vandi fyrir hendi og það mikill vandi. En þessi ríkisstj. þarf ekkert á því að halda. Hún hefur ekki nefnt það. Mér er sérstaklega annt um þá sjálfstæðismenn sem eiga aðild að ríkisstj., vegna þess að uppbygging Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins átti síst hljómgrunn í Sjálfstfl. og þar voru langhörðustu öflin til þess að koma þessum lögum fram, þó ég ætli á engan hátt að gera lítið úr þeim ágætu mönnum úr öllum öðrum flokkum sem stóðu að því að Verðjöfnunarsjóðurinn varð að lögum.

Ég vil því spyrja þá að því, bæði fulltrúa í ríkisstj. og þingmenn sem styðja að einhverju leyti enn þá þessa ríkisstj., hvort þeir treysti sér til að eyðileggja á þennan hátt hlutverk Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins.

Það er ekki búið að laga þetta strax aftur. Það er alveg eins með þetta og þegar menn taka fyrsta sopann, þeir fá sér oft annan. Eins verður það með þetta. Þegar búið er að opna þessa vitleysu einu sinni, þá er ekki að spyrja að því að tappinn verður aftur tekinn úr. En það er enn þá tími til þess að setja tappann í, reka hann almennilega niður í flöskuna og afturkalla þetta frv. Og ég tel að ríkisstj. yrði sér ekki til skammar þó hún gerði það, nema síður sé. Hún ætti heiður skilið ef hún gerði það. Ef enginn er í stuðningsliðinu sem getur varað menn við þeirri glópsku sem hér er verið að gera þá verðum við hinir, sem ekki erum í stuðningsliðinu, að vara hana við, eins og ég hef verið að gera hér í fullri vinsemd. Okkur greinir ekki á um hlutverk Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, en okkur greinir á hvort með þessu frv. sé verið að eyðileggja hann. Það er ekki lítið sem sjávarútvegurinn og kaupstaðir og kauptún í öllum kjördæmum landsins eiga undir því að þetta sé ekki eyðilagt. Ef Verðjöfnunarsjóðurinn verður eyðilagður með þessu verður því ekki gleymt hverjir eiga þá sök á því þegar ekkert verður eftir í Verðjöfnunarsjóði til þess að taka við verðsveiflum. Hvað tekur þá við? Þá tekur við samdráttur og stöðvun þegar ekkert er upp á að hlaupa. Er ekki betra að varast að stíga þetta ógæfuspor fyrir ekki meira en hér er um að ræða? Og eins og menn geta séð, sem eitthvað eru inni í þessu máli, af mínum upphafsorðum um stöðu Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, þá er hann síst svo stór og öflugur að það séu gustuk að rýra getu hans með þeim hætti sem lagt er til með þessu frv.

Hæstv. sjútvrh. hefur nú að undanförnu talað mikið um fiskiskipastólinn og uppbyggingu hans og nauðsyn þess að halda áfram að smíða báta og þá innanlands. Ég ætla ekki að fara efnislega út í það nú, enda yrði það of langt mál. En tveir sjóðir hafa verið stofnaðir á síðustu árum. Annar er Aldurslagasjóður fiskiskipa sem komið var á fót með sérstakri löggjöf og er í varðveislu og undir stjórn Samábyrgðar Íslands. Þessi sjóður veitir þeim, sem taka skip úr umferð sem eru orðin ónýt, vissar bætur að krónutölu miðað við hverja smálest í skipi. Svo er annar sjóður, Úreldingarsjóður, sem var settur á stofn á árinu 1979 og veitir einnig bætur, en með nokkuð öðrum hætti og ekki eftir eins ákveðinni formúlu og aldurslagatryggingin. Tekjur þessa sjóðs, Úreldingarsjóðs, voru af útflutningsgjaldinu á s. l. ári tæplega 4.5 milljarðar gkr. fyrir utan vaxtatekjur. Hann greiddi út styrki sem voru hvorki meira né minna en 4 milljarðar 330 millj. á s. l. ári. Á þessu ári eru tekjur sjóðsins áætlaðar af þjóðhagsstofnun, eftir því sem ég best man, um 8 milljarða gkr. En þegar hefur verið sótt um verulega styrki og bætur úr sjóðnum þannig að hann er uppurinn í febrúarlok.

Hæstv. sjútvrh. hefur sagt að hann vildi standa að því að auka tekjur þessa sjóðs og þar með að taka úr notkun óhagkvæm og úrelt skip sem er þjóðhagslega rangt að halda áfram útgerð á. Mig langar í þessu tilfelli að spyrja hann hvernig hann ætli að ná þessu takmarki, hvort hann hafi hugsað sér að flytja nýtt frv. um breytingu á útflutningsgjaldi eða hvort hann hugsi sér að flytja brtt. sjálfur við þetta frv. eða hvort hann hafi horfið frá því að auka tekjur Úreldingarsjóðs. Ég vil líka láta það koma fram hér, að ég tel eðlilegt að þessar tekjur séu auknar. Ég tel líka eðlilegt og nauðsynlegt að tekjur Aldurslagasjóðsins séu auknar, en þær eru fyrst og fremst iðgjöld skipa sem fyrir eru í landinu. Ég tel að þau iðgjöld þurfi að hækka svo að hann geti hækkað sínar bætur. Hitt kemur að mínum dómi líka mjög til greina, að sameina þessa sjóði að verulegu leyti, þó að ég geti mjög vel fallist á að bótareglur Úreldingarsjóðsins séu ekki eins fastmótaðar og aldurslagatryggingarinnar. En ég spyr þessara spurninga vegna þess sem talað hefur verið um opinberlega. Þar sem svo er liðið á þingtímann og ekkert hefur komið fram um þetta, þá tel ég eðlilegt að spurt sé um það í sambandi við afgreiðslu þessa frv.

Ég ætla þá ekki að hafa þessi orð fleiri, en endurtek það að við fjórir nm. af sjö í sjútvn. teljum, að hér sé verið að brjóta niður hlutverk Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, og erum því á móti þessari breytingu á útflutningsgjaldinu og leggjum til að frv. verði fellt.