27.04.1981
Neðri deild: 82. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3768 í B-deild Alþingistíðinda. (3862)

221. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það vakti athygli mína í ræðu hæstv. sjútvrh., að hann vék að því að ríkisstj. hefði tekið þann kost að skrá gengið með þeim hætti að sjávarútvegurinn og sérstaklega hraðfrystiiðnaðurinn yrði rekinn með halla á þessu ári. Hann talaði um að menn hefðu orðið að horfast í augu við að fella gengið ef komast ætti hjá þeim rekstrarhalla sem nú blasir við í sjávarútveginum.

Ég hygg að það sé ekki algengt að ráðherrar sjávarútvegsmála fari svo léttum orðum um eins hrikalegt ástand og nú er að skapast í okkar útflutningsatvinnuvegum. Ég held að það sé naumast til sá maður utan hæstv. ríkisstj. eða utan meirihlutaflokka hennar hér á Alþingi sem heldur að til langframa sé hægt að stjórna þessu landi svo að sjávarútvegurinn fái ekki til sín það sem hann þarf. Það frv., sem hér liggur fyrir, og ýmsar aðrar ráðstafanir sem hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir, stuðla einmitt að því að reyna að hanga þó svo að ýmsar meginstoðir atvinnulífsins verði fyrir þungum skakkaföllum og veikist svo að menn óttist jafnvel að þessi bygging fari að riðlast.

Ég hef farið nokkuð víða nú síðustu daga og talað við ýmsa menn úr sjávarútveginum, bæði útgerðarmenn og menn frá hraðfrystiiðnaðinum, og það er síður en svo fallegt hljóð í mönnum. Og ástæðan er náttúrlega þessi: Ríkisstj. er að reyna í 50% verðbólgu að halda uppi stöðugu gengi og ímynda sér að hún sé í Sviss eða Vestur-Þýskalandi. Það er varla til sá Íslendingur sem sér ekki í gegnum þennan svikavef og gerir sér grein fyrir því, að eins og gjaldeyrismálum er stjórnað hér á landi núna er beinlínis verið að greiða niður erlendan iðnvarning, erlenda framleiðslu á kostnað íslensks sjávarútvegs og á kostnað íslensks iðnaðar — íslensks samkeppnisiðnaðar.

Síðasta dæmið um þetta, sem ég þekki, er frá Akureyri nú þessa dagana. Þangað er flutt hús að öllu frágengið erlendis, í Danmörku, flutt inn með heimilistækjum og öðru slíku, allt saman tollfrjálst á fölsku gengi. Við þvílíkar aðstæður er að sjálfsögðu eðlilegt að atvinna skerðist hjá íslenskum byggingariðnaðarmönnum sem verða að keppa þannig við niðurgreiddan erlendan iðnað, greiddan niður vegna þess að þessi hæstv. ríkisstj. og einstakir ráðherrar hennar fást ekki til að horfast í augu við þann vanda sem þeir hafa skapað með því að hafa ekki haft stjórn á efnahagsmálunum og með því m. a. að hafa á s. l. ári gefið undir fótinn með að efnahagskerfið þyldi 10% grunnkaupshækkanir á því ári eins og samið var um. Sá vandi, sem nú er verið að berjast við, er þess vegna eingöngu búinn til af ríkisstj. sjálfri með samningunum við opinbera starfsmenn og með þeim lausatökum sem hæstv. ríkisstj. hafði á atvinnumálunum á s. l. ári. Þar eru landbúnaðarmálin engin undantekning. Ég hef orðið var við að hæstv. landbrh. hrósar sér nú mjög af því, að ekki skuli vera um offramleiðslu að ræða í landbúnaðinum. En við vitum hvernig á því stendur. Skýringin er sú, að fóðurbætisskatturinn var lagður á, bændur voru látnir éta skottið á sjálfum sér í líkingum talað.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. Þetta er frv. um rangt verðgildi íslenskrar krónu. Þetta er frv. um að halda áfram hallarekstri á hraðfrystiiðnaði. Þetta er frv. um að velta vandanum á undan sér. Þetta er frv. um að lafa á meðan hæstv. ríkisstj. getur hangið, af því að kjörtímabilið er ekki úti. Það er allt og sumt. Þess vegna var það rétt sem hæstv. sjútvrh. sagði, að þetta yrði einungis til bráðabirgða, tímabundin milli færsla sem kemur svo í annarra hlut að lagfæra síðar meir. Það eru æ fleiri menn að átta sig á því, að okkar þjóðfélag er versnandi þjóðfélag. Það eru ýmsar hræringar í þessu þjóðfélagi sem ekki voru hér áður. Menn eru farnir að finna fyrir því, að einkaframtakið er smátt og smátt að gefast upp. Eignaupptakan er í þágu ríkisvaldsins eða þá þeirra manna og þeirra aðila sem hafa sérstök tækifæri til þess að komast yfir fé. Við getum tekið samvinnuhreyfinguna undir það merki. Æ fleiri sjálfstæðir rekstraraðilar eru að gefast upp. Og af því að ég hef hér formann sjútvn. deildarinnar fyrir augunum má vel bæta því við, að enginn einkaaðili treystir sér lengur til þess að endurnýja skip sín með öðrum nýjum. Vandinn í Fiskveiðasjóði og Byggðasjóði vegna útgerðarinnar verður æ meiri. Hann er orðinn þvílíkur að vöxtum að hann er í rauninni að verða okkur ofviða í þessu landi. Samt sem áður er það stefna ríkisstj. að fjölga skuttogurum og fjölga fjósum og leggja skatta á með skattalagafrv. sem var lagt hér inn um daginn. Þar var lagt til að skerða fyrninguna hjá hraðfrystiiðnaðinum, hjá útgerðinni. Það er útgerðarfyrirtæki í kjördæmi hæstv. landbrh. sem fær á sig um 49 millj. í hækkuðum sköttum eingöngu vegna þessa frv. Ég geri ekki ráð fyrir að hann kippi sér upp við það. Í því frv. felst í rauninni það viðhorf að standa gegn fjárfestingu í því skyni að auðvelda mönnum verkin og auka afrakstur vinnunnar, afrakstur handanna.

Ég hafði satt að segja ekki búist við því, að á níunda áratugnum mundi ég heyra ræðu eins og hér var haldin áðan af hæstv. sjútvrh. Grunntónninn var sá, að það væri ekki Alþingis að skapa eðlilegan rekstargrundvöll fyrir atvinnuvegina, heldur ættu stjórnvöld — með bráðabirgðaráðstöfunum, jafnvel eftir á — að reyna að gefa smávítamínsprautu til þess að hjól framleiðslunnar hættu ekki að snúast, í staðinn fyrir að það er hlutverk stjórnvalda í hinu frjálsa samfélagi að búa til ramma utan um atvinnuvegina sem þeir eiga að geta starfað í án þess að einhver náðarhönd að ofan komi með einhverja vítamínsprautu. Og það er einmitt í þessu sem Akkillesarhæll ríkisstj. er. Það er í þessari óhreinskilni við sjálfa sig og það er í þessu dugleysi, að ráðast ekki gegn vandanum, heldur velta honum á undan sér. Ég sá að hæstv. sjútvrh. hristi höfuðið. Við töluðum saman hér fyrir ári um hvernig ætti að halda m. a. á skuldamálum útgerðarinnar. Þá féllu ýmis orð um skuldbreytingu sem ekki hefur verið staðið við. Vandi útgerðarinnar verður meiri með hverjum mánuðinum sem liður og þetta frv. breytir engu um það.