27.04.1981
Neðri deild: 82. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3772 í B-deild Alþingistíðinda. (3870)

234. mál, fjáröflun til vegagerðar

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú í rauninni svarað þeirri fsp. sem beint var til mín. Eins og fram kemur hjá honum eru þau mál til meðferðar í hans rn. og í framhaldi af eða með svipaðri stefnu og óskað var eftir af mínu rn. sumarið 1979 og fjallað var um í ríkisstj., þ. á m. áætlun sem iðnrn. lagði fram varðandi orkusparnað og vitnað var til hér á undan og tekið jákvætt undir af ríkisstj. sumarið 1979. Þetta varðaði marga liði, allt frá niðurfellingu tolla á reiðhjólum til atriða eins og þess sem hér var til umr., að fella niður þungaskatt af almenningsvögnum. Mín afstaða er óbreytt í þessu máli. Ég tel að rétt sé að fella þennan skatt niður. Það er hins vegar ljóst, að fjmrn. verður að segja sitt orð um þetta efni, og ég vænti þess, að þetta mál fái þar fyrr en seinna afgreiðslu og hún verði jákvæð eins og að var stefnt með samþykkt ríkisstj., að vísu annarrar en nú situr, sumarið 1979.