28.04.1981
Neðri deild: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3792 í B-deild Alþingistíðinda. (3887)

306. mál, verðlagsaðhald

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að víkja að niðurlagsorðum hæstv. forsrh. þar sem hann greindi frá beiðni sinni til þingflokka og forseta þingsins um að þetta frv. yrði afgreitt fyrir mánaðamótin. Það er skoðun okkar sjálfstæðismanna, að sjálfsagt sé að fjalla um þetta frv. á þinglegan hátt og við munum ekki bregða fæti fyrir afgreiðslu þess. Hins vegar áskiljum við okkur rétt til þess að afla þeirra upplýsinga og krefjast þeirrar efnismeðferðar frv. sem tilefni gefst til. Og það fer auðvitað mjög eftir því, hve stjórnvöld hafa tilbúin svör við þeim spurningum sem vakna við lestur þessa frv. og grg. þess, hvort unnt er að afgreiða frv. fyrir mánaðamót eða ekki. Reynslan ein fær úr því skorið.

Ég get þó ekki stillt mig um að geta um það og minna á að við þm. stjórnarandstöðunnar höfum s. l. fjóra mánuði, allt frá því að brbl. voru sett á gamlársdag s. l., spurt um hvað ætti að taka við 1. maí, en það var sá dagur sem að var stefnt í öllum ákvæðum brbl. Ekki var tjaldað til langrar nætur með þeim lögum. Hæstv. ráðherrum og forsvarsmönnum ríkisstj. hefur orðið svarafátt. Þeir hafa sagt að þessi mál væru í athugun og þau mundu verða upplýst þegar tími væri til kominn. Það, sem hefur vafist fyrir hæstv. ráðherrum og ríkisstj. og stjórnarsinnum í fjóra mánuði, er svo ætlast til að stjórnarandstaðan stimpli á rúmum tveim sólarhringum. Auðvitað eru þetta út af fyrir sig ekki þingleg vinnubrögð. Þetta eru vinnubrögð sem bera vitni um ráðleysi, úrræðaleysi hæstv. ríkisstj. og ráðh. umfram allt, en þeir hafa sofið á verðinum í fjóra mánuði, og nota ég það orðalag að gefnu tilefni forseta ASÍ í Morgunpósti í morgun þar sem hann áminnti ríkisstj. að sofna ekki eftir hver vísitölumánaðamót án þess að aðhafast eitt eða neitt í verðbólgumálum.

Þegar þetta frv. er lesið má í raun og veru segja að í 1. gr. þess sé um það að ræða að framlengja verðstöðvun þá sem sett var í brbl. Verðstöðvunarákvæði það var auðvitað ástæðulaust af því að heimildir voru til í lögum um verðstöðvun. Við höfum búið við verðstöðvun í meira en heilan áratug svo að það þurfti ekki að afla neinnar frekari heimildar um verðstöðvun eins og gert var með útgáfu brbl. á gamlársdag. Spurningin er sú, hvort breytt fyrirkomulag á verðstöðvun samkv. frv. því, sem nú er hér til umræðu, sé efnisbreyting. Að mínu áliti er svo ekki. Ef nokkuð er, þá er hér um herðingu verðstöðvunar að ræða og ætlunin að hún verði framkvæmd með langtum harðsvíraðri hætti en þó hefur orðið raun síðustu fjóra mánuði eða áður þann áratug sem verðstöðvun hefur verið í gildi.

Hæstv. forsrh. gerði því að vísu skóna að þessi verðstöðvun síðustu fjóra mánuði hefði orðið til mikils gagns og stöðvað verðhækkanir. Ég vil minna á að þessi verðstöðvun hefur í raun og veru ekki borið nafn með rentu. Þvert á móti hafa verðhækkanir flætt yfir. Og það sem verra er, bak við þá stíflu, sem þetta ákvæði kann að hafa byggt að einhverju leyti, bíða fjölmargar verðhækkanir sem óhjákvæmilegt er að taka til afgreiðslu, þannig að ljóst er að verðbólgualdan er í fullum gangi. Það kemur og fram í ummælum sem höfð eru eftir hæstv. heilbr.- og félmrh. Svavari Gestssyni í Morgunblaðinu í morgun, en þar segir svo:

„Um árabil hefur verið verðstöðvun í landinu, en samt sem áður hefur það verið rangnefni. Verðstöðvun hefur verið óvenjulega ströng undanfarið, en við viðurkennum að hækkana er þörf á slíkum verðþenslutímum sem við búum við. Það þýðir ekki að loka augunum fyrir því.“

Þetta voru orð hæstv. heilbr.- og félmrh. Svavars Gestssonar sem að þessu leyti sýnist vera raunsærri en hæstv. forsrh.

Ég varpaði fram þeirri spurningu hvort tilhögun verðstöðvunar samkv. þessum lögum væri til bóta eða ekki og hvað væri í raun og veru fólgið í þeirri tilhögun. Það er í fyrsta lagi sagt að ekki megi hækka verð vöru eða þjónustu eða endurgjald fyrir afnot af fasteign eða lausafé nema brýn nauðsyn krefji og með samþykki réttra yfirvalda. Nú er auðvitað spurning hvað rétt yfirvöld telja brýna nauðsyn. Við höfum í lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, með þeirri breytingu sem gerð var á þeim lögum með svokölluðum Ólafslögum, nr. 13 frá 1979, þetta ákvæði í 12. gr.:

„Verðákvarðanir skulu miðaðar við afkomu fyrirtækja sem rekin eru á tæknilega og fjárhagslega hagkvæman hátt og nýta eðlilega afkastagetu.“

Meiri er nú leiðbeiningin ekki, enda var frekari leiðbeining um hvernig túlka skyldi þetta ákvæði numin úr gildi þegar vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar tók við völdum, og hefur það ákvæði ekki verið sett mn í lög að nýju sem var í 12. gr. laga um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti sem sett voru vorið 1978, 16. maí 1978. En þar var enn fremur komist svo að orði:

„Verð og álagningu má ekki ákvarða lægri en svo að fyrirtæki þeirrar tegundar, er í 1. málsgrein getur“, — þ. e. fyrirtæki sem rekin eru á tæknilega og fjárhagslega hagkvæman hátt og nýta eðlilega afkastagetu, að slík fyrirtæki, — „fái greiddan nauðsynlegan kostnað við innkaup eða endurinnkaup vöru, framleiðslu, aðflutning, sölu, flutning ásamt afskriftum svo og sanngjarnan hreinan hagnað þegar tekið er tillit til áhættunnar við framleiðslu vörunnar og sölu.“

Þótt þessi viðbótarskýring hafi verið felld úr lögum, þá er leiðbeiningin: „að verðákvarðanir skuli miðaðar við afkomu fyrirtækja sem rekin eru á tæknilega og fjárhagslega hagkvæman hátt og nýta eðlilega afkastagetu“ — enn til og það verður að líta svo á, hvað sem hefur liðið framkvæmd verðstöðvunar síðustu fjóra mánuði og raunar um lengri tíma, að það sé skylda að taka til greina verðhækkunarbeiðnir slíkra fyrirtækja og í því felist skilgreining á því, hvað teljist brýn nauðsyn.

En þar með er ekki öll sagan sögð. Samkvæmt orðalagi 1. gr. þess frv., er við ræðum nú, er sagt: „Miða skal verðlagsákvarðanir við ársfjórðungsleg meginmarkmið í verðlagsmálum sem ríkisstj. ákveður á hverjum tíma.“

Nú vakna upp í minni manna ákvæði í stjórnarsáttmála núv. hæstv. ríkisstj. sem framsóknarmenn hafa einkum eignað sér. Það eru svokölluð niðurtalningarákvæði. En það er raunar þess virði að rifja upp nokkur ákvæði í verðlagsmálakafla þeirrar stjórnar sem settist að völdum fyrir nær fimmtán mánuðum. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Til þess að draga úr verðbólgu verði beitt eftirgreindum ráðstöfunum í verðlagsmálum:

1. Verðhækkunum á þeim vörum og þjónustu, sem verðlagsráð fjallar um, verði sett eftirgreind efri mörk ársfjórðungslega á árinu 1980: Til 1. maí skulu mörkin vera 8%, til 1. ágúst 7% og loks til 1. nóv. 5%. Á árinu 1981 verði ákveðin tímasett mörk í samræmi við markmið um hjöðnun verðbólgu. Um verðhækkanir af erlendum uppruna, sem ekki rúmast innan ofangreindra marka að mati verðlagsráðs, setur ríkisstj. sérstakar reglur. Þessar sérstöku reglur hafi ekki áhrif á gildandi ákvæði um útreikning kaupgjaldsvísitölu.

2. Verðhækkanir á búvöru fylgi sams konar reglum, enda verði niðurgreiðslur ákveðnar sem fast hlutfall af útsöluverði árin 1980 og 1981.

3. Fyrir maí/júní 1980 skulu afgreiddar sérstaklega hækkunarbeiðnir fyrirtækja og stofnana sem nauðsynlegar kunna að teljast til þess að verðbreytingar slíkra aðila geti síðan fallið innan þess ramma sem framangreind mörk setja.“

Það er ástæðulaust að rifja upp frekari ákvæði í stjórnarsáttmálanum varðandi verðlagsmál, en því frekari ástæða til að benda á hvernig farið hefur um efndir þessa verðlagsmálakafla, en í kjölfar hans voru samþykkt fjárlög sem gengu út frá verðbólguhækkun um 30% á síðasta ári eða rétt rúmlega það. Menn vita að það var ekki staðið við þessa niðurtalningu og að í stað þess að vera 30% eða þar um bil var verðbólgan tvöfalt meiri eða nærfellt 60%, sú sama og hafði verið árið áður. Og það er ákaflega merkilegt rannsóknarefni, svo að það orðalag sé notað, að kanna hvernig á því stendur, að mesta verðbólga, sem um getur í Íslandssögunni, að því er ég held, á sér stað í kjölfar verðstöðvunar, verðstöðvunar sem sett var fyrst á í lok ársins 1978 og ítrekuð að vissu leyti með lögum nr. 13 frá 1979 og enn ítrekuð með brbl. á gamlársdegi s. l.

Sannleikurinn er sá, að þessi saga, þessi verðbólgusaga síðustu tveggja ára færir mönnum heim sanninn um að verðstöðvun er ekkert nema nafnið tómt, að það er tilgangslaust að setja í lög að ekki megi hækka verð á vöru eða þjónustu ef rætur verðbólgumeinsins eru til, eins og verið hefur einkum og sér í lagi þegar vinstri stjórnir ráða ríkjum hér á landi.

En við munum það líka, að í kjölfar verðlagskafla stjórnarsáttmálans var gerð tilraun til þess af hálfu ríkisstj. að setja reglugerð þar sem ákveðnar yrðu ársfjórðungslegar hækkunarviðmiðanir. En ríkisstj. gafst upp á útgáfu þeirrar reglugerðar vegna þess að verðlagsráð m. a. og ýmsir góðir menn bentu ríkisstj. á að hún hefði ekki stoð í lögum fyrir útgáfu slíkrar reglugerðar. Og sannleikurinn er auðvitað sá, að það er ekki unnt fyrir ríkisstj. að setja slík meginmarkmið nema brjóta í bága við þá reglu, að miða skuli verðhækkunarbeiðnir við afkomu vel rekinna fyrirtækja.

Það kann að vera tilgangurinn með þessu ákvæði 1. gr. frv. að afla lagaheimildar sem reglugerðarútgáfa byggist á. En þá er líka ástæða til að spyrja og það er ástæða til að krefjast svars við þeirri spurningu: Hvaða ársfjórðungsleg meginmarkmið í verðlagsmálum hefur ríkisstj. ákveðið eða hefur í huga á þessu stigi málsins?

Ríkisstj. hefur haft nægilegan tíma til þess að glöggva sig á því máli. Hún setti slík ársfjórðungsleg mörk á s. l. ári sem hún stóð ekki við. Hún boðaði í efnahagsáætlun sinni á gamlársdag að slík tímamörk og viðmiðunarmörk yrðu sett á næstu mánuðum. Og raunar boðaði hún í stjórnarsáttmála að það yrði gert tímanlega fyrir árið 1981. Hæstv. ríkisstj. getur ekki afsakað sig með því, að hún hafi ekki gert sér þessa grein. Og það verður að krefjast þess, að svar við þessari spurningu sé fyrir hendi áður en þessi lagaheimild er veitt.

Það er svo efni 1. gr., að leyfi til verðhækkana innan þeirra marka, sem ríkisstj. setur hverju sinni, tekur gildi með samþykkt viðkomandi verðlagsyfirvalda og staðfestingu viðskrh. Nú er auðvitað með þessum hætti verið að taka vald úr hendi verðlagsráðs og samkeppnisnefndar í raun samkvæmt lögum, þar sem hendur þeirra eru bundnar hvað sem liður afkomu vel rekinna fyrirtækja. Og það er í raun og veru bæði snuð og svipa sem sett er í og á hæstv. viðskrh. með þessu ákvæði, að hann megi stimpla verðhækkanir innan vissra takmarka, til þess væntanlega að félagar hans í Alþb. geti kennt honum um of miklar hækkanir innan þeirrar viðmiðunar sem e. t. v. verður sett. Og hins vegar er svipan sett á hæstv. viðskrh. af hálfu Alþb.-manna með því að treysta honum ekki fyrir þessari staðfestingu alfarið, heldur áskilja ríkisstj. þann rétt ef undantekningar eru gerðar og hækkanir leyfðar umfram það sem viðmiðunarmörkin segja til um. Og þar hefur, eins og kunnugt er, Alþb. neitunarvald samkvæmt þeim samningi sem gerður hefur verið og nú er opinber orðinn um neitunarvald eins stjórnaraðila varðandi afgreiðslu mála.

Það er ljóst að í 1. gr. er heimild til þess að sitja á rökstuddum verðhækkunarbeiðnum í trássi við önnur ákvæði laga og umfram allt í trássi við stjórnarskrárákvæði. Og miðað við reynslu af framkvæmd verðstöðvunar, t. d. síðustu mánuði, felst það þar í, að um eignaupptöku getur verið að ræða. Það er ekki að furða þótt Alþb.-menn — kommúnistar — standi að slíkri lagasetningu sem þessari sem veikir rekstur fyrirtækja og atvinnuvegina í landinu og færir völd yfir verðlagi og afkomu þeirra til stjórnvalda. Það er ekki nema von að kommúnistar velji sér slíka leið. Það hafa þeir gert bæði meðal vestrænna ríkja, þar sem þeir hafa nú að vísu yfirleitt ekki nein áhrif, en einkum í ríkjum austan tjalds, með þeirri afleiðingu sem við sjáum í Póllandi og annars staðar, í þeim ríkjum sem njóta „náðarsólar“ sósíalismans.

Það er svo rétt að víkja að því, að í 2. gr. þessa frv. er farin algjörlega ný leið varðandi framkvæmd fyrirmæla verðlagsyfirvalda, þar sem verðlagsyfirvöldum er heimilt að krefjast þess, að fógeti leggi lögbann við byrjuðu eða yfirvofandi broti á fyrirmælum verðlagsyfirvalda, og beinlínis tekið fram að ákvæði III. kafla laga nr. 18 frá 22. mars 1949, um kyrrsetningu og lögbann, taki og til lögbanns samkvæmt þessari grein eftir því sem við á.

Það er fróðlegt að glöggva sig á því, hvað felst í þessum III. kafla lögbannslaganna. Í þessum III. kafla laganna um kyrrsetningu og lögbann eru einkum ákvæði um réttarfar og framkvæmd kyrrsetningar og lögbanns. Vísað er til ákvæða í lögunum um skilyrði fyrir tryggingum gerðarbeiðanda, vörslusviptingu vegna kyrrsetningar, varðveisluskyldu gerðarþola á kyrrsettum munum og skyldu gerðarbeiðanda til málshöfðunar innan viku frá því að það var lagt á. Í 26. gr. laganna, sem er fyrsta gr. III. kafla, segir:

„Lögbann má leggja við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar er raskar eða raska mundi með ólögmætum hætti rétti gerðarbeiðanda.“

Seinni hluti 26. gr. er svohljóðandi:

„Við athöfn þeirra, er fara með framkvæmdavald ríkis eða sveitarfélaga, má undir sama skilorði beita lögbanni ef athöfn varðar meðferð einstaklingsréttinda eða banna skal athöfn í þágu einstaks manns, enda eigi dómstólar úrlausn málsins eða telja má aðila fara út fyrir valdsvið sitt.“

Fyrri mgr. greinarinnar er hin hefðbundna skilgreining á lögbanni og upptalning þeirra skilyrða sem vera þurfa fyrir hendi til þess að lögbanni verði beitt. Í fyrsta lagi þarf að vera um að ræða byrjaða eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar. Í öðru lagi verður þessi athöfn þegar að hafa raskað eða vera líkleg til að raska með ólögmætum hætti rétti gerðarbeiðanda. Við úrlausn dómstóla í sambandi við réttmæti lögbanns eru vanalega tveir síðasttöldu þættirnir, ólögmæti athafnarinnar og réttur gerðarbeiðanda, úrslitaatriði. Í staðfestingu á máli því, sem höfða þarf vegna lögbannsins, er síðan skorið úr um hvort gerðarbeiðandi hafi átt rétt sem raskað hafi verið með ólögmætum hætti af gerðarþola.

Í 30. gr. III. kaflans segir:

„Skylt er lögreglumönnum að veita aðstoð sína til þess að halda uppi lögbanni, enda er þeim rétt að beita valdi því til varnar ef með þarf.“

Hér er sem sagt farið inn á leið fógetagerða og lögregluaðgerða. Hér er farið hættulega inn á leið lögregluríkis og vakna ýmsar spurningar varðandi slíka framkvæmd. Ekki er t. d. ljóst hvort fógetar hafa úrskurðarvald um það, hvort efnisskilyrðum hafi verið fullnægt við ákvörðun verðákvörðunar. Og ef svo er ekki, þá er beinlínis engin vörn fyrir þá sem eiga undir högg að sækja hjá verðlagsyfirvöldum, heldur er hér enn verið að fylgja eftir eignaupptöku í trássi við stjórnarskrá okkar.

Eignarrétturinn er án efa einhver mikilvægasti réttur þar sem hann er ekki eingöngu forsenda fyrir fjárhagslegu sjálfstæði, heldur og, eins og reynslan sýnir meðal annarra þjóða, forsenda fyrir andlegu frelsi og lýðræði og þingræði í landinu. Það er ekki nema von að kommúnistar eða Alþb.-menn vilji eignarréttinn feigan og þrengi að honum á alla vegu. Hins vegar vekur það mikla undrun, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, að eignarréttarmenn eins og sjálfstæðismenn og framsóknarmenn láti hafa sig að verkfæri kommúnista í þessu skyni: að grafa undan eignarrétti og þar með lýðræði í landinu.

Hér er um nýmæli að ræða, að því er ég hygg, hvað réttarfar verðlagsmála snertir. Ég bendi á að nú er í lögum gert ráð fyrir því, að með verðlagsmál verði farið að hætti opinberra mála. Við brotum á verðlagslögum og ákvæðum laga þar að lútandi liggja bæði sektir og upptaka ólöglegs ágóða. Það má og beita varðhaldi eða fangelsi. Talað er um að hraða skuli eftir föngum meðferð mála vegna brota á lögum þessum — og frekari aðgerða ætti ekki að vera þörf. Sannleikurinn er sá að lögbannsaðgerðir eru fyrst og fremst réttlættar með því, að vernda þurfi rétt sem ella færi forgörðum ef ekki væri aðhafst í tíma. En í verðlagsmálum er ljóst að réttur hins opinbera fer ekki forgörðum þótt nokkra daga eða vikur lengur taki að afgreiða þau mál fyrir dómstólum. Þess vegna er hér um fordæmi að ræða í 2. gr. sem er mjög vítavert og hættulegt og leiðir okkur inn á braut lögregluríkis. Við því verður að vara. Ég trúi ekki fyrr en ég tek á að slíku ákvæði fylgi nokkrir þeir menn sem aðhyllst hafa hugsjón sjálfstæðisstefnunnar.

Í 3. gr. þessa frv. til laga um verðlagsaðhald, lækkun vörugjalds og bindiskyldu innlánsstofnana er fjallað um vörugjaldið. Það er grátkómískur skemmtiþáttur og hörmungarsaga. Þar er talað um að lækka vörugjald á gosdrykkjum úr 30% í 17%. Hv. þm. er kunnugt um hver forsaga þessa máls er. Hæstv. ríkisstj. var það mikið kappsmál í desember að breyta gjaldi af öli og gosdrykkjum og sælgæti í verðgjald í staðinn fyrir að áður var um magngjald að ræða og notaði tækifærið til að margfalda þessa gjaldtöku í leiðinni. Það var sögulegt hvernig þetta gjald var afgreitt hér á þingi. Hv. þm. sátu sumir hjá og greiddu aðrir atkvæði með þessu gegn sannfæringu sinni, að eigin sögn, og gáfu á því ýmsar miður virðulegar skýringar sem ekki voru þeim til vegsauka, eins og að þeir hefðu náð kaupum á öðrum vettvangi og hefðu þar af leiðandi ákveðið að greiða atkvæði gegn sannfæringu sinni.

Fyrir Alþingi liggur nú frv. til l. um þessi mál, flutt af þremur stjórnarþingmönnum, sem ekki hefur fengið afgreiðslu. En bersýnilega er þessi breyting í frv. um lækkun gosdrykkjagjaldsins flutt af því í og með að óbreytt gjald nýtur ekki lengur meirihlutafylgis í þinginu, og er það út af fyrir sig vel, vegna þess að hér er auðvitað um stefnu ríkisstj. að ræða sem hefur beðið skipbrot. Má þetta raunar verða nokkur lexía fyrir ríkisstj. og aðvörun varðandi stefnu hennar á öðrum sviðum, eins og t. d. almennt hvað snertir skattheimtu í landinu.

Það var auðvitað röksemd fyrir gjaldtökunni í desember að magngjald hefði reynst ótryggur tekjustofn fyrir ríkissjóð al því það fylgdi ekki verðlagsbreytingum og það þyrfti að auka tekjur ríkissjóðs. En sannleikurinn var sá, að með 30% hækkun á gjaldi af öli og gosdrykkjum dróst sala á öli og gosdrykkjum saman um 20–27%, þannig að vonir um auknar tekjur í ríkissjóð brugðust. Og það er dæmi um það, að hægt er að spenna bogann svo hátt að hann bresti, að tekjustofnar ríkisins bresti. Á þetta ekki eingöngu við um gjaldtöku af öli og gosdrykkjum heldur og um aðra skattheimtu, eins og t. d. tekju- og eignarskattsheimtu af einstaklingum. Það eru þau mörk þar sem tekjuöflun einstaklinga og sparnaðarvilji þeirra stöðvast ef hið opinbera teygir sig of langt ofan í vasa einstaklinga. Og með sama hætti er hægt að ofbjóða neytendum með hækkun óbeinna skatta. Sannleikurinn er sá, að af öli og gosdrykkjum er greitt vörugjald 15%, 24% sérstakt tímabundið vörugjald og söluskattur 23.5%, þannig að söluminnkun má ekki vera mikil án þess að tekjur ríkisins skerðist verulega. Þarna eru auðvitað mörk, eins og varðandi aðra skattheimtu, sem segja til um hvenær búast megi við í bráð og lengd mestum tekjumöguleikum fyrir hið opinbera um leið og skattþoli landsmanna, einstaklinga og neytenda, er ekki ofboðið. Það er þess vegna ástæða til þess að minna á það — líka vegna þess að nú er fyrir höndum afgreiðsla á skattalagafrv. hér á Alþingi á næstu dögum sem gerir ráð fyrir mjög mikilli skattaíþyngingu þeirra sem hafa tekjur yfir 9–10 millj. gkr. á síðasta ári — að slík skattaíþynging verður til þess að þeir menn leggja minna á sig og skapa minni verðmæti þjóðarheildinni til handa.

Ég skýt því hér inn að ég las um það í blaði um daginn, ég held að það hafi verið í Tímanum, að um helmingur verkamanna hefði á síðasta ári 12 millj. kr. í árstekjur eða meira. Það er alveg ljóst, að þessir menn verða Fyrir verulegri skattaíþyngingu, og þeir og aðrir, sem hafa hærri tekjur eða jafnháar, munu draga við sig að afla í þjóðarbúið ef svo heldur fram sem horfir. Þar verður alveg sama reynslan og verið hefur varðandi tekjuvon ríkissjóðs í vörugjaldi af öli og gosdrykkjum. En með þessu er ekki öll sagan sögð varðandi þetta vörugjald og það ævintýri sem hæstv. ríkisstj. lagði út í með desemberfrv. sínu sem hún nú verður að draga til baka að nokkru leyti. Af þessu hefur leitt að allri yfirvinnu hefur verið hætt í verksmiðjunum og þar með dregið úr tekjum 350–400 starfsmanna. 60 manns hefur verið sagt upp í einu fyrirtæki, en framkvæmd frestað til 1. maí, og atvinnuöryggi annarra er ótryggt. Verðhækkunin hefur farið í vísitöluna og hækkað þar með allan launakostnað í landinu og unnið þar með gegn því sem að öðru leyti kann að hafa verið ætlunin að áynnist í baráttunni gegn verðbólgunni.

Ég vík þá að efni 4. gr. frv. þar sem ríkisstj. er heimilað að lækka ríkisútgjöld, þar með talin lögbundin framlög, um allt að 31 millj. kr. Þetta er út af fyrir sig góðra gjalda vert. En þetta ákvæði er dæmigert um handarbakavinnubrögð hæstv. ríkisstj. Auðvitað átti hún að standa að afgreiðslu fjárlaga með mun minni hækkun á milli ára en raun varð á. En hækkunin varð meiri en vaxandi verðbólga gaf tilefni til. Í fjárlögunum skilst mér að sé heimild fyrir 30 millj. kr. niðurskurði og hér fyrir 31 millj. kr. niðurskurði og í brbl. er komist svo að orði í 7. gr.: „Ríkisstj. er heimilt að fresta framkvæmdum þrátt fyrir ákvæði fjárlaga fyrir árið 1981, sem þar er gert ráð fyrir eða í lánsfjáráætlun fyrir sama ár, telji hún það nauðsynlegt. Tekur þetta einnig til fjárlagaliða sem jafnframt eru ákveðnir með öðrum lögum en fjárlögum.“

Nú er okkur sagt, síðast af hæstv. forsrh., að hér sé um sjálfstæðar heimildir að ræða sem bætist hver við aðra. Þá má spyrja í fyrsta lagi: Af hverju afgreiddi ríkisstj. ekki fjárlög lægri en raun ber vitni? Í öðru lagi: Af hverju ákvað ríkisstj. í þeim fjárlögum heimildargrein til lækkunar þeirra með hærri upphæð en raun ber vitni? Af hverju var þörf á því í brbl. að óska eftir heimild til að fresta framkvæmdum samkv. fjárlögum, sem höfðu verið afgreidd vikunni áður, og samkv. lánsfjáráætlun sem þá var ekki þegar afgreidd? Hvar sér þess stað í afgreiddri lánsfjáráætlun fyrir nokkrum dögum eða lánsfjárlögum fyrir nokkrum dögum að ríkisstj. hyggist nota sér slíkar lækkunarheimildir? Og loks: Hvaða vinnubrögð ern það að koma svo viku eftir afgreiðslu lánsfjárlaga með þetta ákvæði í frv. til laga um verðlagsaðhald, lækkun vörugjalds og bindiskyldu innlánsstofnana? Vissulega er það góðra gjalda vert ef ríkisstj. hyggst í raun og veru nýta þessar heimildir. En þessi vinnubrögð, sem ég hér hef rakið, eru ekki til þess fallin að menn treysti því að ríkisstj. muni nýta þessar heimildir. Og ég vek athygli á því, að nú er liðinn um það bil þriðjungur ársins og flestir rekstraraðilar í þjóðfélaginu, þ. á m. opinberar stofnanir, hvort heldur með sjálfstæðan fjárhag eða bundinn fjárhag í A-hluta fjárlaganna eða fjárfestingarlánasjóðir, hafa gert sínar árlegu áætlanir um ráðstöfun fjármuna og samningsbundið þau útgjöld, svo að það er þröngt um vik fyrir ríkisstj., sem nýtir slík vinnubrögð, að koma þessum heimildum í framkvæmd. Sannleikurinn er sá, að ég hef ekki nokkra trú á því, að ríkisstj. hafi mátt eða dug til þess að nýta þessar heimildir, þar sé raunar um orðin tóm, sýndarmennsku og sjónarspil að ræða. En auðvitað hefði ríkisstj. átt að byrja á því að skera niður ríkisumsvifin og ríkisútgjöldin sem umfram allt annað er rót verðbólguþróunarinnar.

Samkv. 5. gr. þessa frv. er Seðlabanka Íslands heimilt að fengnu samþykki ríkisstj. að ákveða hærri bindiskyldu allra eða einstakra innlánsstofnana á tímabilinu 1. maí til 31. des. 1981. Hér er um mjög athyglisvert ákvæði að ræða, og ég verð að segja það, að öðruvísi mér áður brá. Mér hefði ekki dottið í hug að framsóknarmenn, hvað þá Alþb.-menn, sýndu Seðlabanka Íslands slíkt traust sem þarna er um að ræða. Muna menn nú ekki þegar rætt var um það í Tímanum og Þjóðviljanum að frysta ætti fjármuni landsmanna og lánastofnana í Nordalsíshúsi? Mér þykir vænt um að bæði framsóknarmenn og Alþb.-menn hafa bæst í hóp þeirra sem hafa trú á Seðlabankanum og forsvarsmönnum hans. Ég hef trú á að þeirri stofnun sé vel stjórnað þótt ég sé andvígur því, að of mikið vald sé fært í hendur hennar eða nokkurrar einnar stofnunar. Ég tel að með núgildandi bindiskyldu, sem er 28% af innlánsaukningu, sé allhátt farið, einkum og sér í lagi þegar við það bætist að bankarnir hafa samið um að verja 7% af innlánsaukningu í skuldabréfakaup ríkissjóðs, það er búið að binda 35% af ráðstöfunarfé bankanna. Og þá er e. t. v. ekki of mikið eftir fyrir einstaklinga og atvinnuvegina í landinu. Ég tel raunar að í stað þess að hækka þessa heimild til innlánsbindingar hefði fremur verið ástæða til að fara þá leið að draga úr endurkaupum afurðalána en fela viðskiptabönkunum hærri hlutdeild í þeim, enda er það eðlilegt starfssvið viðskiptabanka og ætti ekki að þurfa millifærslu í gegnum Seðlabanka á hluta af því. Eins og kunnugt er, þá er innlánsbindingin í og með rökstudd með því, að Seðlabankinn endurkaupir afurðalán af viðskiptabönkunum. En hér er látið í veðri vaka að tilgangur með hækkun fjárskuldbindingarinnar sé að hafa betri stjórn á peningamálum. Ég dreg í efa að þar með sé öll sagan sögð eða í raun og veru sannleikanum samkvæmt, vegna þess að það er beinlínis tekið fram að ríkisstj. telji að hluta af aukinni innlánsbindingu eigi að nota til að færa hlutdeild iðnfyrirtækja í rekstrar- og afurðalánum Seðlabankans til samræmis við hliðstæð lán annarra atvinnuvega. Ég minni á í því sambandi að í efnahagsáætluninni frá því á gamlársdag er sagt: „Þannig verður hlutdeild iðnfyrirtækja í rekstrar- og afurðalánum Seðlabankans aukin frá ársbyrjun 1981 til samræmis við hliðstæð lán annarra atvinnuvega.“ En það hefur ekkert verið aðhafst í málinu og í þessari grg. er talað um að ríkisstj. telji að nota eigi hluta af aukinni innlánsbindingu í þessu skyni. Það er veikara orðalag nú í grg. heldur en var í efnahagsáætluninni frá því á gamlársdag þótt hækka eigi innlánsbindinguna. Það er þess vegna ekki von til þess, að ríkisstj. standi frekar við þessi orð sín en önnur.

Það vekur og athygli, að ekki eru fordæmi fyrir því að ákvörðun um hámark bindiskyldunnar sé falin Seðlabanka eða ríkisstj. sem síðan hafi óbundnar hendur í þessu efni. Hér hefur ávallt verið um ákvörðun Alþingis sjálfs að ræða. Ég vek líka athygli á því orðalagi þar sem talað er um að heimildin taki til „að ákveða hærri bindiskyldu allra eða einstakra innlánsstofnana“ á tímabilinu til ársloka en kveðið er á um í lögunum. Þarna stingur í augum orðalagið „einstakra innlánsstofnana.“ Það er sem sagt ætlunin að mismuna innlánsstofnunum í landinu. Ég segi fyrir mitt leyti að ég treysti ekki hæstv. ríkisstj. til þeirrar ákvörðunar. Og ég tel að þessar hugleiðingar um mismunun einstakra lánastofnana séu dæmigerðar um miðstýringu þá sem er í algleymingi á ábyrgð núv. ríkisstj., meiri miðstýringu en dæmi eru til í jafnvel róttækustu — eða réttara sagt: afturhaldssömustu vinstri stjórnum hér á landi fyrr.

Það er svo rétt að vekja athygli á því, að ástæða er til að ætla að raunveruleg orsök fyrir þessari heimild í frvgr. sé nauðsyn ríkisstj. til að fjármagna opinberar framkvæmdir. Lántökur innanlands til opinberra framkvæmda munu samkv. lánsfjáráætlun hækka um 46% eða umfram verðbólgustig, en ekki liggja fyrir samningar um það við lánastofnanir eða lífeyrissjóði hvernig afla skuli þess fjármagns. Hér ætlar ríkisstj. — eins og aðrar vinstri ríkisstjórnir — að fara þá leið að skylda sjóði með lögum til að láta fé sitt af hendi í stað þess að fara hina frjálsu leið. Við þessu er því varað, ekki síst þegar kunnugt hefur verið gert að ríkisstj. stendur í samningum t. d. við sparisjóði landsmanna um að þeir kaupi ríkissjóðsskuldabréf til að fjármagna opinberar framkvæmdir og m. a. hallarekstur opinberra stofnana fyrir 7% af innlánsaukningu sinni. Sparisjóðirnir hafa talið öll vandkvæði á að fara hærra en í 3% af innlánsaukningu sinni, einkum og sér í lagi með tilvísun til þess, að á þá er leitað um að lána til húseigenda eða íbúðarbyggjenda sem þurfa að fá breytt skammtímalánum sínum í lengri tíma lán, og með því munu sparisjóðirnir vitaskuld umfram aðrar lánastofnanir í landinu binda fé sitt þannig að eðlilegt er að þeir geti ekki staðið undir jafnmiklum kaupum ríkissjóðsbréfa og aðrar lánastofnanir. En með þessum hætti er e. t. v. ætlað að fara bakdyramegin að sparisjóðunum í landinu og getur það haft óheillavænleg áhrif bæði á frjálsa sparifjársöfnun í landinu og á hag húsbyggjenda, unga fólksins sem stendur í því að koma þaki yfir höfuð sér.

Það er ástæða til að vekja enn á ný athygli á því í þessu sambandi, að ríkisstj. er ekki nægilegt að reyna með lagaákvæði og lagaskyldu að ná til sín sparifé landsmanna, því sem þeir hafa þrátt fyrir allt og þrátt fyrir verðbólgu lagt inn í bankana nú í trausti þess að um verðtryggingu sé að ræða, heldur er gert ráð fyrir því samkv. lánsfjáráætlun að lántökur erlendis aukist um yfir 100% frá því sem ætlunin var samkv. síðustu lánsfjáráætlun. Og það er slík erlend lánsfjáraukning sem kyndir verðbólgubálið, þannig að í raun er þetta frv. til laga um verðlagsaðhald, lækkun vörugjalds og bindiskyldu innlánsstofnana ekki framlag í baráttunni gegn verðbólgu. Þvert á móti er þetta frv. fremur til þess fallið, ef að lögum verður, að kynda verðbólgubálið í framtíðinni. Og umfram allt er það til þess fallið að kreppa að atvinnuvegum landsmanna, einstaklingum og heimilum og þeirri verðmætasköpun sem hlýtur umfram allt að verða grundvöllur bættra lífskjara og tæki í baráttunni gegn verðbólgu. Þess vegna vakna auðvitað ýmsar spurningar varðandi þau atriði sem eru ekki heldur í þessu frv. Það hafa að vísu gengið yfirlýsingar ráðh. um ýmsar fyrirætlanir sem ástæða er til að spyrja þá um.

Það er þá fyrst það, að ég vil ítreka spurninguna hver séu þau ársfjórðungsleg meginmarkmið sem miða skal ákvarðanir í verðlagsmálum við? Og ég ítreka að ég tel það að fá svar við þeirri fsp. forsendu þess, að þetta frv. nái fram að ganga í raun. Þá er rétt að spyrja þessu næst: Hverjar eru þær verðhækkunarbeiðnir sem fyrir liggja hjá ríkisstj.? Í þriðja lagi: Hvaða hækkanir ætlar ríkisstj. að leyfa um eða eftir mánaðamót apríl — maí á opinberri þjónustu og á öðrum vörum og þjónustu? Við höfum heyrt að verðhækkunarbeiðnir liggi fyrir, t. d. yfir 30% verðhækkunarbeiðni Sementsverksmiðjunnar, 85% hækkun Áburðarverksmiðjunnar, um 30–40% hækkun Pósts og síma, um 30–40% hækkun Hitaveitu Reykjavíkur og annarra opinberra hitaveitna. Raunar hefur það komið fram á sameiginlegum fundum þm. Reykjavíkur og borgarfulltrúa, að helsta áhyggjuefni borgarfulltrúa í Reykjavík, hvort heldur þeir eru í meiri hluta eða minni hluta, er fjárhagsafkoma borgarfyrirtækjanna, en auk Hitaveitunnar er um að ræða Rafmagnsveitu Reykjavíkur, Hafnarsjóð og Strætisvagna Reykjavíkur, og þessar hækkunarbeiðnir hlaupa á 30–50%. Fleiri slíkar opinberar stofnanir má nefna. Afleiðing þess að horfast ekki í augu við raunverulega tekjuþörf þessara stofnana er annað tveggja, að úr þjónustu þeirra dregur eða þær verða að leita eftir auknum erlendum lánum. Í báðum tilvikum er afleiðingin sú, að verðhækkun þjónustu þeirra verður enn meiri þegar undan verður að láta og að skorti er komið eða afborgunum af erlendum lánum.

Þá er ástæða til að spyrja hæstv. ráðh., auk þess sem sérstaklega er spurt um hækkanir opinberra stofnana, hvernig ætlunin sé að fara með hækkunarbeiðnir Flugleiða vegna innanlandsflugs, steypustöðvanna, skipafélaganna. Það getur vel verið að forsvarsmenn ríkisstj. komi hér á eftir og finni að þessum spurningum, að talsmaður stjórnarandstöðunnar sé að espa upp hækkunarbeiðnir og gleðjast yfir slíkum hækkunarbeiðnum. Það er eins og ég hafi lesið eitthvað því um líkt í stjórnarblöðunum. En sannleikurinn er sá, að það er skylda stjórnarandstöðunnar — og raunar skylda stjórnarsinna — að gera sér grein fyrir raunverulegum hækkunartilefnum sem eru orðin að veruleika og ekki verður fram hjá gengið. Annað er að þora ekki að horfast í augu við vandamálin, en án þess verða þau ekki heldur leyst.

Ég vil sérstaklega í tilefni af hækkunarþörf Áburðarverksmiðjunnar og þeim hækkunum á aðföngum í landbúnaði, sem sú hækkunarþörf ber vitni um, spyrja hæstv. ráðh. hvernig ætlunin er að fara með verðhækkunarþörf í sambandi við landbúnaðarvörur. Ég hef það fyrir satt að landbúnaðarvörur muni hækka í útsölu um 20% 1. júní n. k. Hæstv. samgrh. hefur látið hafa það eftir sér, að ætlunin væri að auka niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum sem svarar 1/2% í framfærsluvísitölu, en það er alls ekki nægilegt til að vega upp á móti þessari hækkun. Því er meiningin bersýnilega að auka niðurgreiðslurnar um þessi mánaðamót, sem leiddi af sér smávægilega verðlækkun landbúnaðarvara, en láta svo um eða yfir 20% verðhækkun landbúnaðarvara flæða yfir landsmenn þegar þeir fá ekki nema 8% verðbætur á laun.

Þá er ástæða til að spyrja að gefnu tilefni, þar sem sagt er að halda skuli genginu föstu í einn mánuð, hver ætlunin sé þegar verðbætur á laun hækka, þó ekki sé um nema 8%, með tilsvarandi hækkun fiskverðs og þegar áorðnum öðrum kostnaðarhækkunum í fiskvinnslu, hver sé þá ætlunin varðandi stefnuna í gengismálum. Ég hef það fyrir satt, að það sé útilokað annað en að gengislækkun verði á millibilinu 6–10% þegar upp úr öðrum mánaðamótum eða 1. júní og þá mun verðbólguhjólið áfram snúast og það mun fá aukið eldsneyti með afgreiðslu þeirra verðhækkana sem safnast hafa upp á því falska verðstöðvunartímabili undanfarinna fjögurra mánaða, í kjölfar brbl. á gamlárskvöld, sem auðvitað voru ekkert annað en sýndarmennska og sjónarspil, eins og raunar það frv. sem við hér ræðum. En það frv., sem við hér ræðum, er ekki eingöngu sjónarspil og sýndarmennska, heldur og stórskaðlegt og til þess fallið að vinna gegn því, að við náum þeim markmiðum sem við segjumst allir vilja, þ. e. að vinna bug á verðbólgunni.

Ég held að áratugareynsla ætti að vera nægilega löng og sár til þess að við gerðum okkur grein fyrir því, að leiðin til lækkunar verðlags er ekki verðstöðvun, leiðin til lækkunar verðlags er aukin samkeppni og frjáls verðmyndun. Það tók okkur sjálfstæðismenn að vísu fjögur ár, á árunum 1974–1978, að fá þáv. samstarfsflokk okkar, Framsfl., til að samþykkja lög um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti þar sem í 8. gr. var gert ráð fyrir að frjáls verðmyndun væri þar sem samkeppni væri fyrir hendi. Og ég hygg að bæði slæm reynsla okkar Íslendinga af verðstöðvun og verðlagshöftum og góð reynsla annarra þjóða af frjálsri verðmyndun og samkeppni sé slík, að eindregið bendi til þess, að við eigum að leiða í lög aftur þau ákvæði sem samþykkt voru hér á þingi vorið 1978. Fyrr verður ekki unnt að ráða niðurlögum verðbólgunnar. Fyrr verður ekki heldur unnt að auka verðmætasköpunina í þjóðfélaginu, brjóta nýjar leiðir atvinnuveganna til betra og farsælla lífs hér á landi.