30.04.1981
Neðri deild: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3864 í B-deild Alþingistíðinda. (3919)

306. mál, verðlagsaðhald

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það frv. til l. um verðlagsaðhald, lækkun vörugjalds og bindiskyldu innlánsstofnana, sem hér er til umr., gefur ekki tilefni út af fyrir sig til langrar eða ítarlegrar umfjöllunar. Kjarni málsins er auðvitað sá, að þetta frv. fjallar um almennar heimildir til handa ríkisstj. til að hafa aðhald í verðlagsmálum og lítið eða ekkert umfram þetta. M. ö. o.: Þetta eru almennar yfirlýsingar og það er með engum hætti neglt niður hvað það er nákvæmlega sem ríkisstj. ætlar sér að gera. Það er enn allt í óvissu um hversu miklar verðhækkanir muni dynja yfir á næstu dögum. Við vitum að þær verða verulegar, en umfram það er ekki vitað nákvæmlega og er með engum hætti ljóst af því frv. sem hér er til umr. Kjarni málsins er auðvitað einnig sá, að sem viðnámsaðgerð gegn verðbólgu er þetta frv. býsna léttvægt og það sem máli skiptir er hvernig ríkisstj. muni á næstu dögum og vikum vinna úr þessu frv, og með hvaða hætti hún muni standa að öðrum ráðstöfunum. Það, sem veldur hins vegar áhyggjum, er út af fyrir sig ekki þetta frv., heldur hitt, sem ekki er í því, og með hverjum hætti framhaldið verður.

Ég hjó eftir einu atriði sérstaklega hjá hæstv. forsrh. þegar hann var að svara spurningum við 1. umr. um þetta frv. Hann sagði réttilega að það væru tiltekin batamerki í efnahagslífinu, og einkum og sér í lagi tiltók hann góða stöðu hjá bönkum og sparisjóðum — þá staðreynd að fé hefur komið í vaxandi mæli inn í þessar stofnanir og það eru fyrir vikið auknir möguleikar til útlána. Það er auðvitað rétt. Þetta eru batamerki. Þessi batamerki eru af hinu góða. En menn verða líka að skilja samhengið í þessum efnum.

Kjarni málsins er auðvitað sú vaxta- og verðtryggingarstefna sem hér var tekin upp fyrir tveimur árum í svokölluðum Ólafslögum. Þrátt fyrir þá staðreynd, — að hik og fálmandi hafi verið mjög verulegur á framkvæmd þessarar stefnu hefur hún verið framkvæmd að verulegu leyti og nú síðast með svokölluðum sex mánaða reikningum í bönkum og sparisjóðum. Þetta er farið að skila verulegum árangri. Því skiptir þetta máli hér, að í framsöguræðu fyrir þessu frv. til laga, sem á að fjalla um almennar efnahagsráðstafanir, kallar hæstv. forsrh. þetta réttilega helstu batamerkin í íslenskum efnahagsmálum á undanförnum mánuðum. Þess vegna veldur það verulegum áhyggjum að á sama tíma og hæstv. forsrh. er að tala um þær aðgerðir, sem í kjölfar þessa frv. muni fylgja, talar hann af nokkurri fyrirlitningu um það, sem hann kallar hávaxtastefnu, og boðar lækkun vaxta 1. júní. Þetta er auðvitað algert kjarnaatriði. Ef hæstv. forsrh. á við að það sé svigrúm til lækkunar nafnvaxta, þó þannig að vextir verði áfram raunhæfir, er það sjálfsagt mál og kjarni í þeirri stefnu sem á að fylgja í slíkum efnum. Ef hins vegar er verið að boða að það sé liður og framhaldsaðgerð af þessu frv. og öðrum efnahagsráðstöfunum að hverfa til baka til þess vaxtakerfis sem hér ríkti áður, þá er beinlínis verið að stefna að því að eyðileggja þó þann árangur sem náðst hefur. Ég vil nota tækifærið í umr. um þetta frv. til l. til að vekja athygli á þessum staðreyndum og vara mjög eindregið við því, ef það er réttur skilningur á máli hæstv. forsrh. fyrr í þessari umr., því að það er auðvitað stórháskalegt að hverfa til baka í þessum efnum.

Það er út af fyrir sig allkostulegt, að helsta rósin í hnappagati núv. hæstv. ríkisstj., það sem hæstv. forsrh. hrósar henni fyrir og gerir réttilega, skuli vera stefna sem á sínum tíma var knúin fram af öðrum þeirra stjórnmálaflokka sem nú eru í stjórnarandstöðu. Þetta er engu að síður staðreynd. En kjarni málsins er sá, að allur þorri almennings hefur snúist til fylgis við þessa stefnu í vaxta- og verðtryggingarmálum. Að henni hefur orðið mjög verulegur efnahagslegur ávinningur, eins og hæstv. forsrh. gat réttilega um, en einnig, og því má ekki gleyma, mjög verulegur siðferðilegur ávinningur. Vissulega er enn mjög mikil brotalöm í þessum efnum. Framkvæmdin hefur verið fálmkennd, ruglingsleg og hikandi. Sem dæmi um hvar þetta hefur ekki verið framkvæmt má nefna stofnun eins og Framkvæmdastofnun ríkisins sem enn er að lána peninga langt undir raunvöxtum. Þessu fylgir auðvitað alls konar misnotkun og spillingarhætta.

Þetta eru batamerki og því lýsti hæstv. forsrh. réttilega í framsöguræðu fyrir þessu frv. Staðreynd er engu að síður sú, að það er ástæða til að hafa áhyggjur af því, hver framvinda mála verður í þessum efnum. Alþjóð tók eftir því í sjónvarpsþætti fyrir nokkrum vikum að hæstv. sjútvrh., Steingrímur Hermannsson, sagði í þeim þætti um vaxta- og verðtryggingarstefnuna að hann dauðsæi eftir því að hafa látið Alþfl. glepja sig til að fylgja slíkri stefnu. Þetta eru skrýtnar yfirlýsingar og enn skrýtnari

þegar þess er gætt, að það jákvæðasta, sem hæstv. forsrh. hefur fram að færa um efnahagsstefnu eigin ríkisstjórnar, er þó einmitt árangurinn af þessari stefnu. Þó svo að hún hafi verið hikandi og fálmkennd í framkvæmd hefur mjög jákvæður árangur komið í ljós.

Það mun auðvitað reyna á það í þeim mánuði sem byrjar á morgun, hvert verður framhaldið í þessum efnum. Hæstv. forsrh. hefur því miður gefið tilefni til að ætla að eitthvert fráhvarf verði, einhver spor til baka verði stigin í þessum efnum. Það væri stórskaðlegt og af hinu illa og ég vil enn og aftur undirstrika og vekja athygli á því, að það er fullt samhengi á milli þeirrar jákvæðu stöðu í innlánsstofnunum annars vegar, sem hæstv. forsrh. hér hefur lýst og hrósar stjórn sinni fyrir, og þeirrar stefnu sem þó hefur verið fylgt í vaxta- og verðtryggingarmálum hins vegar.

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., gefur efnislega ekki tilefni til mikilla athugasemda. 1. gr. fjallar um almennar heimildir til handa ríkisstj. til að framfylgja einhverju aðhaldi í efnahagsmálum. Það er allt á lausu, óljóst og sennilega ekki ákveðið, hvernig með það skuli farið. Auðvitað er þetta frv. yfirlýsing um að hæstv. núv. ríkisstj. er stefnulítil eða stefnulaus og er að missa þó þau tök sem almenningur í landinu hélt að hún hefði á sínu fyrsta starfsári. Það er því miður kjarni þessa máls, og þennan léttvæga pappír er út af fyrir sig ekki ástæða til að fjalla um í löngu máli.

Eins og fram kemur í nál. hv. þm. Sighvats Björgvinssonar hefur Alþfl. ákveðið að tefja ekki fyrir því, að þetta frv. geti orðið að lögum. Þetta frv. mun út af fyrir sig ekki skipta neinum sköpum. Það er úrvinnslan á næstu vikum sem skiptir meginmáli. Þá skiptir ekki minnstu máli hvernig með vaxta- og verðtryggingarmál verði farið. Hæstv. forsrh. gaf því miður tilefni til þess að álykta sem svo, að í þeim efnum ætli hæstv. ríkisstj. að stíga skref til baka. Það yrðu mikil ógæfuskref ef stigin yrðu.