30.04.1981
Efri deild: 89. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3909 í B-deild Alþingistíðinda. (3954)

306. mál, verðlagsaðhald

Frsm. 1. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég átti ekki von á því andríki, sem hér hefur ríkt um hina aðskiljanlegustu hluti í kvöld, þegar þessi umr. hófst. Ég treysti mér alls ekki út í umr. um matargerð eða kökugerð. Ég átti ekki heldur von á því, að þessar umr. mundu snúast að einhverju leyti um vegagerð, og hefur nú farið fram veruleg umræða um það undir fyrirsögninni: „Orðskýringar“. Ég átti reyndar ekki heldur von á því, að hér færi fram umræða í orðskýringum. En það er með þessar götur, sem hafa verið til umræðu hér og eru í sérstöku uppáhaldi hjá 11. þm. Reykv., að þær voru víst lagðar fyrir löngu og eru nú aflagðar. Þær voru lagðar fyrir hestvagna. Þær reyndust ekki eins vel þegar umferð fór að aukast og víðast hvar vestan járntjalds hefur nú verið malbikað yfir þær. Ég veit því ekki hvort þetta er líka lýsing á þeirri braut sem ríkisstj. gengur, að það verði valtað yfir hana seinna. En ég ætla ekki að gera þetta að umræðuefni né heldur treysti ég mér til að takast á hendur einkunnagjöf og meta hversu skemmtilegir menn séu, eins og hér var gerð tilraun til áðan.

Það var athyglisvert að forsrh. brá á það lag að tala langt mál um hið einfalda og augljósa, eins og honum er lagið, á flótta frá því sem verið var að ræða. Ég held að það sé óhætt að segja að 1. gr. frv. sem slík veki spurningar. Hún er ekki afleit að öllu leyti, en það, sem virðist vera slæmt einkum og sér í lagi í sambandi við þá grein, er hvernig ríkisstj. túlkar framkvæmd hennar. Nú hafa alþm. og reyndar þjóðin öll slæma reynslu af því, hvernig ríkisstj. heldur á framkvæmd mála, og því var ekki nema von að um væri spurt hvernig framkvæmdinni yrði hagað. Hér hafa staðið upp ýmsir talsmenn ríkisstj. og svarað hver fyrir sig, sitt í hverja áttina. Það eina, sem forsrh. hefur sagt varðandi framkvæmdina, er að heildarupphæðin megi ekki fara fram úr þeim mörkum sem sett eru. Þetta hafði hæstv. forsrh. sagt á nefndarfundi, sagt í Nd. og hefur talað um hér líka. Engu að síður var þetta ekki nægilega skýrt svar varðandi framkvæmd málsins og hv. fulltrúar Sjálfstfl., aðrir en þeir sem sitja í ríkisstj., aðrir en hæstv. forsrh. í fjh.- og viðskn. Ed., beindu þessari fsp. til sérstaks hagfræðiráðunautar ríkisstj., Þórðar Friðjónssonar. Hann svaraði þessu svona, og ég held að það sé rétt að við förum yfir þetta svar aftur:

„Rétt svar við þessari spurningu er að mínu mati þannig, að hver verðákvörðunaraðili lögum og reglum samkvæmt (verðlagsráð, gjaldskrárnefnd o. s. frv.) gerir samþykktir og tillögur sem í heild eru ekki umfram hin ársfjórðungslegu meginmarkmið.“

Hér halda menn sig enn við þessa skilgreiningu, en svo kemur framhaldið, og nú held ég að það sé eins gott að menn leggi við hlustirnar svo að menn séu öruggir með það að skilja hvert verið er að fara. Þar segir:

„Á þann hátt verði gert ráð fyrir að ákvörðun viðkomandi verðlagsyfirvalda, óháð öðrum verðákvörðunaraðilum, hvort sem einstakar tillögur fari umfram sett verðlagsmarkmið eða ekki, verði í samræmi við mörkin.“ Þetta er nú nokkuð löng setning og líklega þýsk að uppbyggingu: „Á þann hátt verði gert ráð fyrir að ákvörðun viðkomandi verðlagsyfirvalda, óháð öðrum verðákvörðunaraðilum, hvort sem einstakar tillögur fari umfram sett verðlagsmarkmið eða ekki, verði í samræmi við mörkin.“ — það er enn frekari skýring: „Viðkomandi verðlagsyfirvöld miði því við að samþykktir eða tillögur verði í heild í samræmi við meginmarkmið ríkisstj." — Þetta könnumst við við — „í verðlagsmálum án tillits til þess hvaða ákvarðanir verða síðan teknar af öðrum aðilum í þeim málum.“

Ég held að efnisinnihaldið í þessari skýringu sérstaks hagfræðiráðunautar ríkisstj. sé á þá lund, að í hvert skipti sem einhver verðlagsaðili tekur ákvörðun um verðlagshækkun skuli hann gera það óháð því sem aðrir hafa tekið eða munu taka ákvörðun um. Hann skal líka gera það óháð þeim ákvörðunum sem hann muni síðar taka. Honum er hins vegar líklegast frjálst, vegna þess að það er ekki bannað samkv. þessari skilgreiningu, að taka tillit til þeirra ákvarðana sem hann sjálfur hefur áður tekið. Það er ekki tekið fram að það sé bannað. Heildarútkoman úr þessu dæmi á að verða ákveðin tala og heildarútkoman skal verða innan við þessi mörk. Ég held að það sé ekki hægt að fá þá útkomu ef einstök ákvörðun er óháð því, sem þessi stofnun muni gera síðar, og óháð því, sem aðrar stofnanir muni gera. Ef menn eiga að taka þessar ákvarðanir algerlega óháð því, sem aðrir taka ákvarðanir, og óháð því, sem þeir muni sjálfir gera síðar, mun heildarútkoman ekki haldast sérstaklega innan þeirra marka sem að er stefnt.

Nú er það reyndar til þess að gera þessa ákvörðun þessara aðila enn þá erfiðari að það er margyfirlýst að auðvitað verði hækkanirnar mismunandi, — það er eitt af því augljósa sem hæstv. forsrh. hefur mörgum sinnum sagt hv. alþm. í dag og síðustu daga, — en þá verði að vega hverja ákvörðun, sem fer fram yfir, með annarri, sem verði undir. Nú vill svo til að verðlagsákvarðanir hafa mismikið vægi í framfærsluvísitölu. Þá verður sá, sem ákvörðunina tekur, að hafa það í huga. Ég er hræddur um að sá aðili, sem tekur allar ákvarðanir óháð því sem aðrir aðilar gera eða hvað hann muni gera seinna, tekur þær ofan við markmiðið eða neðan við, þar sem ákvarðanirnar vega misþungt í vísitölunni, muni eiga harla erfitt með að láta þetta dæmi ganga upp — og er þá vægt til orða tekið. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að verðlagsráð tekur að líkindum ákvarðanir um u. þ. b. 100 verðhækkanir á hverju verðlagstímabili. Hér var lesinn upp listi yfir óskir sem ríkisstj. átti að ákveða og gjaldskrárnefnd að gera tillögur um. Á þeim lista voru, trúi ég, milli 10 og 20 ákvarðanir. Þó hefur væntanlega eitthvað verið leyft á því tímabili sem liðið er. Mér kæmi ekki á óvart þó að hér þyrfti að taka 150 ákvarðanir sem væru óháðar því sem menn muni gera síðar samkv. formúlunni — óháðar því sem aðrir gera, en eiga að vera þeirrar sérkennilegu náttúru, að þó að þær séu alla vega vegna mismunandi þarfar sé heildarútkoman sú sem um hafi verið beðið í upphafi þegar menn standa upp frá öllum þessum óháðu ákvörðunum. Það skyldi þó ekki vera að menn gætu lent í örlitlum bobba í þessum efnum þegar þeir væru búnir að taka svo sem 70–80 ákvarðanir, þá þyrftu þeir aðeins að fara að líta fram á veginn ef þeir ættu ekki að gera mönnum mishátt undir höfði, ef þeir ættu að meta nauðsynina með sama hætti hjá öllum þeim sem um biðja.

Hættan, sem menn hafa verið að tala um varðandi þá framkvæmd sem ríkisstj. hér talar um, vegna þess að hún bindur sig mjög ákveðið við að útkoman skuli vera hin gefna, er sú, að mönnum verði gert mishátt undir höfði, að níðst verði á einhverjum, ekki vegna þess að menn hafi beinlínis langað til þess, heldur vegna þess að þetta reikningsdæmi sé dálítið flókið og ríkisstj. hafi yfirsést að þessar ákvarðanir er ekki hægt að taka óháðar hverja annarri, eins og forskrift hennar gefur tilefni til og segir fyrir um. Hættan af þessu tagi mundi þá enn fremur vera sú, að það hæfist kapphlaup um að komast inn í kvótann. Hættan mundi vera sú, að þegar þeir, sem sækja um hækkanir, verði þess varir, að svona sé hugmyndin að taka þessar ákvarðanir, og sjái í hendi sér, að þessir blessaðir aðilar muni lenda í blindgötu, muni þeir keppa hver um annan þveran að sækja um hækkanir og hér hefjist eitt allsherjarkapphlaup í ásókn í verðhækkanir. Nú er eftir að vita, úr því að hér er um fleiri en einn aðila að ræða, hvort það gæti líka hafist kapphlaup á milli aðilanna um hvort verðlagsyfirvöld af taginu A eða B nái að nota stærri eða minni hluta af kvótanum sem úthlutað er. Ef menn halda sig við þetta mundi vera komið tvöfalt kapphlaup í þetta óháða kerfi ríkisstj. Um þetta stendur ekkert í lagatextanum. Þetta er sú túlkun sem ríkisstj. hefur borið á borð fyrir alþm. Ég held ég hljóti fyrir hönd þeirra manna, sem hafa áhyggjur af þessu, og fyrir hönd þeirra, sem vilja gjarnan að útkoman verði ekki verri en efni standa til, að bera fram þá ósk að ríkisstj. endurskoði þessar verklagsreglur sínar.

Ég tók eftir því áðan að hæstv. forsrh. tók dæmi af því, að þessi markmið yrðu sett svipuð og vísitalan hefði verið eða hefði reiknast. Í svari ráðunautar ríkisstj. er einmitt tekið fram að svo megi ekki vera. Í svari við síðari spurningunni, sem fram er borin, er tekið fram að markmiðasetningin tengist ekki beint neinni ákveðinni vísitölu fyrir liðinn tíma. Þetta stangast náttúrlega sérstaklega á við það dæmi sem forsrh. var með, en við skulum ekki gera mikið mál úr því.

Ég verð svo að lokum að fara fáeinum orðum um orð sem hæstv. forsrh. o. fl. láta falla í sambandi við vaxtamál og peningamál.

Hæstv. forsrh. hefur talið það meðal sérstakra afreka ríkisstj. að innlán skuli aukast. Allir vita að þetta er afleiðing af þeirri raunvaxta- og verðtryggingarstefnu sem Alþfl. barðist fyrir. En í hinu orðinu talar hæstv. forsrh. og ekki síður ýmsir aðrir stjórnarliðar háðulega um þessa stefnu. En það er ekki bara það. Að hinu leytinu hefur hæstv. ríkisstj. beðið um og fengið samþykkt lög um að hún skuli fylgja þessari raunvaxta- og verðtryggingarstefnu sem hún sjálf fordæmir. Þetta finnst mér ekki sannfærandi málflutningur. Þetta finnst mér að sé málflutningur af því tagi sem eigi ekki að eiga sér stað.

Ég vil líka benda þeim blessuðu mönnum á það, sem mæla gegn raunvaxta- og verðtryggingarstefnu, að þeir eru beinlínis að boða að stolið skuli af sparifjáreigendum og að menn skuli ekki greiða til baka á raunvirði, á raunsannan hátt, það sem þeir fá að láni. Þeir, sem tala gegn raunvaxta- og verðtryggingarstefnu, m. ö. o. eru að boða óheiðarleik í raun og sannleika.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Að lokum segi ég einungis það, að ég vona að ríkisstj. beri gæfu til að skoða að nýju hvernig hún ætli að framkvæma 1. gr. laganna, og ég vona að þjóðin eigi eftir að sjá betra framlag til stjórnar efnahagsmála en það lítilsiglda frv. sem hér er til umfjöllunar.